Bókabíus

mía lestrarhesturÉg var að ljúka við þrjár bækur eftir Gyrði Elíasson. Þetta eru bækurnar Bréfbátarigningin, Gula Húsið og Vatnsfólkið. Það er svo sannarlega óhætt að mæla með bókum Gyrðis við hvern sem er. Þessar þrjár bækur innihalda allar mjög einlægar smásögur, með undarlegri blöndu af endalausum einmannaleika og fegurð.

Annar höfundur sem aldrei er langt utan seilingar hjá mér er Ísak Harðarson. Þar er svo sannarlega snilldarljóðskáld á ferðinni. Ljóð hans tala alltaf til manns (auðvitað ekki alltaf þau sömu) og þar finnur maður vel fyrir öllum tilfinningaskalanum, þó athyglisverð blanda af depurð og trúarvissu einkenni oft ljóðagerð hans, og aldrei sé langt í magnaða kaldhæðni hjá honum. Ísak er ljóðskáld sem óhætt er að vísa fólki á, vanti þeim góða ljóðabók að glugga í.

Loks var ég að klára 4. umferð á Kristnihaldi undir jökli e. H.K.L. Þetta er ein af þeim bókum sem maður fær aldrei leið á og maður finnur alltaf eitthvað nýtt í. Þetta er í fyrsta skipti sem ég les hana eftir að ég fór í prestsskapinn og það er óhætt að segja að nú hafi komið enn einn vinkilinn á bókin.

Ég er að velta því fyrir mér að reyna að nota söguna "Eftir spennufallið", eftir Þórarinn Eldjárn í fermingarfræðslunni á næsta vetri. Þar er tilvísunin í paradísarfrásögn biblíunnar svo góð að það væri synd að sleppa þessari sögu. Þórarinn er reyndar enn eitt skáldið sem er í miklu uppáhaldi á heimilinu, og þá sérstaklega hjá mér og Míu, eldri dótturinni sem verður fimm ára í sumar. Hún veltist um af hlátri yfir mörgum barnaljóða hans, sem fullorðnir hafa reyndar allt eins gaman af að lesa.

Síðan má auðvitað geta þess að bók bókanna er auðvitað aldrei langt undan, þ.e. biblían. Þeir sem ekkert hafa gluggað í hana verða nánast ólæsir á aðrar bókmenntir. Þá er sama hvort heldur verið er að deila á eða lofa biblíuna, kristindóminn eða trúna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband