Færsluflokkur: Bloggar

Rangur misskilningur

Eftirfarandi beiðni sendu Sameinuðu Þjóðirnar ríkjum heims:

"Viljið þið vinsamlegast gefa okkur heiðarlega skoðun ykkar á því hvaða lausn kæmi helst til greina til að koma í veg fyrir matarskort um allan heim."

Ríki heims sendu inn svör, þar sem rauði þráðurinn var á þessa leið:

Í Afríku vissi fólk ekki hvað orðið "matur" þýddi.
Sumar Austur-Evrópuþjóðirnar skildu ekki orðið "heiðarlega".
Vesturlandabúar skildu ekki orðið "skortur".
Í Kína hafði engin heyrt minnst á orðið "skoðun".
Í Mið-austurlöndum vandræðuðust menn með orðið "lausn".
Í Suður-Afríku kom orðið "vinsamlegast" mönnum í opna skjöldu.
Í Bandaríkjunum vissu menn ekki hvað "um allan heim" þýddi.

 


Í Fnjóskadal

Hún Látra-Björg var flökkukona á öldum áður (f. 1716, d. 1784) og flakkaði um sveitir norðanlands og borgaði oft fyrir sig með kveðskap.  Margar þessara vísna eru þekktar, aðrar minna þekktar, sumar góðar, aðrar bölvað hnoð.  Stundum fékk fólk að finna fyrir því ef henni líkaði ekki viðgjörningurinn, en svo hrósaði hún í hástert ef vel var gert við hana.

Hún kom meðal annars við í Fnjóskadal og samdi þessar tvær vísur: 

Í Fnjóskadal byggir heiðursfólk.
Í Fnjóskadal fæ ég skyr og mjólk.
Í Fnjóskadal hef ég rjóma.
Fnjóskadalsketið heilnæmt er.
Fnjóskdælir gefa flot og smér
af Fnjóskadals björtum blóma.
 

Fnjóskadalur er herleg sveit.
Fnjóskadals vil ég byggja reit.
Í Fnjóskadal hrísið sprettur.
Í Fnjóskadal sést hafur og geit.
Í Fnjóskadal er mörg kindin feit.
Fnjóskadals hæsti réttur.

Vísnasafn Sigurðar J. Gíslasonar í Héraðsskjalasafni Skagfirðinga.

Sigurlaug Njálsdóttir f. 4.12.1924. d. 11.3.2008

Þann 11. mars sl. dó amma mín sem ég kallaði alltaf ömmu á Þingvöllum. Útför hennar fór fram í Akureyrarkirkju 19. mars, þar sem ég og sr. Svavar Akureyrarkirkjuklerkur skiptum með okkur verkum í athöfninni.

Í gegnum hugann fljóta ýmsar minningar um konu sem var um margt merkileg kona, sem oftar en ekki mátti hafa meira fyrir lífinu en margur annar. 
Hún missti móður úr berklum ári eftir að hún fæddist og var í framhaldi komið í fóstur. Alla sína æsku, og raunar alla ævi saknaði hún þess mikið að hafa ekki fengið að kynnast mömmu sinni og það markaði hana mjög. 

Lífið lengi framan af ævi hennar var allnokkrum þyrnum stráð. Æskan var henni erfið og einkenndist af eilífu basli og þónokkurri hörku.
Hún minntist t.d. fermingardagsins með nokkurri beiskju. Hún var send ein í kirkjuna ásamt yngri uppeldisbróður, sem einnig hafði verið tekinn í fóstur, og þegar heim var komið úr kirkju tók hún aftur til við að vinna á heimilinu, engin veisla, engar gjafir, enginn dagamunur.

En sárasti dagur sem hún upplifði var líklega síðasti skóladagurinn hennar, því hún vissi að ekki yrði um frekari menntun að ræða á lífsleiðinni, þó hún þráði ekkert heitara en að leggja útá menntaveginn. Hún gekk grátandi heim úr skólanum og horfði á eftir mörgum skólasystkyna sinna halda í gagnfræðiskóla, sem þótti bara allnokkuð á þeim árum.

Hún kynntist afa mínum á Akureyri sem hafði ekki ósvipaðan bakgrunn og hún, kom úr fjölskyldu sem hafði verið skipt upp vegna fátæktar og var í vinnumennsku víða. Á sokkabandsárum þeirra var hann vinnumaður á Setbergi, sem var bær ekki langt frá Þingvöllum þar sem amma ólst upp.

Þau giftu sig í framhaldinu og byggðu sér hús í Grænumýri á Akureyri, en þaðan fluttu þau tveimur árum síðar uppí Þingvelli, þar sem þau innréttuðu gamla fjósið sem íbúð. Það er óhætt að segja að það hafi verið þröngt í búi hjá þeim lengi framan af, og stundum þurfti að treysta á góðvild Ingva í Hafnarbúðinni með aðföng, sem síðan var endurgreitt við fyrsta tækifæri.

Ef til vill má segja að kreppan hafi varað lengur hjá afa og ömmu en mörgum öðrum, og þau fóru ekki að horfa á bjartari tíð fyrr en langt var liðið á 7. áratuginn. 

Á Þingvöllum var sannkallaður sælureitur, bóndabær í miðju Akureyrar. Þetta var nokkurskonar draumveröld, þar sem tíminn hægði á sér og gott var að koma.  Á fáum stöðum hefur mér liðið betur en árin sem ég bjó á Þingvöllum eftir að við amma höfðum vistaskipti.  

Ég geri mér grein fyrir því í dag að afi og amma voru ekki vel stæð í fjárhagslegum og veraldlegum skilningi, en samt upplifði ég þau alltaf sem ríkt fólk þegar ég var lítill. Það var allt svo snyrtilegt og fínt hjá þeim og vel hugsað um alla hluti. Þau voru líklega eitthvert það nægjusamasta fólk sem ég hef kynnst, enda sagði amma alltaf þegar hún komst á eftirlaun að hún hefði nú bara aldrei haft annað eins af fjármunum á milli handanna. 

Erfiðleikar framan af ævinni mótuðu ömmu svo sannarlega, hún var oft á tíðum bitur útí fortíðina og átti erfitt með að vinna sig útúr henni. Þess vegna gat hún oft virkað hvöss og var það vissulega stundum. En það var alltaf hægt að eiga góðar stundir með henni, hún hafði áhuga á fólki og líðandi stund og vildi m.a. ræða þær framkvæmdir sem framundan eru á Akureyri, skipulag byggðar og þessháttar, alveg frammí andlátið. 

Hún amma var stolt af afkomendum sínum, sama á hverju gekk. Hún hafði t.d. alltaf trú á því að eitthvað myndi verða úr mér þó lífernið lengi vel hafi ekki gefið fyrirheit um það.   

Þegar afi dó árið 1991 má segja að nokkuð af lífsneistanum hafi dofnað, og hún saknaði hans mikið og við ræddum oft saman um árin þeirra saman, erfiðleika og gleðistundir. En mesta áfallið og stærsta sorgin var þegar frumburðinn, hann Siddi, dó árið 1997. Hún gat aldrei sætt sig við að lifa son sinn, enda snýr veröldin auðvitað öll á haus þegar foreldrar lifa börn sín. Sonur Sidda, Sigurður Freyr, flutti til ömmu og það er óhætt að fullyrða að það hafi verið henni mjög dýrmætt að hafa hann á heimilinu, ekki síður en honum. 

Vissulega er söknuðurinn sár nú þegar hún amma er dáin, en hann verður manni auðvitað ekki eins erfiður í ljósi þess að hún var svo sannarlega sátt við að kveðja, og reyndar fyrir allnokkru. Hún var ekki í nokkrum vafa um að afi og Siddi myndu taka á móti sér þegar hún kæmist yfir móðuna miklu, og þá loks fengi hún að hitta mömmu sína.   

Í síðustu heimsókn minni til ömmu fylgdi hún Mía mér norður og sýndi henni allar fimleikakúnstirnar sínar uppá sjúkrahúsi við mikinn fögnuð og gleði. Þar bað hún mig um að taka með hempuna næst þegar ég kæmi, því ég þyrfti áreiðanlega að kasta rekum yfir hana. Hún vissi auðvitað að hverju stefndi og var sátt við að endalokin hérna megin grafar nálguðust.  Það var mér að sjálfsögðu ljúft og skylt að verða við þessum óskum hennar ömmu.

Að sameinast í sundrung

Mér þykja slæmar fréttirnar úr minni gömlu heimabyggð þar sem undarlegum lagagreinum er beitt fyrir sig í þessu sameiningarmáli.  Ég efast ekki um að menn hafi lögin með sér, en það hlýtur alltaf að vera sterkara að hafa íbúana með sér þegar kemur að svona sameiningarákvörðunum.

Svo er ekki laust við að manni finnist það undarlegt þegar menn hlaupast undan merkjum og skipta um lið í miðri á, en það virðist þó verða æ algengara í pólitíkinni, sbr. þing og borgarstjórn.

Vel getur verið að menn finni engin rök gegn sameiningu eins og Haraldur Bóasson sagði í fréttum, en finnst svo er þá ætti ekki að vera mikið mál að sannfæra íbúa í Þingeyjarsveit og Aðaldal um að það sé rétt. 

Mér sýnist sem svo að íbúar sveitarfélaganna hafi ekki fengið að vita hvað muni fást útúr þessari sameiningu.  Skýrslan sem unnin var gekk útfrá sameiningu þriggja sveitarfélaga, en ekki tveggja.
Skólamálin koma án efa til með að verða erfiðust í þessu máli og þess vegna eðlilegast að búið sé að ganga frá þeim þegar kemur að sameiningu.
Í raun vita menn ekkert hvað sameining þýðir fyrir íbúana annað en að nýtt nafn verður sett á sveitarfélagið og það er ekki ýkja góð ástæða fyrir sameiningu.
Ef til vill þýðir sameining ekkert nema endalaust góðæri og blóm í haga, en þá er a.m.k. rétt að halda því til haga og upplýsa um þær grænu grundir og smjördrjúpandi strá.

Svo sýnist manni enn vera nokkuð í land með að íbúar Þingeyjarsveitar hugsi og upplifi sig sem íbúa í sama sveitarfélagi.  Það er verkefni sem ég held að væri betra að klára áður en rokið er í að sameina frekar.


mbl.is Meirihlutinn í Þingeyjarsveit fallinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beðið fyrir kveðjur á jarðarför

Andlát þessarar fínu hljómsveitar eru með verri fréttum sem ég hefi fengið úr tónlistarbransanum í seinni tíð.

Ég verð því miður að boða forföll á jarðarförina, verð upptekin við skírn og messuhald daginn eftir.  Bið fyrir kveðjur til aðstandenda og þakka ánægjuleg kynni.


mbl.is Jakobínarína borin til grafar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af Guðmundum

Þessi eilífi nafnaruglingur getur verið svolítið pínlegur. Ég hef reyndar áður tjáð mig um nafna mína og sumir gætu jafnvel sagt að ég sé með þá heilanum

Það voru t.d. margir sem höfðu gaman af því að ég skyldi bera sama nafn og sr. Guðmundur Örn, sem oft fer mikinn á Ómega sjónvarpsstöðinni og er í forsvari fyrir samfélagi trúaðra.  Hann er nú reyndar Ragnarsson, en þó hefur einstaka sinnum borið á ruglingi á okkur tveimur.  Þrátt fyrir sömu nöfn, þá ber þónokkuð á milli í guðfræði okkar, svo ekki sé sterkara að orði kveðið.

Annar nafni minn sem skaut upp kollinum var Guðmundur Jónsson (ath enginn örn þar).  Sá nafni minn hefur gjarnan verið kenndur við Byrgið og reyndar alltaf talað um Gumma í Byrginu.  Sem betur fer hefur enginn ruglað okkur saman, að mér vitandi, og vonandi að svo verði ekki.


mbl.is Vont að heita Kurt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atómljóðið

Maður er nefndur Jói, kallaður hinn danski, hér í Eyjum.  Hann lét einu sinni þetta ljóð frá sér í einhverju bríaríi þegar atómljóðin tröllriðu öllu: 

Siggi Munda
fór í lunda
veiddi súlu
íslenski fáninn í hálfa stöng.


Pönk og prédikanir

Heiðar Ingi frændi minn og fóstbróðir var fertugur 18 janúar.  Að því tilefni hélt hann afmælisveislu, sem var með nokkuð öðru sniði en venja er.  Haldnir voru pönktónleikar í Laugarneskirkju, þar sem Blái hnefinn frá Akureyra pönkaði, og pönksveit afmælisbarnsins lék nokkur vel valin lög sem eru í uppáhaldi hjá honum Heiðari. Annað slagið voru gestasöngvara fengnir til að pönkast aðeins líka. 

Heiðar fékk mig til að flytja aðra af tveim prédikunum kvöldsins, hina flutti sr. Bjarni Karlsson.  Ég læt prédikun mína fylgja hér með, sem var nú reyndar venju fremur persónuleg, enda tilefnið nokkuð annað en hefðbundin sunnudagsguðsþjónusta.

Nú er prédikunin komin "óklippt" á síðuna. Njótið heil!

Kæri söfnuður, kæra afmælisbarn: Gleðilegt nýtt ár, og til hamingju með afmælið, árin 40.

Þegar afmælisbarnið hafði samband við mig og spurði hvort ég væri tilbúin að prédika í afmælinu, þá var ég ekki lengi að slá til, enda átti ég hreint ágæta prédikun í pokahorninu sem var alveg ónotuð, a,m.k. ágæta grunnhugmynd. 
Svipað og ágætur frændi minn, sem starfaði sem prestur og þegar kom að jólaprédikun þá átti hann ágætis prédikun á lager sem aldrei hafði verið flutt um haustið, vegna messufalls í ótíð.  Prédikunin byrjaði svona:  Kæri söfnuður, nú eru jólin og þið vitið nú allt um þau”.  Síðan vatt hann sér yfir í efni hinnar ónotuðu haustprédikunar þar sem hann tók haustannir sveitamanna föstum tökum og fjallaði að mestu um göngur, réttir og sláturtíð.

Það er sem ég segi það er óþarfi að láta góða prédikun ónotaða, ekki síst ef menn hafa lagt einhverja vinnu í hana.

Enn eitt árið hefur runnið sitt skeið og nýtt ár er gengið í garð.  Það kemur manni alltaf einhvernvegin á óvart þegar nýtt ártal kemur í ljós.  Við tekur klassískur ruglingur á ártölum frameftir nýju ári og svo loks þegar nýtt ár er einhvernvegin orðin hluti af manni sjálfum, þá kemur enn eitt árið.  Það er það sama sem gerist hjá manni þegar afmælisdögunum fjölgar, maður þarf ævinlega að hugsa sig tvisvar um þegar maður er spurður um aldur.

----

Það er ekki málið hvað maður getur, heldur hvað maður gerir, segir í hinu ódauðlega lagi “Tilfinning” sem Purrkurk pillnikk flutti fyrir margt löngu. Segja má að þessi orð hafa fylgt mér nánast allt lífið.  Það er nefnilega ótrúlegur sannleikur í þessum orðum sem hægt er að heimfæra uppá svo marga hluti.  Þessi orð krefja mann eiginlega um afstöðu, eða þá afstöðuleysi, sem er þá alveg sérstök afstaða út af fyrir sig. 

Einn af þeim mörgu mögnuðu ritningartextum biblíunnar, þar sem skýr afstaða til Guðs og fylgis við hann er tekin, er að finna í Jobsbók. En í Jobsbók segir frá samskiptum Jobs við Guð, þarna kemur líka inn hið fræga veðmál  sem átti sér stað á stað á himnum á milli Guðs og gamla bakarans, eins og Lúther kallaði djöfulinn. Jobsbók er raunasaga þess sem allt missir, en sættist að lokum við Guð og allt fer á betri veg.   Það er ekki nokkur vafi á því að allir geta fundið eitthvað einhversstaðar í Jobsbók sem þeir geta samsamað sig við, hvort sem það er í ræðum Jobs eða vina hans. 

Glíman við Guð, lífið og ekki síst glíman við okkur sjálf getur oft á tíðum verið nokkuð erfið, ekki síst ef við ætlum okkur að geraalla hluti sjálf án nokkurrar aðstoðar frá öðru fólki, og hvað þá án aðstoðar frá Guði.

Það er einmitt í þessu ljósi, - ljósi þessarar baráttu sem Job stóð í og sem við öll stöndum í, sem er svo gaman að sjá Heiðar Inga á þeim stað í lífinu sem hann nú er á, og kannski kann einhverjum líka að þykja undarlegt að sjá mig á þeim stað sem ég er á í dag.

Staðan er óneitanlega svolítið ólík því sem áður var, þegar við frændur stóðum í allnokkrum flísalögnum þegar ég kom suður og eins þegar hann kom norður.  

Fyrir þá sem ekki vita þá voru flísalagnir háþróað dulmál sem notað var í ákveðnum efnaviðskiptum á sínum tíma.  Að sjálfsögðu vorum við sannfærðir um að enginn skildi þetta magnaða dulmál.  En fyrir þá sem eitthvað þekktu til okkar þá hefur það nú hljómaði heldur undarlega að tveir menn með tíu þumalfingur stæðu í jafnmikilli flísalagningu og gefið var í skyn.

Hér áður fyrr vorum við að sjálfsögðu sannfærðir um að við gætum allt sem við gerðum og gerðum allt sem við gætum.  En það er með þetta eins og svo margt, þegar menn fara fram úr sjálfum sér að þá er það auðvitað býsna margt sem fólk veit ekki að það getur og annað sem það heldur að það geti, en getur alls ekki.

Það er svo undarlegt með það að við frændur höfum svo oft verið á svipuðum stað í lífinu, og eins og títt er um yngri fóstbræður, þá leit ég, og lít reyndar enn, allnokkuð upp til Heiðars. 

Það var t.d. Heiðar sem kenndi mér að meta pönk.  Ég man eins og gerst hafi í gær þegar ég heyrði pönk fyrst inní herbergi hjá honum heima á Illugastöðum.  Það liggur við að manni vökni um hvarma þegar maður hugsar til þessarar stundar. 
Ég fékk að vera inní herbergi hjá stóra frændanum, sem vissi allt og gat allt.  Og saman hlustuðum við á þá mögnuðustu tóna sem ég hafði á minni stuttu ævi heyrt.  Og kveðskapurinn var heldur ekkert slor.

Ég leyfi mér að bregða upp nokkrum áhrifaríkum myndum af þeim kveðskap sem fluttur var þarna í herberginu í sveitinni forðum, og feta þar með í fótspor frænda þegar hann veislustjórnaði brúðkaupi útí Eyjum nú á haustdögum:
Byrjum á nokkrum línum úr hinu ódauðlega lagi Augun úti með Purrkinum

Það er stórkostlegt
alveg meiriháttar
Liggur í augum úti

Það er meiriháttar
það liggur í augum úti

Það er frábært
Það er stórkostlegt
alveg meiriháttar, alveg hreint sjúkt!!!

Í niðurlaginu á Gleði, í flutningi sömu sveitar segir síðan:

Það er svo gaman
En svo kemst ekki í vinnuna fyrr en á
fyrr en á mánudaginn
mánudaginn

Í þessum ljóðlínum endurspeglast gleðin yfir lífinu, gleðin yfir hinu hversdagslega, eins og að mæta til vinnu á mánudegi.  Já, hér er sannleikurinn fundinn, hér stendur hann nakinn fyrir framan mann.  Ef til vill hefur sannleikurinn verið höndlaður í þessum orðum, orðin höndluð af sannleikanum eða sannleikurinn í orðunum höndlaður af sannleikanum, án þess að ég ætli að hætta mér að svo stöddu frekar útí þá háguðfræðilegu umræðu sem tekur á höndlun sannleikans.

Sannleikur málsins er hins vegar sá að líf Heiðars í dag er nokkuð ólíkt því sem áður var, ef til vill mætti segja að lífið í dag sé “alveg meirihátta”, og jafnvel “alveg hreint sjúkt”.  Það liggur alveg í augum úti.  Fullt hús af börnum, yndisleg kona, heimili sem er uppfullt af kærleika og ást og svo auðvitað rúsínan í pylsuendanum: Líf sem er grundvallað á trú á algóðan Guð.

Líf með Guði hefur alltaf staðið til boða, - í þeim málum hafa dyrnar aldrei verið lokaðar. 

-----

Í lífinu almennt höfum við heilmarga valkosti, við erum ekki leiksoppur örlaganna þar sem við siglum stjórnlaust að feigðarósi, ó nei.  Við höfum val um svo margt.  En þar með er ekki sagt að við framkvæmum allt það sem við getum, enda er í raun lítið gert með það sem við getum ef við fylgjum því ekki eftir með einhverskonar framkvæmd.

Lokaorð Jobs í glímu sinni við Guð eru ef til vill orð sem Heiðar Ingi, og svo margir kannast við, í glímunni við lífið og í glímu sinni við Guð, þar sem hann hefur oftar en ekki fengið að heyra það: Ég þekkti þig af afspurn, en nú hefir auga mitt litið þig!  Fyrir því tek ég orð mín aftur og iðrast í dufti og ösku.

Og þá kemur eiginleg spurningin sem hollt er að velta fyrir sér:  Fyrir hvað viljum við að þetta ár standi í lífi okkar?  Fyrir hvað munu næstu 40 ár í lífi þínu, Heiðar, standa?  Leiðin er opin, en það er okkar að taka af skarið og ákveða hvort það verði Guð sem vísa mun veginn og leiða okkur áfram.  Það er nefnilega ekki málið hvað maður getur heldur hvað maður gerir.

Og að lokum:
Pönkið lifir, ef algóður Guð lofar.
Amen.   

Myndir úr brúðkaupsveislu

Allnokkrir hafa komið að máli við mig og haft orð á því að engar myndir úr brúðkaupinu okkar Gíslínu hafi birst á blogginu.  Hér verður bætt úr því.

Við Mía sungum bæði í brúðkaupsveislunni.  Hljóðin sem komu frá brúðgumanum voru ekki alveg jafn hugljúfir og hjá dótturinni, svo vægt sé til orða tekið:

Myndir 119

Myndir 141


Heiðurskonan Ragnheiður Jónsdóttir

ragnheiður jónsdóttirEitt af mínum fyrstu prestsverkum hér í Eyjum var að jarða Ragnheiði Jónsdóttur, sem þá var elst allra eyjaskeggja, á 101. aldursári þegar hún dó. Þessi aldna heiðurskona var ern og hress alveg til síðasta dags og óhætt að segja að hún hafi verið vel með á nótunum. 

Þegar Ragnheiður varð 100 ára sagði hún t.d. að nú væri gaman að halda árgangsmót því hún væri pottþétt sú eina sem myndi mæta. 

Ragnheiður var einn af stofnfélögum Kvenfélags Landakirkju, stofnfélagi Félags eldri borgara og einnig stofnfélagi Slysavarnafélagsins Eykyndils og Rebekkustúkunnar Vilborgar hér í Eyjum.  Auk þess var hún virkur félagi í kvenfélaginu Líkn.  Þessi upptalning á félagsstörfum gefur manni nokkra hugmynd um hverslags manneskja var hér á ferðinni, en þrátt fyrir alla þessa félagsmálaþátttöku þá var Ragnheiður ekki kona sem barst mikið á, en henni var annt um samfélagið í Eyjum og eins samferðarfólk sitt.

Ég læt fljóta með vísukorn sem Ragnheiður samdi:

Þegar hógværð hrokann vinnur
og heimskan þegja kann,
þá en ekki fyrri finnur
fólkið sannleikann.

Góð vísa sem lýsir Ragnheiði vel og hennar viðhorfi til lífsins.  En Ragnheiður var alla tíð sannfærð um að lífið væri til þess að lifa því og njóta.  Enda sagði hún stuttu áður en hún lést að hún vildi óska þess að vera aftur orðin 70 ára stelpa, þá myndi hún stofna fyrirtæki og ferðast síðan fyrir innkomuna. 

Myndin af Ragnheiði er tekin af Sigurgeiri ljósmyndara þegar hún varð 100 ára.


mbl.is Elsti Íslendingurinn látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband