Færsluflokkur: Bloggar

Eru allir skapaðir í Guðs mynd?

Ég talaði við guðhrædda og góða konu um daginn sem sagði mér að sér fyndist samkynhneigð "viðbjóður" og slíkt fólk ætti ekki að sjást í kirkju. Hún sagðist jafnframt líta á samkynhneigð sem ákveðna tegund af fötlun!!! Fram að þessu hafði ég setið á mér í samtalinu, en gat ekki lengur orða bundist og spurði hvort henni fyndist að kirkjan ætti þar með að hætta kirkjustarfi fatlaðra? 

Já það er með ólíkindum það sem fólk lætur frá sér fara þegar málefni samkynhneigðra ber á góma. En það skal skýrt tekið fram að samkynhneigð er ekki ákveðin tegund af fötlun. En vegna þessarar konu og reyndar málflutnings fleiri aðila sem ég hef rekist á, á netrallýi mínu ætla ég aðeins að halda áfram að fjalla um biblíuna og samkynhneigð. 

Þegar kemur að vangaveltum um sköpun mannsins í mynd Guðs er að sjálfsögðu eðlilegt að horfa til fyrri sköpunarsögunnar sem er að finna í 1. kafla 1. Mósebókar:   sköpun

„Og Guð sagði: “Vér viljum göra manninn eftir vorri mynd, líkan oss, og hann skal drottna yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir fénaðinum og yfir villidýrunum og yfir öllum skriðkvikindum sem skríða á jörðinni.”  Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.  Og Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau: “Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.” 1. Mósebók 1.26-28. 

Hér segir klárlega að manneskjan sé sköpuð í Guðs mynd, en hér er einnig talað um drottnun hennar yfir jörðinni auk þess sem frjósemishlutverkið er undirstrikað.  Ég ætla einkum að beina sjónum mínum að frjósemisparti frásagnarinnar og þeirri hugmynd að manneskjan sé sköpuð í Guðs mynd. 

 

Fyrst verðum við að gera okkur grein fyrir því að fyrr á öldum var karlmaðurinn einungis talinn skapaður í mynd Guðs, og konan hafði bara aukahlutverki að gegna í þessari sviðsetningu sem Guð hafði búið karlmanninum.  Lengi vel héldu lærðustu sérfræðingar og kirkjufeður því fram að konan væri ekkert annað en vanskapaður karlmaður, og væri einungis nothæf til undaneldis.  Í raun var hún bara „hlutur”, samkvæmt þessari hugmynd, en ekki virkur þáttakandi í sköpun nýs einstaklings.  Þessi neikvæðni í garð kvenna tengist hugmyndinni um þiggjanda og geranda í kynlífi í grísk-rómverskri menningu og fram á miðaldir.

 

Engum dettur í hug að láta það út úr sér í dag að konan sé vanskapaður karlmaður.  „Tímarnir breytast og mennirnir með” segir máltækið.  Það á svo sannarlega vel við þegar kemur að viðhorfi kirkjunnar til kvenna.  Viðhorf kirkjunnar í dag miðað við það sem var fyrir 50 árum, hvað þá 500 árum er ekki saman að jafna. 

 

Þannig sjáum við að þó kirkjan telji sig boðbera sannleikans á öllum tímum, þá er hinn sögulegi sannleikur ekki sá sami í dag og hann var í gær.  Samfélagið tekur stöðugum breytingum og kirkjan verður að sjálfsögðu að fylgjast með því sem gerist í samfélaginu.  Það er ekki þar með sagt að hún hlaupi á eftir einhverjum kreddum eða vitleysi þó hún taki breytingum í viðhorfi og túlkun á textum biblíunnar, enda er tiltölulega stutt síðan nútíma biblíurannsóknir hófust á.  Við sjáum hins vegar í hendi okkar að sú túlkun sem gilti áður, um að maðurinn væri skapaður í Guðs mynd, átti einungis við karlamanninn en ekki konuna; ekki við óheilbrigða karlmenn heldur heilbrigða.  Slíkt þykir okkur firra í dag.

 

lennon_onoHugmyndin um gagnkvæmni kynjanna hefur verið nokkuð lífsseig innan kirkjunnar.  Þessi hugmynd gengur í stórum dráttum út á það að manneskjan verði ekki heil fyrr en í hjónabandi karls og konu.  Með þessum rökum væri hægt að segja að manneskjan sé ekki nema að hálfu leyti sköpuð í Guðs mynd því í hjónabandinu verða einstaklingarnir heilir, - eitt hold,- og þannig verður til hin „sanna” sköpun í mynd Guðs. 

 

Þessi skilningur er í besta falli ákaflega vandræðalegur, því margir kjósa einfaldlega að giftast ekki og lifa jafnvel einlífi.  Aðrir hafa ekkert val vegna líkamlegra eða andlegra krankleika.  Þó ekki væri nema af þessum ástæðum þá hafa þessi rök í raun fyrir löngu verið afgreidd sem ákveðin rökleysa, jafnvel þó margir kirkjunnar menn kjósi að nota þau enn í dag.

 

Í sköpunarfrásögunni hér að framan eru ekki sett nein skilyrði fyrir því að manneskjan sé sköpuð í Guðs mynd: „Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.”  Í frásögninni er hvergi minnst á hjónabandið, enda skipti kirkjan sér ekki af hjónabandinu að neinu marki fyrstu 1000 ár kristninnar.

 

Í þessu ljósi hafa menn gripið til þess ráðs að segja kynhvötina ekki vera hluta af guðsmyndinni.  Nokkuð augljóst virðist vera að þessi hugmynd tengist þeim vandræðagangi sem kirkjan hefur í gegnum tíðina sýnt af sér varðandi málefni sem tengjast kynlífi, kynhvöt og kynhneigð. Oft virðist manni það vera reglan að þeim mun uppteknari sem kirkjufeðurnir eru af einlífinu, þeim mun uppteknari eru þeir í raun af kynlífinu og þeim hvötum sem þar liggja að baki.

 

Orðið sjálft, kynhvöt, gefur okkur strax þá mynd að hér sé um hvöt að ræða sem er meðfædd. Enda gefur textinn í raun ekkert annað til kynna en að kynhvötin sé hluti af Guðs góðu sköpun.  Ef kynhvötin hefur ekki verið hugsuð sem hluti af Guðs góðu sköpun þá hefði textinn án efa tekið það skýrt fram.  Þessi texti sýnir okkur svo ekki verður um villst að við erum öll sköpuð í Guðs mynd, öll jafn mikið, óháð kyni, kynþætti eða kynferði.

 

Í raun snýst túlkun á textum biblíunnar, um að sjá skóginn fyrir trjánum.  Þ.e. að reyna að koma auga á kjarnann í boðskapi textans.  Hvað er það sem skiptir máli í viðkomandi texta, hvað skiptir minna máli og hvað skiptir engu máli. 

Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í Gamla testamentisfræðum við Guðfræðideild Háskóla Íslands, hefur bent á að „það væri misnotkun á biblíunni og hinum rauða þræði í boðskap hennar að nota texta eins og 3M 18.22 og 20.13 sem vegvísi fyrir kristna kirkju um hvaða afstöðu hún skuli taka til samkynhneigðra og baráttu.” Hér hittir Gunnlaugur einmitt naglann á höfuðið því sköpunarsögu textinn fjallar ekki á neinn hátt um samkynhneigð.  Hann fjallar aftur á móti um sköpunina.  Hann fjallar um að manneskjan sé sköpuð í Guðs mynd óháð kyni, litarhætti eða kynhneigð.

Kannski kemur meira seinna...sjáum til í hvaða áttir hugurinn reikar


Eyjapeyjar gera það gott

Ásgeir SigÞað er alveg merkilegt hversu marga góða knattspyrnumenn Vestmannaeyjar hafa alið. Ef við berum þetta saman við önnur bæjarfélög hringinn í kringum landið, þá er "það næsta víst" (svo notaður sé frasi Bjarna Fel) að hvergi koma jafn margir frambærilegir sparkarar og frá Eyjum.

Nægir að nefna: Ásgeir Sigurvinsson, Birki Kristinsson, Hermann Hreiðarsson, Birki Ívar, Gunnar Berg, Gunnar Heiðar, Margréti Láru Viðarsdóttur og fleiri og fleiri. Þetta eru þau sem ég man eftir í svipin.

Spurning hvað veldur, líklega hafa Eyjamenn vanist því að berjast fyrir sínu og gefast aldrei upp. Kannski hefur einangrunin gert það að verkum að menn hafa ekki haft "vit" á því að hræðast stóra drauma. Kannski gerir nálægðin við Spán og suðrænar strendur þetta að verkum. Vestmannaeyjar eru jú nær miðbaug en litla Ísland.


mbl.is Portsmouth sagt vilja fá Hermann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo er bara kominn ráðherralisti

Ég sat í sakleysi mínu ásamt eldri dóttur minni og horfði á eitt af stórverkum kvikmyndasögunnar, og því fór það alveg framhjá mér að búið væri að setja saman ráðherralistann.

PinguDanceStaðan er semsagt sú að við erum tvö í kotinu, ég og Mía (Gíslína og Íva eru farnar í borg óttans) og þess vegna var tilvalið að gera eitthvað sérstakt tvö saman. Byrjuðum á að fjárfesta í grilli til að grilla pylsur (reyndar einnota grilli) og tókum okkur svo bíómynd á leigu. Við grilluðum pylsur og borðuðum undir berum himni, þurftum reyndar að hlaupa um með matinn til að halda á okkur hita.

Síðan settumst við niður og horfðum á stórgóða mynd með "Pingu", eða Magga mörgæs, eins og hann er kallaður á okkar ástkæra ylhýra. Á disknum, Maggi Mörgæs 4, eru 11 stuttmyndir, hver annarri betri. En líklega nær diskurinn hvað hæstum hæðum í þættinum "Maggi fær í magann". Stórgóð leikstjórn, góð lýsing og frábært handrit. Maggi mörgæs fær fjórar og hálfa stjörnu af fimm mögulegum.

En síðan er bara kominn ráðherralisti!!!

Hvet alla til að horfa á Magga mörgæs (hann nýtur a.m.k. hylli í hollývúdd-hreppi) eða þá það næst besta nýju myndina með Woddy Allen, Scoop.


mbl.is Þrjár konur og þrír karlar ráðherrar fyrir Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

On top of the world

Ekki hefur þetta verið gáfulegt símtal. Baber sagði: "Það er kalt, þetta er frábært, Himalæfafjöllin eru um allt." Það er kalt!!! Himalæjafjöllin eru um allt!!! Við hverju bjóst maðurinn eiginlega, að það væri hlýtt?? Að Himalæjafjöllin hefðu horfið??

Svipað símtal átti sér stað í Smugunni á sama tíma: "Það er sjór um allt!!!

Já það er stórkostlegt að geta talað í síma á toppi Everest, en það er að sama skapi lélegt að hafa ekkert betra að segja þegar á toppinn er komið.


mbl.is Fyrsta símtalið af tindi Everest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamli sorrý Gráni...

megasMerkileg umfjöllun Kastljóssins í gær um hestaslysin. Þar kom fram að það er ekki hægt að kalla sig alvöru hestamann fyrren maður hefur dottið 10 sinnum af baki.

Mér datt í hug tilsvar Megasar í þessu sambandi, þegar hann var spurður að því af hverju hann semdi svona andstyggilega texta um konur, en fallega og tregafulla texta um hesta? Meistarinn svaraði: "Það er vegna þess að ég er svo skíthræddur við hesta. Maður veit aldrei hverju þeir taka uppá; kasta manni af baki, eða sparka í mann. En konur eru ósköp meinlausar."

Gott svar hjá meistaranum og ég deili þessari skoðun að nokkru með honum, þ.e. ég er skíthræddur við hesta, þó ég sé alinn upp í sveit. Ég er ekki eins hræddur við konur og hesta, án þess að ég ætli mér eitthvað lengra í þessum samanburði, búandi við kvennaveldi á heimilinu.


Ársskýrsla Stígamóta kynnt.

MEN_CAN_STOP_RAPEÍ ársskýrslu Stígamóta kemur fram að 9 hópnauðganir komu inná borð þeirra og 15 lyfjanauðganir. Þetta eru óhuggulegar tölur. Þessar tegundir nauðgana eru alltaf skipulagðar, þannig að hér er ekki um eitthvert stundarbrjálæði að ræða, heldur skipulagða aðför að lífi einstaklinga, sálarheill og velferð.

Í skýrslu Stígamóta kemur einnig fram að það sé að færast í aukana að kynlífsathafnir fólks séu settar á netið, hvort sem það er með samþykki fólks eða ekki, og efni sem tekið er upp í tengslum við lyfjanauðganir rata einnig á netið, eða konum er hótað að það verði sett á netið. 

Maður hlítur að spyrja sig á hvaða leið við erum? Hverslags þankagangur ræður því að nokkrir piltar taka sig saman og nauðga stúlku? Hvað gerir það að verkum að menn lauma lyfjum útí drykki kvenna til þess að nauðga þeim?

Það er margt sem kemur fram í skýrslu Stígamóta, margt óhuggulegt, þegar maður gerir sér grein fyrir því að á bak við hverja einustu tölu er einstaklingur sem brotið hefur verið á, líf viðkomandi hefur beðið skipbrot. Nauðgun er ekki bara einstakur atburður sem á sér stað á ákveðnum tímapunkti, heldur fylgir viðkomandi mun lengur útí lífið, jafnvel allt til enda.Rúna

En Guði sé lof fyrir samtök eins og Stígamót, sem hjálpa við uppbyggingu fólks. Hér til Eyja koma hún Rúna Jónsdóttir, talskona Stígamóta, fyrir nokkrum vikum og hélt fund fyrir þolendur, aðstandendur og aðra þá sem koma að kynferðisbrotamálum. Þetta var góður fundur, þó hann hafi í raun verið fámennari en við vonuðumst eftir sem stóðum að fundinum. Kannski eðlilegt, því þetta var opinn fundur og fólk kannski hrætt við að opinbera sig með mætingu á slíkan fund. En auðvitað líkur ekki málum með einum slíkum fundi, því í kjölfarið var tekin ákvörðun um að halda þeirri hópavinnu áfram sem þegar var byrjuð.


Hægri stjórn? Baugsstjórn? Velferðarstjórn?

Það er að verða nokkuð ljóst að ný ríkisstjórn verður D+S-stjórn, sem er draumastjórn Baugsmanna. Það verður spennandi að fylgjast með Sjálfstæðismönnum, bæði innan þingflokksins og utan, þegar þeir fara í eina sæng með Samfylkingunni. Það hafa ekki alltaf verið falleg orð sem þeir hafa látið frá sér fara í garð Samfylkingarinnar, og þá sérstaklega í garð Ingibjargar Sólrúnar. Tengist líklega því að Ingibjörg er sterkjur leiðtogi sem kallarnir í Sjálfstæðisflokknum hafa alltaf óttast.

Ég vona að stjórnin fari ekki frjálshyggjuleiðina í botn, en svo gæti auðvitað farið, miðað við stefnu flokkanna. Það er þó vonandi að Ingibjörg verði trú uppruna sínum úr kvennalistanum og þau mál sem sá ágæti lista stóð fyrir, nái fram að ganga.

Annars var ég frekar "svag" fyrir D+VG, en Steingrímur Joð klúðraði málum svo rækilega, að það tekur hann ekki nokkur maður alvarlega um þessar mundir, vonandi að hann taki sig á. Ef það gerist ekki þá er VG dæmt til að vera í stjórnarandstöðu svo lengi sem hann er formaður. Hann sýndi fádæma dómgreindarskort í Silfri Egils þegar hann hamaðist á Framsókn, og raunar öllum í kjölfarið.

Annars er það ágætt að Framsókn skuli vera í stjórnarandstöðu, löngu kominn tími til að hvíla þann ágæta flokk. Nú verður tíminn notaður til að byggja flokkinn upp, en ætli þeir eigi nokkuð í vandræðum með að finna sér eitthvað til að klúðra fyrir sjálfum sér, það er a.m.k. venjan.

Ég er hræddur um að VG hafi náð sínum toppi hvað fylgi í kosningum varðar, það er tilfinning sem margir finna fyrir, því þó þeir hafi bætt við sig fylgi þá er eitthvert vanþækklæti í herbúðum þeirra, eða jafnvel einhver hroki yfir því að vera orðin stærri en framsókn. Leiðin verður líklega erfið úr þessu hjá stjórnarandstöðu flokki Íslands.


mbl.is Stjórnarmyndunarviðræður halda áfram eftir hádegi í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegur bloggari hann Páll.

Rakst á alveg hreint ótrúlega bloggsíðu sem Páll Kristbjörnsson guðfræðingur heldur úti og ber heitið Vor syndugra andans spjall. Ég bið ykkur endilega að kíkja í heimsókn til Páls. Ég hélt fyrst að þetta væri eitthvað grín, svona í svipuðum anda og Sylvía Nótt, síðan hélt ég að maðurinn væri ekki með öllum mjalla, en núna er ég aftur kominn inná að þetta sé eitthvað grín hjá Páli. Það getur eiginlega ekki annað verið. Sjálfsagt á ég eftir að sveiflast milli þess að þetta sé grín annars vegar eða eitthvert brjálæði hins vegar, svona eins og maður fyrst tvístígandi varðandi Sylvíu.

Ef einhver þekkir til mannsins, látið mig endilega vita hvort hér sé um guðfræði-Sylvíu að ræða eður ei.


Enn af prestastefnu

Prestastefna 2007 194Í Mogganum í gær birtist hin ágætasta grein eftir sr. Jón Helga Þórarinsson, sóknarprest í Langholtskirkju. Þar fjallar hann um heitasta málið á prestastefnu 2007, og raunar eitt heitasta málið innan kirkjunnar í dag. Mig langar aðeins að grípa niður í grein Jóns Helga:

Hjónaband eða staðfest samvist?

Á prestastefnunni var hins vegar felld tillaga sem um 40 prestar og guðfræðingar lögðu fram þess efnis að Alþingi heimili prestum og forstöðumönnum trúfélaga að gefa samkynhneigð pör saman í hjónaband. Þeir sem lögðu þessa tillögu fram hafa komist að þeirri niðurstöðu að hugtakið hjónaband skuli ekki aðeins ná yfir hjúskap karls og konu heldur einnig yfir hjúskap samkynhneigðra sem nú ber heitið staðfest samvist.

Þó svo að sumum finnist þetta næsta lítið mál þá kallar þessi umræða á margvíslegar vangaveltur um inntak hjónabandsins. Sú umræða á sér stað um þessar mundir en henni er þó hvergi nærri lokið og gögn um málið eru takmörkuð að mínu mati. Málið þarf að vinna betur og með svipuðum hætti og unnið hefur verið með biblíuskilning og túlkun ýmissa ritningartexta er snerta þetta málefni. Því taldi ég framlagningu þessarar tillögu til atkvæðagreiðslu ekki tímabæra og vildi að hún yrði send biskupi og kenningarnefnd sem yfirlýsing ofangreindra presta með þeirri ósk að tillit yrði tekið til þeirra sjónarmiða þegar kenningarnefnd býr málið í hendur kirkjuþings í haust. Þetta töldu ýmsir flutningsmanna ekki ásættanlegt og því fór sem fór og þykir mér mjög miður að greiða hafi þurft atkvæði um svo veigamikið mál sem að mínu mati hefur alls ekki hlotið næga umfjöllun innan kirkjunnar.

Þetta er góð og raunsönn grein eftir Jón Helga. Hann setur málið upp eins og það blasir við án allra upphrópana eða skammaryrða, sem er auðvitað mjög mikilvægt fyrir málið í heild sinni.

P.S. Myndin er tekin af mér og spúsu minni á prestastefnunni


Áfram - ekkert stopp....á falli Framsóknar.

Hér hittir hinn geðþekki veðurfræðingur naglann á höfuðið. Það er klárt ef Framsókn ætlar sér ekki að fremja pólitískt "harikíri" þá er það eina rétta í stöðunni að draga sig í hlé og hugsa málið alvarlega. Það er klárlega eitthvað að, eitthvað er það sem gerir það að verkum að flokkurinn nær ekki líðhylli.

HössiKannski er það ákveðinn vingulsháttur sem er vandamálið, það er a.m.k. alveg klárt að Framsóknarmenn vita ekki fyrir víst hvað best er að gera. Seyðandi hljómur valdsins kitlar, það er alveg ljóst, og það var heyrandi á nýjum þingmanni Framsóknar í NA-kjördæmi, Höskuldi Þórhallssyni (sem er einmitt sonur sr. Þórhalls, heitins, Höskuldssonar hins ástssæla prests úr Hörgárdal) að það skipti kannski ekki öllu máli hvaða stjórn yrði fyrir valinu, svo framarlega sem Framsókn væri með!!

Já það getur verið erfitt að gera sér grein fyrir því hvenær best er standa fast á sínu og hvenær best er einfaldlega að sleppa og viðurkenna að eitthvað mikið sé að.


mbl.is Framhald núverandi stjórnarsamstarfs feigðarflan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband