Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Prestastefna 2007 - "Íslenska Synodan"

Prestastefna 2007 084Það hefur verið allnokkur umfjöllunin sem Prestastefnan á Húsavík hefur fengið. Þar er ekki allt sem fram kemur í fjölmiðlum sannleikanum samkvæmt. Á leið minni aftur heim til Eyja í gær keypti ég mér DV, þar sem ég sá að á forsíðu var fyrirsögnin "Kirkjan mismunar". Í greininni er sagt að tillaga 42 menninganna hafi verið kolfelld (sem er hárrétt), en "Prestastefna samþykkti hins vegar tillögu með 43 atkvæðum gegn 39 að prestar, sem það kjósa, megi vígja samkynhneigða í staðfesta samvist".  Hið rétta er að á Prestastefnu kom fram dagskrártillaga þar sem samþykkt var að vísa þessari tillögu til biskups og kenninganefndar. Tillagan sjálf fékkst aldrei rædd. En það á að fara fram skoðanakönnun um þessa tillögu á meðal presta.

Er nema von að fólk almennt sé hálfringlað í þessari umræðu, þegar ekki er hægt að gera þá kröfu til fjölmiðla að þeir fari rétt með.  Í þessu máli hefur það líka lengi tíðkast að tala í upphrópunum, það á við fólk úr báðum hópum. 

Niðurstaða margra samkynhneigðra í þessu máli er sú að færa eigi vígsluvaldið frá trúfélögum, þetta varð ég mjög var við þegar ég vann lokaritgerð mína í guðfræðinni og fékk afnot af gögnum á bókasafni Samtakanna 78. Þessi krafa er síðan að verða æ háværari hjá almenningi.

Það hefur mörgum prestum reynst erfitt að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í fjölmiðlum, sérstaklega vegna þess að oft er snúið út úr orðum þeirra og þeir stimplaðir sem fordómafullir afturhaldsseggir. Þess vegna hafi þeir frekað kosið að segja ekkert við fjölmiðla, enda er umræðan oft á tíðum ó-interessant fyrir megin þorra fólks, þar sem tekist er um guðfræðihugmyndir, trúfræði og annað sem er ekki hluti af dægurumræðunni. Fjölmiðlar vilja líka setja málið í þann farveg að úr verði kappræða, tvær fylkingar sem takast á oní skotgröfunum. En það er, þegar öllu er á botninn hvolft, engan vegin gott fyrir umræðuna og málið í heild sinni.

Þess vegna var fjölmiðlum ekki hleypt inn þegar umræður um þetta mál fór fram. Það er síðan ákaflega undarlegt þegar prestar koma fram í fjölmiðlum og kvarta annars vegar undan því að ekki hafi farið fram leyninleg atkvæðagreiðsla um tillögu 42 menninganna, og hins vegar undan því að byrgt hafi verið fyrir alla glugga og fjölmiðlum ekki hleypt inn. Ég kem þessu ekki heim og saman.

Prestastefna 2007 188Annars var prestastefna ákaflega góð að svo mörgu leyti. Menn voru heiðarlegir í umræðunni um ályt kenninganefndar, án þess að vera í einhverjum persónulegum væringum, það var gott. Síðan var þetta hið besta samfélag, og gaman að hitta kollega sína víðsvegar af landinu. Þess má síðan geta að "hin heilaga þrenning" hittist þarna aftur eftir alltof langt hlé. (Við vorum mikið saman í guðfræðideildinni: Ég, Hólmgrímur (héraðsprestur fyrir austan) og Ævar Kjartansson (útvarpsmaður). Við gengum reyndar undir nafninu "hin heilaga þrenning og Henning" því fjórði aðilinn var Henning Emil, sem búið hefur erlendis undanfarin misseri.

ATH Gíslína tók myndir sem fylgja bloggfærslunni. Hún var óþreytandi með vélina fyrir norðan, og tók margar góðar.


Fréttir af Prestastefnu

prestastefna-2007Ég hef setið mína fyrstu prestastefnu undanfarna daga. Þar var miklum tíma varið í umræðu um blessun yfir staðfestri samvist samkynhneigðra. Það var samþykkt og þar með gekk íslenska kirkjan mun lengra en aðrar kirkjudeildir í heiminum hafa lagt í að fara. Það er fagnaðarefni! Ég er sannfærður um að ef hópur 42 tveggja aðila hefði ekki komið fram með sína tillögu þá hefði ef til vill verið hægt að koma málefnum lengra áfram en raunin varð. 

Ég er heldur ekki allskosta sáttur við viðtal sem birtist við sr. Bjarna Karlsson í Fréttablaðinu þar sem hann grætur niðurstöðu prestastefnu og sakar þá sem ekki greiddu atkvæði með tillögunni um fordóma í garð samkynhneigðra, í þennan hóp skipar sr. Bjarni mér semsagt.  Þvílik fyrra, það vita allir sem mig þekkja og vita fyrir hvað ég stend.

Annars stóð ég í ströngu á minni fyrstu prestastefnu því ég var settur sem ritari prestastefnu ásamt þremur öðrum.

Ég kem til með að fjalla aðeins meira um prestastefnu seinna, en nú er ferðinni heitið aftur suður yfir heiðar með viðkomu í Fnjóskadalnum.

Á myndinni sem með fylgir sést ég lengst til hægri (reyndar ekki mjög áberandi)


mbl.is Tillaga um hjónavígslu samkynhneigðra felld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já nú er gaman!

qprStóru tíðindi dagsins eru þau að Q.P.R. tryggði sæti sitt í ensku 1. deildinni. Leeds tapaði og þar með er sæti minna manna öruggt. Eins og staðan er þá eru þeir í 18. sæti, sem er nú reyndar ekki sérlega glæsilegur árangur, en þó betri árangur en hjá þeim sem falla. Bendi á þessa slóð, þar er hægt að raula Q.P.R. slagara (þeir eru margir slagararnir sem eru klárlega bannaðir innan 18, eins og þessi hér) Gaman að sjá hversu mikill kærleikur er milli minna manna og Chelsea.

Já nú er gaman að vera Q.P.R.-maður, þó ég hafi reyndar sagt annað um daginn. Ég held að fyrir næsta tímabil ættu mínir menn að leyta hófanna á Íslandi varðandi fjármagn til leikmannakaupa. Það er víst ábyggilegt að nóg er til af fjársterkum aðilum sem vilja styðja við bakið á jafn merkilegu liði og Q.P.R.  Ég var til að mynda á bílasýningu Toyota hér í Eyjum í dag, þar var skrifað undir samstarfssamning á milli Toyota og ÍBV og Maggi Kristins klæddist að sjálfsögðu íþróttatreyju með númerinu 44. Frábært framtak hjá Magga, hann er trúr sínum uppruna og óþreytandi að styðja við bakið á góðum málum hér í Eyjum sem annars staðar.

Það er spurning hvort ég læði ekki þeirri hugmynd að Magga að Q.P.R. vanti góðan bakhjarl í framtíðinni (það er a.m.k. mun betri kostur en Stoke) Grin


Prestastefna á höfuðstöðvum samvinnuhugsjónarinnar

prestarNæstkomandi þriðjudag hefst prestastefna, sem að þessu sinni verður haldin á Húsavík. Það verður án efa gott að komast norður á heimaslóðir, þó auðvitað væri magnað að hafa prestastefnuna bara heima á Illugastöðum, en það er nú líklega heldur fjarlægur draumur. Það verður áreiðanlega nokkuð gaman að hitta hina fjölmörgu kollega víðsvegar af landinu og bera saman bækur. Það er vonandi að fólk gangi sátt frá borði eftir þessa prestastefnu, þó ég sjái það nú reyndar fyrir mér að svo verði ekki alveg. Annars förum við þrír félagarnir norður á strumpastrætóinum okkar Gíslínu, Ég, Óli Jói (sr. Ólafur Jóhann Borgþórsson) og Guðni Már (sr. Guðni Már Harðarson).

Það hefði verið gaman að sitja prestastefnu með sr. Pétri heitnum í Laufási. Við hittumst á prestastefnunni í Keflavík, þá var ég ekki enn orðinn prestur, en hann sagði að við myndum verða saman á prestastefnu eftir ár og þá yrði ég örugglega orðinn prestur. Það er enginn vafi að það er mikill missir fyrir kirkjuna að starfskrafta Péturs njóti ekki lengur við.

Það er vonandi að það gefist tími til að blogga um helsta slúðrir af prestastefnunni.


VG fjórfalda fylgi sitt í Suðurkjördæmi

Á forsíðu "Frétta" sem er vikublað okkar Eyjamanna er greint frá niðurstöðu skoðanakönnunar um fylgi stjórnmálaflokkanna. Það er að sjálfsögðu hið besta mál að niðurstöður slíkrar könnunnar, en þá verður fyrirsögnin að vera í samræmi við fréttina.

Að mínum dómi og flestra, ef ekki allra, sem ég hef talað við eru helstu tíðindin sú að VG fá, samkvæmt könnuninni, tvo kjördæmakjörna þingmenn, en höfðu engan áður, fara úr 5% í 17,4%. Næst stærstu tíðindin eru þau að Samfylkingin tapar tveimur þingmönnum, hafði fjóra, en fengi tvo. Sjallar bæta við sig einum, fá fjóra (Árni Johnsen kemur greinilega sterkur inn). Framsókn tapar öðrum sínum og aðrir fá engan.

Það sem mér finnst undarlegt við fyrirsögn fréttarinnar er að þeim á Fréttum þykja stærstu tíðindin vera að Sjallar fái fjóra menn og Samfylking tvo, í undirfyrirsögninni er síðan sagt að VG fái tvo og Framsókn einn. Ég held að menn hljóti að vera sammála um að stærsta fréttin er auðvitað sú að VG fái tvo þingmenn, jafnvel þó Sjálfstæðisflokkurinn eigi miklu fylgi að fagna hér í Eyjum.


Ég spái því að Q.P.R. bjargi sér frá falli (vonandi, kannski...)

Mínir menn virðast ætla að bjarga sér frá falli, þrátt fyrir tap gegn Sunderland í síðasta leik.  3 sigrar það sem af er apríl mánuði er jöfnun á besta "runni" tímabilsins frá því í nóvember, þá unnu þeir 3 leiki af 5 og töpuðu tveim.

Það eru þrír leikir eftir á tímabilinu hjá mínum mönnum: Cardiff heima, Úlfarnir úti og Stoke heima.  Þeir ættu að geta unnið Cardiff og Stoke og hefnt þar með taps í fyrri leiknum. En ég er hræddur um að Úlfarnir taki þá í kennslustund.  Ef þessi spá mín gengur eftir, sem byggist reyndar byggist meira á óskhyggju en nokkru öðru, þá eru þeir pottþéttir með sæti sitt í deildinni.

Annars varð ég fyrir áfalli í dag þegar dóttir mín, sem ég hef reynt að ala upp í Guðs ótta og góðum siðum, sagði mér að Q.P.R. væru ekki bestir, þeir væru alltaf síðastir, og framvegis myndi hún halda með Man.utd. en til var hefur hún Liverpool.  Já svo bregðast krosstré sem önnur tré.  Ég skrifa þetta reyndar á hópþrýsting úr leikskólanum og frá Eyjamönnum almennt.  Hvar er samstaðan með fjölskylduföðurnum? Samúðin með þeim sem minna mega sín í heimi fótboltans?

wilkins1Já það er sem ég segi það er erfitt að vera stuðningsmaður Q.P.R. í Eyjum. En bráðum kemur betri tíð með blóm í haga og sætum sigrum á sparkvöllum Bretlands (vonandi). Það er að verða ansi þreytandi að ylja sér við sjóð gamalla minninga og fornrar frægðar.


Landsfundur Sjálfstæðismanna ályktar um skólamál

SjálfstæðisflokkurinnÉg fékk þær upplýsingar af landsfundi Sjálfstæðisflokksins að komið hefði fram tillaga um að bæta í ályktunina um skólamálin að "hvers kyns starfsemi trúfélaga eigi ekkert erindi inní ríkisrekinn einkaskóla".

Það er skemmst frá því að segja að þessi tillaga var kolfelld.

Til hamingju með þetta Sjálfstæðismenn. Þetta sýnir okkur líka að það er verið að vinna mjög gott starf þar sem vinaleiðin hefur verið í gangi, þrátt fyrir hávær mótmæli einstakra manna sem hafa verið duglegir við að koma skoðunum sínum á framfæri í fjölmiðlum. Miðað við málflutning þeirra mætti ætla að þeir lytu svo á að prestar og djáknar sem starfa í vinaleiðinni séu að bjóða börnum eiturlyf, eða jafnvel þvinga eiturlyfjum inná þau. En svo er auðvitað ekki, enda hefur vinaleiðin margsannað gildi sitt, og krakkar leita mikið til þeirra sem að henni koma.

Enn og aftur: Flott hjá Sjálfstæðismönnum


Ég man...

DallasÉg man að á heimavistinni á Stórutjörnum máttum við bara horfa á sjónvarp einu sinni í viku, og bara einn þátt. Það fór fram atkvæðagreiðsla um það hvort horft yrði á sjónvarp á þriðjudagskvöldi (Derric) eða miðvikudagskvöldi (Dallas).  Ég man hvað ég var svekktur með úrslitin úr kosningunum þegar í ljós kom að Dallas hafði vinninginn.

Ég man að Bárðdælingar hlustuðu aðallega á "heavy metal", Grenvíkingar hlustuðu á Duran Duran og Kaja goo goo.  Ég man að ég og Sísa á Skarði vorum þau einu sem hlustuðum á Bubba.

Ég man þegar ég hætti að hlusta á Bubba.

Ég man þegar ég átti að standa fyrir kosningu á vinsælasta laginu fyrir árshátíð á Stórutjörnum og Sogblettir, Sykurmolarnir og Svart-hvítur draumur áttu vinsælustu lögin, og enginn kannaðist við að hafa valið þessi lög.  Ég man að ég var tekinn á teppið hjá skólastjóranum vegna þess að ég hagræddi úrslitum í kosningu á vinsælasta laginu fyrir árshátíð á Stórutjörnum.

Ég man þegar Þursaflokkurinn og Egó spiluðu á Stórutjörnum.

Ég man þegar farin var bíóferð í Lauga að horfa á myndina Tootsie. Ég man að ég sá eiginlega ekkert af myndinni því ég sat aftan við konu með afró-greiðslu.

Ég man þegar við kepptum við Grenvíkinga í borðtennis og töpuðum öllum leikjum mjög illa.

Ég man þegar ég lék Þvörusleiki á litlu-jólunum og fann hvergi þvöruna þegar ég kom inná sviðið og skeggið datt af mér.

Ég man þegar ég átti að fara með 2x-töfluna fyrir bekkinn og mundi ekki hvað 2x2 var.

Ég man að ég ætlaði að verða búðarkona þegar ég yrði stór. Ég man ég ætlaði að verða bóndi þegar ég yrði stór. Ég man ég ætlaði að verða eins og pabbi þegar ég yrði stór. Ég man ég ætlaði að verða prestur þegar ég yrði stór.


Grínarinn Þorvaldur Gylfason

Þorvaldur GylfasonÍ Fréttablaðinu í gær var pistill eftir Þorvald Gylfason á bls. 28. Þar fer hann mikinn í umfjöllun sinni um lausagöngu búfjár og hrossa. Gaman að sjá þessa skiptingu á búfénaði annars vegar og hrossum hins vegar. En það vantar alveg skilgreiningu á búfénaði hjá Þorvaldi. Ég stóð í þeirri meiningu að hross væru líka búfénaður, en Þorvaldur veit örugglega betur.

Annars er þessi grein alveg ótrúleg samsuða hjá Þorvaldi. Hann veður úr einu í annað. Byrjar á að fjalla um framboð umhverfisflokka, þaðan fer hann yfir í uppgræðslumál og tekur dæmi fólki sem hefur haft uppi varnaðarorð í 100 ár varðandi örfokaland. Síðan fjallar Þorvaldur um mengun og sóðaskap í landinu og er tekur dæmi af ófremdarástandi í þeim efnum í fjörunni við Skúlagötu og í miðbæ Reykjavíkur. Loks tekur hann dæmi af umfjöllun um lausagöngu búfjár. Þar finnst honum verst að fólk sé að hafa áhyggjur af því að "búfé og hross" (aftur þessi skipting) á þjóðvegum landsins auki slysahættu. Í lokin tekur hann fyrir Landgræðslu ríkisins og leggur síðan til að Landbúnaðarráðuneytið verði lagt niður.

Þetta er í stuttu máli pistill Þorvaldar. Þar kemur hann ekki fram með neinar staðreyndir máli sínu til stuðnings, heldur talar í klisjum og upphrópunum. Hvað hefur hann fyrir sér í þessum málum? Ég held svei mér þá að maðurinn sé að grínast með þessum pistli. Hvar er vandamálið? Hvar er uppblástur mestur, og af hverju?

Ég veit ekki betur en bændur séu að græða upp landið. Það eru fjölmargir bændur í starfi hjá Landgræðslunni einmitt við það verkefni að græða upp landið, og í langflestum tilfellum er beit stjórnað með ábyrgum hætti. Auðvitað er hægt að benda á svarta sauði í þessu máli eins og öðrum. Á sama hátt og hægt er að benda á vandaða pistla og óvandaða. Killer sheep

Það vandamál sem Þorvaldur talar um í pistli sínum var vissulega vandamál áður fyrrr, en hann hefur alveg gleymt að fylgjast með, því það er langt síðan farið var að taka á vandanum og það er her manns að vinna að landgræðslu.

Pistill Þorvaldar virðist mér álíka grátbroslegur og þegar Baldur Hermannson sagði í þættinum "þjóð í hlekkum hugarfarsins" að þess yrði ekki langt að bíða þar til sauðkindin færi að éta blágrýtið í landinu, því hún væri búin að éta upp allan annan gróður.


Sr. Hjörtur Magni - hinn eini sanni boðberi Krists á jörðu

Það er gott til þess að vita að hinn eini sanni boðberi kristinnar trúar skuli vera fundinn. Hann fannst í Fríkirkjunni í Reykjavík, þar sem hann lifir á engisprettum og villihunangi (eins og Jóhannes forðum). Það er nú eitthvað annað en Þjóðkirkjuprestarnir sem þjóna í hundruð miljóna musterum á góðum ríkislaunum, skv. því sem sr. Hjörtur Magni segir.  Sr. Hjörtur Magni mun útbreiða umburðarlindi úr prédikunarstól Fríkirkjunnar í Reykjavík alla sunnudaga, sem og á heimsíður Fríkirkjunnar í Reykjavík og hvar sem hann hefur tækifæri til.  Á meðan munu prestar Þjóðkirkjunnar halda áfram að þjóna í hinni "djöfullegu stofnun" sem Þjóðkirkjan er, svo notað sé orðalag sr. Hjartar Magna.

Þeir sem vilja fræðast meira um málið er bent á frétt á Stöð 2 og Kompásþátt frá 18 febrúar á sömu stöð.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband