Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Pönk og prédikanir

Heiðar Ingi frændi minn og fóstbróðir var fertugur 18 janúar.  Að því tilefni hélt hann afmælisveislu, sem var með nokkuð öðru sniði en venja er.  Haldnir voru pönktónleikar í Laugarneskirkju, þar sem Blái hnefinn frá Akureyra pönkaði, og pönksveit afmælisbarnsins lék nokkur vel valin lög sem eru í uppáhaldi hjá honum Heiðari. Annað slagið voru gestasöngvara fengnir til að pönkast aðeins líka. 

Heiðar fékk mig til að flytja aðra af tveim prédikunum kvöldsins, hina flutti sr. Bjarni Karlsson.  Ég læt prédikun mína fylgja hér með, sem var nú reyndar venju fremur persónuleg, enda tilefnið nokkuð annað en hefðbundin sunnudagsguðsþjónusta.

Nú er prédikunin komin "óklippt" á síðuna. Njótið heil!

Kæri söfnuður, kæra afmælisbarn: Gleðilegt nýtt ár, og til hamingju með afmælið, árin 40.

Þegar afmælisbarnið hafði samband við mig og spurði hvort ég væri tilbúin að prédika í afmælinu, þá var ég ekki lengi að slá til, enda átti ég hreint ágæta prédikun í pokahorninu sem var alveg ónotuð, a,m.k. ágæta grunnhugmynd. 
Svipað og ágætur frændi minn, sem starfaði sem prestur og þegar kom að jólaprédikun þá átti hann ágætis prédikun á lager sem aldrei hafði verið flutt um haustið, vegna messufalls í ótíð.  Prédikunin byrjaði svona:  Kæri söfnuður, nú eru jólin og þið vitið nú allt um þau”.  Síðan vatt hann sér yfir í efni hinnar ónotuðu haustprédikunar þar sem hann tók haustannir sveitamanna föstum tökum og fjallaði að mestu um göngur, réttir og sláturtíð.

Það er sem ég segi það er óþarfi að láta góða prédikun ónotaða, ekki síst ef menn hafa lagt einhverja vinnu í hana.

Enn eitt árið hefur runnið sitt skeið og nýtt ár er gengið í garð.  Það kemur manni alltaf einhvernvegin á óvart þegar nýtt ártal kemur í ljós.  Við tekur klassískur ruglingur á ártölum frameftir nýju ári og svo loks þegar nýtt ár er einhvernvegin orðin hluti af manni sjálfum, þá kemur enn eitt árið.  Það er það sama sem gerist hjá manni þegar afmælisdögunum fjölgar, maður þarf ævinlega að hugsa sig tvisvar um þegar maður er spurður um aldur.

----

Það er ekki málið hvað maður getur, heldur hvað maður gerir, segir í hinu ódauðlega lagi “Tilfinning” sem Purrkurk pillnikk flutti fyrir margt löngu. Segja má að þessi orð hafa fylgt mér nánast allt lífið.  Það er nefnilega ótrúlegur sannleikur í þessum orðum sem hægt er að heimfæra uppá svo marga hluti.  Þessi orð krefja mann eiginlega um afstöðu, eða þá afstöðuleysi, sem er þá alveg sérstök afstaða út af fyrir sig. 

Einn af þeim mörgu mögnuðu ritningartextum biblíunnar, þar sem skýr afstaða til Guðs og fylgis við hann er tekin, er að finna í Jobsbók. En í Jobsbók segir frá samskiptum Jobs við Guð, þarna kemur líka inn hið fræga veðmál  sem átti sér stað á stað á himnum á milli Guðs og gamla bakarans, eins og Lúther kallaði djöfulinn. Jobsbók er raunasaga þess sem allt missir, en sættist að lokum við Guð og allt fer á betri veg.   Það er ekki nokkur vafi á því að allir geta fundið eitthvað einhversstaðar í Jobsbók sem þeir geta samsamað sig við, hvort sem það er í ræðum Jobs eða vina hans. 

Glíman við Guð, lífið og ekki síst glíman við okkur sjálf getur oft á tíðum verið nokkuð erfið, ekki síst ef við ætlum okkur að geraalla hluti sjálf án nokkurrar aðstoðar frá öðru fólki, og hvað þá án aðstoðar frá Guði.

Það er einmitt í þessu ljósi, - ljósi þessarar baráttu sem Job stóð í og sem við öll stöndum í, sem er svo gaman að sjá Heiðar Inga á þeim stað í lífinu sem hann nú er á, og kannski kann einhverjum líka að þykja undarlegt að sjá mig á þeim stað sem ég er á í dag.

Staðan er óneitanlega svolítið ólík því sem áður var, þegar við frændur stóðum í allnokkrum flísalögnum þegar ég kom suður og eins þegar hann kom norður.  

Fyrir þá sem ekki vita þá voru flísalagnir háþróað dulmál sem notað var í ákveðnum efnaviðskiptum á sínum tíma.  Að sjálfsögðu vorum við sannfærðir um að enginn skildi þetta magnaða dulmál.  En fyrir þá sem eitthvað þekktu til okkar þá hefur það nú hljómaði heldur undarlega að tveir menn með tíu þumalfingur stæðu í jafnmikilli flísalagningu og gefið var í skyn.

Hér áður fyrr vorum við að sjálfsögðu sannfærðir um að við gætum allt sem við gerðum og gerðum allt sem við gætum.  En það er með þetta eins og svo margt, þegar menn fara fram úr sjálfum sér að þá er það auðvitað býsna margt sem fólk veit ekki að það getur og annað sem það heldur að það geti, en getur alls ekki.

Það er svo undarlegt með það að við frændur höfum svo oft verið á svipuðum stað í lífinu, og eins og títt er um yngri fóstbræður, þá leit ég, og lít reyndar enn, allnokkuð upp til Heiðars. 

Það var t.d. Heiðar sem kenndi mér að meta pönk.  Ég man eins og gerst hafi í gær þegar ég heyrði pönk fyrst inní herbergi hjá honum heima á Illugastöðum.  Það liggur við að manni vökni um hvarma þegar maður hugsar til þessarar stundar. 
Ég fékk að vera inní herbergi hjá stóra frændanum, sem vissi allt og gat allt.  Og saman hlustuðum við á þá mögnuðustu tóna sem ég hafði á minni stuttu ævi heyrt.  Og kveðskapurinn var heldur ekkert slor.

Ég leyfi mér að bregða upp nokkrum áhrifaríkum myndum af þeim kveðskap sem fluttur var þarna í herberginu í sveitinni forðum, og feta þar með í fótspor frænda þegar hann veislustjórnaði brúðkaupi útí Eyjum nú á haustdögum:
Byrjum á nokkrum línum úr hinu ódauðlega lagi Augun úti með Purrkinum

Það er stórkostlegt
alveg meiriháttar
Liggur í augum úti

Það er meiriháttar
það liggur í augum úti

Það er frábært
Það er stórkostlegt
alveg meiriháttar, alveg hreint sjúkt!!!

Í niðurlaginu á Gleði, í flutningi sömu sveitar segir síðan:

Það er svo gaman
En svo kemst ekki í vinnuna fyrr en á
fyrr en á mánudaginn
mánudaginn

Í þessum ljóðlínum endurspeglast gleðin yfir lífinu, gleðin yfir hinu hversdagslega, eins og að mæta til vinnu á mánudegi.  Já, hér er sannleikurinn fundinn, hér stendur hann nakinn fyrir framan mann.  Ef til vill hefur sannleikurinn verið höndlaður í þessum orðum, orðin höndluð af sannleikanum eða sannleikurinn í orðunum höndlaður af sannleikanum, án þess að ég ætli að hætta mér að svo stöddu frekar útí þá háguðfræðilegu umræðu sem tekur á höndlun sannleikans.

Sannleikur málsins er hins vegar sá að líf Heiðars í dag er nokkuð ólíkt því sem áður var, ef til vill mætti segja að lífið í dag sé “alveg meirihátta”, og jafnvel “alveg hreint sjúkt”.  Það liggur alveg í augum úti.  Fullt hús af börnum, yndisleg kona, heimili sem er uppfullt af kærleika og ást og svo auðvitað rúsínan í pylsuendanum: Líf sem er grundvallað á trú á algóðan Guð.

Líf með Guði hefur alltaf staðið til boða, - í þeim málum hafa dyrnar aldrei verið lokaðar. 

-----

Í lífinu almennt höfum við heilmarga valkosti, við erum ekki leiksoppur örlaganna þar sem við siglum stjórnlaust að feigðarósi, ó nei.  Við höfum val um svo margt.  En þar með er ekki sagt að við framkvæmum allt það sem við getum, enda er í raun lítið gert með það sem við getum ef við fylgjum því ekki eftir með einhverskonar framkvæmd.

Lokaorð Jobs í glímu sinni við Guð eru ef til vill orð sem Heiðar Ingi, og svo margir kannast við, í glímunni við lífið og í glímu sinni við Guð, þar sem hann hefur oftar en ekki fengið að heyra það: Ég þekkti þig af afspurn, en nú hefir auga mitt litið þig!  Fyrir því tek ég orð mín aftur og iðrast í dufti og ösku.

Og þá kemur eiginleg spurningin sem hollt er að velta fyrir sér:  Fyrir hvað viljum við að þetta ár standi í lífi okkar?  Fyrir hvað munu næstu 40 ár í lífi þínu, Heiðar, standa?  Leiðin er opin, en það er okkar að taka af skarið og ákveða hvort það verði Guð sem vísa mun veginn og leiða okkur áfram.  Það er nefnilega ekki málið hvað maður getur heldur hvað maður gerir.

Og að lokum:
Pönkið lifir, ef algóður Guð lofar.
Amen.   

Myndir úr brúðkaupsveislu

Allnokkrir hafa komið að máli við mig og haft orð á því að engar myndir úr brúðkaupinu okkar Gíslínu hafi birst á blogginu.  Hér verður bætt úr því.

Við Mía sungum bæði í brúðkaupsveislunni.  Hljóðin sem komu frá brúðgumanum voru ekki alveg jafn hugljúfir og hjá dótturinni, svo vægt sé til orða tekið:

Myndir 119

Myndir 141


Heiðurskonan Ragnheiður Jónsdóttir

ragnheiður jónsdóttirEitt af mínum fyrstu prestsverkum hér í Eyjum var að jarða Ragnheiði Jónsdóttur, sem þá var elst allra eyjaskeggja, á 101. aldursári þegar hún dó. Þessi aldna heiðurskona var ern og hress alveg til síðasta dags og óhætt að segja að hún hafi verið vel með á nótunum. 

Þegar Ragnheiður varð 100 ára sagði hún t.d. að nú væri gaman að halda árgangsmót því hún væri pottþétt sú eina sem myndi mæta. 

Ragnheiður var einn af stofnfélögum Kvenfélags Landakirkju, stofnfélagi Félags eldri borgara og einnig stofnfélagi Slysavarnafélagsins Eykyndils og Rebekkustúkunnar Vilborgar hér í Eyjum.  Auk þess var hún virkur félagi í kvenfélaginu Líkn.  Þessi upptalning á félagsstörfum gefur manni nokkra hugmynd um hverslags manneskja var hér á ferðinni, en þrátt fyrir alla þessa félagsmálaþátttöku þá var Ragnheiður ekki kona sem barst mikið á, en henni var annt um samfélagið í Eyjum og eins samferðarfólk sitt.

Ég læt fljóta með vísukorn sem Ragnheiður samdi:

Þegar hógværð hrokann vinnur
og heimskan þegja kann,
þá en ekki fyrri finnur
fólkið sannleikann.

Góð vísa sem lýsir Ragnheiði vel og hennar viðhorfi til lífsins.  En Ragnheiður var alla tíð sannfærð um að lífið væri til þess að lifa því og njóta.  Enda sagði hún stuttu áður en hún lést að hún vildi óska þess að vera aftur orðin 70 ára stelpa, þá myndi hún stofna fyrirtæki og ferðast síðan fyrir innkomuna. 

Myndin af Ragnheiði er tekin af Sigurgeiri ljósmyndara þegar hún varð 100 ára.


mbl.is Elsti Íslendingurinn látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mínir menn kaupa sem aldrei fyrr.

QPRMínir menn byrja árið með miklum látum á leikmannamarkaðnum, þeir hafa nú þegar keypt 7 leikmenn til liðsins og þónokkur fjöldi annarra leikmanna er í sigtinu.

Þeir sem eru komnir eru:

Gavin Mahon frá Watford
Kieran Lee frá Man utd. (að láni)
Hogan Ephraim frá West Ham
Matthew Connolly frá Arsenal
Akos Buzaky frá Plymouth
Patrick Agyemang frá Preston
Fitz Hall frá Wigan

Það er síðan nánast frágengið að tveir til viðbótar komi í vikunni, en það er markmaðurinn Stefan Postma, sem var um tíma hjá Aston Villa, og 22. ára vængmaður frá Argentínu, Sebastian Ruscullade, en hann er á mála hjá argentínsku félagi, Tigre að nafni.

Svo eru einhverjar hugmyndir um að fá Dan Shittu aftur til félagsins, en hann fór eins og kunnugt er til Watford fyrir nokkrum misserum.  Einnig eru viðræður í gangi um að Martin Taylor komi til félagsins frá Birmingham. 

Ef allt gengur eftir ætti seinni helmingur tímabilsins að verða nokkuð betri en fyrri helmingurinn, sem reyndar endaði nokkuð vel því eftir tvo góða sigra er QPR nú komið í 18. sæti.  Unnu Watford nokkuð óvænt á útivelli 4-2 og svo var það 6 stiga leikur á móti Leicester sem vannst 3-1 heima á Loftus Road.


Gifting og þríburaskírn

Gleðilegt nýtt ár, langaði að taka aðeins fyrir atburð í desembermánuði.

15. desember síðastliðinn annaðist ég hjónavígslu og skírði þríbura.  Hjónin eru Hilmar, elsti og besti vinur minn, og Thelma, frænka hennar Gíslínu.  Þau eru bændur í Leyningi inní Eyjafirði. 

Um tíma virtist þetta ekki ætla að ganga eftir.  Gíslína ætlaði uppá land á fimmtudegi, með seinna flugi, en því var aflýst vegna veðurs.  Ég ætlaði uppá land með Herjólfi á föstudagsmorgni, en báðar ferðir Herjólfs féllu niður þann daginn og allt flug auðvitað líka.  Við komumst loks með flugi til R-víkur á laugardagsmorgni, en þá var seinkun á fluginu okkar norður um rúma tvo tíma.  Hlynur mágur kom okkur í annað flug, þannig að við komumst norður og keyrðum í botni inní Leyning (með viðkomu í Jólahúsinu í Vín, því ég gleymdi skírnarkertum í asanum).

Gifting og skírn gekk að óskum og sem betur fer var seinkun á flugi suður, þannig að við gátum notið smástundar með góðum vinum áður en við fórum suður í fertugsafmæli til Gunnu mágkonu (hennar Gíslínu).

Þríburarnir heita: Berglind Eva, Dagbjört Lilja og Kristján Sigurpáll.

***

Núna í dag var hátíðarmessa hér í Landakirkju.  Ég hafði samband við Óla Jóagóðan félaga og vin sem er prestur í Seljakirkju (og vestmannaeyingur í húð og hár) og fékk hann til að prédika í messunni.  Þetta er sami háttur og við höfðum á í fyrra í messu á nýársdegi, spurning um að skapa hefð.  Óli stóð sig að sjálfsögðu með prýði, eins og hans er von og vísa, og kirkjugestir voru ánægðir með að fá að heyra í honum í stólnum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband