Færsluflokkur: Ljóð

Í Fnjóskadal

Hún Látra-Björg var flökkukona á öldum áður (f. 1716, d. 1784) og flakkaði um sveitir norðanlands og borgaði oft fyrir sig með kveðskap.  Margar þessara vísna eru þekktar, aðrar minna þekktar, sumar góðar, aðrar bölvað hnoð.  Stundum fékk fólk að finna fyrir því ef henni líkaði ekki viðgjörningurinn, en svo hrósaði hún í hástert ef vel var gert við hana.

Hún kom meðal annars við í Fnjóskadal og samdi þessar tvær vísur: 

Í Fnjóskadal byggir heiðursfólk.
Í Fnjóskadal fæ ég skyr og mjólk.
Í Fnjóskadal hef ég rjóma.
Fnjóskadalsketið heilnæmt er.
Fnjóskdælir gefa flot og smér
af Fnjóskadals björtum blóma.
 

Fnjóskadalur er herleg sveit.
Fnjóskadals vil ég byggja reit.
Í Fnjóskadal hrísið sprettur.
Í Fnjóskadal sést hafur og geit.
Í Fnjóskadal er mörg kindin feit.
Fnjóskadals hæsti réttur.

Vísnasafn Sigurðar J. Gíslasonar í Héraðsskjalasafni Skagfirðinga.

Atómljóðið

Maður er nefndur Jói, kallaður hinn danski, hér í Eyjum.  Hann lét einu sinni þetta ljóð frá sér í einhverju bríaríi þegar atómljóðin tröllriðu öllu: 

Siggi Munda
fór í lunda
veiddi súlu
íslenski fáninn í hálfa stöng.


Frábært

YESSSS!!!

Nú getur maður aftur farið að sofa rólegur.  Ó, þið yndislegu og íðilfögru kryddmeyjar.  Ég gleðst yfir því að raddir ykkar hljóma saman á ný eftir alltof langan aðskilnað.  Í gegnum gleðitár og vota hvarma koma mér í hug ljóðlínur þjóðskáldsins, sem á einmitt afmæli í dag:

Háa skilur hnetti
himingeimur,
blað skilur bakka og egg;
en anda sem unnast
fær aldregi
eilífð að skilið.


mbl.is Kryddpíurnar aftur saman á sviði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söknuður

 illugastaðir

Í gærkvöldi sat ég og horfði á þátt Egils Helgasonar "Kiljan" þar sem Jónas Hallgrímsson var aðallega til umfjöllunar, enda yrði hann 200 ára í vikunni.... ef hann væri á lífi Grin  Áhorfið skapaði hugrenningar norður í Öxnadalinn til afa og ömmu, og auðvitað lengra austur, á æskuslóðirnar í Fnjóskadal.  M.ö.o. ég fylltist nánast heimþrá eða söknuði, enda alltof langt síðan ég hef komið "heim".

Ég álpast hef til óteljandi landa
undur heimsins flest öll hef ég séð
en þó ég líti silfurhvíta sanda
voga og víkur
votlendi og nes
flóa og firði
mér finnst það ekkert spes
ef ég er fjarri Fnjóskadal
ef ég er fjarri Fnjóskadal 

Stundum er ég geng um djúpa dali
ég dapur verð og kökk fæ uppí háls
og eins ef ég á ferð um fjallasali
annes, eyrar
odda, tanga og sker
mýrar og merkur
því marklaust hjóm það er
ef ég er fjarri Fnjóskadal
ef ég er fjarri Fnjóskadal

(af plötu Baggalúts "Pabbi þarf að vinna)

Barátturljóð

Langaði til að deila með ykkur stórbrotnu ljóði eftir Elías Mar. Það er nú kannski ekki beint bjartsýnis ljóð, en það sýnir vel þann tíðaranda sem það er sprottið uppúr. Sérstaklega finnst mér gott orðalagið: Berjizt ekki fyrir; berjist gegn. Það er kannski málið þegar öllu er á botninn hvolft, þetta eru kannski hugsjónir stríðsrekstrar og landvinninga. 


 

Berjizt þér, berjizt þér, djöflar og andskotar.
Borið glóandi töngum í naglkvikur og pyndið, pyndið.
Ímyndið yður að lífið
sé einkum og sér í lagi í því fólgið að hata.
Berjizt ekki fyrir; berjizt gegn.
Teljið yður trú um að sú stefna sé rétt
sem hótar að beita aflsmun. Dansið
í nautnþyrstu ofvæni kringum vetnissprengjuna, já
allar þær sprengjur sem bezt geta tortímt. Ræktið
eiturjurtir og sýkla óvinum yðar til matar. Hatið. 

Trúið því, að hugsjónir sigri eða láti sigrast með vopnum.
Sannlega mun reyk fórnarinnar bera við ský.
Sannlega mun nóttin verða sem dagur og
himinninn hverfa fyrir glampanum af þeim loga.
Sannlega mun eyðingin bera eilíft vitni um mikilleik yðar,
þér djöflar og andskotar. 

Öskrið og ærið.
Neytið valdsins til að sanna að þér hafið það.
Miskunnið ekki.
Eyðið hverir öðrum á báli yðar taumlausu villu.
Sama er mér.
---
Morguninn
eftir nótt tortímingar skal ég
þerra svitann af ennum yðar, þar sem þér
engizt af ótta við sólargeislann,
og færa yður vatn úr læknum þann morgun, 

og ég skal líkna Sigurvegaranum
hvar hann þreyttur liggur
í allri sinni smæð. 

Elías Mar 1951

Að skjóta börn

Að hugsa sér, þrjú börn voru skotin af misgá, herinn hélt þetta væru herská börn!!  Hvernig er heimurinn eiginlega?  Ég stóð einhvernvegin í þeirri meiningu að það ætti einfaldlega ekki að skjóta börn, jafnvel þó þau séu herská eða ódæl á einhvern hátt.

Ísraelski herinn gerir sig sekan um a.m.k. tvennt í þessu máli.  Annars vegar að skjóta saklausa borgara - saklaus börn, og hins vegar að ætla sér að skjóta börn - herská börn.  Það má vart á milli sjá hvort vekur hjá manni meiri hrylling. 

Ljóð Kristjáns frá Djúpalæk, Slysaskot í Palestínu (Í víngarðinum), lýsir ástandinu á þessum slóðum vel.  Þetta er áhrifaríkt og magnað ljóð sem má auðvitað heimfæra á hvern þann stað þar sem stríðsástand ríkir.

Lítil stúlka. Lítil stúlka.
Lítil svarteyg dökkhærð stúlka
liggur skotin.
Dimmrautt blóð í hrokknu hári.
Höfuðkúpan brotin.

Ég er Breti, dagsins djarfi
dáti, suður í Palestínu,
en er kvöldar klökkur, einn,
kútur lítill, mömmusveinn.

Mín synd er stór. Ó, systir mín.
Svarið get ég, feilskot var það.
Eins og hnífur hjartað skar það,
hjarta mitt, ó, systir mín,
fyrirgefðu, fyrirgefðu,
anginn litli, anginn minn.

Ég ætlaði að skjóta hann pabba þinn.


mbl.is Börn sem Ísraelar skutu unnu ekki fyrir hryðjuverkamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ó ljúfa veröld

Ég er alinn upp við það viðhorf að Vilmundur Gylfason, heitinn, hafi verið kyndilberi réttlætisins í íslensku samfélagi. Ég las ljóðin hans, sem eru full af trega og sársauka og höfðu þau mikil áhrif á mig, og hafa enn þann dag í dag.
Þetta er eitt af mínum uppáhalds ljóðum. Datt í hug að skrifa það hér niður eftir gloppóttu minni mínu. Ef einhver man þetta betur, þá látið vita.

Ó ljúfa veröld veistu það
að vindar lífsins blása að
og börnin litlu bjóða góðar nætur.

Og veistu meira veröld mín
að vonin hverfur inn til þín
en fyrir utan ungur maður grætur.

Í leit að því sem liðið er
þá lifnar dauðinn fyrir mér
í dögun þá er dagurinn minn að falla.

En ó hve mig langar að líkjast því
sem lifir og deyr, en vaknar á ný
Í eyðimörk lífsins er angandi blómstur að kalla.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband