Listin að lifa af í kroppasýningarsamfélagi

Myndin Lystin að lifa, sem sýnd var á rúv á sunnudagskvöldið var mjög áhrifamikil og í raun mjög óhugguleg.  Að heyra og sjá þessa stúlku sem haldin var þessum skelfilega sjúkdómi, átröskun, var vægast sagt átakanlegt. 
Í guðfræðideildinni fjallaði ég um ímyndir og hugmyndir um kvenlíkamann í siðfræðikúrs sem bar heitið siðfræði og kvennagagnrýni. 

Í þessum kúrs tók ég fyrir umfjöllun um kvenlíkamann í biblíunni og einnig hvernig samfélagið sér kvenlíkamann.  Í hinni kristnu hefð var því oft haldið fram að allt holdlegt væri frá konum komið, sem hljómar nú reyndar fremur öfugsnúið í dag, enda voru það jú alltaf karlmenn sem héldu þessu fram.  Líklega hefur þetta komið til af því að það voru karlarnir sem héldu um alla stjórnartauma, en réðu (og ráða stundum ekki enn) við sjálfa sig þegar kom að því hvernig þeir hugsuðu um konur.  Þessar hugsanir hafa óhjákvæmilega oft reikað inná holdlega sviðið og því var lausnin sú að kenna konum um það hvernig þeir sjálfir hugsuðu um konur, og stundum voru konur hreinlega settar í hlutverk djöfulsins.

84En í þessum kúrs hitti ég tvær stúlkur sem höfðu þá nýverið tekið þátt í fegurðarsamkeppnum.  Annars vegar Ungfrú Ísland og hins vegar Ungfrú Ísland.is.  Önnur var ákaflega gagnrýnin á þessa keppni, en hin ekki eins, þó hún hefði vissulega komið auga á klárlega galla við þessa keppni.

Sú sem tók þátt í Ungfrú Ísland (hin hefðbundna fegurðarsamkeppni) var 175 cm og 52 kíló og henni leið ekki vel með það hversu horuð hún var orðin, en þarna voru stelpur sem þó voru þónokkuð léttari og horaðri en hún.  Stúlkurnar fóru í ræktina tvisvar á dag, og það var fylgst vel með því hvað þær létu oní sig.  Þær áttu að drekka mikið vatn, borða grænmeti og próteinstangir og þær voru umsvifalaust látnar vita ef skipuleggjendum og þjálfurum fannst þær ekki leggja sig 100% fram og öll frávik voru mjög illa séð.

Það undarlega við þetta allt saman er að þessi stúlka viðurkenndi fyrir mér að það væri allnokkur hætta á því að stelpurnar þróuðu með sér átröskunarsjúkdóma, og hún hafði heyrt dæmi um slíkt.  En þrátt fyrir það þá mælti hún algjörlega með svona keppni fyrir allar stelpur, því þetta væri svo gott tækifæri.

Hin stelpan sem ég ræddi við tók þátt í keppninni Ungfrú Ísland.is (Það var keppni sem auglýsti sig eitthvað annað og meira en hefðbundin fegurðarsamkeppni, en samt komu stelpurnar þrisvar fram á sundbolum fyrir dómnefnd).  Metnaður og sjálfstæði átti að skipta mun meira máli í þessari keppni en áður hafði verið, og sem dæmi um spurningar sem áttu að kanna metnað stúlknanna var: Lestu blöðin? Hvaða bók ertu að lesa? Hvaða bók lastu síðast?

94Í þessari keppni var sama áherslan á mataræðið og hinni hefðbundnu fegurðarsamkeppni, og stelpurnar voru skammaðar ef þær fóru ekki nákvæmlega eftir settum reglum.  Stelpan sem ég ræddi við þurfti ekki að létta sig, enda er hún ákaflega grönn, nánast horuð.  Þess í stað var henni hrósað fyrir það hversu grönn og fín hún væri.  Eins og í hinni fegurðarsamkeppninni var hamrað á því að þetta væri svo stórkostlegt tækifæri fyrir stelpurnar að þær ættu að þakka fyrir að fá að vera með.

Niðurstaða þessarar stúlku er í raun sú sama og hinnar, þ.e. að svona keppni sé hættuleg útfrá átröskunarsjúkdóma-sjónarhorni.  En hún komst hins vegar að því að hún gæti engan vegin mælt með því að stúlkur tækju þátt í svona keppni, því hættan er svo mikil á átröskun.

Ef til vill er það umhugsunarefni fyrir okkur á vesturlöndum að við séum svona upptekin af fegurðarsamkeppnum.  Er þetta ekki bara viðurkenning á því að þær stúlkur sem taka þátt í svona keppni séu góðir kvenkostir?
Ef svona keppni er gott tækifæri, þá hlýtur maður að spyrja sig: tækifæri til hvers?  Tækifæri til að peppa upp sjálfstraustið?  Tækifæri til að hitta fólk?


Er fegurðarsamkeppni ekki bara ákveðið stöðutákn millistéttarinnar?  Er þetta ekki bara bölvaður smáborgaraháttur?  Ef svo er, er þá ekki rétt að viðurkenna hvað þessar keppnir eru í raun og veru og ekki tala um þær sem hæfileikakeppni, eða eitthvað annað en kroppasýningu?  Þá er þetta bara kroppasýning og ekkert annað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Algjörlega frábær pistill!! Takk fyrir, ég er svo sammála þér Guðmundur Örn! Ég er svo á móti þessum keppnum og það sem er alvarlegt að svona keppnir eru erlendis fyrir stúlkur niður í það að vera nánast smábörn. Það er skelfilegt og viðmiðin sem eru þarna eru svo brengluð og maður veltir hreinlega fyrir sér eins og þú gerir......í hverju felst hið stórkostlega tækifæri ef að svelti er forsendan fyrir árangri....!

Sunna Dóra Möller, 16.10.2007 kl. 10:52

2 Smámynd: Einar Ben Þorsteinsson

Erum við þá að tala um það að fegurðarsamkeppni sé stór breyta í átt að því að valda búlemíu? Held ekki. Samkvæmt þættinum er búlemía geðsjúkdómur - stuðlar fegurðarsamkeppni þá að geðsjúkdómum?

Einar Ben Þorsteinsson, 16.10.2007 kl. 12:40

3 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Ég er ekki að halda því fram að fegurðarsamkeppni sé STÓR breyta í að valda átröskun, en þarna er svo sannarlega um breytu að ræða. 

Það er einmitt málið Einar.  Átröskun getur verið áunnin, byrjað með fikti við að kasta annað slagið upp, en síðan flækist viðkomandi í þessu skelfilega neti og getur ekki snúið til baka.  Þessi línudans sem stiginn er í kringum þessar keppnir er oft á tíðum æði hættulegur. 

Átröskun er svo lúmskur geðsjúkdómur, eins og kom fram í myndinni og eins og ég hef kynnst betur en ég í raun hefði kært mig um (þó ekki persónulega á sjálfum mér, svo því sé nú haldið til haga).  Þess vegna er þessi fegurðarleikur oft svo hættulegur.

Guðmundur Örn Jónsson, 16.10.2007 kl. 14:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband