Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Kjaftagangur á þingi

Nú er einmitt rétti tíminn til að velta málum vel fyrir sér, helst í marga daga áður en nokkuð verður gert. Það er nákvæmlega það sem þjóðin hefur verið að kalla eftir. Að þingmenn tali og tali þar til þeir verða rauðir í framan. Það á alveg örugglega eftir að redda fólki í erfiðleikum.

Ég hef aldrei verið hrifin af fólki sem talar í löngu máli það sem hægt er að segja í stuttu máli, gildir einu hvort viðkomandi er vinstri grænn eða sjálfstæðismaður. Það er þingheimi til minnkunar að beita málþófi eða óþarfa málalengingum þegar þjóðin er á barmi gjaldþrots. Og til að bíta höfuðið af skömminni þá eyða menn löngum tíma í að rífast um það hvort einhver tali mikið eða lítið.

Kannski er hér enn eitt dæmið um þá gjá sem myndast hefur milli þjóðar og þings.


mbl.is Saka sjálfstæðismenn um málþóf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saklaus uns sekt er sönnuð

Mér finnst orðatiltækið "saklaus uns sekt er sönnuð" alltaf hálf fáránlegt. Hvernig getur staðið á því að einhver sem gerir eitthvað rangt sé saklaus uns sekt hans er sönnuð?

Ef ég nú lem einhvern til óbóta þannig að viðkomandi örkumlast, er ég þá saklaus af því þar til það sannast með óyggjandi hætti að ég hafi lamið viðkomandi?  Ef ég stel pening er ég þá saklaus af stuldinum þar til það sannast að ég hafi stolið?

Nei aldeilis ekki, ég er alveg jafn sekur um verknaðinn hvort heldur það tekst að sanna hann á mig eður ei.

Þessi frasi er alveg ótrúlega mikið notaður nú um þessar mundir og það er hamrað á því að allir sem áttu að bera ábyrgð og þáðu fyrir það himinháar launagreiðslur bera engan ábyrgð á einu eða neinu af því að ekki hefur tekist að sanna með óyggjandi hætti að þeir hafi gert eitthvað rangt.

Þá spyr maður auðvitað: Fyrir hvað fengu menn borgað? Í hverju fólst ábyrgðin?

Ég þekki vel dæmi af manni sem eftir margra áratuga puð tókst að borga niður allar sínar skuldir. Þetta tókst honum með ráðdeildi og útsjónarsemi. Svo skellur kreppan á og hann missir vinnuna og fótunum er kippt undan honum. Hann sagði mér sjálfur að það borgaði sig einfaldlega ekki að vinna, slíkt væri eins og hver önnur fásinna. Eftir margra ára puð þá stæði hann uppi eignalaus og framtíðin vonlaus. Á meðan hinir saklausu og ábyrgu lifðu flott og gengju í digra sjóði sína í skattapardísum útí heimi.

Hver ber raunverulega ábyrgð þegar öllu er á botninn hvolft?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband