Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Pókerspil á hverjum bæ.

Já það er alveg á hreinu að þetta þjóðþrifamál þarf að komast í höfn.  Ég get bara ekki á mér heilum tekið þegar ég hugsa til þess að póker skuli ekki vera löglegur á Íslandi.  Þegar þetta mál verður orðið að veruleika þá er nú lítið eftir til að berjast fyrir, nema þá auðvitað vínsölu í matvöruverslunum.  En þá eru líka öll vandamál okkar Íslendinga leyst, er það ekki?
mbl.is Pókersamband Íslands stofnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland, best í heimi

Ég er næsta viss um að staðan yrði eitthvað svipuð hér á landi og í Kanada. Þó ég viti reyndar ekki til þess að þeir sem sækja um ríkisborgararétt hér á landi þurfi að gangast undir svona próf. Þetta hefur ekkert með vitsmuni fólks að gera einsog ýjað var að á öðru bloggi, þar sem spurt er hversu margir Bandaríkjamenn myndu standast prófið. Auðvitað hljóta Bandaríkjamenn að vera vitlausir, það er a.m.k. skoðun sorglega margra Íslendinga.

Ég spjallaði við fólk um daginn sem lýsti furðu sinni yfir því hversu fáfróðir Bandaríkjamenn væru um Ísland. Ég spyr á móti af hverju ættu Bandaríkjamenn að vita eitthvað um Ísland? Við Íslendingar erum sjálf sek um að vita ekki nokkurn skapaðan hlut um margfalt stærri og fjölmennari lönd. Ekki eru Íslendingar t.d. fróðir um Afríkulöndin. Stundum virðist manni jafnvel sem litið sé á Afríku sem land en ekki heimsálfu.
Staðreynd: Ísland er land á hjara veraldar sem fæstir vita yfir höfuð að er til.


mbl.is Helmingur Kanadamanna of fáfróður til að mega vera Kanadamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón í Brauðhúsum

Ein af allra mögnuðustu smásögum sem ég hef lesið er "Jón í Brauðhúsum" eftir H. K. Laxness. Þetta áhrifamikil saga sem segir af því þegar tveir lærisveinar Jesú (Jóns) hittast fyrir tilviljun og fara að rifja upp gamla tíma. Þessi saga er nöturleg frásögn þeirra Filipusar og Andrésar, sem biðu eftir upprisu meistara síns, sem aldrei reis upp. Skemmtilegur debatinn á milli þeirra þegar þeir reyna að rifja upp boðskap Jóns, og það er óhætt að segja að minnið svíkur, því þeir eru aldrei sammála um það sem Jóns hafði sagt.
Þetta er umhugsunarverð saga fyrir trúaða jafnt sem vantrúaða eða trúlausa. Hvað ef Jesús hefði ekki risið upp?
Hlustið endilega á nóbelsskáldið lesa söguna á slóðinni: http://www.gljufrasteinn.is/sound/braudhus.mp3
Það er hrein unun að hlusta á Laxness lesa söguna.

Nú sefur Gestur rótt

Auðvitað koma það Gesti ekki á óvart að Jón Ásgeir yrði sýknaður, enda var hann sjálfur búinn að lýsa furðu sinni á því, í Kastljósi, að jafn áhrifamikill og ríkur maður eins og Jón Ásgeir væri sóttur til saka. Nú getur Gestur aftur sofið rólega í þeirri vissu að ríkir menn og valdamiklir verði aldrei aftur sóttir til saka. Það er auðvitað skandall fyrir þá sem hafa átt svo mikinn þátt í því að bæta hag landsmanna þurfi síðan að sitja á sakamannabekk. En því miður hefur þó sú ósvinna átt sér stað í sögunni, en vonandi að nú verði slíkt ekki endurtekið.
Ég mæli með því að komið verði á sérstöku lagakerfi fyrir hina ríku og valdamiklu, eða ríka og fallega fólkið.
Að öðru leyti hef ég enga skoðun á Baugsmálinu, enda algjörlega skoðanalaus maður.
mbl.is Gestur: „Vissulega átti ég von á að hann yrði sýknaður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lög og ólög

Ætli þeir sleppi ekki með skrekkinn, Sjallar í Hafnarfirði.  Ég ímynda mér að það mót sem haldið var 16. júní og lögreglan stoppaði, hafi ekki verið á vegum stjórnmálaflokks og því eðlilegt að slík ósvinna sé stöðvuð.  Allt öðru máli hlýtur að gegna um pókermót sem haldin eru á vegum stjórnmálaflokka, enda gjörþekkja menn á þeim bæ það laga- og regluverk sem frá Alþingi streymir.

Mæli með því að þegar menn ætla sér að fremja önnur lögbrot þá fái viðkomandi stjórnmálflokk í lið með sér þannig að það verði "löglegt".  Þannig sér maður t.d. fyrir sér mót í broti á skattalögum, mót í brotum á fiskveiðilöggjöfinni, smyglmót og svona mætti lengi telja.  Þannig kæmist Ísland í hóp löghlýðnustu ríkja á einfaldan hátt.

Svo má auðvitað velta því fyrir sér hvort ekki væri hreinlega eðlilegast að gjöra allt það sem ólöglegt er í dag, löglegt á morgun, en þá er auðvitað hætt við því að stjórnmálflokkarnir missi vægi sitt í samfélaginu.

Látum ekki einhverja lagabókstafi segja okkur hvað er löglegt og hvað ekki.


mbl.is Pókermót haldið hjá félagi ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meistari Megas og framhald á bljúgri bæn

Nú hefði verið gaman að eiga heimangengt og skella sér á tónleika með meistaranum. Ég hef verið aðdáandi Megasar lengur en ég man, fékk áhugann í vöggugjöf, ef svo má segja. Ég man að Gamli sorry Gráni var hafður í hávegum heima hjá afa og ömmu. Þá fannst mér nú eins og ömmu þætti hann bara ágætur, allavega þarna fyrst, en nú erum við afa einlægi aðdáendur, og reyndar eldri stelpan mín líka.

Ég hef ekki tölu á öllum þeim tónleikum sem ég hef sótt með meistaranum, en þeir eru mjööög margir, og alltaf jafn gaman og hressandi að skella sér. En ég hafði öðrum hnöppum að hneppa um helgina en að flandrast til Reykjavíkur á tónleika.

HjölliUm helgina var ég nefninlega að jarðsyngja heiðursmanninn Hjörleif Guðnason, Hjölla múr, á laugardaginn.  Það var mér bæði ljúft og skylt, enda þótti mér vænt um Hjölla. Ég kynntist honum nánast um leið og ég flutti til Eyja, en þá var hann búinn að vera á sjúkrahúsinu í þónokkurn tíma.  Líklega hefur honum fundist ég eitthvað umkomulaus, því hann tók mig eiginlega strax að sér og sagðist vita hversu erfitt það gæti verið að koma ókunnugur í nýjan stað.  En nálægt Hjölla fannst manni aldrei að maður væri á ókunnum stað, manni leið alltaf vel í návistum við hann, enda gaf hann mikið af sér.

Í útförinni var "Í bljúgri bæn" flutt, sem er mér ákaflega kært eins og svo mörgum, en með nýjum texta.  Megas söng einmitt "Í bljúgri bæn" einu sinni á tónleikum sem síðan voru sýndir á Sjónvarpinu, og það ætlaði allt um koll að keyra og margir hneyksluðust fyrir hönd Péturs í Laufási. Hins vegar var Pétur ekki hneykslaður, enda hafði Megas fengið leyfi hans til flutningsins. Þótti fluttningur Megasar á laginu fínn, mikil tilfinning og innlifun.  Textinn sem fluttur var í útförinni um helgina var kveðja frá Ingu, konu Hjölla.  Læt þennan fallega texta fylgja með.

Í bljúgri bæn og þökk til þín

ég þakka þér, ó ástin mín.

Fyrir öll þau ár er gafstu mér

mín gæfa var að kynnast þér.

 

Við gengum saman lífsins leið

sú leið var ekki alltaf greið.

Þó 60 ár séu liðin nú

þú ennþá átt mína ást og trú.

 

Nú ertu horfin ástin mín

já, mikið mun ég sakna þín.

Því bið ég Guð að geyma þig

uns þú á ný, umvefur mig.


mbl.is Góð stemmning á tónleikum Hjálma og Megasar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftöku frestað

Langaði að segja frá því að aftökunni, sem ég minntist á í síðustu færslu, var frestað nú í morgun.  Talið er að þau bréf sem Amnesty-félagar sendu hafi hjálpað mikið til í þessum efnum.  Líflátsdómurinn er þó enn í gildi.

"Vér mótmælum allir"

Líklega er þetta stærsti vandi Bandaríkjamanna í áróðursstríðinu við hryðjuverkin.  Fólk í þeim löndum sem þeir hafa ráðist inní í nafni frelsis og lýðræðis fær einfaldlega nóg.  Það fær nóg þegar saklaust fólk er drepið, það fær nóg þegar "mistök" hernámsliðsins kostar fjölskyldumeðlimina lífið. 

Þessar aðgerðir Bandaríkjamanna eru ekki þeirra einkamál, eins og þeir hafa oft látið í veðri vaka, því öll vesturlönd eru sett undir sama hatt, og ef til vill ekki að ósekju!  Við metum jú mannslíf vesturlandabúa mun meira en fólks annarsstaðar úr heiminum.  Mér dettur einmitt í hug lítil frétt af því þegar sagt var frá því að sjö börn hefðu látið lífið í sprengjuárás Bandaríkjamann í Afganistan.  Sama dag var mikil frétt um umferðarslys í Þýskalandi, að mig minnir, og þar var nú þónokkuð meira gert úr hlutunum.  Ég er ekki að halda því fram að lítið eigi að gera úr umferðaslysum, en mér þykir þó ástæða til þess að gera nokkuð úr því þegar sjö börn eru sprengd í loft upp.

Ég hef áður sagt það og segi það enn, að mannréttindi fólks má aldrei fótum troða, sama hver í hlut á og sama hvort sá sem brýtur þau er voldugur eða ekki.  Hér er ég ekki tala um eitthvert kjaftæði einsog það hvort það séu mannréttindi að fá að reykja inná skemmtistöðum eða ekki, heldur grundvallarmannréttindi sem varða hreinlega líf og dauða.  Langar í lokin að benda á ákall Amnesty um hjálp til handa pari frá Íran, sem á samkvæmt upplýsingum að grýta til dauða á morgun. Hægt að lesa nánar um það á amnesty.is.  Hvet ykkur endilega til þess að sinna þessu ákalli.


mbl.is 94 samtök mótmæla ofbeldi í Afganistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlilegur fórnarkostnaður?

afleiðingar stríðsins í AfganistanÞetta er ekki stór frétt á síðum blaðanna. En þetta er óhugguleg frétt og bara ein af mörgum sem komið hafa um barnamorð í stríðinu gegn hryðjuverkum.  Vandamálið við þetta svokallaða stríð er að óvinurinn er svo loftkenndur.  Það er nánast ógjörningur að hafa hendur í hári hans.

Bandaríkjamenn saka síðan hryðjuverkamennina um að nota börn sem skildi, og það er auðvitað skelfilegt þegar börnum er beitt á þann hátt í stríði.  En þó finnst mér jafn skelfilegt þegar menn kjósa að horfa framhjá þeirri staðreynd að börn eru notuð sem skildir, og sprengja bara samt.

Sama virðist vera uppá teningnum í Ísrael og Palestínu. Þar eru börn sett í framvarðasveit grjótkastaranna og hermenn Ísraela segjast ekki eiga neina aðra kosti en að skjóta þau.  Grjótkastari vs. hermaður með vélbyssu!!!

Það er skömm að þessu hryðjuverkastríði.  Þetta er skömm fyrir alla aðila málsins, ég sé engar málsbætur fyrir því að myrða saklausa borgara.  Hvort heldur menn sprengja sjálfa sig í loft um leið, eða beita hátækni stríðstólum.


mbl.is Sjö börn létu lífið í loftárás í Afganistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég þekki landsliðsþjálfarann!

Hér í Eyjum var haldið heilmikið fótboltamót, Pæjumótið, sem ég náði aðeins að fylgjast með, reyndar miklu minna en mig langaði til.  Þetta var mikil og góð skemmtun sem ÍBV eiga heiður skilið fyrir að standa að.  Mér heyrðist almennt þátttakendur, liðsstjórar og þjálfarar ánægðir með mótið.

Anna Margrét, frænka mín frá Neskaupsstað var að keppa og pabbi hennar (Arnar frændi) var þjálfari Þróttaraað austan og stóð sig með prýði eins og dóttirin.  Þróttur endaði í þriðja sæti meðal A-liða.  Á laugardeginum var síðan landsleikur þar sem úrval stelpna keppti sín á milli. Arnar var þjálfari landsliðsins sem keppti við pressuliðið og endaði leikurinn 3-3.  Þetta var opinn og skemmtilegur leikur og hin mesta skemmtun.

Miðað við þann tíma sem Arnar fékk til að undirbúa landsliðið (líklega einn klukkutími) þá verður þetta að teljast mjög góður árangur.  Mér sýnist á öllu að arftaki landsliðsins sé fundinn.  A.m.k. fær Arnar mitt atkvæði, en ég er auðvitað ekki hlutlaus.

Bendi á frábært blogg Guðna Más, skólaprests, um stöðu landsliðsins, þar sem hann tekur tölfræðina á málið.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband