Færsluflokkur: Bækur

Af fölsuðum og ófölsuðum biblíum

biblia_120506Á föstudag fékk í hendur nýja biblíu. Mér líst nokkuð vel á þessa þýðingu og er alveg sérstaklega ánægður með að talað sé um systkin þar sem áður stóð bræður, enda verið að tala um trúsystkini en ekki bara bræður. Þessi breyting sýnir manni vel hversu mikið samfélagið hefur breyst frá ritunartíma þeirra rita sem finna má í biblíunni. Á þeim tíma þótti varla taka því að ávarpa konur, þannig að karlpeningurinn var bar ávarpaður, enda kom konum málið ekki við á annan hátt en að fylgja því sem karlinn sagði.

Semsagt, ég er ánægður með að mál beggja kynja sé komið inní biblíuna, það er þó ekki alveg algilt og hefur t.d. verið sleppt í mjög þekktum textum eins sæluboðunum. Annað er að tvítalan er að miklu leyti farin út og í staðin notað venjuleg fleirtala eins og "ykkur". Ágæt greining á þessu öllu er að finna á bloggi Davíðs Þórs síðan í febrúar. Færslan þar ber hið skemmtilega heiti Faðirokkarið. Einnig er gott blogg hjá Akureyrarklerkinum Svavari um nýja biblíuþýðingu

En einsog ævinleg sýnist sitt hverjum þegar hugtakið nýtt er annars vegar. Þannig fer Snorri í Betel mikinn á bloggi sínu og talar um Falsaða biblíu 21. aldar.  Það er gott til þess að vita að Snorri í Betel býr yfir þeim eina sanna sannleika sem máli skiptir við biblíuþýðingar.  Það sem Snorri kvartar helst yfir varðandi nýja biblíu er að orðið kynvilla skuli ekki lengur vera notað yfir gríska orðið "arsenokoites".  Auðvitað finnst Snorra vont að orðið kynvilla skuli ekki vera notað lengur í biblíunni, þá er auðvitað hætta á því að ekki sé hægt að lemja á samkynhneigðum með þessu orði í framtíðinni.

Reyndar hefur annar bloggari, sem stundum er nokkuð harðorður líka bloggað um nýja þýðingu.  Jón Valur Jensson fjallar um sama ritningarstað og sama orð og Snorri, en hann gerir það á mun yfirvegaðri hátt.  Niðurstaða þessara tveggja heiðursmanna er reyndar sú að þarna hafi þýðingarnefndin komist að rangri niðurstöðu varðandi "kynvilluna".  En Jón Valur er þó ekki á því að öll biblían sé þar með ónýt.

Ég hef reyndar fulla trú á því að Snorri og örugglega fleiri munu halda orðinu kynvilla á lofti um samkynhneigða, en með nýjum kynslóðum og nýrri biblíuþýðingu hættir fólk vonandi að lemja á samkynhneigðum með biblíunni.  Þetta ferli tekur þó einhvern tíma, það er vitað mál. 

En það er gott til þess að vita að Snorri skákar öllum fræðimönnum með vitneskju sinni um þetta eina gríska orð, sem Páll postuli virðist reyndar hafa búið til, því ekki finna menn það notað hjá öðrum, og því verður þýðing á þessu orði auðvitað alltaf vandamál.  En í augum Snorra er biblía 21. aldar falsbiblía vegna þessa eina orðs.  Eða hvað?  Fer það kannski líka í taugarnar á honum að það er talað um systkin en ekki bara bræður?  Eða fer það líka í taugarnar á honum að apokrýfu bækur Gamla testamentisins eru aftur komnar inní biblíuna eftir nokkurt hlé.?


Endurnýjuð kynni af Birtingi

voltaireÍ Reykjavíkurferð okkar hjóna hef ég verið að endurnýja kynni mín af Birting eftir Voltaire.  Síðast las ég þessa mögnuðu bók fyrir 20 árum, veturinn sem ég sótti fermingarfræðslu til Hönnu Maríu, til að byrja með og síðar Bolla Gústavssyni.  Skemmtileg blanda Birtingur og Biblían.  Læt fylgja með ótrúlega lýsingu á því þegar Birtingur ákveður að flýja úr Búlgarska hernum og hugsa um orsök og afleiðingu (allra hluta).  Þetta er ótrúleg lýsing á afleiðingum stríðs:

"þorpið var Abaraþorp sem Búlgarar höfðu eytt með báli samkvæmt þjóðarrétti.  Sundurlamdir karlarnir horfðu á barkadregnar konur sínar deyja með börnin á blóðugum brjóstunum; í öðrum stað lágu ungar stúlkur í andarslitrum sem hetjurnar höfðu rist blóðörn eftir að hafa haft gagn þeirra og gaman; aðrar voru hálfbrenndar að hrópa á menn að aldrepa sig. Heilasletturnar voru dreifðar út um allt innan um staka handleggi og afhöggna fætur.

Birtingur flýtti sér eins og hann gat í annað þorp: það heyrði undir Búlgara, og hetjur Abara höfðu leikið það eins."

Já blessað stríðið dregur aðeins það besta fram í hverjum manni.


Jón í Brauðhúsum

Ein af allra mögnuðustu smásögum sem ég hef lesið er "Jón í Brauðhúsum" eftir H. K. Laxness. Þetta áhrifamikil saga sem segir af því þegar tveir lærisveinar Jesú (Jóns) hittast fyrir tilviljun og fara að rifja upp gamla tíma. Þessi saga er nöturleg frásögn þeirra Filipusar og Andrésar, sem biðu eftir upprisu meistara síns, sem aldrei reis upp. Skemmtilegur debatinn á milli þeirra þegar þeir reyna að rifja upp boðskap Jóns, og það er óhætt að segja að minnið svíkur, því þeir eru aldrei sammála um það sem Jóns hafði sagt.
Þetta er umhugsunarverð saga fyrir trúaða jafnt sem vantrúaða eða trúlausa. Hvað ef Jesús hefði ekki risið upp?
Hlustið endilega á nóbelsskáldið lesa söguna á slóðinni: http://www.gljufrasteinn.is/sound/braudhus.mp3
Það er hrein unun að hlusta á Laxness lesa söguna.

Bókabíus

mía lestrarhesturÉg var að ljúka við þrjár bækur eftir Gyrði Elíasson. Þetta eru bækurnar Bréfbátarigningin, Gula Húsið og Vatnsfólkið. Það er svo sannarlega óhætt að mæla með bókum Gyrðis við hvern sem er. Þessar þrjár bækur innihalda allar mjög einlægar smásögur, með undarlegri blöndu af endalausum einmannaleika og fegurð.

Annar höfundur sem aldrei er langt utan seilingar hjá mér er Ísak Harðarson. Þar er svo sannarlega snilldarljóðskáld á ferðinni. Ljóð hans tala alltaf til manns (auðvitað ekki alltaf þau sömu) og þar finnur maður vel fyrir öllum tilfinningaskalanum, þó athyglisverð blanda af depurð og trúarvissu einkenni oft ljóðagerð hans, og aldrei sé langt í magnaða kaldhæðni hjá honum. Ísak er ljóðskáld sem óhætt er að vísa fólki á, vanti þeim góða ljóðabók að glugga í.

Loks var ég að klára 4. umferð á Kristnihaldi undir jökli e. H.K.L. Þetta er ein af þeim bókum sem maður fær aldrei leið á og maður finnur alltaf eitthvað nýtt í. Þetta er í fyrsta skipti sem ég les hana eftir að ég fór í prestsskapinn og það er óhætt að segja að nú hafi komið enn einn vinkilinn á bókin.

Ég er að velta því fyrir mér að reyna að nota söguna "Eftir spennufallið", eftir Þórarinn Eldjárn í fermingarfræðslunni á næsta vetri. Þar er tilvísunin í paradísarfrásögn biblíunnar svo góð að það væri synd að sleppa þessari sögu. Þórarinn er reyndar enn eitt skáldið sem er í miklu uppáhaldi á heimilinu, og þá sérstaklega hjá mér og Míu, eldri dótturinni sem verður fimm ára í sumar. Hún veltist um af hlátri yfir mörgum barnaljóða hans, sem fullorðnir hafa reyndar allt eins gaman af að lesa.

Síðan má auðvitað geta þess að bók bókanna er auðvitað aldrei langt undan, þ.e. biblían. Þeir sem ekkert hafa gluggað í hana verða nánast ólæsir á aðrar bókmenntir. Þá er sama hvort heldur verið er að deila á eða lofa biblíuna, kristindóminn eða trúna.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband