Grínarinn Þorvaldur Gylfason

Þorvaldur GylfasonÍ Fréttablaðinu í gær var pistill eftir Þorvald Gylfason á bls. 28. Þar fer hann mikinn í umfjöllun sinni um lausagöngu búfjár og hrossa. Gaman að sjá þessa skiptingu á búfénaði annars vegar og hrossum hins vegar. En það vantar alveg skilgreiningu á búfénaði hjá Þorvaldi. Ég stóð í þeirri meiningu að hross væru líka búfénaður, en Þorvaldur veit örugglega betur.

Annars er þessi grein alveg ótrúleg samsuða hjá Þorvaldi. Hann veður úr einu í annað. Byrjar á að fjalla um framboð umhverfisflokka, þaðan fer hann yfir í uppgræðslumál og tekur dæmi fólki sem hefur haft uppi varnaðarorð í 100 ár varðandi örfokaland. Síðan fjallar Þorvaldur um mengun og sóðaskap í landinu og er tekur dæmi af ófremdarástandi í þeim efnum í fjörunni við Skúlagötu og í miðbæ Reykjavíkur. Loks tekur hann dæmi af umfjöllun um lausagöngu búfjár. Þar finnst honum verst að fólk sé að hafa áhyggjur af því að "búfé og hross" (aftur þessi skipting) á þjóðvegum landsins auki slysahættu. Í lokin tekur hann fyrir Landgræðslu ríkisins og leggur síðan til að Landbúnaðarráðuneytið verði lagt niður.

Þetta er í stuttu máli pistill Þorvaldar. Þar kemur hann ekki fram með neinar staðreyndir máli sínu til stuðnings, heldur talar í klisjum og upphrópunum. Hvað hefur hann fyrir sér í þessum málum? Ég held svei mér þá að maðurinn sé að grínast með þessum pistli. Hvar er vandamálið? Hvar er uppblástur mestur, og af hverju?

Ég veit ekki betur en bændur séu að græða upp landið. Það eru fjölmargir bændur í starfi hjá Landgræðslunni einmitt við það verkefni að græða upp landið, og í langflestum tilfellum er beit stjórnað með ábyrgum hætti. Auðvitað er hægt að benda á svarta sauði í þessu máli eins og öðrum. Á sama hátt og hægt er að benda á vandaða pistla og óvandaða. Killer sheep

Það vandamál sem Þorvaldur talar um í pistli sínum var vissulega vandamál áður fyrrr, en hann hefur alveg gleymt að fylgjast með, því það er langt síðan farið var að taka á vandanum og það er her manns að vinna að landgræðslu.

Pistill Þorvaldar virðist mér álíka grátbroslegur og þegar Baldur Hermannson sagði í þættinum "þjóð í hlekkum hugarfarsins" að þess yrði ekki langt að bíða þar til sauðkindin færi að éta blágrýtið í landinu, því hún væri búin að éta upp allan annan gróður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Sigurpálsson

Það er alveg hreint ótrúlegt hvað fólk getur endalaust ráðist á sauðkindina. Bændur gera góða hluti í uppgræðslu landsins. Ég hef séð bújörð þar sem búið er með um 350 kindur. Áður fyrr voru þar töluverðir ógrónir melar. Enginn þeirra er ber í dag. Þeir eru allir grasi grónir. Áður fyrr þurftu menn að vetrarbeita kindum. Það fór illa með gróður. Kindur voru fleiri þá en í dag.

 Í dag tekur gæðastýringin á því ef afrétt er ekki í bata og menn almennt meðvitaðri um uppgræðslu.

Ég held að fólk þurfi að kynna sér málin betur. Til dæmis eru greinar sem Herdís Þorvaldsdóttir hefur verið að senda í Morgunblaðið ótrúlegar. Hún virkar mjög óupplýst.

Jæja, ekki meira í bili og kveðjur til Eyja. 

Hilmar Sigurpálsson, 16.4.2007 kl. 01:28

2 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Það er gömul saga og ný að ef maður hrópar einhverja vitleysu nógu lengi og nógu hátt, þá verður vitleysan sönn í hugum fólks

Guðmundur Örn Jónsson, 16.4.2007 kl. 18:38

3 identicon

Prestur minn góður.

Orðasambandið „búfé og hross" er gömul og góð íslenzka líkt og „geitur og sauðfé" og „síld og fiskur". Til dæmis segir svo á vef samgönguráðuneytisins: „Í öðru lagi verður mikið lagt í að ná samkomulagi við sveitastjórnir hringinn í kringum landið og banna lausagöngu búfjár og hrossa." Hrossin eru tilgreind sérstaklega til að marka sérstöðu þeirra.

Þú segir um pistilinn minn um lausagöngu búfjár: „Þar kemur hann ekki fram með neinar staðreyndir máli sínu til stuðnings, heldur talar í klisjum og upphrópunum.“ Heldur þykir mér það óvarleg og umburðarlaus ásökun. Allar helztu staðreyndir málsins liggja fyrir og hafa legið fyrir mjög lengi. Þeim er t.d. lýst á gróðurkortum Ingva Þorsteinssonar náttúrufræðings, sem ég vísa til í pistlinum, og í nokkrum lærðum ritgerðum Halldórs Laxness frá ýmsum tímum, sem ég nefni einnig til sögunnar í pistlinum. Landgræðsla ríkisins viðurkennir vandann, eins og ég vek máls á í lok pistilsins, enda segir enn sem fyrr á vefsetri Landgræðslunnar: „Enn á sér þó stað hraðfara eyðing gróðurs og jarðvegs á Íslandi“. Þú segir, að ég hafi „alveg gleymt að fylgjast með“. Svo er ekki. Ég hef fylgzt gerla með uppblæstri landsins. Allir, sem þekkja til náttúruverndar, vita og kannast við, að helzti meinvaldurinn á bak við uppblásturinn er lausaganga búfjár og hrossa, enda er hún bönnuð með lögum um gervalla Evrópu utan Íslands.

Með kristilegri kveðju,

Þorvaldur Gylfason.

Þorvaldur Gylfason (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 20:36

4 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Gaman að fá viðbrögð frá Þorvaldi, og leiðréttingu á notkun orðasambandsins "búfé og hross". Ég þakka Þorvaldi fyrir það.

Ég held hins vegar að Þorvaldur, Herdís og fleiri sem fjallað hafa um þessi mál gleymi að taka stóra breytu með í reikninginn. Það er nefninlega fjöldi búfjár í dag miðað við t.d. fyrir 25 - 30 árum. Í minni "gömlu" heimasveit, Fnjóskadal, var sleppt á afrétt (þrír dalir innaf Fnjóskadal) c.a. 18.000 fjár. Í dag eru þetta nokkur þúsund, kannski 3000 (í mesta lagi 5000). Helstu vandræðin sem bændur horfa framá í þessari afrétt er sinan, en ekki uppblásturinn.

(Ég vona að sina sé ekki með "y", hef aldrei verið klár á því, en það kemur ekki að sök varðandi innihaldið)

Guðmundur Örn Jónsson, 18.4.2007 kl. 14:08

5 identicon

Sæll aftur, séra Guðmundur.

Við Herdís Þorvaldsdóttir fylgjumst vandlega með þróun bústofnsins, þú mátt treysta því. Sauðfé hefur fækkað síðan 1980, en samt er stofninn enn tæp hálf milljón, og það er óvenjulega há tala miðað við mannfjölda í svo hrjóstrugu landi, en hrossum hefur á sama tíma fjölgað um helming, og þau bíta grimmt. Uppblástursvandinn er óleystur enn, eins og Landgræðslan lýsir vel á vefsetri sínu.

Með beztu kveðjum,

Þorvaldur Gylfason.

Þorvaldur Gylfason (IP-tala skráð) 18.4.2007 kl. 18:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband