Færsluflokkur: Bloggar

Mínir menn kaupa sem aldrei fyrr.

QPRMínir menn byrja árið með miklum látum á leikmannamarkaðnum, þeir hafa nú þegar keypt 7 leikmenn til liðsins og þónokkur fjöldi annarra leikmanna er í sigtinu.

Þeir sem eru komnir eru:

Gavin Mahon frá Watford
Kieran Lee frá Man utd. (að láni)
Hogan Ephraim frá West Ham
Matthew Connolly frá Arsenal
Akos Buzaky frá Plymouth
Patrick Agyemang frá Preston
Fitz Hall frá Wigan

Það er síðan nánast frágengið að tveir til viðbótar komi í vikunni, en það er markmaðurinn Stefan Postma, sem var um tíma hjá Aston Villa, og 22. ára vængmaður frá Argentínu, Sebastian Ruscullade, en hann er á mála hjá argentínsku félagi, Tigre að nafni.

Svo eru einhverjar hugmyndir um að fá Dan Shittu aftur til félagsins, en hann fór eins og kunnugt er til Watford fyrir nokkrum misserum.  Einnig eru viðræður í gangi um að Martin Taylor komi til félagsins frá Birmingham. 

Ef allt gengur eftir ætti seinni helmingur tímabilsins að verða nokkuð betri en fyrri helmingurinn, sem reyndar endaði nokkuð vel því eftir tvo góða sigra er QPR nú komið í 18. sæti.  Unnu Watford nokkuð óvænt á útivelli 4-2 og svo var það 6 stiga leikur á móti Leicester sem vannst 3-1 heima á Loftus Road.


Gifting og þríburaskírn

Gleðilegt nýtt ár, langaði að taka aðeins fyrir atburð í desembermánuði.

15. desember síðastliðinn annaðist ég hjónavígslu og skírði þríbura.  Hjónin eru Hilmar, elsti og besti vinur minn, og Thelma, frænka hennar Gíslínu.  Þau eru bændur í Leyningi inní Eyjafirði. 

Um tíma virtist þetta ekki ætla að ganga eftir.  Gíslína ætlaði uppá land á fimmtudegi, með seinna flugi, en því var aflýst vegna veðurs.  Ég ætlaði uppá land með Herjólfi á föstudagsmorgni, en báðar ferðir Herjólfs féllu niður þann daginn og allt flug auðvitað líka.  Við komumst loks með flugi til R-víkur á laugardagsmorgni, en þá var seinkun á fluginu okkar norður um rúma tvo tíma.  Hlynur mágur kom okkur í annað flug, þannig að við komumst norður og keyrðum í botni inní Leyning (með viðkomu í Jólahúsinu í Vín, því ég gleymdi skírnarkertum í asanum).

Gifting og skírn gekk að óskum og sem betur fer var seinkun á flugi suður, þannig að við gátum notið smástundar með góðum vinum áður en við fórum suður í fertugsafmæli til Gunnu mágkonu (hennar Gíslínu).

Þríburarnir heita: Berglind Eva, Dagbjört Lilja og Kristján Sigurpáll.

***

Núna í dag var hátíðarmessa hér í Landakirkju.  Ég hafði samband við Óla Jóagóðan félaga og vin sem er prestur í Seljakirkju (og vestmannaeyingur í húð og hár) og fékk hann til að prédika í messunni.  Þetta er sami háttur og við höfðum á í fyrra í messu á nýársdegi, spurning um að skapa hefð.  Óli stóð sig að sjálfsögðu með prýði, eins og hans er von og vísa, og kirkjugestir voru ánægðir með að fá að heyra í honum í stólnum.


Ævar er afruglari.

Gaman að sjá að Ævar, skólabróðir minn úr guðfræðinni, skuli fá viðurkenningu Alþjóðahússins.  Það er morgunljóst að Ævar er vel að þessu kominn, enda varla til réttsýnni og jafnframt víðsýnni maður.  Tíminn með Ævari í guðfræðinni var alveg einstaklega góður, hann er einn af þessum mönnum sem maður kynnist á lífsleiðinni sem eru alveg einstaklega gefandi.  Sýn Ævars á hin ólíkustu mál er svo fersk, meira að segja gamalreyndir prófessorar lærðu heilmikið af því að kenna Ævari, heimspekingar sem guðfræðingar. 

Ég er því ákaflega þakklátur að hafa fengið að kynnast Ævari og geta fengið að kalla hann vin.  Þeir eru nokkrir sem maður kynnist sem eru nokkurskonar afruglarar á líf manns.  Ævar er slíkur afruglari.  En hann er ekki síður afruglari á þjófélagið og það er ég viss um að margt væri hér í betra horfi ef fólk almennt kysi að "nýta" sér slíka afruglara.

Til hamingju enn og aftur Ævar


mbl.is Viðurkenning Alþjóðahúss afhent
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Margrét Lára!!!

Stórglæsilegur árangur hjá Eyjakonunni Margréti Láru.  Hvernig ætli standi á því að Margrét Lára sé kjörin íþróttamaður ársins, en ekki kjörin besta knattspyrnukonan í kvennaboltanum?

Spyr sá sem ekki veit.


mbl.is Margrét Lára: Mesta viðurkenningin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Botnlaus virðing fyrir sjómönnum

Í gær fór ég á fína tónleika hér í Eyjum, þessir tónleikar voru haldnir til minningar um þá Eyjamenn sem farist hafa á sjó og hrapað frá árunum 1977 - 1988.  Þarna komu fram margt fínt tónlistarfólk og höfðum við Gíslína mjög gaman af.  Inná milli atriða voru nöfn þeirra sem farist hafa lesin upp, og farið aðeins yfir hvert sjóslys fyrir sig.  Auk þess var myndum af sjómannslífi varpað upp á vegg og myndum af þeim sem farist hafa.

Kveikjan að þessum tónleikum var Helliseyjarslysiðárið 1984, en þá fórst Hellisey VE 503 þann 11. mars c.a. 5 km. fyrir austan stórhöfða. Með Hellisey fórust fjórir á aldrinum 19-20 ára.  Einn komst lífs af og synti í land alla þessa leið í svarta myrkri.

Þetta var áhrifamikil stund og góð.  Sjóskaðar snerta alla hér í Eyjum á einn eða annan hátt, og það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir marga þegar þessir atburðir voru rifjaðir upp á svona samkomu, en þetta var allt vel gert og hlutirnir sagðir eins og þeir voru.

Kynnir kvöldsins, Páll Scheving, sá einnig um að telja upp þá sem látist hafa og rifjaðu oft upp sögur um hinn látna.  Marga þeirra hafði hann þekkt, a.m.k. kannast við.

Virðing mín fyrir störfum sjómanna minnkaði ekki eftir gærkvöldið, það er alveg ljóst.  Það er ekki hægt annað en að bera botnlausa virðingu fyrir þessum mönnum.  Starf þeirra hefur oft á tíðum verið sveipað ákveðinni rómantík í lögum, þar sem sjómannslífið er bara hopp og hí og trallallalla.  Svo er maður viðstaddur svona atburð eins og gær, þar sem farið er yfir málin af yfirvegun og alvöru og maður lýtur í kringum sig og áttar sig á því að allsstaðar í kringum mann eru félagar þeirra sem höfðu farist.  Maður áttar sig á alvöru málsins.  Stundum er sjómennskan uppá líf og dauða, því þó bátarnir stækki og verði fullkomnari, þá eru náttúruöflin söm við sig.  Þetta er staðreynd sem sjómenn eru mjög meðvitaðir um, enda hafa þeir reynt ýmislegt á eigin skinni. 


Dónahommar

Mikið óskaplega er þetta undarleg fyrirsögn á fréttinni.  Nú hljóma ég eins og hver annar kverúlant sem nöldrar yfir öllu, en ég ætla samt að láta vaða.

Hvar er dónaskapurinn sem felst í því að vera "GAY"?  Hvernig er hægt að segja að "HIV" sé dónalegt?

Það er eins og þessi fyrirsögn sé frá miðri síðustu öld, en ekki í dag.  Almennt held ég að fólki finnist það ekki dónaskapur að vera hommi, eða lesbía.  Í besta falli geta þessi númer gefið eitthvað í skin hjá bíleigandanum, sem ekki á sér stoð í veruleikanum, en það er allt annað en dónaskapur.

Ég bjóst við einhverjum númerum sem myndu á einhvern hátt ekki vera við hæfi barna, en svo er alls ekki.  Ég bjóst eiginlega við einhverju eins og "TÍK" eða einhverju álíka. 

Ef ég fer með þetta lengra þá mætti segja að blaðamanni mbl finnist það vera dónaskapur að vera samkynhneigður/gay, það er a.m.k. það sem skín í gegnum þessa frétt. 

Þessi númer eru í mesta lagi misvísandi eða neyðarleg, en ekki dónaleg á nokkurn hátt.


mbl.is Blátt bann við dónalegum bílnúmerum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Messuþrenna.

Í dag náði ég þrennu!!!  Ég byrjaði á barnamessu í morgun kl. 11.00, síðan prédikaði ég við guðsþjónustu kl. 14.00 og loks sá ég um poppmessu kl. 20.00 þar sem hljómsveitin Tríkót spilaði.  (Tríkót er vestmanneyska og þýðir íþróttagalli).  Á milli messa fór ég á fimleikasýningu hjá fimleikafélaginu Rán, þar sem dóttir mín Mía Rán sýndi ásamt mörgum öðrum listir sínar.

Á morgun byrjar síðan kirkjuheimsóknatörnin fyrir jólin, þar sem leikskólarnir og grunnskólarnir koma í heimsókn til okkar í kirkjuna.  Vonandi að blessuð börnin verði ekki fyrir miklum skaða af þessum kirkjuheimsóknum.

Næsta föstudag ætla ég síðan að bruna norður og skíra þríbura, sem vinur minn Hilmar og "næstum því konan hans", Thelma eiga.  Það er þó nokkuð tilhlökkunarefni, enda ekki á hverjum degi sem maður fær að skíra þríbura.  Á laugardaginn förum við hjónin síðan í fertugsafmæli til Gunnu "mágkonu", og svo kem ég aftur til Eyja á sunnudaginn til að ná jólatónleikum kirkjukórs Landakirkju þar sem hún Diddu mun syngja einsöng á samt heimakonunni Helgu.

***

QPR náði sér ekki af botni deildarinnar í gær, nú verða menn að fara girða sig í brók.  Það lítur allt út fyrir að illa geti farið í vor ef fram heldur sem horfir.

 


Að duga eða drepast

Nú hefur heldur sígið á ógæfuhliðina hjá mínum mönnum í QPR, komnir í neðsta sæti.  Ég kenni nú reyndar tómum dómaraskandal, svindli og almennum illvilja í garð minna manna um. 

Það er sorglegt að skoða samanburð á stöðunni í deildinni núna við sama tíma í fyrra, þegar þeir rétt náðu að bjarga sér frá falli.  Tölfræðin segir semsagt að þeir muni falla, ef málin fara ekki að snúast QPR í vil.  Á sama tíma í fyrra voru þeir í 19. sæti, en eru í 24. nú, í fyrra höfðu þeir unnið 6 leiki, en nú aðeins þrjá. 

Í sannleika sagt skil ég ekkert í þessu slæma gengi.  Ef hægt var að gera KA að íslandsmeisturum, þá ættu mínir menn að geta gert betur, spurning um að fá Guðjón Þórðar til að berja einhverja baráttu í mína menn. 

Queens ParkRangers - 24th, The Championship
 
League Record 2007-2008
 
 
 PldWDLFAGDGFAGAAPpGPtsRank
Home Record10235713-60.701.300.90924
Away Record9144917-81.001.880.77719
Overall Record193791630-140.841.570.841624
 
 
 
League Record 2006-2007 [for the same period]
 
 
 PldWDLFAGDGFAGAAPpGPtsRank
Home Record113351718-11.541.631.091222
Away Record103341418-41.401.801.201212
Overall Record216693136-51.471.711.142419

Að vera hress!!!

Ég man eftir bónda fyrir norðan sem var (og er) alveg sérstaklega orðvar, og reyndi alltaf að sjá eitthvað gott í öllum.  Einu sinni flutti fólk nýtt fólk í sveitina, og eins og gengur var mikil gleði með ný andlit í ört minnkandi sveitasamfélagið.  Fólk reyndi að gera sér far um að kynnast nýja fólkinu og gerði sér jafnvel ferðir á bæinn til að bjóða þau velkomin. 

Þegar fram liðu stundir varð fólki í sveitinni ljóst að hinir nýkomnu voru engan vegin slíkur happafengur fyrir sveitina og menn höfðu vonað í upphafi, húsbóndinn á heimilinu reyndist hinn mesti búskussi, og eiginlega hálfgert dusilmenni, sem tók uppá því að setjast hreinlega uppá bæjum heilu og hálfu dagana, á meðan konan og börnin áttu að sinna búinu.  Þetta var einfaldlega ekki að ganga upp og sveitin öll búin að fá algjörlega nóg af bóndanum og var það mál manna að þarna væri á ferðinni hreinræktað fífl, jafnvel hálviti.

Bóndinn orðvari var þögull nokkra stund þegar nýi bóndinn barst í tal og hálvitaskapur hans.  Síðan sagði hann: "Það má vera að þetta sé allt saman satt, en HANN ER HRESS".

Þetta kallar maður að vera jákvæður. 

Mér datt þetta svona í hug í sambandi við allar þær hrakfarir sem hún Britney, blessunin, Spears hefur verið að ganga í gegnum undanfarið.  Eflaust þekkjum við einhverja svona "hressa" í kringum okkur.


Þjóðvegi lokað

Það er svolítið merkilegt að upplifa það að þjóðvegurinn milli lands og Eyja skuli trekk oní trekk vera lokaður vegna bilunar.  Í næstu viku er fyrirsjáanlegt að þjóðvegurinn verði alveg lokaður í a.m.k. tvo daga á meðan Herjólfur fer í slipp.  Ferðir sem eiga að taka 2 klukkutíma og 45 mín. hafa tekið 6 klukkutíma.  Þetta er nú varla boðlegt, ekki síst í ljósi þess að Eyjamenn hafa lengi kallað eftir nýjum Herjólfi því þessi er löngu kominn á tíma.  Það er sama inní hvaða bekk í barnaskólanum hér í Eyjum er farið, öll börn vita að kominn er tími á nýjan Herjólf. 

En þetta virðast þeir sem eiga að halda þjóðveginum gangandi ekki vita.

Ég heyrði umræður um samgöngumál á kaffistofu hér í bæ og þar kom einmitt fram að margir höfuðborgarbúar hafa sagt við Eyjamenn að þeim sé nógu gott að búa við þær samgöngur sem þeir nú búa við.  Eyjamenn hafa sjálfir valið að búa á þessari eyju.  Einn kaffispjallari sagðist vera farinn að svara höfuðborgarbúum, sem kvarta undan umferðarþunga í borginni, með þeim orðum að viðkomandi hafi sjálfur valið að búa í borginni og eigi þess vegna að gera sér umferðarhnúta og tafir að góðu.

Ef til vill er kominn tími til að við reynum enn betur að setja okkur í spor annarra, líka hvað samgöngur varðar.  Allir staðir hafa eitthvað sem gerir það að verkum að fólk vill búa þar, og það á auðvitað að gera fólki kleift með góðum ráðum og lausnum að búa þar sem það helst kýs, á þann hátt að því líði sem best, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

 


mbl.is Herjólfi seinkar vegna bilunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband