Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

QPR á mikilli siglingu!!!

Nú bíð ég spenntur eftir því að leikur Charlton og QPR hefjist á Sýn2 kl. 11.35. Það er nú óhætt að segja að mínir menn séu komnir á siglingu, með bráðabyrgðarstjóra í brúnni. 5 stig úr síðustu þremur leikjum, samtals 8 stig úr fyrstu 11 leikjum mótsins. Ég er nú kannski ekki að segja að mínir menn séu við það sigra heiminn....en samt betri árangur en verið hefur. Reyndar hefur staða þeirra í deildinni ekkert breyst við stigasöfnun undanfarið. En það gæti breyst ef úrslitin í dag verða hagstæð. Ég þori nú samt hvorki að leggja höfuð eða æru að veði um að við munum sigra í dag. Með sigri gæti QPR komist úr 24 og neðsta sæti í 22. sæti og þá er nú ekki langt í umspilssæti, ef öll önnur úrslit vetrarins verða mínum mönnum hagstæð =)

Af fölsuðum og ófölsuðum biblíum

biblia_120506Á föstudag fékk í hendur nýja biblíu. Mér líst nokkuð vel á þessa þýðingu og er alveg sérstaklega ánægður með að talað sé um systkin þar sem áður stóð bræður, enda verið að tala um trúsystkini en ekki bara bræður. Þessi breyting sýnir manni vel hversu mikið samfélagið hefur breyst frá ritunartíma þeirra rita sem finna má í biblíunni. Á þeim tíma þótti varla taka því að ávarpa konur, þannig að karlpeningurinn var bar ávarpaður, enda kom konum málið ekki við á annan hátt en að fylgja því sem karlinn sagði.

Semsagt, ég er ánægður með að mál beggja kynja sé komið inní biblíuna, það er þó ekki alveg algilt og hefur t.d. verið sleppt í mjög þekktum textum eins sæluboðunum. Annað er að tvítalan er að miklu leyti farin út og í staðin notað venjuleg fleirtala eins og "ykkur". Ágæt greining á þessu öllu er að finna á bloggi Davíðs Þórs síðan í febrúar. Færslan þar ber hið skemmtilega heiti Faðirokkarið. Einnig er gott blogg hjá Akureyrarklerkinum Svavari um nýja biblíuþýðingu

En einsog ævinleg sýnist sitt hverjum þegar hugtakið nýtt er annars vegar. Þannig fer Snorri í Betel mikinn á bloggi sínu og talar um Falsaða biblíu 21. aldar.  Það er gott til þess að vita að Snorri í Betel býr yfir þeim eina sanna sannleika sem máli skiptir við biblíuþýðingar.  Það sem Snorri kvartar helst yfir varðandi nýja biblíu er að orðið kynvilla skuli ekki lengur vera notað yfir gríska orðið "arsenokoites".  Auðvitað finnst Snorra vont að orðið kynvilla skuli ekki vera notað lengur í biblíunni, þá er auðvitað hætta á því að ekki sé hægt að lemja á samkynhneigðum með þessu orði í framtíðinni.

Reyndar hefur annar bloggari, sem stundum er nokkuð harðorður líka bloggað um nýja þýðingu.  Jón Valur Jensson fjallar um sama ritningarstað og sama orð og Snorri, en hann gerir það á mun yfirvegaðri hátt.  Niðurstaða þessara tveggja heiðursmanna er reyndar sú að þarna hafi þýðingarnefndin komist að rangri niðurstöðu varðandi "kynvilluna".  En Jón Valur er þó ekki á því að öll biblían sé þar með ónýt.

Ég hef reyndar fulla trú á því að Snorri og örugglega fleiri munu halda orðinu kynvilla á lofti um samkynhneigða, en með nýjum kynslóðum og nýrri biblíuþýðingu hættir fólk vonandi að lemja á samkynhneigðum með biblíunni.  Þetta ferli tekur þó einhvern tíma, það er vitað mál. 

En það er gott til þess að vita að Snorri skákar öllum fræðimönnum með vitneskju sinni um þetta eina gríska orð, sem Páll postuli virðist reyndar hafa búið til, því ekki finna menn það notað hjá öðrum, og því verður þýðing á þessu orði auðvitað alltaf vandamál.  En í augum Snorra er biblía 21. aldar falsbiblía vegna þessa eina orðs.  Eða hvað?  Fer það kannski líka í taugarnar á honum að það er talað um systkin en ekki bara bræður?  Eða fer það líka í taugarnar á honum að apokrýfu bækur Gamla testamentisins eru aftur komnar inní biblíuna eftir nokkurt hlé.?


Listin að lifa af í kroppasýningarsamfélagi

Myndin Lystin að lifa, sem sýnd var á rúv á sunnudagskvöldið var mjög áhrifamikil og í raun mjög óhugguleg.  Að heyra og sjá þessa stúlku sem haldin var þessum skelfilega sjúkdómi, átröskun, var vægast sagt átakanlegt. 
Í guðfræðideildinni fjallaði ég um ímyndir og hugmyndir um kvenlíkamann í siðfræðikúrs sem bar heitið siðfræði og kvennagagnrýni. 

Í þessum kúrs tók ég fyrir umfjöllun um kvenlíkamann í biblíunni og einnig hvernig samfélagið sér kvenlíkamann.  Í hinni kristnu hefð var því oft haldið fram að allt holdlegt væri frá konum komið, sem hljómar nú reyndar fremur öfugsnúið í dag, enda voru það jú alltaf karlmenn sem héldu þessu fram.  Líklega hefur þetta komið til af því að það voru karlarnir sem héldu um alla stjórnartauma, en réðu (og ráða stundum ekki enn) við sjálfa sig þegar kom að því hvernig þeir hugsuðu um konur.  Þessar hugsanir hafa óhjákvæmilega oft reikað inná holdlega sviðið og því var lausnin sú að kenna konum um það hvernig þeir sjálfir hugsuðu um konur, og stundum voru konur hreinlega settar í hlutverk djöfulsins.

84En í þessum kúrs hitti ég tvær stúlkur sem höfðu þá nýverið tekið þátt í fegurðarsamkeppnum.  Annars vegar Ungfrú Ísland og hins vegar Ungfrú Ísland.is.  Önnur var ákaflega gagnrýnin á þessa keppni, en hin ekki eins, þó hún hefði vissulega komið auga á klárlega galla við þessa keppni.

Sú sem tók þátt í Ungfrú Ísland (hin hefðbundna fegurðarsamkeppni) var 175 cm og 52 kíló og henni leið ekki vel með það hversu horuð hún var orðin, en þarna voru stelpur sem þó voru þónokkuð léttari og horaðri en hún.  Stúlkurnar fóru í ræktina tvisvar á dag, og það var fylgst vel með því hvað þær létu oní sig.  Þær áttu að drekka mikið vatn, borða grænmeti og próteinstangir og þær voru umsvifalaust látnar vita ef skipuleggjendum og þjálfurum fannst þær ekki leggja sig 100% fram og öll frávik voru mjög illa séð.

Það undarlega við þetta allt saman er að þessi stúlka viðurkenndi fyrir mér að það væri allnokkur hætta á því að stelpurnar þróuðu með sér átröskunarsjúkdóma, og hún hafði heyrt dæmi um slíkt.  En þrátt fyrir það þá mælti hún algjörlega með svona keppni fyrir allar stelpur, því þetta væri svo gott tækifæri.

Hin stelpan sem ég ræddi við tók þátt í keppninni Ungfrú Ísland.is (Það var keppni sem auglýsti sig eitthvað annað og meira en hefðbundin fegurðarsamkeppni, en samt komu stelpurnar þrisvar fram á sundbolum fyrir dómnefnd).  Metnaður og sjálfstæði átti að skipta mun meira máli í þessari keppni en áður hafði verið, og sem dæmi um spurningar sem áttu að kanna metnað stúlknanna var: Lestu blöðin? Hvaða bók ertu að lesa? Hvaða bók lastu síðast?

94Í þessari keppni var sama áherslan á mataræðið og hinni hefðbundnu fegurðarsamkeppni, og stelpurnar voru skammaðar ef þær fóru ekki nákvæmlega eftir settum reglum.  Stelpan sem ég ræddi við þurfti ekki að létta sig, enda er hún ákaflega grönn, nánast horuð.  Þess í stað var henni hrósað fyrir það hversu grönn og fín hún væri.  Eins og í hinni fegurðarsamkeppninni var hamrað á því að þetta væri svo stórkostlegt tækifæri fyrir stelpurnar að þær ættu að þakka fyrir að fá að vera með.

Niðurstaða þessarar stúlku er í raun sú sama og hinnar, þ.e. að svona keppni sé hættuleg útfrá átröskunarsjúkdóma-sjónarhorni.  En hún komst hins vegar að því að hún gæti engan vegin mælt með því að stúlkur tækju þátt í svona keppni, því hættan er svo mikil á átröskun.

Ef til vill er það umhugsunarefni fyrir okkur á vesturlöndum að við séum svona upptekin af fegurðarsamkeppnum.  Er þetta ekki bara viðurkenning á því að þær stúlkur sem taka þátt í svona keppni séu góðir kvenkostir?
Ef svona keppni er gott tækifæri, þá hlýtur maður að spyrja sig: tækifæri til hvers?  Tækifæri til að peppa upp sjálfstraustið?  Tækifæri til að hitta fólk?


Er fegurðarsamkeppni ekki bara ákveðið stöðutákn millistéttarinnar?  Er þetta ekki bara bölvaður smáborgaraháttur?  Ef svo er, er þá ekki rétt að viðurkenna hvað þessar keppnir eru í raun og veru og ekki tala um þær sem hæfileikakeppni, eða eitthvað annað en kroppasýningu?  Þá er þetta bara kroppasýning og ekkert annað.


Paradísarfuglar pólitíkur og tónlistar.

Skelltum okkur í helgarfrí í höfuðborgina um helgina.  Það er búið að vera hreint magnað að fylgjast með fréttum um helgina, þar sem allir saka alla um svik.

2judasÁ nokkrum stöðum sá maður að Sjallar hefðu átt svikin skilið, þar sem þeir fóru illa með Ólaf F. eftir síðustu kosningar.  Þessu hefur bæði áhugafólk um pólitík haldið fram og líka pólitíkusar.  Maður hlýtur að spyrja um siðferðisstandard hjá fólki sem heldur þessu fram. 
Hvernig getur ein hnífsstunga réttlætt aðra?
Af hverju eru Sjallar sárir, þegar þeir fóru svona með Ólaf F.?
Af hverju lætur Bingi eins og það sé í lagi að haga sér svona, finnst Sjallar höguðu sér svona?
Af hverju eru borgarfulltrúar Sjalla að jarma, ef þeir voru tilbúnir að láta Villa gossa?

Pólitíkin er undarlegt fyrirbæri.  Manni sýnist sem svo að fæstir í þessu máli hafi hreina samvisku.  Þetta er svolítið einsog börn í sandkassa.  Allir benda á næsta og segja "hann gerði svona líka, og þá má ég." 

"Svo skal böl bæta og bend'á eitthvað annað" sungu þeir Megas og Tolli forðum með Íkarus, og það á svo sannarlega vel við í þessu máli.

***************

Úr því að "skrifið" berst að Megasi, þá er auðvitað rétt að gera grein fyrir þessum prýðistónleikum sem við Gíslína (og Ólöf, systir mömmu, og Sveinbjörn, maðurinn hennar) fórum á um helgina í Laugardalshöll þar sem meistarinn var í fantaformi.

Þessir tónleikar voru stanslaus tveggja tíma keyrsla, þar sem allt það besta var borið fram.  Það var reyndar allnokkuð af fyrri plötu Megasar og Senuþjófanna. 

Það var með hreinum ólíkindum að verða vitni að því að Megas skyldi spila fyrir fulla höll (allt í sætum).  Meðalaldur gestanna var nokkuð fyrir ofan meðallag á popptónleikum, og ég sá meira að segja a.m.k. eitt sóknarbarn mitt þarna (Árni Johnsen var mættur og sat á besta stHold er moldað).

Það er erfitt að segja hvað stóð uppúr, en þarna var boðið uppá allnokkrar snilldar útsetningar af gömlum slögurum, einsog t.d. Orfeus og Evridís, Ég á mig sjálf, Tvær stjörnur.  Og svo auðvitað hefðbundnari útfærslur á lögum einsog Krókódílamanninum, Við sem heima sitjum, Ragnheiður biskupsdóttir, Gamla gasstöðin, Borðið þér orma, Spáðu í mig, Saga úr sveitinni, Paradísarfuglinn og fleira og fleira, ásamt nýrra efni sem hljómar ótrúlega vel á tónleikum.

Hljóðfæraleikur Senuþjófanna var alveg feikilega góður og þéttur og varla slegin feilnóta allt kvöldið. 

Ég fjárfesti síðan í nýju plötu Megasar og Senuþjófanna og er búinn að hlusta nokkuð á hana og það er óhætt að segja að hún lofi góði, enda er hér um rökrétt framhald af fyrri plötu að ræða.  Platan ber heitið Hold er mold og er koverið vægast sagt ögrandi þar sem þrjár íðilfagrar yngismeyjar sitja oná legsteini Jónasar Hallgrímsson, hvar undir eru meintar líkamsleifar þjóðskáldsins.  Það var snillingurinn Ragnar Kjartansson sem tók myndina sem prýðir koverið.


Rangur maður, á röngum tíma, í vitlausu húsi?

stopÞað er stór gaman að lesa pistil sr. Hjartar Magna Fríkirkjuprests sem birtist á visir.is.  Þar fer hann yfir tilurð þess að "veraldlegt" brúðkaup var haldið í Fríkirkjunni.

Þegar maður les þessa fínu, nánast tímamótagrein sr. Hjartar Magna þá er ekki laust við að manni finnist hann ekkert kannast við að hann sé prestur, kemur nánast af fjöllum.  Þannig þótti honum nú lítið mál að gifta fólk í kirkjunni sinni án þess að minnast einu orði á Guð í því samhengi, enda bara forpokaðir ríkislaunaðir kirkjustofnunarprestar sem slíkt gera.  Auðvitað er það eins og hver önnur fjarstæða að prestur sé eitthvað að flækja Guði inní kirkju.

Sr. Hjörtur Magni segir í pistlinum: 

"Manngildi, réttlæti og frelsi eru einmitt grunngildin í boðskap siðræns húmanisma. Þeir hafa víða verið brautryðjendur á sviði mannréttinda. Í boðskap þeirra um frelsi er átt við frelsi mannsandans undan ýmsum þeim höftum og fjötrum sem meðal annars trúarbrögð hafa skapað.

Mér dettur ekki til hugar að mótmæla þessu, enda held ég nú svosem að fólk geri það almennt ekki.  Ég tel sjálfan mig vera kristinn húmanista sem hef manngildi í öndvegi. 

Jafnframt talar sr. Hjörtur Magni um að gagnrýni húmanista á synda- og sektarboðskap kirkjunnar eigi fullan rétt á sér.  Og það er alveg hárrétt hjá sr. Hirti Magna.  Öll gagnrýni á rétt á sér, líka sú sem við erum ekki sammála.  Það gildir um hvaða málefni sem er.  Í framhaldi af þessu segir sr. Hjörtur:

Hinir rétttrúuðu finna húmanistum einnig það til foráttu að þeir byggja ekki lífsskoðun sína á bókstafslegri tilvísun í yfirnáttúruleg furðuverk, skáldskap og myndlíkingar, sem finna má í ævafornum trúarritum. Í stað þess reyna húmanistar að nálgast okkur út frá upplýstri heimsmynd nútímans og reyna að efla okkar eigin sjálfsmynd.

Ég velti því fyrir mér hvort sr. Hjörtur Magni sé smám saman að gera sér grein fyrir því að hann leggi ekki nokkurn trúnað á "þann skáldskap" og "þær myndlíkingar" sem talað er um í biblíunni.  Ef til vill hefur sr. Hjörtur Magni enga sérstaka trú á þeim játningum sem Fríkirkjan í Reykjavík þó játar, ég veit það ekki.  Fríkirkjusöfnuðurinn í Reykjavík hefur nefnilega nákvæmlega sömu játningar til grundvallar og Þjóðkirkjan, á því er enginn munur og þess vegna er trúin sú sama, þó stjórnunin sé ekki sú sama.

Svo endar sr. Hjörtur Magni á þessum orðum:

Kristur leitast við að sameina alla í kærleika. Hann er hafinn yfir alla flokkadrætti kirkjustofnana, lífsskoðana eða trúarbragða.

Spurningin er þá bara fyrir hvað prestur stendur yfir höfuð, þar með talinn sr. Hjörtur Magni.  Ég get alveg skrifað undir það hjá sr. Hirti Magna að Jesús Kristur sé hafinn yfir flokkadrætti, en eftirfylgd við Jesú Krist er hins vegar algjör, það undirstrikar Jesú margoft, ef við kjósum yfir höfuð að taka mark á guðspjöllunum.  Það gera auðvitað ekki allir, ég geri mér fulla grein fyrir því, og óþarfi að agnúast útí þau sem það ekki gera.  Ég leyfi mér hins vegar að velta því fyrir mér hvort það skipti einhverju máli hvað fólk segir, eftir því hvaða stöðu eða starfi það gegnir.

Væri t.d. ekki svolítið magnað að sjá landsfundarmenn á flokksþingi VG mæra stefnu Sjálfstæðisflokksins í hástert?  Þó VG og Sjallar séu ekki sammála um ákveðin grundvallaratriði þá er ekki þar með sagt að þetta fólk geti ekki talað saman og virt skoðanir hvors annars, skárra væri það nú.  En Sá sem er skráður í VG, og sér ekki sólina fyrir stefnu Sjálfstæðisflokksins, ætti kannski frekar að skrá sig úr VG og í Sjálfstæðisflokkinn. 

Allt saman spurning um að vera staddur á "réttum" stað samkvæmt þeim skoðunum sem maður stendur fyrir. 

 Spurning hvort orð Egils Helgasonar eigi við í þessu tilfelli:

Þaðan sem ég bý sé ég í turnana á tveimur gömlum kirkjum, Dómkirkjunni og Fríkirkjunni. Mér finnst nærvera Dómkirkjunnar þægileg. Hins vegar virðist Fríkirkjan vera orðin vettvangur pólitískrar baráttu þar sem trúin er hálfgert aukaatriði.

Hér má lesa stuttan pistil Egils um "veraldlegu" giftinguna.

Í þessu bloggi felli ég enga dóma um eitt eða neitt, ég leyfi mér hins vegar að velta upp ýmsum spurningum, enda spurning hvort ég hef verið "höndlaður af sannleikanum" eða hvort "ég hef höndlað sannleikann" eða þá hreinlega hvort "sannleikurinn hefur verið höndlaður af hinum eina sanna sannleika"?


Að hafa hjartað á réttum stað?

Ég komst að því núna fyrir skömmu að hjartað í mér er í sjónvarpinu.

Þann 1. okt. s.l. átti ég eins árs vígsluafmæli.  Þann 1. okt. 1987 hófust sjónvarpsútsendingar á fimmtudögum á rúv.  Ég var hér búinn að setja mig í heilmiklar stellingar á blogginu og áformaði mikil skrif um þessi merku tímamót á rúv.  En ég bloggaði nú reyndar ekkert um það.

En ég man þegar ákveðið var að sjónvarpa á fimmtudögum að þá hugsaði ég: "hvern fjandann ætla menn að sýna?  Er ekki verið að sýna allt sjónvarpsefni sem til er í dag?"  Ég sá fyrir mér að fimmtudagar yrðu svona endursýningarkvöld, "best of" á dagskrá vikunnar.

En svo vara bara til heilmikið efni.  Já það sem afdalamaður að norðan varð hissa. 

Semsagt ég mundi ekkert eftir prestsvígslu minni 1. okt. fyrir ári síðan, en mundi eftir sjónvarpi í fimmtudögum fyrir 20 árum. 


Tralla-lalla-la Vialli-lilli-li

Það væri auðvitað all nokkur klassi yfir því að fá Vialli til að stjórna mínum mönnum.  Ég vona bara að hann falli í þá grifju sem Gullit féll í með Newcastle á sínum tíma: að spila sexí football.
mbl.is Vialli í viðræðum við QPR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markmið næstu kjarasmaninga

rich.poorUm síðastliðna helgi var þing AN haldið heima hjá pabba og mömmu á Illugastöðum.  Þar var m.a. eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða, sem ég er mjög hrifinn af og vona bara að fólki beri gæfa til að fylgja henni eftir í kjarabaráttunni.

Ályktun um kjaramál30. þing Alþýðusambands Norðurlands hvetur til þjóðarsáttar um jöfnun lífskjara á Íslandi.

 Verkalýðshreyfingin hefur lengi barist fyrir þessu markmiði og náð miklu fram, launþegum til hagsbóta. Þrátt fyrir að mikið hafi áunnist í kjara- og réttindabaráttu verkafólks er það nöturleg staðreynd að á sama tíma og lágmarkslaun eru undir fátækramörkum eru dæmi um að menn í fjármálaheiminum taki sér mánaðarlaun sem jafngilda launum 519 verkamanna samkvæmt almennu kjarasamningunum. Verkalýðshreyfingin hefur oft bent á þá misskiptingu sem viðgengst á Íslandi og kallað eftir umræðum um málið.

 Í ljósi þessara staðreynda er mikilvægt að verkalýðshreyfingin setji sér það markmið í komandi kjaraviðræðum við atvinnurekendur að almennir kauptaxtar láglaunafólks hækki verulega og að kaupmáttur þeirra verði tryggður.  Um leið er því hafnað að aðeins sumir, ekki síst í fjármálageiranum, fái að njóta þeirrar velmegunar sem verið hefur í íslensku hagkerfi á síðustu árum.

 Alþýðusamband Norðurlands hafnar alfarið þessari misskiptingu og minnir á að verkalýðshreyfingin hefur lagt sitt af mörkum til að tryggja stöðugleika og þannig grunn að vaxandi kaupmætti, en það er ekki nóg. Aðrir verða að axla ábyrgð líka svo sem stjórnvöld, sveitarfélög og fjármálastofnanir. Þessir aðilar geta ekki endalaust staðið á hliðarlínunni eins og þeim komi málið ekkert við. Þjóðarsátt um jöfnun lífskjara byggir á því að allir axli ábyrgð, ekki bara verkalýðshreyfingin.

 Alþýðusamband Norðurlands krefst þess að launaleynd verði afnumin og kynbundnum launamun verði útrýmt.

 Það hlýtur allt réttsýnt fólk að sjá að það verður ekki lengur unað við það að þeir sem eru á lægstu töxtum þurfi alltaf að bíða með að taka út hagnaðinn í góðærinu á meðan þeir sem sitja á toppunum "eiga svo sannarlega skilið að fá hagnaðinn af góðærinu strax til baka."  

 Þetta er auðvitað svo skelfilega óréttlátt að það nær ekki nokkuri átt.  Það getur ekki talist eðlilegt að það þurfi fleiri hundruð manns til að ná uppí laun eins manns.  Hvers vegna metur samfélagið vinnu eins svona miklu, miklu, meira en annars?  Ég held að fólki sé smám saman farið að blöskra þessi skelfilega misskipting. 

Ég er ekki að segja að þé slæmt að græða, en fyrr má nú rota en dauðrota.

Það var mikið!

Þessi ákvörðun kemur nú ekki beint á óvart, enda virðist manni maðurinn ekki hafa nokkra tilfinningu fyrir því starfi sem hann gegndi.  Í leiknum á móti WBA ákvað hann t.d. að stilla upp þriggja manna sóknarlínu!!  Halló!!  Með hvaða mannskap hélt hann að hann væri með í höndunum?  Það er himin og haf á milli þessara liða, og að láta sér detta í hug að sækja á sem flestum á móti liði sem er í toppbaráttunni (verandi sjálfur á botninum) er alveg ótrúlegt.

Auðvitað hefur verið ákveðin örvænting í kallinum vegna stöðu klúbbsins og síðan hefur það auðvitað ekki virkað róandi á hann að vita af Vialli á staðnum.  Vonandi að nýir eigendur nái nú að koma einhverju í lag hjá mínum mönnum.

Eina vonin á þessari leiktíð, er að QPR nái að halda sér uppi og setji sér það markmið fyrir næstu ár að komast upp um deild, en fyrst er auðvitað að tolla í deildinni.  Það er óásættanlegt fyrir þennan fornfræga klúbb að sitja einir á botni deildarinnar með þrjú stig.  Krafan er auðvitað að vera ekki í fallsæti - það er nú alltog sumt sem ég fer fram á og allir stuðningsmenn þessa ágæta félags.


mbl.is Gregory rekinn frá QPR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband