Mótmæli í mótlæti

Handtaka þessarar ungu frelsishetju og ekki síður afleiðingar hennar eru hreint út sagt kómískar.  Mér þótti með hreinum ólíkindum að fylgjast með viðbrögðum fólks þegar lögreglan hafði spreyjað piparúða á þá sem reyndu að ryðjast inná lögreglustöðina.

Datt fólkinu í alvöru í hug að lögreglan léti það algjörlega óátalið að rúður væru mölvaðar og dyr brotnar upp?  Það er nú varla annað hægt en að brosa út í annað þegar maður les viðtal við móður eins "fórnarlambsins" á dv.is.  Hún skilur bara ekkert í því að vondu kallarnir hafi úðað piparúða yfir elsku litla engilinn.  Ef fólk ætlar að standa í barsmíðum og djöflagangi þá verður það að vera tilbúið að taka afleiðingum þess.

Að öðru leiti er ég mjög hrifin af þeim mótmælum sem fram hafa farið undanfarna laugardaga á Austurvelli, þó mér hafi nú reyndar ekki þótt jafn mikið til ræðumanna síðasta laugardags koma og þar á undan. Þá þótti mér einstaklega vel takast til og ræðumenn blésu kjarki og hugrekki í brjóst landans.

Núna fannst mér Herði Torfa fatast flugið illilega þegar hann hvatti fólk til þess að ganga upp að lögreglustöðinni á Hverfisgötu til þess að frelsa "Bónusflaggarann".  Hann mátti auðvitað vita að það yrði allt vitlaust þar.  Skipulagið var farið úr mótmælunum og þá er fjandinn laus.

Um leið og fólk fer að beita ofbeldi í mótmælum þá missa þau marks og fara að snúast uppí andhverfu sína, þar sem málstaðurinn hverfur og markmiðið verður bara ofbeldið sjálft.  Þetta gerðu menn eins Nelson Mandela, Gandi og fleiri sér grein fyrir og þeirra er minnst sem mikilmenna í sögunni einmitt vegna þeirrar trúar sem þeir höfðu á friðsömum aðgerðum.

Það er svo auðvelt að hætta að taka mark á fólki sem beitir ofbeldi við að ná fram markmiðum sínum og það er einmitt það sem gerist ævinlega og það er einmitt það sem gerðist við lögreglustöðina á Hverfisgötu. 

Það er ómögulegt að láta einhverja ófriðarseggi og ólátabelgi skemma það starf sem er hafið, með eggjakasti og barsmíðum.  Að sjálfsögðu hvet ég alla til þess að mæta niður á Austurvöll og láta í sér heyra.  Breið og góð samstaða þjóðarinnar gegn sérhagsmunum og eiginhagsmunagæslu er það sem virkar. 


mbl.is Fanganum sleppt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nelson Mandela var ekki í friðsamlegri baráttu og beitti ekki friðsamlegum baráttuaðferðum. Þú þarft að líta aftur í sögubækurnar.

Og það er ljóst, hvað sem öðru líður - hvað sem ópum og smávægilegu eignatjóni líður - að fyrstu raunverulegu sigrarnir unnust við lögreglustöðina í gær. Aldrei áður, hvorki fyrr né síðar, hefur verið hlustað á fólkið. Það er lexían - ríkisvaldið beygir sig ekki þó fólkið mæti þúsundum saman á Austurvöll, en það beygir sig þegar rúður eru brotnar hjá lögreglunni. Ef ríkisvaldið væri örlítið duglegra við að hlusta, þá myndu rúður aldrei brotna. 

Og við skulum ekki gleyma því heldur, að hvað sem líður brotnum rúðum og ópum, þá var það fólkið fyrir utan lögreglustöðina í gær sem var í rétti en ekki fólkið innandyra. 

Eiríkur Örn Norðdahl (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 11:42

2 identicon

Þú ert nú meiri helvítis hálfvitinn Eiríkur Örn Norðdahl.

"...að fyrstu raunverulegu sigrarnir unnust við lögreglustöðina í gær. Aldrei áður, hvorki fyrr né síðar, hefur verið hlustað á fólkið."
Var ekki sektin borguð fyrir bónus-fíflið? Mótmælin höfðu engin áhrif nema þau að aðilli tengdur þeim borgaði sektina.

Er fólk núna í fullum rétti að ráðast með valdi inn á lögreglustöðvar landsin?? Í alvöru, heyriru ekki hversu súrt þetta hljómar.

Það að svívirða Alþingishúsið og ráðast á lögreglu landsins er ekkert nema landráð gegn lýðveldi Íslands. Slíka einstaklinga ætti að reka burt af landinu ekki seinna í gær.

Landráð (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 13:50

3 identicon

Stofnanir landsins hafa brugðist. Ráðamenn í alþingishúsinu og lögregla landsins hafa svívirt þjóðina. Valdið á ekki að hvíla spurnarlaust í þeirra faðmi, valdið á að vera fólksins í landinu. Þegar lögreglan beitir geðþótta og fer á svig við lög og reglur til að handtaka fólk - væntanlega til að hræða aðra til hlýðni - og ráðamenn þverskallast við að gera eins og þjóðin krefst, er ekki tími til að lyppast niður og láta yfir sig ganga.

Og athugaðu það, þú nafnlausi Landráðamaður, að mótmælendur réðust ekki að lögreglu heldur húsi. Lögreglan réðst hins vegar að fólki, allt niður í sextán ára stúlkur.

Eiríkur Örn Norðdahl (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 14:58

4 identicon

Og hvað hefðu svo þessir gert þegar þeir hefðu komist inn í lögreglustöðina?
Þegar slíkur múgæsingur er kominn upp ríkir algert stjórnleysi og var þetta það eina sem lögreglan gat gert. Hún gat ekki beðið eftir því að seinni hurðin myndi gefa sig.

Það getur vel verið að handtaka þessa manns orki tvímælis og vitlaust hafi verið að henni staðið, en það er þá dómstólanna að dæma um það. Mótmælin sem slík eiga alveg fullkomlega rétt á sér. En það að ráðast inná lögreglustöð með valdi á engan vegin rétt á sér, og eyðileggur beint málstað þeirra mörg hundruð manna sem hafa  mótmælt á Austurvelli síðustu laugardaga.

Landráð (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 15:27

5 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Mér þætti gaman að vita, Eiríkur Örn, til hvaða sigra þú ert að vísa fyrir framan lögreglustöðina.

Er virkilega sigur fólginn í því að brjóta rúður?  Er sigur að láta spreyja yfir sig piparúða?  Hvað er sigur, og hverja á að sigra?  Þetta eru auðvitað spurningar sem menn þurfa að velta fyrir sér áður en farið er í einhverjar aðgerðir.

Ég held að þú hefðir gott af því að hlusta á eða lesa ræður Andra Snæs og Kristínar Helgu frá þar síðustu helgi.  Þar eru markmiðin skýr og skilaboðin einnig.

Þar er ekki talað um sigra í að brjóta rúður á einhverri löggustöð.  Málið er mun alvarlegra en svo að hægt sé að skeyta skapi sínu á byggingum eða öðru fólki með ofbeldi.  Sá sem beitir ofbeldi dæmir sjálfan sig úr leik í umræðunni.  Vissulega er tekið eftir slíku í fjölmiðlum og af yfirvöldum, en það dettur ekki nokkrum manni í hug að taka mark á slíku fólki.  Þetta sjáum við svo vel um allan heim þar sem menn er fyrir löngu búnir að gleyma öllum markmiðum og málefnum.  Ofbeldið sjálft á þá að leysa málið, en niðurstaðan er auðvitað sú að ofbeldi leiðir af sér ofbeldi og málstaðurinn hverfur.

Guðmundur Örn Jónsson, 23.11.2008 kl. 19:01

6 identicon

Ofbeldi hefur ekki verið beitt af mótmælendum. Að brjóta rúðu er ekki ofbeldi. Og mótmælin fyrir utan lögreglustöðina, sem voru ófriðsamleg, ollu því - beint eða óbeint - að ungum manni sem hafði verið handtekinn á hæsta máta óeðlilegum forsendum, var sleppt.

Eiríkur Örn Norðdahl (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 12:25

7 Smámynd: Guðmundur Arnar Guðmundsson

Það er rétt hjá þér Eiríkur, fanganum var sleppt . En honum var sleppt vegna þess að tryggingin var greidd. Ekki vegna þess að rúður voru brotnar eins og mér sýnist þú halda fram á skrifum þínum hér. Ég trúi því ekki að menn haldi að þeir nái árangri í þeirri mótmælabaráttu sem háð er nú á þessum tímum með því að hóta og eða beita ofbeldi. Höldum frekar áfram að mótmæla á friðsamlegan og málefnalegan hátt. Það mun bera árangur fyrir rest.

Guðmundur Arnar Guðmundsson, 26.11.2008 kl. 16:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband