Hugsað til baka

Sat hér í þönkum mínum í hádeginu og var að velta því fyrir mér hvað gamlir skólafélagr frá Stórutjörnum eru að gera í dag. Ég hef aðeins verið að velta þessu fyrir mér síðan við Gíslína fórum norður á jarðarför sr. Péturs í Laufási, því í erfidrykkjunni hitti ég mörg minna gömlu skólasystkyna.

Það er óhætt að segja að gamlir vinir og félagar hafa farið í ólíkar áttir.  Nokkrir eru bændur, þó alls ekki margir miðað við það að þegar við vorum "sperlar"* þá ætluðum við allir að verða bændur. Í þessum hópi eru vélstjórar, sálfræðingur, smiðir, tamningamaður, verkfræðingur, garðyrkjufræðingur, tölvuséní, framkvæmdastóri og fleira.

Það merkilega við þessa upprifjun er hvað það eru sorglega margir af gömlum bekkjar-og skólafélögum sem ég hef enga hugmynd um hvað eru að gera í dag, og hef jafnvel ekki hugmynd um hvar eru staðsett í heiminum. Ég veit þó að allnokkrir ala manninn í danaveldi og ein í Bandaríkjunum.

Það er merkilegt að hugsa til þess að þetta er fólk sem maður var í miklu samneyti við í mörg ár, jafnvel allan sólarhringinn, því ég var í heimavist frá 9 ára aldri og til loka grunnskólagöngu, skuli svona algjörlega hverfa - gufa upp úr lífi manns. Einhvernveginn hélt maður að það myndi aldrei fenna yfir sporin, en svo vaknar maður upp við að maður veit ekkert um margt af þessu fólki.

*sperlar = Á Stórutjörnum var alltaf talað um litlu krakkana í skólanum sem sperla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband