Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Gifting samkynhneigðra

Hér er um mjög stórt mál að ræða.

Nú er ég prestur í þjóðkirkjunni (sem sr. Hjörtur Magni Fríkirkjuprestur myndi kalla "djöfullega stofnun") og þar er einmitt þetta mál ákaflega mikið rætt innan prestastéttarinnar, og óhætt að segja að sitt sýnist hverjum.

Málið er þó í ákveðnum farvegi og vonandi fæst einhver niðurstaða í málið á prestastefnu sem haldin verður í apríl norður á Húsavík.

Það væri fróðlegt að framkvæma skoðanakönnun meðal þjóðkirkjufólks, um afstöðuna til þessa máls, til þess að fá úr því skorið hvar fólk stendur í málinu. Þó þyrfti á einhvern hátt að tryggja öfgalausa umræðu áður, þar sem öll sjónarmið fengju að koma fram, án upphrópana eða særinda.

Oft hefur umræðan verið með þeim hætti að hún er öllum málsaðilum til háborinnar skammar og gýfuryrði hafa fokið, og fólk nánast verið tekið af lífi.

Það væri gaman að heyra hvar gestir bloggsins standa í þessu máli.


mbl.is Svíar líklega fyrstir þjóða til að gifta samkynhneigða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álver eða moldarkofar?

Mikið yrði það sorgleg niðurstaða ef Hafnfirðingar myndu samþykkja stækkun álvers. Niðurstaða þessarar kosningar er í raun ekki einkamál Hafnfirðinga. Því þeir verða að fá orku í álverið annarsstðar frá, ekki framleiða þeir rafmagnið í Hafnarfirði.

Þessi staða sem upp er komin í Hafnarfirði getur komið upp allstaðar þar sem álver eru. Eigendur segja: "við viljum stækka um helming, og ef það gengur ekki þá erum við bara farnir."  Þetta tangarhald sem álversrisarnir hafa á hverju samfélagi fyrir sig er óhuggulegt.

Hvað gerist ef Reyðarál vill stækka um helming eftir fimm ár? Þá hóta þeir auðvitað bara að fara ef þeir fá ekki að stækka.

Ég trúi því ekki að Húsvíkingar og gamlir sveitungar úr Þingeyjarsýslu vilji í alvöru vera háðir dutlungum einhvers álrisa út í heimi. Þingeyingar hafa hingað til ekki verið tilbúinir að sitja og standa einsog þeim er sagt, heldur frekar þegar þeim hentar. En ef þeir samþykkja álver þá eru þeir búnir að framselja ákveðið vald yfir sjálfum sér úr landi.

Fyrirsögnin hjá mér er tilvísun í ofnotaða tuggu sem álverssinar hafa haldið mikið á lofti. Í þeirra huga er enginn millivegur: Annað hvort fáum við álver eða við förum aftur í moldarkofana. Það sjá allir rökleysuna í þessari fullyrðingu. Á sama hátt gæti ég sagt: Ég hef um tvennt að velja að kaupa bíl uppá 10 milljónir eða hest, enginn millivegur, allt eða ekkert. Lífið er ekki svart eða hvítt.

Ég hvet Hafnfirðinga til að láta reyna á þessa hótun álversins í Straumsvík. Þetta er verðmætt land sem yrði eftirsótt ef álverið færi. Ég hef reyndar ekki nokkra einustu trú á því að álverið fari, því verðið sem þeir greiða fyrir raforkuna er það lægsta sem þekkist á byggðu bóli.


mbl.is Fleiri með en á móti álversstækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt skip til Eyja

Það er stór dagur hér í Eyjum. Ný Vestmannaey VE 444 lagðist að bryggju áðan. Það var tignarlegt að sjá þrjú skip Bergs - Hugins sigla inn höfnina: Nýju Vestmannaey, gömlu Vestmannaey og Smáey.

Maggi Kristins fór þess á leit við mig að ég blessaði hið nýja skip og var það mér bæði ljúft og skylt. Þetta var góð stund þar sem allir viðstaddir fóru m.a. með gamla sjóferðarbæn sr. Odds V. Gíslasonar.

Það er nú ekki laust við að manni finnist maður eiga eitthvað í skipinu eftir svona athöfn, enda skiptir blessun skips miklu fyrir sjómenn.

Nú ríkir mikil bjartsýni hér í Eyjum eftir góða loðnuvertíð og nýtt skip. Þess má síðan geta að önnur tvö ný skip eru á leiðinni til Eyja á næstunni.  Hér láta menn verkin tala og láta engan bilbug á sér finna, þó oft blási reyndar á móti.vestmannaey VE 444

Ég læt sjóferðarbæn sr. Odds fylgja hér með.

 

 

 

Sjóferðarbæn við blessun Vestmannaeyjar VE 444   

Í nafni Guðs, föður, sonar og heilags anda.

Almáttugi Guð, ég þakka þér að þú hefur gefið mér líf

og heilsu svo að ég geti unnið mín störf í sveita míns andlits.

 

Drottinn minn og Guð minn. Þegar ég nú ræ til fiskveiða

og finn vanmátt minn og veikleika skipsins

gegn huldum kröftum lofts og lagar,

þá lyfti ég upp til þín augum trúar og vonar

og bið þig í Jesú nafni að leiða oss á djúpið,

blessa oss að vorum veiðum og vernda oss,

að vér aftur farsællega heim til vor náum

með þá björg, sem þér þóknast að gefa oss.

 

Blessa þú ástvini vora, og leyf oss að fagna aftur

samfundum, svo vér, fyrir heilags anda náð,

samhuga flytjum þér lof og þakkargjörð.

 

Ó, Drottinn, gef oss öllum góðar stundir,

skipi og mönnum í Jesú nafni. Amen.

 


Græðgi á græðgi ofan

Mér þótti merkileg ummæli Björgúlfs (yngri) um daginn þegar hann hótaði því að fara með alla starfsemi Straums - Burðarás úr landi ef þeir fengju ekki að gera upp í evrum, eða hvaða gjaldmiðli svo sem þeim hentar. 

Maður hlítur að velta fyrir sér ábyrgð þessara miklu peningamanna í samfélaginu.  Ekki urðu þeir svona ríkir af sjálfu sér.  Ó nei, þeirra ríkidæmi varð til í ákveðnu samhengi, í ákveðnu samfélagi, við ákveðnar aðstæður.  Ábyrgð þeirra er mikil, og að hóta því að fara með allt úr landi, ef menn standa ekki eða sitja eins og þeir vilja, er ábyrgðarlaus talsmáti og í hæsta máta undarlegur.  Það er eins og hvert annað kjaftæði að halda því fram að fyrirtæki standi á heljarþröm ef þau fá ekki að gera upp í evrum, það sjáum við öll ef afkomutölur eru skoðaðar.

Þessi miljarða fyrirtæki bera mikla samfélagslega ábyrgð, því það er almenningur sem hefur í raun skapað þennan mikla gróða, án almennings eru þessi fyrirtæki ekki neitt.

Sennilega eiga orð Mahatma Gandhis vel við miljarðamæringa sem svona tala: "Heimurinn hefur nóg til að fullnægja þörfum manna en ekki græðgi þeirra."


Að spila bingó, eða ekki spila bingó?

Í sjálfu sér get ekki séð neitt athugavert við að fólk spili bingó, fari á böll, eða geri svo sem hvað annað yfir hina kristnu helgidaga. En ef við eigum að sleppa því að halda í  þessa daga sem helga daga, þá hlítur það að koma að sjálfu sér að vinnuveitendur hætta að gefa frí á þessum dögum, er það ekki? Til hvers að halda í frí á dögum sem tengjast ákveðinni helgi ef fólk lítur ekki á þá sem helgidaga? Fólk verður að velja og hafna.

 


mbl.is Bannað að spila bingó á ákveðnum tímum um páska
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugrenningar

útför Péturs2

Eftir útför sr. Péturs í Laufási finn ég enn meira fyrir einhverskonar landleysi.  Segja má að ég sé búinn að þekkja Pétur allt mitt líf, því ég var bara þriggja ára þegar hann kom í Háls. Og ég finn það í dag hversu ótrúlega mikið ég sakna Péturs. Ég á eftir að sakna hans góðu ráða í prestsskap mínum, enda ber hann að nokkru leyti ábyrgð á því að ég valdi þessa leið í lífinu, og eins ber hann beina ábyrgð á mér því hann "skrifaði uppá" að ég væri hæfur til prestsþjónustu að starfsþjálfun lokinni.

Pétur var alveg ótrúlega heilsteyptur maður og stundum velti maður því fyrir sér hvernig hann kæmist yfir allt það sem hann komst yfir. Eins og Karl biskup sagði í minningarorðum um Pétur þá var Pétur líklega með heilbrigðari mönnum sem maður kynnist, þrátt fyrir fötlun sína.  Þetta fannst mér skrýtið að heyra "Pétur fatlaður".  Ég man ekki eftir að hafa séð Pétur nokkurn tíman sem fatlaðan mann.  Það er einsog verið sé að tala um einhvern allt annan einstakling þegar talað er um Pétur sem fatlaðan. Framkoma hans og viðhorf var með þeim hætti að maður sá fyrst og fremst manneskjuna Pétur, gefandi, huggandi, nærandi.

Pétur snerti líf mitt, og margra fleiri, með alveg sérstökum hætti. Trúin sem hann hafði á manni, jafnvel á því tímabili þegar flestar brýr höfðu verið brenndar, var engri lík.  Hann hafði sérstakt lag á því að umgangast samferðarmenn sína sem jafningja og láta manni finnast maður vera ákaflega merkileg persóna. Á þann hátt ber líf Péturs frelsaranum sérstakt vitni. 

Ég þakka Guði fyrir að hafa fengið að kynnast Pétri og ég bið góðan Guð að blessa og styrkja Ingu, Þórarinn, Jónka, Heiðu, tengdabörnin og barnabörnin þegar þau feta sig eftir sorgarstígnum


Fyrsta færslan

"Hún varaði sig ekki á því að kaupstaðarfólk lætur ýmislegt fjúka sem ekki þætti þrauthugsað til dala." (Halldór Kiljan Laxness, Sjálfstætt fólk)

Dalamaður signar sig inn.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband