Færsluflokkur: Bloggar

Madama Tobba gefur góð ráð.

húsmóðirFyrir allnokkrum árum keypti ég mér jakkaföt í herrafataverslun Kormáks og Skjaldar. Þetta voru afbragðs góð jakkaföt frá Kóróna og hafa reynst mér afar vel. En með þessum jakkafötum keypti ég lítið kver sem ber heitið Handbók hjóna, og höfundurinn: Madama Tobba, landsfrægur ráðgjafi um hvað eina það sem sem samlífi fólks viðkemur. Þetta kver kom líklega fyrst út í upphafi 3. áratugar síðustu aldar. Langar til að deila með bloggheimi smávægilegu úr viskubrunni þessa kvers.

Ég gef madömunni orðið:

Góð kona forðast það, sem í daglegu tali er kallað að sýnast, - Plága er það að verða hér, hversu margt er öðruvísi en það sýnist. Konur eru t.d. margar með falskt hár, falskar tennur og falskanhörundslit. Sé nú gætt að því, af hverju þetta fals stafar, kemur það í ljós, að í mörgum tilfellum eru það heit krullujárn, krullupinnar og ýmiskonar hárelexíar, sem hafa eyðilagt hárið; sætindi og hirðuleysi hafa valdið skemmdum í tönnum, en hörundslitinn falsa konur eingöngu til að sýnast.

Góð kona má umfram allt ekki vera hégómagjörn eða "pjöttuð", eins og það er kallað á Reykjavíkurmáli. En hreinleg á hún að vera, vel búin og hirðusöm.

--------

Góður eiginmaður hefur stjórn á geði sínu. Hann er eigi uppstökkur eða langrækinn. Hann er hreinlyndur og nærgætinn. Honum finnst lífið ánægjulegt. Hann sér eitthvað gott í öllu, og hann fellir ekki ósanngjarna dóma yfir hinum óhamingjusömu, sem falla í tálsnörur lífsins.

Góður eiginmaður er reglusamur. Hann neytir ekki áfengis, - að minnsta kosti eigi í óhófi. Mörg konan hefur átt - og á enn - um sárt að binda vegna drykkjuskaparins, og hverjum manni á að vera það alvörumál, að konan hans, sem honum þykir vænna um en nokkra aðra konu, verði ekki í þeirra hópi. Menn ættu því að halda sér frá drykkjuskap strax á unga aldri og drekka aldrei fyrsta staupið; því fylgir oft annað og hið þriðja og svo koll af kolli, uns maðurinn verður þræll ástríðunnar og missir vald á sjálfum sér. Auðveldasta leiðin til að forðast það að verða ofdrykkjumaður er sú, að drekka aldrei fyrsta staupið.


Ekkert álver í Vestmannaeyjum

Ég verð að játa að mér fannst þessi krafa Steingríms Joð ótrúlega kauðaleg, alveg jafn kauðaleg og viðbrögð Jóns Sig þegar hann sagðist bara alls ekki kannast við neinar árásir Framsóknarmanna á Steingrím. Það var engu líkara en Jón hefði ekki séð auglýsinguna, eða ekki verið með gleraugun á nefinu þegar þær voru sýndar, því engum dylst að í herferð Framsóknar er verið að vísa í títtnefndan Steingrím Joð. Jafnvel þó auglýsingin hafi bæði verið ósmekkleg og leiðinleg þá finnst mér þetta þó helst til mikið upphlaup hjá formanni VG. Niðurstaðan er jafntefli í kauðaskap.

Annars er ástæða til að óska VG til hamingju með stórsigur. Þetta er eini flokkurinn sem bætir raunverulega við fylgi sitt. Sjálfstæðismenn eru komnir á sínar slóðir með fylgi sitt, og svosem engin stór tíðindi þó fylgið sé meira en í síðustu kosningum, því það var nánast í sögulegu lágmarki (þó þeir hafi vissulega farið neðar áður). Samfylking tapar, Framsókn "skít-tapar", Frjálslyndir standa í stað og I-listi er eins og hann er. Ég neita því ekki að það voru allnokkur vonbrigði að ríkisstjórnin skyldi halda velli, en það þýðir ekki að gráta Björn bónda.

Vestm.eyjarHins vegar held ég að skilaboð fólksins í landinu séu skýr: EKKI meiri virkjanaframkvæmdir (a.m.k. ekki í bili) því Framsókn er holdgervingur stóriðjustefnunnar, það er Sjálfstæðisflokkurinn ekki þó þeir hafi setið í ríkisstjórn líka á þessum mestu virkjana tímum sögunnar. Auglýsingar Framsóknar vísa beint í áframhaldandi stóriðjuáform þeirra, þegar þeir tala um "að halda áfram á sömu braut", því Framsókn virðist ekki hafa hugmyndaflug til þess að koma fram með aðrar lausnir en álver við hvert fótmál.  Fólki blöskrar útsala á raforku til erlendra stórfyrirtækja.

Ég lýsi því hér með yfir, og legg höfuð að veði, að í Vestmannaeyjum verður aldrei ráðist í byggingu álvers. Já það er sem ég segi það er gott að búa í Vestmannaeyjum, og því hvet ég umhverfisverndarsinna og náttúru-unnendur til þess að flykkjast til hinna fögru Vestmannaeyja. 

(Myndin er af sólarlagi í Vestmanneyjum og er tekin út um stofugluggan á prestssetinu)


mbl.is Steingrímur krefur Jón um afsökunarbeiðni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgi Framsóknar minna í dag en í gær!

Ég held satt að segja að það væri hið besta mál að skipta um ríkisstjórn. Það er komið sama einkenni á stjórnarflokkana eins og var í Reykjavík hjá R-listanum. Valdahroki og yfirgangur. Það er engum hollt að sitja of lengi við stjórnvölin, og allra síst í pólitík. Núverandi stjórnarflokkar eru komnir fram yfir síðasta söludag og þurfa pásu. Nákvæmlega eins og R-listinn. Eftir langa setu í stjórn er hætt við því að menn gleymi hvaðan þeim kemur valdið. Hættan er sú að menn haldi að þeir sitji við stjórn í krafti sjálfs síns eða flokksins, en ekki fólksins í landinu sem kaus þá.
mbl.is Fylgi Framsóknarflokks dalar á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hart í ári hjá tryggingafélögum.

Já það er skelfilegt ástandið hjá tryggingfélögum. Nú bíður maður auðvitað spenntur eftir "óhjákvæmilegum" hækkunum annar tryggingafélaga, því þau standa, eins og allir vita, mjög höllum fæti.


mbl.is Tryggingamiðstöðin hækkar iðgjöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er ekki (Guðmundur) (Örn) (Jónsson)

Ég vil taka það skýrt fram að ég er Guðmundur Örn Jónsson.gudmbyrg

Ég er EKKI Guðmundur JÓNSSON - kenndur við Byrgið

Ég er EKKI Guðmundur Örn RAGNARSSON - forstöðumaður samfélags trúaðra

Þótti rétt að koma þessu á framfæri áður en ofsóknir á hendur mér byrja. Hér er semsé um fyrirbyggjandi aðgerð að ræða, það er aldrei of varlega farið.GudmOrnR


Óska eftir pólitískri framtíðarsýn!

Það sem hefur vantað inní kosningabaráttuna er heildstæð stefna um framtíð landsins og umræður um það hvernig stjórnmálamenn vilja sjá samfélagið þróast. Ég er orðinn ansi þreyttur á öllum slagorðunum, upphrópunum og klisjum sem enga merkingu hafa. Hvaða heildstæða stefna er það sem flokkar boða með því að yfirbjóða hverja aðra í loforðaflaumi? Það er segin saga þegar pólitíkusar "ræða saman" þá falla menn strax oní þann pytt að níða skóinn á hverjum öðrum. - Steingrímur J. var á móti lögleiðingu bjórs og þess vegna á hann enn að vera á móti bjór! Hvers lags málflutningur er þetta? Bjór er leyfður á Íslandi í dag.

Ég sakna umræðunnar sem ætti að eiga sér stað. Ég sakna þess að ekki er rætt um eftirlaun þingmanna, sem þeir skömmtuðu sér svo ríflega, og hétu því að þessum lögum yrði breytt. Þessi ákvörðun snertir heildstæða stefnu fólks um réttlæti í samfélaginu. Viljum við að fólk njóti jafnræðis, viljum réttlæti? Eða viljum við að þeir sem það geta ryðjist fram fyrir í röðinni? Líklega verður þetta mál eða viðlíka mál ekki rædd, enda tóku allir flokkar þátt í þessum gjörningi, þó sumir hafi bakkað út þegar í ljós kom að almenningi blöskraði.

Hver er framtíðarsýn pólitíkusa? Er hún einhver? Eða vilja menn ekki ræða hana vegna þess að klisjur og upphrópanir virka betur í kosningabaráttu, ásamt löngum loforðalistum?


62 ár frá stríðslokum og 76 ár frá fæðingu Guðmundar Heiðmanns

Afi í ÁrhvammiÍ dag er merkilegur dagur því þann 8. maí árið 1945 voru opinber stríðslok seinni heimsstyrjaldarinnar. En dagurinn er ekki síður merkilegur fyrir þær sakir að afi minn, hann Guðmundur Heiðmann, fæddist þennan dag fyrir 76 árum. Til hamingju með daginn!!

Afi í Árhvammi er ákaflega merkilegur maður og hefur ekki alltaf kosið að fara troðnar slóðir í skoðunum sínum. Hann kenndi mér t.d. að taka ekki öllu sem sagt er sem sjálfsögðum hlut, líka því sem sagt er í fjölmiðlum. Hann steig í pontu á bændafundi og sagði að Framsóknarflokkurinn hefði ekkert gott gert fyrir bændur, Alþýðuflokkurinn væri í raun mun betri kostur fyrir bændur - Fyrir þetta varð hann fyrir þónokkru aðkasti viðstaddra, svo vægt sé til orða tekið.

Bæði afa og ömmu í Árhvammi á ég margt að þakka, enda ólst ég að nokkru upp hjá þeim. Hjá þeim lærði ég að hver og ein ær skiptir máli, ég lærði virðingu fyrir öllu sem lifir, ég lærði að meta Hörð Torfa og Megas (man að amma söng "Gamli sorrý gráni" fyrir okkur), ég lærði að meta Vilmund Gylfason sem ljóðskáld, ég lærði að Jónas Hallgrímsson væri eitt merkilegasta skáld sem við Íslendingar höfum alið (að sjálfsögðu var skylda að læra ljóð Jónasar búandi í sömu sveit og hann var alin upp í), ég lærði auðvitað svo ótalmargt fleira sem ég nýti á vegferð minni í dag.


Í mér leynist 50% framsóknarmaður

Mæli með kosningaprófi á vef Háskólans á Bifröst fyrir þá sem enn eru óákveðnir. Það er hver að verða síðastur að taka ákvörðun. Ég tók prófið og á samkvæmt því að kjósa VG, þ.e. skoðanir mínar eru í mestu samræmi við stefnu VG.

JónasNiðurstaðan var þessi:

VG 56,25% - Framsókn 50% - Íslandshr. 40% - Samfylking 25% - Sjálfstæðisfl. 18,75% - Frjálslyndir 4%.

Það er síðan spurning hvort það nægi manni að vera 56.25% sammála skoðunum ákveðins flokks til að kjósa hann. Niðurstaðan varðandi framsókn kom mér nokkuð á óvart því ég er í einu grundvallaratriði ósammála þeim, það er varðandi virkjanamálin. Ég get ekki skrifað undir að við eigum að virkja allt þvers og kruss áður en dætur mínar ná 18 ára aldri. Það getur ekki verið skynsamlegt að klára öll virkjanatækifæri á "no time". Það eru virkjanamálin sem helst flækjast fyrir framsóknarmönnum og græni kallinn þeirra vísar beint í að þeir vilji halda áfram að virkja eins og þeir eigi lífið að leysa. (Síðan má auðvitað velta fyrir sér þeirri stefnu sem græni kallinn þeirra fer í auglýsingunni, en fæ ekki betur séð en hann stefni til fortíðar, en ekki framtíðar, eins og margir hafa bent á).

Ég prófaði síðan að hafa enga skoðun á málunum í könnuninni og þá kemur í ljós að skoðanir mínar eru mestu samræmi við skoðanir Samfylkingarinnar???


Ójafnrétti í bloggheimum

konurAf 30 bloggvinum eru bara 5 konur. Þetta er nú hreint ekki góð skipting og klárt að ég þarf að afla fleiri kvenkyns bloggvina þannig að jafnvægi komist á bloggvina hópinn. Ég vil nú kannski ekki meina að ég beinlínis missi svefn yfir þessu en.... Það er þó bót í máli að bloggvinir mínir, kvenkyns, eru kjarnakonur og allar á við a.m.k. 5 karlkyns bloggara.

Mæli með bókinni "Vaknaðu kona" sem Skjaldborg gaf út um árið


Föllum fram og tilbiðjum Jón Ásgeir

bonusljod-33Alveg þótti mér það dæmalaust hrokafullt hjá Gesti Jónssyn, verjanda Jóns Ásgeirs í Kastljósinu í kvöld, þegar hann fór að tala um að fólk slyldi gera sér grein fyrir því að Jón Ásgeir (og Baugur) væri einn stærsti atvinnurekandi á Englandi og fólk á Íslandi ætti honum svo mikið að þakka því hann ætti svo stóran þátt í góðum kjörum almennings. (Man þetta ekki orðrétt, en þetta var inntakið)

Hverslags málatilbúnaður er þetta? Á Jón Ásgeir að vera undanskilin landslögum af því hann á svo stórt fyrirtæki? Eða af því hann á Bónus? Eru þeir tímar ekki liðnir að Jón og sr. Jón eru ekki jafnir fyrir lögum? Eða hélt Gestur kannski bara að þeir tímar væru enn í gildi? Eða eru Þeir tímar kannski ennþá og þess vegna varð hann svo hissa á niðurstöðu héraðsdóms?

Ég spjallaði við mann í kvöld sem hefur alltaf haft fulla samúð með Jóni Ásgeiri í þessu máli, en hann sagði við mig að þessi yfirlýsing verjandans fengi sig til að endurskoða hug sinn í málinu finnst Gesti fyndist stærð fyrirtækisins koma málinu við á einhvern hátt.

Síðan ganga sögur af tilraunum til mútugreiðslna eins og eldur í synu um samfélagið. Ekki veit ég hvað er hæft í þeim sögum, en fólk hlítur að hugsa sitt eftir þessa yfirlýsingu, og þá sýnist nú hverjum sitt, og menn viðra marga möguleika, og ýmsir velta ýmsu fyrir sér........

P.S. Mæli með Bónusljóðunum hans Andra Snæs, hrein snilld.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband