Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Hvalveiðar

MobyDickÉg hef verið að velta fyrir mér rökunum fyrir því að farið var að veiða hvali aftur.

Ég man að helsta ástæðan var að hann væri að éta okkur út á gaddinn, þorskurinn væri að hverfa og loðnan líka.

Ég rakst á þessi rök fyrir því að hefja hvalveiðar, við þekkjum þau öll:

"Það sem að við verðum að hafa í huga er það að hvalir éta óheyrilegt magn af fiski. Talið er að hvalir éti um 1,5 milljónir tonna af fiski og um 2,5 milljónir tonna af krabbadýrum og smokkfisk á ári hverju. Hrefnan er talinn skæðust í þoskstofninum, hnúfubakur í síld og loðnu, hver veit nema þorskurinn sem Hafró týndi á dögunum hafi að hluta til endað á sama stað og Jónas forðum – í hvalnum. Það er okkur því nauðsyn að geta stýrt stærð hvalastofna við landið til að jafnvægi haldist í fæðukeðjunni. Óhófleg fjölgun hvala gæti nefnilega í leitt af sér mikinn samdrátt í fiskveiðum hér við land."

Í ljósi frétta þess efnis að í sjónum sé svo mikill þorskur að til vandræða horfir, þá hlítur maður að spyrja sig þeirrar spurningar hvort þær sjö langreiður sem Hvalur 9 kom með að landi hafi hér skipt sköpum fyrir þorskstofninn? Það er nú reyndar hrefnan sem talin er vera skæðust í þorskáti.Hér í Eyjum eru menn ánægðir með loðnuvertíðina, og það þrátt fyrir að stofnstærð hnúfubaks hafi ekki hrunið, vegna veiða eða útrýmingar.Þess vegna spyr ég var það réttmæt ákvörðun hjá íslenskum stjórnvöldum að hefja hvalveiðar? Já, kannski, nei.

Sá sem á tvo kyrtla, gefi þeim, er engan á!

1.skóflustunganFyrirsögnin er sótt í orð Jóhannesar skírara og gefur okkur tilefni til þess að velta því fyrir okkur hvað það er sem mestu máli skiptir í lífi okkar.

Oft virðist mér sem einkunnarorð íslendinga megi finna í ljóði Ísaks Harðarsonar "Tilgangur lífsins":

Og ég - fíflið

barnið með bláu augun

sem hef leitað að sjálfum mér,

tilgangi lífsins, í heilan áratug

(sem þætti ekki langur tími

á sumum bæjum)

 

í trúarbrögðunum

skáldskapnum

dulspekinni

tilfinningunum

 

skynja loks, hve blindur ég hef verið

allan tímann

 

Því hann hefur alltaf blasað við

- Tilgangur lífsins -

Því hann hefur alltaf

verið þráðbeint framan við nös mína

hér og nú

Tilgangur lífsins!

Ekki þar, þá, eða annars staðar

heldur hér, nú, í hversdagsleikanum:

 

Hinn ynislegi, guðdómlegi

Tilgangur lífsins:

 

AUKINN HAGVÖXTUR!

 

Aukinn hagvöxtur kann að vera góður, svo langt sem hann nær - en hann nær alls ekki langt, þegar um raunveruleg lífsgæði er að ræða.  Hugmyndin um að gefa þeim kirtil sem engan á, eða að heimta ekki meira en fyrir okkur er lagt, samræmast ekki hugmyndum um aukinn hagvöxt. 

Aukinn hagvöxtur krefst þess að við séum sístritandi fyrir auknum lífsgæðum - sífellt að fórna dýrmætum tíma í aukna yfirvinnu á kostnað þeirra sem okkur þykir vænt um og standa okkur næst.  Á kostnað þeirra sem ekki eiga kyrtil.  Okkur ber auðvitað miklu frekar að bera góða ávexti, en ekki eintóma hagvexti.

Síðan má auðvitað velta því fyrir sér hvað hagvöxtur þýðir. Veit það nokkur maður fyrir víst. Eru barnsfæðingar ekki dæmi um aukinn hagvöxt, léleg ending bíla og heimilistækja þýða aukinn hagvöxt, því endingarleysi kallar á endurnýjun allra hluta.  Aukinn hagvöxtur er líklega ekkert sérstakur vinur umhverfisins. - Eða hvað?

 


Hugsað til baka

Sat hér í þönkum mínum í hádeginu og var að velta því fyrir mér hvað gamlir skólafélagr frá Stórutjörnum eru að gera í dag. Ég hef aðeins verið að velta þessu fyrir mér síðan við Gíslína fórum norður á jarðarför sr. Péturs í Laufási, því í erfidrykkjunni hitti ég mörg minna gömlu skólasystkyna.

Það er óhætt að segja að gamlir vinir og félagar hafa farið í ólíkar áttir.  Nokkrir eru bændur, þó alls ekki margir miðað við það að þegar við vorum "sperlar"* þá ætluðum við allir að verða bændur. Í þessum hópi eru vélstjórar, sálfræðingur, smiðir, tamningamaður, verkfræðingur, garðyrkjufræðingur, tölvuséní, framkvæmdastóri og fleira.

Það merkilega við þessa upprifjun er hvað það eru sorglega margir af gömlum bekkjar-og skólafélögum sem ég hef enga hugmynd um hvað eru að gera í dag, og hef jafnvel ekki hugmynd um hvar eru staðsett í heiminum. Ég veit þó að allnokkrir ala manninn í danaveldi og ein í Bandaríkjunum.

Það er merkilegt að hugsa til þess að þetta er fólk sem maður var í miklu samneyti við í mörg ár, jafnvel allan sólarhringinn, því ég var í heimavist frá 9 ára aldri og til loka grunnskólagöngu, skuli svona algjörlega hverfa - gufa upp úr lífi manns. Einhvernveginn hélt maður að það myndi aldrei fenna yfir sporin, en svo vaknar maður upp við að maður veit ekkert um margt af þessu fólki.

*sperlar = Á Stórutjörnum var alltaf talað um litlu krakkana í skólanum sem sperla.


Bókabíus

mía lestrarhesturÉg var að ljúka við þrjár bækur eftir Gyrði Elíasson. Þetta eru bækurnar Bréfbátarigningin, Gula Húsið og Vatnsfólkið. Það er svo sannarlega óhætt að mæla með bókum Gyrðis við hvern sem er. Þessar þrjár bækur innihalda allar mjög einlægar smásögur, með undarlegri blöndu af endalausum einmannaleika og fegurð.

Annar höfundur sem aldrei er langt utan seilingar hjá mér er Ísak Harðarson. Þar er svo sannarlega snilldarljóðskáld á ferðinni. Ljóð hans tala alltaf til manns (auðvitað ekki alltaf þau sömu) og þar finnur maður vel fyrir öllum tilfinningaskalanum, þó athyglisverð blanda af depurð og trúarvissu einkenni oft ljóðagerð hans, og aldrei sé langt í magnaða kaldhæðni hjá honum. Ísak er ljóðskáld sem óhætt er að vísa fólki á, vanti þeim góða ljóðabók að glugga í.

Loks var ég að klára 4. umferð á Kristnihaldi undir jökli e. H.K.L. Þetta er ein af þeim bókum sem maður fær aldrei leið á og maður finnur alltaf eitthvað nýtt í. Þetta er í fyrsta skipti sem ég les hana eftir að ég fór í prestsskapinn og það er óhætt að segja að nú hafi komið enn einn vinkilinn á bókin.

Ég er að velta því fyrir mér að reyna að nota söguna "Eftir spennufallið", eftir Þórarinn Eldjárn í fermingarfræðslunni á næsta vetri. Þar er tilvísunin í paradísarfrásögn biblíunnar svo góð að það væri synd að sleppa þessari sögu. Þórarinn er reyndar enn eitt skáldið sem er í miklu uppáhaldi á heimilinu, og þá sérstaklega hjá mér og Míu, eldri dótturinni sem verður fimm ára í sumar. Hún veltist um af hlátri yfir mörgum barnaljóða hans, sem fullorðnir hafa reyndar allt eins gaman af að lesa.

Síðan má auðvitað geta þess að bók bókanna er auðvitað aldrei langt undan, þ.e. biblían. Þeir sem ekkert hafa gluggað í hana verða nánast ólæsir á aðrar bókmenntir. Þá er sama hvort heldur verið er að deila á eða lofa biblíuna, kristindóminn eða trúna.


Sannleikurinn í Baugsmálinu!!!

Það er þó nokkuð síðan ég áttaði mig á því að Baugsmálið snýst að meira eða minna leyti um það sama og fótbolti. Þetta er allt saman spurning um það með hverjum maður heldur í þessum æsispennandi leik, sem fer þó auðvitað ekki fram á fótbloltavelli, heldur í réttarsölum ovinnie og gazzag fjölmiðlum.

Jón Gerald Sullenberger er stálheiðarlegur og myndi aldrei segja ósatt!!

Jón Steinar er stálheiðarlegur og myndi aldrei segja ósatt!!

Davíð Oddsson er stálheiðarlegur og myndi aldrei segja ósatt!!

Jón Ásgeir er stálheiðarlegur og myndi aldrei segja ósatt!!

Jónína Benediktsdóttir er stálheiðarleg og myndi aldrei segja ósatt!!

Jóhannes Jónsson er stálheiðarlegur og myndi aldrei segja ósatt!!

Hreinn Loftsson er stálheiðarlegur og myndi aldrei segja ósatt!!

Styrmir Gunnarsson er stálheiðarlegur og myndi aldrei segja ósatt!!

Jón H. B. Snorrason er stálheiðarlegur og myndi aldrei segja ósatt!!

Allt það fólk sem kemur nærri Baugsmálinu á einn eða annan hátt er stálheiðarlegt og myndi aldrei segja ósatt!!!

Ef við göngum útfrá því að allir þessir aðilar séu að segja satt, þá er sannleikurinn svo sannarlega ekki algildur. Nákvæmlega eins og í fótboltanum.  Í mínum huga er ekkert lið í enska boltanum jafn merkilegt og Q.P.R. (ég treysti mér nú varla til að halda því fram að það sé besta liðið) aðrir myndu segja að minna merkileg lið eins og t.d. Liverpool eða Man. utd eða jafnvel Chelsea eða Arsenal væru mun merkilegri og betri lið (og ég þekki meira að segja einn sem myndi segja að Tottenham væri ekki síðra).

Sem sagt spurningin er sú með hverjum heldur þú í Baugsmálinu?? Það er alveg sama með hverjum hver heldur, því auðvitað er sá eða sú sem ég held með stálheiðarleg(ur) og myndi aldrei segja ósatt!!

Baugsmálið snýst ekki nema að litlu leyti um að sannleikurinn nái fram að ganga, heldur miklu fremur um það hver vinnur. Hvort liðið vinnur. Það er ekki spurt að því hvort liðið lék betri fótbolta, heldur hvort liðið náði að skora fleiri mörk.


Prestur giftist kvenfélagskonu

cash&juneVið hjónaleysin höfum ætlað okkur að ganga í það heilaga í allnokkur ár, á þeim 10 árum sem við höfum rölt saman þennan æviveg, en einhvernvegin aldrei látið verða af því. En nú er sem sagt komið að því - þó ekki alveg strax!!

Stóri dagurinn verður í haust og það er þegar farið að huga að ýmsu í kringum brúðkaupið.

Ekki datt mér, ólofuðum manninum, í hug að þetta væri svona mikið tilstand. Við Gíslína (prests-kærastan og kvenfélagskona með meiru) kíktum á brúðkaupsheimasíðu og það liggur nú við að manni fallist hendur yfir öllu því sem fram undan er. Við höfum þó ákveðið að fara ekki út í nein þyrluflug og brjálæði í kringum brúðkaupið. En þrátt fyrir það er margt sem þarf að huga að því það er stór ættbogi í kringum okkur bæði sem við erum í miklum tengslum við. Ef til vill erum við ekki að gera okkur þetta auðveldara fyrir með því að gifta okkur hér í Eyjum, því allt okkar fólk býr uppá fasta landinu, og margir fyrir norðan. En gifting er líklega jafn góð ástæða og hver önnur til þess að safna öllu þessi fólki saman á Heimaey.

Það er ýmislegt skondið sem talað er um á síðunni í tengslum við brúðkaup, en það sérkennilegasta sem ég rakst á var neyðartaska brúðhjóna, sem þau eiga að hafa við hendina á brúðkaupsdeginum. Í þessari tösku á m.a. að vera: verkjatöflu, brjóstsviðatöflur, plástrabox, nefsprey, hálsbrjóstsykur, magastyllandi lyf, dömubindi, glært púður, blautþurrkur, tissjupakki, hárspennur, barnapúður, snyrtidót, hreinsikrem, fatarúlla........................Listinn heldur endalaust áfram.

Þetta er greinilega ekki neyðarTASKA, heldur neyðarKOFFORT! 

P.S. Það voru mér þó nokkur vonbrigði að hinir tveir Q.P.R. félagarnir skyldu ekki kommentera á Q.P.R. bloggið mitt. Líklega eru þeir ekki komnir með nettengingu ennþá.


Að duga eða drepast fyrir Q.P.R.

Nú fer baráttan hjá mínum mönnum í Q.P.R. heldur að harðna.  Ef þeir ætla að forðast fall þurfa þeir heldur betur að fara að spýta í lófana.

Þeir unnu góðan sigur á Leicester í fyrradag á útivelli. Ég var nú reyndar hálfsmeykur um þeir myndu renna á rassinn í eitt skelfilega skiptið enn.

Það var lánsmaðurinn, og jafnaldri minn, Idakez sem kom mínum mönnum á bragðið, en hann er nýkominn að láni frá Southampton. Þetta er greinilega lán sem er að bera árangur.

En síðan var síðan daninn knái Nygaard sem bætti við tveimur mörkum og innsiglaði góðan útisigur.

Það er óhætt að segja að mínir menn hafa mátt muna sinn fífil fegurri, það er ekki svo ýkja langt síðan þeir voru í efstu deild og stóðu sig með hreinum ágætum. Upphafi að niðulægingatímabilinu má rekja til þess þegar sir Les Ferdinand flutti sig um set til Newcastle árið 1995, þar sem hann stóð sig frábærlega, eins hans var von og vísa. Þegar Ferdinand fór þá vantaði annan markahrók, hann hafði fram að því skorað helming allra marka Q.P.R., en það kom enginn í staðinn og við tók frjálst fall niður um tvær deildir.

Það er vonandi að niðulægingartímabili Q.P.R. fari að ljúka og þeir fari að leika meðal þeirra bestu, reyndar þarf ansi margt að breytast svo af því geti orðið. T.d. þurfa þeir að fara að spila fótbolta og hætta þessu eilífa "kick and run" stíl sem einkennir þá nú um þessar mundir.


Van-trú

Það er svolítið gaman að fylgjast með þeirri umræðu sem fram fer á vef van-trúaðra. Þar finnst mér sem öfgatrú á einhverri van-trú ráði oft ríkjum. Enda eru van-trúaðir oft flokkaðir sem ákveðinn trúhópur hjá trúarbragðafræðingum víðast hvar í heiminum. Orðfæri þeirra minnir enda oft á trúarlegt orðalag þeirra sem fremur eru kenndir við öfgar í trúarskoðunum. þar eru menn og málefni fordæmd og allir flokkaðir í vini eða óvini. Og þeir sem ekki eru sammála þeirra skoðunum fá svo sannarlega að finna til tevatnsins.

Ég veit að nokkrir prestar og guðfræðingar hafa átt nokkur orðaskipti við van-trúar menn á netinu, aðallega sér til gamans, og þeir segja að það sé alveg óborganlegt hversu auðvelt sé að fá hina van-trúuðu uppá háa-cið. Þetta er nánast orðin eins og íþrótt hjá sumum sem eiga í orðaskiptum við þá og oft er ansi gaman að fylgjast með hvernig fordæmingarnar verða meiri og æsingurinn magnast hjá þeimredcross.

Í lokin þá má kannski minnast á að þegar fellibylurinn Katrín reið yfir New Orleans árið 2005, þá voru það kristin hjálpar- og sjálboðaliðasamtök sem voru fyrst á svæðið til að hjálpa þeim sem þurftu á hjálp að halda. Hvergi sáust samtök van-trúaðra, guðleysingja, eða truleysingja.


Sól í hjarta, sól í sinni, sól bara sól!

Ég held ég verði að vera sammála Guðmundi Ragnari Björnssyni, þegar hann spyr hvort Sól í Straumi séu farin að grípa í hálmstrá í þessu máli.

Ég tel þessa tilkynningu alveg fjarstæðu fyrir þessi góðu samtök, því þau hafa góðan málstað. Þessi málatilbúnaður gefur manni þær hugmyndir að málstaðurinn sé veikur.

En málstaðurinn er góður og samtökin ættu að einbeita sér að því að koma þeim góðu skilaboðum til Hafnfirðinga sem þau hafa hingað til gert. Þar sem þau hafa m.a. fjallað um stóraukna mengun af stækkun álvers og svara þeim ótrúlega hræðsuáróðri sem Alcan hefur haldið á lofti, sem samtök iðnaðarins hafa síðan tekið undir.

Haldið áfram með ykkar góða starf hjá Sól í Straumi, en fallið ekki í þá gryfju að það líti svo út að þið séuð að grípa í hálmstráin.


mbl.is Sól í Straumi: Fjárhagsleg rök fyrir samþykki stækkunar Alcan brostin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðlendumál

Ég ætla rétt að vona að ríkið hætti þessari vitleysu sem er í gangi í kringum þjóðlendumálið allt saman.

Það er með ólíkindum að þinglýstir kaupsamningar á landi sem gerðir hafa verið skuli ekki vera teknir gildir, eins og hefur gerst á mörgum stöðum.

Þetta mál er þannig að allt snýr á haus. Sönnunarbyrðin er ekki hjá ríkinu, heldur landeigendum.

Hvað ef það kæmi hér aðili sem héldi því fram að hann ætti alla gráa bíla sem eru í umferð í landinu, og í framhaldi myndi hann stefna öllum bíleigendum grárra bíla. Þá þyrfti ég væntanlega að sanna að ég ætti minn gráa bíl fyrir dómi, og leggja útí lögfræðikostnað samfara því. Ef ég hefði gefið einhverjum umboð til þess að skrifa undir kaupsamninginn á bílnum, þá þyrfti ég að grafa upp þetta umboð (sem auðvitað er löngu týnt), að öðrum kosti myndi viðkomandi hirða bílinn.

Þetta er staðan sem landeigendur eru í, það er jafnvel farið aftur í aldagamla kaupsamninga og landamerkjaskipti sem allir eru löngu hættir að taka mið af, enda margir kaupsamningar síðan þeir voru í gildi.

Það er hrein skömm að þessu þjóðlendumáli, og það er alþingi til skammar að hafa hleypt þessum í gegn með þeim hætti sem gert var. Og þær afsakanir sem þingmenn og ráðherrar hafa haft uppi, um að þessi lög séu í praxís allt örðru vísi en þeir reiknuðu með, eru lítils virði. Alþingismenn eru hópur fólks sem er í vinnu við að setja lög og reglur í samfélaginu, þannig að almenningur ætti að geta farið fram á einhverja lágmarks kunnáttu á því sviði.

Hver er hinn raunverulegi tilgangur þjóðlendulaganna?  Spyr sá sem ekki veit. 

 


mbl.is Þjóðlendudómi ekki áfrýjað til Hæstaréttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband