Barátturljóð

Langaði til að deila með ykkur stórbrotnu ljóði eftir Elías Mar. Það er nú kannski ekki beint bjartsýnis ljóð, en það sýnir vel þann tíðaranda sem það er sprottið uppúr. Sérstaklega finnst mér gott orðalagið: Berjizt ekki fyrir; berjist gegn. Það er kannski málið þegar öllu er á botninn hvolft, þetta eru kannski hugsjónir stríðsrekstrar og landvinninga. 


 

Berjizt þér, berjizt þér, djöflar og andskotar.
Borið glóandi töngum í naglkvikur og pyndið, pyndið.
Ímyndið yður að lífið
sé einkum og sér í lagi í því fólgið að hata.
Berjizt ekki fyrir; berjizt gegn.
Teljið yður trú um að sú stefna sé rétt
sem hótar að beita aflsmun. Dansið
í nautnþyrstu ofvæni kringum vetnissprengjuna, já
allar þær sprengjur sem bezt geta tortímt. Ræktið
eiturjurtir og sýkla óvinum yðar til matar. Hatið. 

Trúið því, að hugsjónir sigri eða láti sigrast með vopnum.
Sannlega mun reyk fórnarinnar bera við ský.
Sannlega mun nóttin verða sem dagur og
himinninn hverfa fyrir glampanum af þeim loga.
Sannlega mun eyðingin bera eilíft vitni um mikilleik yðar,
þér djöflar og andskotar. 

Öskrið og ærið.
Neytið valdsins til að sanna að þér hafið það.
Miskunnið ekki.
Eyðið hverir öðrum á báli yðar taumlausu villu.
Sama er mér.
---
Morguninn
eftir nótt tortímingar skal ég
þerra svitann af ennum yðar, þar sem þér
engizt af ótta við sólargeislann,
og færa yður vatn úr læknum þann morgun, 

og ég skal líkna Sigurvegaranum
hvar hann þreyttur liggur
í allri sinni smæð. 

Elías Mar 1951

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Arnar Guðmundsson

Þetta ljóð er náttúrulega tær snilld. Hvílík lesning.

Guðmundur Arnar Guðmundsson, 26.9.2007 kl. 12:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband