Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Ah Ching litla svikin

 Nú hefur verið nóg við að vera í tengslum við fermingar og páskahátíðina, þannig að bloggið hefur setið nokkuð á hakanum. En í gærkvöldi (Skírdagskvöld) var ég með prédikun í Landakirkju. Þar voru svik þeirra sem við treystum mest og best í brennidepli hjá mér.  Ég set hér litla frásögn inn sem ég fléttaði inní prédikuna:

KínaMig langar til þess að segja ykkur dálitla sögu frá Kína af þeim veruleika sem fólk þar í landi stendur frammi fyrir.  Þessi saga er eins og endurskyn af því þegar Júdas sveik Jesú.

 

Ah Ching er stúlka, sem býr í litlu þorpi í fjallahéruðum Kína.  Hún er alin upp hjá foreldrum sem elska hana ákaflega mikið eins og foreldrar gjarnan gera.  Nótt eina vaknar hún upp við það að teppi er haldið fyrir vitum hennar, svo þétt að hún getur varla andað.  Hún hrópar á móður sína eftir hjálp, og teppið er dregið af henni. 

Sér til mikillar furðu þá sér hún að sá sem reyndi að kæfa hana var faðir hennar, og hún fer að gráta og lofar föður sínum því að hún skuli vera góð stelpa. 

 

Daginn eftir flýr hún að heiman og leitar hælis hjá ömmu sinni og segir henni hvað hafi gerst.  Amma hennar verður svo sorgmædd að hún grætur yfir frásögn Ching.  Þegar dagur er að kvöldi komin þá býr gamla konan um Ching og býður góða nótt.  Um nóttina kemur amma hennar inn í herbergið, þar sem Ching liggur sofandi, og beytir öllum sínum kröftum til að kæfa barnabarnið sitt. 

 

Í þessari litlu sögu breytist allt eins og hendi sé veifað.  Þau sem hún treysti, voru þau sem síðan sviku hana

 

Að eignast stúlku í Kína getur þýtt endalok fjölskyldunnar og vegna þeirra takmarkana sem gilda í landinu varðandi barnafjölda er oft gripið til slíkra óyndisúrræða sem lýst var í þessari sögu.  Móðir Ah Ching bað jafnt á nóttu sem degi að hið ófædda barn yrði drengur og þegar lítil stúlka kom í heiminn grét móðir hennar bæði yfir örlögum sínum og dóttur sinnar, en einnig yfir örlögum fjölskyldunna. 

 

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að foreldrar Ah Ching  og fjölskyldan öll eru ekki vont fólk.  Þau eru ekki hin klassísku illmenni, heldur búa þau við allt annan veruleika en við hér á vesturlöndum.  Við getum ekki skilið þennan raunveruleika, en við erum mjög dugleg að fordæma.

 

Inn í þennan heim þarf fagnaðarerindið að geta talað.  Ef það getur ekki talað inn í þennan veruleika þá á það ekkert erindi til þessa fólks.  Allt tal um jafnrétti á vesturlöndum verður sem „hljómandi málmur eða hvellandi bjalla" því sá veruleiki sem stúlkur á þessum slóðum búa við varðar spurninguna um líf og dauða í bókstaflegri merkingu. 

Góðir hlutir gerast enn.

Gullberg VE 292Enn á ný höfðum við Eyjamenn ástæðu til að fagna (jú það er rétt, ég er farinn að tala um "okkur" Eyjamenn).  Ég fékk það ánægjulega verkefni að blessa hið nýja Gullberg og áhöfn þess.  Það er ekki langt síðan ég stóð í sömu sporum þegar ég blessaði Vestmannaey og áhöfn þess (það var 15. mars síðastliðinn).  Koma nýrra skipa hingað til Eyja fer að verða daglegur viðburður, því enn er von á fleiri nýjum skipum.

Það er magnað að fá að njóta þess heiðurs að blessa nýtt skip, og er ekki ósvipað skírn að því leyti að mikil gleði og eftirvænting er í loftinu.

Þegar ég kom til Eyja hafði ég nánast engann skilning á lífi fólks í sjávarplássi.  En afdalamaðurinn er allur að koma til og ég er farinn að gera mér einhverjar hugmyndir um það hvenær vertíð hefst og hvenær vertíð endar. Og það sem meira er ég átta mig orðið á því hversu mikill atburður það er þegar nýtt skip kemur í heimahöfn. (Kannski hægt að líkja því að nokkru við nýbyggð fjárhús eða fjós í sveitinni, sem er því miður næsta fáheyrður atburður nú til dags).

Það er gaman að fylgjast með því hversu duglegir Eyjamenn eru og nýtt skip og auknar greedybigaflaheimildir eru gott dæmi um það. Þar spilar mjög inní að þeir sem stjórna útgerðunum hafa enn þessa samfélagslegu ábyrgð. Þeir láta sig samfélagið varða og eru ekki tilbúnir að selja kvóta frá Eyjum í von um skjótfengann gróða. Þeir átta sig á því hver það er sem skapar gróða þeirra. Þessi hugsun er því miður hverfandi hjá þeim sem stjórna fyrirtækjum í landinu. Ég vann hjá slíkum mönnum fyrir norðan sem gengu undir nafninu "Kennedy-bræðurnir". Þeir áttuðu sig á ábyrgð sinni í samfélaginu og gáfu til baka, líkt og útgerðarmenn í Eyjum. Því miður höfum við horft uppá mörg fyrirtæki skilja eftir sig sviðna jörð í heilu byggðarlögunum af því að hægt var að græða örlítið meira með fækkun fólks, sameiningu og flutningi. Slíkir aðilar gleyma því hvaðan auður þeirra er kominn og hver það er sem hefur skapað hann, standa jafnvel í þeirri meiningu að þeir hafi skapað sinn auð einir og sér.  Það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar slíkir peningamenn stjórna fyrirtækjum.


mbl.is Nýtt skip til Vestmannaeyja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband