Færsluflokkur: Bloggar

Ég þekki landsliðsþjálfarann!

Hér í Eyjum var haldið heilmikið fótboltamót, Pæjumótið, sem ég náði aðeins að fylgjast með, reyndar miklu minna en mig langaði til.  Þetta var mikil og góð skemmtun sem ÍBV eiga heiður skilið fyrir að standa að.  Mér heyrðist almennt þátttakendur, liðsstjórar og þjálfarar ánægðir með mótið.

Anna Margrét, frænka mín frá Neskaupsstað var að keppa og pabbi hennar (Arnar frændi) var þjálfari Þróttaraað austan og stóð sig með prýði eins og dóttirin.  Þróttur endaði í þriðja sæti meðal A-liða.  Á laugardeginum var síðan landsleikur þar sem úrval stelpna keppti sín á milli. Arnar var þjálfari landsliðsins sem keppti við pressuliðið og endaði leikurinn 3-3.  Þetta var opinn og skemmtilegur leikur og hin mesta skemmtun.

Miðað við þann tíma sem Arnar fékk til að undirbúa landsliðið (líklega einn klukkutími) þá verður þetta að teljast mjög góður árangur.  Mér sýnist á öllu að arftaki landsliðsins sé fundinn.  A.m.k. fær Arnar mitt atkvæði, en ég er auðvitað ekki hlutlaus.

Bendi á frábært blogg Guðna Más, skólaprests, um stöðu landsliðsins, þar sem hann tekur tölfræðina á málið.


Mannréttindabrot í Kína

tekin af lífiÞað voru sláandi fréttirnar af málefnum fanga í Kína í fréttum Stöðvar 2 í gær.  Þar var greint frá því að fanga í Kína væru látnir búa til varning fyrir stórfyrirtæki á borð við Coka Cola.  Þetta hafa þeir vitað lengi sem fylgst hafa með mannréttindamálum í heiminum.  En það er eins og ekki megi styggja kínversk stjórnvöld á nokkurn hátt því gróðavonin er mikil nú þegar landamærin eru að opnast.  Í fyrradag var einnig sagt í fréttum rúv frá barnaþrælkun barna í Kína fyrir Ólympíuleikanna.

Síðan er það auðvitað þrálátur orðrómur um mikla verslun með líffæri fanga sem hafa verið líflátnir.  Þessi orðrómur hefur fyrir löngu verið staðfestur af mörgum og ólíkum samtökum og einstaklingum.

Mér kæmi það vægast sagt á óvart ef einhverjir hjá Coke-risanum hefði ekki vitað um málið, enda orðrómur búinn að vera lengi í gangi um þessi mál.  Í mörgum löndum heims er Coke ekki tákn um frelsi vesturlanda, heldur helsi - kúgun - þvingun og eyðileggingu.  Þannig veit ég að starfsemi og framferði þeirra á Indlandi hefur sætt mikilli gagnrýni.  Ármann Hákon Gunnarsson, æskulýðsfulltrúi í Garðasókn, sagði mér ýmsar ljótar sögur af viðskiptum Indverja við Bandaríska risafyrirtækið, á ferð sinni um Indland.

Við hljótum að velta því fyrir okkur hversu margar óhamingjusamar sálir, hversu mörg börn sem vinna í ánauð, hversu margir "þrælar" vinna við að gera líf okkar á vesturlöndum að stanslausu partýi og gleði.  Hversu mörg tár eru á bakvið hlátur okkar?

Það vita í raun allir að stjórnvöld í Kína fótumtroða mannréttindi, en það er eins og óhuggulegur þagnarmúr hafi verið reistur til þess að hlífa stjórnvöldum við gagnrýni.  Þjóðarleiðtogar minnast á þessi mál nánast í framhjáhlaupi þegar skrifað er undir stóra viðskiptasamninga. 

Hvenær er komið nóg?  Hvenær segjum við hingað og ekki lengra?  Okkur ætti alls ekki að vera sama, en ætli flestum sé ekki sama?  Við ættum auðvitað að meta mannslífið meira en peninga, en ætli við gerum það nokkuð?  Við ættum að standa vörð um mannréttindi fólks, hvar í heimi sem er, en ætli okkur sé ekki nokk sama á meðan við höfum það gott? 

Því miður er Kína fjarri því að ver eina landið í heiminum þar sem mannréttindi eru fótumtroðin.  Í því samhengi vil ég benda á ársskýrslu Amnesty International.


Styðja íslensk stjórnvöld mannréttindabrot í Kína?

Mér er spurn hvort einhverntíman hafi komið fram afsökunarbeiðni frá íslenskum stjórnvöldum í þessu máli?  Þær aðgerðir sem gripið var til gagnvart Falun Gong-liðum voru með hreinum ólíkindum, og í raun til háborinnar skammar.

Við hjónaleysin tókum þátt, bæði í mótmælunum þegar forseti Kínverska þingsins kom til landsins og eins þegar forsetinn kom.  Það var ótrúlegt að upplifa æsinginn og vanstillinguna hjá íslenskum stjórnvöldum í kringum þessar heimsóknir.  Þessum háu herrum skyldi hlíft við allri gagnrýni, sama hvað tautaði og raulaði, og nánast með hvaða meðulum.  Þrátt fyrir að öll heimsbyggðin hafi vitað og viti af þeim mannréttindabrotum sem eiga sér stað í heimalandi þeirra.  Staðan í Tíbet er síðan heill pakki þessu viðbótar, þar sem allar gagnrýniraddir eru brotnar á bak aftur með miklu harðræði.

Ég held að stjórnvöld ættu að sjá sóma sinn í því að ganga að kröfum Falun Gong og reyna að ljúka þessu máli sem annars er mikill smánarblettur á sögu lands og þjóðar.

Kannski er borin von að gengið verði að þessum kröfum, því nú á að herja á markaði í Kína með íslensk viðskipti - Hin íslenska Húnainnrás í austri.  Þá er auðvitað mikilvægt að styggja ekki kínversk stjórnvöld.  Þegar öllu er á botninn hvolft, þá eru það peningarnir, eða vonin um fjárhagslegan gróða íslenskra fyrirtækja og fjármálastofnana sem öllu máli skipta - Skipta meira máli en eitthvert kjaftæði um mannréttindi "nokkurra" Kínverja.


mbl.is Falun Gong hvetur stjórnvöld til að greiða bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kári Auðar Svansson - snilldar penni!

Ég bara verð að benda á snilldargrein sem hann Kári Auðar Svansson skrifaði og birtist í netgreinum Moggans.  Greinin ber heitið Klerkur og karma. Kári hefur nokkrum sinnum áður skrifað greinar sem birst hafa í blöðum og það verð ég að segja að mér finnst hrein unun að lesa skrif hans.  Góður og mikill skilningur á íslenskunni og skemmtilegur og kjarngóður stíll einkenna skrif hans.

Reyndar skal ég viðurkenna það að mér er málið að nokkru skilt. Kári er sonur Svans Kristjánssonar, stjórnmálafræðings, og hálfbróðir Heiðars Inga (Svanssonar), uppeldisfrænda og fóstbróður.  Reyndar get ég nú ekki sagt að ég þekki Kára, en ég þekki nokkuð í kringum hann.  Og ég fullyrði það að þar er á ferðinni einn magnaðisti penni landsins.


Ég kann ensku!

Ég og Mía, eldri dóttir mín (sem er 4, alveg að verða 5) lágum inní rúmi í kvöld og hlustuðum á gamla spólu með Mini Pops frá árinu 1982. Þar sem Mía liggur á koddanum og raular með erlendum lögunum á "bullensku", þá segir hún við mig: "Pabbi eru þau að syngja á ensku?" "Já" segi ég. Þá svarar hún: "Heyrðu pabbi, þá kann ég ensku." Síðan hélt hún áfram að syngja sig í svefn.

Á þessari Mini Pops spólu er syrpa af lögum sem hinir geðþekku drengir í Village People sungu í denn. Ég man að við sungum lagið Go West, með VP, á árshátíð á Stórutjörnum, og ég var indíáninn í hópnum, sem var hið besta mál fyrir utan það að ég var nýrisinn uppúr hlaupabólu og var skelfilegur á að líta, þar sem ég stóð ber að ofan með indíánafjaðrirna, allur í dílum og doppum eftir veikindin. Vildi að ég hefði verið leðurhomminn.

P.S. Rakst á stórgóða heimasíðu Village People. Um að gera að hækka allt í botn og njóta.


20 ára fermingarafmæli á næsta leyti.

Þann 14 júní eru 20 ár síðan ég fermdist.  20 ár!! Við vorum þrjú sem fermdumst í Illugastaðakirkju þetta árið, ég, Hilmar, sem nú er bóndi í Leyningi inní Eyjafirði og Eydís, sem er, að því ég best veit kjólameistari eða klæðskeri í Danmörku. Þessi þriggja manna fermingarhópur var bara mjög stór hópur miðað við það sem áður hafði gerst. Árið áður var engin, þar áður var einn, enginn árið þar á undan....

Við vorum reyndar fleiri sem sóttum fermingartímana hjá prestinum, því prestakallið var eitt en sóknirnar margar. Til að byrja með var fræðslan í höndum sr. Hönnu Maríu og síðan sr. Bolla í Laufási.  Ég var sá eini í bekknum sem var staðráðin í að fermast ekki við upphaf fræðslunnar, og er síðan sá eini sem starfa í kirkjunni í dag. Svona eru nú örlögin ótrúleg.

Annars er það merkilegt hvað maður ofmetur sjálfan sig á þessum árum.  Ég keypti mér t.d. forláta leðurjakka fyrir ferminguna. Ég ákvað að hafa hann heldur stóran á mig því ég taldi mig vera að kaupa til framtíðar, og fannst ekki óeðlilegt að ég myndi nú stækka töluvert eftir fermingu, enda var ég höfðinu hærri en allir í kringum mig. Það er skemmst frá því að segja að þessi leðurjakki hefur aldrei passað almennilega á mig, því ég hef ekkert stækkað síðan ég fermdist. Hins vegar tóku allir félagar mínir vaxtakippi eftir fermingu og er ég núna minnstur úr gamla vinahópnum.

Þennan dag fyrir 20 árum var m.a. sjómannadagurinn, Adda Steina flutti sunnudagshuvekju í Sjónvarpinu, hægt var að kaupa flug og bíl til Salzburg á 12.835 fyrir pabba, mömmu og börnin, hægt var að kaupa "glæsilegt 300 fm. einbílishús" í Klyfjaseli í Rvík á 8,2 milljónir, í Bíóhöllinni var hægt að sjá Lögregluskólann 4, stjórnarmyndunarviðræður voru að hefjast og á baksíðu Moggans var sagt frá því að Kolbeinsey væri að hverfa.


Afdalamaður á Sjómannadegi

Baldur SigurlássonÉg prédikaði hér í Landakirkjuí Sjómannamessu og í aðdraganda þessarar prédikunar velti ég því mikið fyrir mér hvað ég ætti nú að segja í prédikun á sjómannadegi.  Hvað ætli afdalamaður að norðan, sem þekkir sjóinn nánast bara af afspurn, geti sagt í prédikun á sjómannadegi? Sveitamaður sem auk þess vissi hvorki hvort vertíð var að byrja eða enda þar til nýverið.   

Við sem erum alin upp í sveit horfðum alltaf til sjómanna með nokkurri lotningu og þjáðumst stundum af einhverskonar minnimáttarkennd.  Þetta birtist nokkuð vel í því þegar við Ævar Kjartansson, bekkjarbróðir minn í guðfræðinni vorum einu sinni að ræða málin, tveir sveitamenn að norðan, uppá svokölluðu kapellulofti í guðfræðideildinni.   

Umræðurnar snérust aðallega um hinar ýmsu gerðir dráttarvéla, þ.e. hvort vænlegra hefði verið að eiga Massa Ferguson, Ford, eða Zetor.  Ég var alltaf Ferguson maður, og þess vegna fór ég ekki hátt með það á sínum tíma þegar pabbi keypti Ford.  Hvað um það umræður okkar snérust semsagt um frægðarsögur úr sveitinni, hversu gamlir við höfðum verið þegar við fengum að snúa eða garða upp. Við fengum aldrei að slá, um það sá alltaf sá sem stóð fyrir búinu. 

Þegar umræður okkar félaganna eru að ná ákveðnu hámarki og karlagrobbið komið í botn.  Þá vindur sér að okkur bekkjarsystir okkar frá Skagaströnd, og bloggvinur minn, og segir: “Þetta minnir mig nú bara á þegar ég var í Smugunni.”  Síðan komu frásagnir úr smugunni og fleiri framandi stöðum, sem maður hafði bara heyrt um í fréttum.

Það er skemmst frá því að segja að við félagarnir urðum eins og smástrákar, og allar grobbsögur úr sveitinni urðu eins og fallegar kvöldsögur fyrir börn. Líklega þarf ég ekki lengur að þjást af minnimáttarkennd gagnvart sjómönnum í dag, því nú hafa sjómenn og bændur gengið í eina sæng í sameiginlegu ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar í nýrri ríkisstjórn.  Auk þess sem ég hef prédikað í sjómannamessu og tekið þátt í mínum fyrstu Sjómannadagshátíðarhöldum, sem tókust mjög vel hér í Eyjum.

P.S. myndin er fengin af heimasíðu Sigurgeirs ljósmyndara hér í Eyjum


Landinu rænt til að afhenda Landsvirkjun

Enn valda úrskurðir óbyggðanefndar usla og óánægju. Í þeim úrskurði sem tekinn er fyrir í þessari frétt, þá kemur tilgangur þjóðlendulaganna svo vel í ljós. Nefnilega sá að ríkið er að mylja undir sig jarðar bænda og annarra landeigenda til þess að nota í eigin þágu (þurfa ekki að borga viðkomandi bætur þegar ríkið eða Landsvirkjun ætlar að framkvæma). Þetta er einmitt það sem ég hef alltaf haldið fram og fundist undarlegur framgangurinn í öllu þessu máli.

Ný landamerki hafa verið dregin upp með einu pennastriki sem minnir svolítið á aðfarir manna við skiptingu Afríku á sínum tíma, eða skiptingu Evrópu eftir fyrra stríð, það var gerræðislegt og þetta þjóðlendumál líka. Það getur ekki talist eðlilegt að gengið sé svona hart fram gagnvart landeigendum. Það er ekki eins og hér sé um stóreignafólk eða milljarðamæringa að ræða sem hafa efni á að atast í réttarsölum með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn.


mbl.is „Þetta er bara rán"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frida Kahlo, goðsögn sem lifir.

Nú væri gaman að skella sér til Mexíkó og sjá þessa mögnuðu sýningu. Frida er nefninlega í miklu uppáhaldi hjá okkur hjónaleysunum, svo miklu að eldri dóttir okkar kaus að fæðast á afmælisdegi listakonunnar, vonandi að lífshlaup hennar verði ekki markað sömu erfiðleikum og líf Fridu.
Annars var Frida alveg stórmerkileg kona sem skildi eftir sig dýpri spor í listasögunni en flestar kynsystu hennar hafa gert, þrátt fyrir endalaust mótlæti.
Mæli eindregið með bók sem um hana var skrifuð og þýdd á ástkæra ylhýra, síðan var myndin svosem ágæt líka, svo langt sem hún náði.
mbl.is Þriðjungur verka Fridu Kahlo sýndur í Mexíkó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúther og hjónabandið

weddingMér er hjónabandið nokkuð hugleikið um þessar mundir, þar sem við Gíslína ætlum að gifta okkur 8. sept. auk þess sem hér var brúðkaupssýning í Eyjum um daginn, og "brúðkaupstímabilið" er að hefjast. Þess vegna þótti mér nokkuð forvitnilegt að sjá hvað Lúther gamli hafði um málið að segja.

Í riti Lúthers, frá árinu 1522, fjallar hann um hjónabandið vítt og breitt, þar gagnrýnir hann m.a. skilyrði þau sem kaþólska kirkjan setur fyrir því að fólk gangi í hjónaband, sem honum finnst vera komin út fyrir öll velsæmismörk.  Hann tekur dæmi um að kaþólska kirkjan banni fólki að giftast sem hefur til að mynda framið morð, eða aðra alvarlega glæpi. 

Þetta telur Lúther vera í hrópandi ósamræmi við ritninguna.  Þó vissulega eigi að refsa fólki fyrir morð, þá kemur það hjónabandinu ekki á neinn hátt við, og hér bendir hann á söguna af Davíð og Batsebu, sem eignuðust Salómon.

 

Þar sem hjónabandið er ekki sakramenti skv. Lúther þá hefur fólk fulla heimild til skilnaðar, þó vissulega verði að liggja ákveðnar ástæður þar að baki.  Hann talar um þrjár megin ástæður fyrir hjónaskilnaði:

 

wedding31) ef annar aðilinn er ekki hæfur til hjónabands vegna líkamlegra eða andlegra krankleika 2) vegna framhjáhalds 3) vegna þess að annar aðilinn hefur ekki uppfyllt skyldur sínar í hjónabandinu, bæði líkamlegar, og ekki síður andlegar (tillitsleysi, óbilgirni og fleira þess háttar).

 

Í þessu riti vitnar Lúther til sköpunarsögunnar þar sem segir: „verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina”.  Hann segir það vera í eðli manneskjunnar að margfaldast og einnig skylda karls og konu.  Manneskjan getur ekki barist gegn því eðli sem henni er ásköpuð, á sama hátt og karl getur ekki sagst vera kona, því við erum öll sköpuð og steypt í ákveðin mót. 

Lúther leggur áherslu á að það sé í hæsta máta óeðlilegt að fólk velji sér einlífi, því það stríðir algjörlega gegn eðli manneskjunnar.  Að mati Lúther getur einlífi presta, nunna og munka ekki leitt annað af sér en syndsamlegt líferni í formi öfuguggaháttar og þess vegna eiga þau sem hafa gengist undir þess konar heit að snúa blaði sínu við, öðruvísi verða þau ekki heilar manneskjur.

 

Í prédikun sem Lúther flutti um hjónabandið segir hann að þegar fólk gengur í hjónaband sé nóg að fólk segi við hvort annað: „ég er þinn og þú ert mín”.    „Læknarnir”, þ.e. guðfræðingar kaþólsku kirkjunnar, segja að hjónabandið sé leið til að geta af sér afkvæmi og einmitt það ýti undir sakramentisskilninginn á hjónabandinu. 

wedding7Þetta segir Lúter vera misskilning, þó vissulega sé hjónabandið hentugur vettvangur fyrir barneignir, en þeir sem ekki eru kristnir geta líka af sér börn í hjónabandi og ekki er það sakramenti hjá þeim.  Það eru ekki barneignirnar sem skipta máli, að mati Lúthers, heldur uppeldið á börnunum, því almennilegt kristið uppeldi á börnum er stysta leiðin til himna. 

 

Í ritinu Babýlóníu herleiðing kirkjunnar segir Lúther að hjónabandinu innan kaþólsku kirkjunnar hafi verið snúið upp í farsa og það sé hreint guðlast að halda því fram að það sé sakramenti sem hafi eitthvað með sáluhjálp að gera.  Hann segir að þess sé hvergi getið í Nýja testamentinu að fólk sem gengur í hjónaband hljóti sérstaka náð frá Guði.  Og hann fullyrðir að þess sé ekki einu sinni getið í biblíunni að Guð hafi stofnað hjónabandið.  Hjónaband tíðkist jafnt hjá kristnu fólki sem heiðnu og það sé ekki hægt að sjá að hjónabandið sé eitthvað heilagra hjá hinu kristna fólki. 

 

Hvers vegna er þá talað um það sem sakramenti?  Lúther vill meina að kaþólikkarnir byggi sakramentisskilning sinn á hjónabandinu fyrst og fremst á stórum misskilningi, því þar sem Vulgata, hin opinbera latneska þýðing biblíunnar, talar um „sacramentum” þar stendur skýrum stöfum í gríska frum-textanum „mysterium” (sem útleggst sem leyndardómur).  Kaþólska kirkjan hefur snúið út úr ritningunni og fengið út það sem henni hentar, nefnilega að hjónabandið sé sakramenti sem Guð hafi stofnað.  Þetta segir Lúther ekki vera satt því hjónabandið sé fyrst og fremst mannanna verk sem hefur sína kosti og galla eins og öll önnur mannanna verk. 

wedding6Hér gagnrýnir Lúther enn einu sinni öll þau skilyrði sem kaþólska kirkjan setur fólki sem vill ganga í hjónaband.  Hann spyr hver hafi gefið mönnum það vald að banna einum en leyfa öðrum að ganga í hjónaband, ef slíkt á að viðgangast verði menn að finna rök fyrir máli sínu í ritningunni, annað eru tómir duttlungar kreddufullra manna.  „Af hverju ætti hamingja mín að byggjast á kreddum annarra?”, spyr Lúther að lokum.

Eins og sjá má þá hættir Lúther svolítið til að mála það sem hann vill koma á framfæri með sterkum litum, og það er greinilegt að margt af því er ekki sett fram til þess að ná einhvers konar málamiðlun.  Enda bendir Lúther á að hjónabandið hafi fylgt manninum löngu áður en nokkur varð kristin manneskja og þess vegna er hér ekki um einkamál kirkjunnar að ræða.  Hér er um félagslegan atburð að ræða sem skiptir þá einstaklinga fyrst og fremst máli sem ganga í hjónaband.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband