Færsluflokkur: Bloggar
Að skammast sín
1.5.2007 | 22:13
Stundum kemur það fyrir að maður að maður skammast sín og það er einmitt það sem ég geri nú. Ég klikka á því að hringja í elsta og besta vin minn á afmælisdeginum hans, sem var í gær 30. apríl. Til að bæta þetta að einhverjum hluta þá sendi ég þér, Hilmar, mínar bestu kveðjur á öðrum í afmæli. Hilmar er einn af þeim mönnum sem ég ber mikla virðingu fyrir og treysti fullkomlega. Hann var langt á undan öllum öðrum þegar hann fjárfesti í Commandor 64 tölvu. Þetta þótti fólki í sveitinni undarleg fjárfesting, að kaupa sér tölvu fyrir offjár (auk þess sem margir héldu örugglega að tölvur væru bara enn ein tískubólan sem myndi á endanum springa). Í dag er Hilmar félagi minn og fóstbróðir, bóndi norður í Eyjafirði, nánartiltekið Leyningi, þar býr hann myndarlegu búi ásmt henni Thelmu og syni þeirra Guðjóni. Ég veit nú reyndar að þessi gleymska í mér varpar engum skugga á vináttu okkar, en mér þótti þó við hæfi að senda honum þessa kveðju í tilefni gærdagsins. Þess má til gamans geta að Hilmar er einnig blogg-vinur minn, en hefur þó ekki látið næganlega til sín taka á þeim vetvangi sökum tímaskorts - því mörgu þarf að hyggja að á stóru búi.
Segja má að Hilmar upplifi annan hluta draums sem ég átti mér þegar ég var lítill, og ég upplifi hinn hlutann. Því þegar ég var lítill þá langaði mig til þess að verða eins og sr. Pétur heitinn í Laufási, sem þá bjó reyndar á Hálsi. Ég sá dæmið svona: Pétur var bóndi, með öruggar tekjur sem prestur. Þannig að þegar við fóstbræðurnir leggjum saman í púkkið þá má segja að draumurinn hafi ræst.
Bóndi er bústólpi, bú er landsstólpi.
P.S. Myndin er klárlega stolin af heimasíðu af heimasíðu Guðjóns
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Velferð fyrir alla, nema.....
1.5.2007 | 16:14
1. maí er varla svipur hjá sjón, miðað við það sem áður var. Ég er alinn uppí sveit norður í landi og þar varð maður svosem aldrei neitt sérstaklega var við 1. maí, enda sauðburður að hefjast og nóg annað að sýsla. Menn fóru ekki að drýfa sig í bæjarferð til þess eins að marsera um götur með kröfuspjöld á lofti í leiðindaveðri.
Slagorð dagsins er "Velferð fyrir alla" og er það hið besta mál svo langt sem það nær. Í þessu ljósi er svolítið grátlegt að rifja upp heimsókn Geirs H. Haarde í Kastljósið þegar hann var spurður útí biðlista á geðdeildir. Í þeim málaflokki er allt í kalda kolum, svo vægt sé til orða tekið. Foreldrum nánast haldið í gíslingu heima yfir veikum börnum sínum og þeir sem þurfa aðstoð í þessum málum verða að bíða.. og bíða... og bíða... Geir komst undan að svara spurningum um þessi mál og fór beint í biðlista fyrir aldraða, sem hann segir að sjái nú fyrir endan á. En hvorugur þessi hópur má við því að bíða, og þegar talað er um að eftir 4 ár verði biðlistar þessara hópa úr sögunni, er það einfaldlega of seint. Margir eldri borgarar verða dánir, og margir úr hópi andlegra veikra falla því miður fyrir eigin hendi, fjölskyldur uppgefnar og andlega- og fjárhagslega gjaldþrota.
Hópur andlegra veikra er ekki góður þrýstihópur, og þess vegna er hættan alltaf sú að þeir verði útundan í góðærinu. Það er því miður reyndin í góðærinu. Biðlistar inná geðdeildir verður að hverfa strax, ekki eftir 4 ár. Nógu erfitt er fyrir aðstandendur að horfa uppá fjölskyldumeðlim hverfa inní heim andlegra krankleika, þó ekki sé bætt ofaná allt saman endalausum áhyggjum af því hvort viðkomandi geri sjálfum sér mein, eða jafnvel öðrum. Síðan bætast fjárhagsáhyggjur ofaná þetta því veikindaleyfi eru oft á tíðum löngu búin hjá fjölskyldunni þegar viðkomandi kemst að.
Velferð fyrir alla!!
![]() |
Velferð fyrir alla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Prestastefna 2007 - "Íslenska Synodan"
29.4.2007 | 16:34
Það hefur verið allnokkur umfjöllunin sem Prestastefnan á Húsavík hefur fengið. Þar er ekki allt sem fram kemur í fjölmiðlum sannleikanum samkvæmt. Á leið minni aftur heim til Eyja í gær keypti ég mér DV, þar sem ég sá að á forsíðu var fyrirsögnin "Kirkjan mismunar". Í greininni er sagt að tillaga 42 menninganna hafi verið kolfelld (sem er hárrétt), en "Prestastefna samþykkti hins vegar tillögu með 43 atkvæðum gegn 39 að prestar, sem það kjósa, megi vígja samkynhneigða í staðfesta samvist". Hið rétta er að á Prestastefnu kom fram dagskrártillaga þar sem samþykkt var að vísa þessari tillögu til biskups og kenninganefndar. Tillagan sjálf fékkst aldrei rædd. En það á að fara fram skoðanakönnun um þessa tillögu á meðal presta.
Er nema von að fólk almennt sé hálfringlað í þessari umræðu, þegar ekki er hægt að gera þá kröfu til fjölmiðla að þeir fari rétt með. Í þessu máli hefur það líka lengi tíðkast að tala í upphrópunum, það á við fólk úr báðum hópum.
Niðurstaða margra samkynhneigðra í þessu máli er sú að færa eigi vígsluvaldið frá trúfélögum, þetta varð ég mjög var við þegar ég vann lokaritgerð mína í guðfræðinni og fékk afnot af gögnum á bókasafni Samtakanna 78. Þessi krafa er síðan að verða æ háværari hjá almenningi.
Það hefur mörgum prestum reynst erfitt að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í fjölmiðlum, sérstaklega vegna þess að oft er snúið út úr orðum þeirra og þeir stimplaðir sem fordómafullir afturhaldsseggir. Þess vegna hafi þeir frekað kosið að segja ekkert við fjölmiðla, enda er umræðan oft á tíðum ó-interessant fyrir megin þorra fólks, þar sem tekist er um guðfræðihugmyndir, trúfræði og annað sem er ekki hluti af dægurumræðunni. Fjölmiðlar vilja líka setja málið í þann farveg að úr verði kappræða, tvær fylkingar sem takast á oní skotgröfunum. En það er, þegar öllu er á botninn hvolft, engan vegin gott fyrir umræðuna og málið í heild sinni.
Þess vegna var fjölmiðlum ekki hleypt inn þegar umræður um þetta mál fór fram. Það er síðan ákaflega undarlegt þegar prestar koma fram í fjölmiðlum og kvarta annars vegar undan því að ekki hafi farið fram leyninleg atkvæðagreiðsla um tillögu 42 menninganna, og hins vegar undan því að byrgt hafi verið fyrir alla glugga og fjölmiðlum ekki hleypt inn. Ég kem þessu ekki heim og saman.
Annars var prestastefna ákaflega góð að svo mörgu leyti. Menn voru heiðarlegir í umræðunni um ályt kenninganefndar, án þess að vera í einhverjum persónulegum væringum, það var gott. Síðan var þetta hið besta samfélag, og gaman að hitta kollega sína víðsvegar af landinu. Þess má síðan geta að "hin heilaga þrenning" hittist þarna aftur eftir alltof langt hlé. (Við vorum mikið saman í guðfræðideildinni: Ég, Hólmgrímur (héraðsprestur fyrir austan) og Ævar Kjartansson (útvarpsmaður). Við gengum reyndar undir nafninu "hin heilaga þrenning og Henning" því fjórði aðilinn var Henning Emil, sem búið hefur erlendis undanfarin misseri.
ATH Gíslína tók myndir sem fylgja bloggfærslunni. Hún var óþreytandi með vélina fyrir norðan, og tók margar góðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fréttir af Prestastefnu
26.4.2007 | 14:56
Ég hef setið mína fyrstu prestastefnu undanfarna daga. Þar var miklum tíma varið í umræðu um blessun yfir staðfestri samvist samkynhneigðra. Það var samþykkt og þar með gekk íslenska kirkjan mun lengra en aðrar kirkjudeildir í heiminum hafa lagt í að fara. Það er fagnaðarefni! Ég er sannfærður um að ef hópur 42 tveggja aðila hefði ekki komið fram með sína tillögu þá hefði ef til vill verið hægt að koma málefnum lengra áfram en raunin varð.
Ég er heldur ekki allskosta sáttur við viðtal sem birtist við sr. Bjarna Karlsson í Fréttablaðinu þar sem hann grætur niðurstöðu prestastefnu og sakar þá sem ekki greiddu atkvæði með tillögunni um fordóma í garð samkynhneigðra, í þennan hóp skipar sr. Bjarni mér semsagt. Þvílik fyrra, það vita allir sem mig þekkja og vita fyrir hvað ég stend.
Annars stóð ég í ströngu á minni fyrstu prestastefnu því ég var settur sem ritari prestastefnu ásamt þremur öðrum.
Ég kem til með að fjalla aðeins meira um prestastefnu seinna, en nú er ferðinni heitið aftur suður yfir heiðar með viðkomu í Fnjóskadalnum.
Á myndinni sem með fylgir sést ég lengst til hægri (reyndar ekki mjög áberandi)
![]() |
Tillaga um hjónavígslu samkynhneigðra felld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Já nú er gaman!
21.4.2007 | 22:51
Stóru tíðindi dagsins eru þau að Q.P.R. tryggði sæti sitt í ensku 1. deildinni. Leeds tapaði og þar með er sæti minna manna öruggt. Eins og staðan er þá eru þeir í 18. sæti, sem er nú reyndar ekki sérlega glæsilegur árangur, en þó betri árangur en hjá þeim sem falla. Bendi á þessa slóð, þar er hægt að raula Q.P.R. slagara (þeir eru margir slagararnir sem eru klárlega bannaðir innan 18, eins og þessi hér) Gaman að sjá hversu mikill kærleikur er milli minna manna og Chelsea.
Já nú er gaman að vera Q.P.R.-maður, þó ég hafi reyndar sagt annað um daginn. Ég held að fyrir næsta tímabil ættu mínir menn að leyta hófanna á Íslandi varðandi fjármagn til leikmannakaupa. Það er víst ábyggilegt að nóg er til af fjársterkum aðilum sem vilja styðja við bakið á jafn merkilegu liði og Q.P.R. Ég var til að mynda á bílasýningu Toyota hér í Eyjum í dag, þar var skrifað undir samstarfssamning á milli Toyota og ÍBV og Maggi Kristins klæddist að sjálfsögðu íþróttatreyju með númerinu 44. Frábært framtak hjá Magga, hann er trúr sínum uppruna og óþreytandi að styðja við bakið á góðum málum hér í Eyjum sem annars staðar.
Það er spurning hvort ég læði ekki þeirri hugmynd að Magga að Q.P.R. vanti góðan bakhjarl í framtíðinni (það er a.m.k. mun betri kostur en Stoke)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Prestastefna á höfuðstöðvum samvinnuhugsjónarinnar
21.4.2007 | 19:11
Næstkomandi þriðjudag hefst prestastefna, sem að þessu sinni verður haldin á Húsavík. Það verður án efa gott að komast norður á heimaslóðir, þó auðvitað væri magnað að hafa prestastefnuna bara heima á Illugastöðum, en það er nú líklega heldur fjarlægur draumur. Það verður áreiðanlega nokkuð gaman að hitta hina fjölmörgu kollega víðsvegar af landinu og bera saman bækur. Það er vonandi að fólk gangi sátt frá borði eftir þessa prestastefnu, þó ég sjái það nú reyndar fyrir mér að svo verði ekki alveg. Annars förum við þrír félagarnir norður á strumpastrætóinum okkar Gíslínu, Ég, Óli Jói (sr. Ólafur Jóhann Borgþórsson) og Guðni Már (sr. Guðni Már Harðarson).
Það hefði verið gaman að sitja prestastefnu með sr. Pétri heitnum í Laufási. Við hittumst á prestastefnunni í Keflavík, þá var ég ekki enn orðinn prestur, en hann sagði að við myndum verða saman á prestastefnu eftir ár og þá yrði ég örugglega orðinn prestur. Það er enginn vafi að það er mikill missir fyrir kirkjuna að starfskrafta Péturs njóti ekki lengur við.
Það er vonandi að það gefist tími til að blogga um helsta slúðrir af prestastefnunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég man...
15.4.2007 | 00:37
Ég man að á heimavistinni á Stórutjörnum máttum við bara horfa á sjónvarp einu sinni í viku, og bara einn þátt. Það fór fram atkvæðagreiðsla um það hvort horft yrði á sjónvarp á þriðjudagskvöldi (Derric) eða miðvikudagskvöldi (Dallas). Ég man hvað ég var svekktur með úrslitin úr kosningunum þegar í ljós kom að Dallas hafði vinninginn.
Ég man að Bárðdælingar hlustuðu aðallega á "heavy metal", Grenvíkingar hlustuðu á Duran Duran og Kaja goo goo. Ég man að ég og Sísa á Skarði vorum þau einu sem hlustuðum á Bubba.
Ég man þegar ég hætti að hlusta á Bubba.
Ég man þegar ég átti að standa fyrir kosningu á vinsælasta laginu fyrir árshátíð á Stórutjörnum og Sogblettir, Sykurmolarnir og Svart-hvítur draumur áttu vinsælustu lögin, og enginn kannaðist við að hafa valið þessi lög. Ég man að ég var tekinn á teppið hjá skólastjóranum vegna þess að ég hagræddi úrslitum í kosningu á vinsælasta laginu fyrir árshátíð á Stórutjörnum.
Ég man þegar Þursaflokkurinn og Egó spiluðu á Stórutjörnum.
Ég man þegar farin var bíóferð í Lauga að horfa á myndina Tootsie. Ég man að ég sá eiginlega ekkert af myndinni því ég sat aftan við konu með afró-greiðslu.
Ég man þegar við kepptum við Grenvíkinga í borðtennis og töpuðum öllum leikjum mjög illa.
Ég man þegar ég lék Þvörusleiki á litlu-jólunum og fann hvergi þvöruna þegar ég kom inná sviðið og skeggið datt af mér.
Ég man þegar ég átti að fara með 2x-töfluna fyrir bekkinn og mundi ekki hvað 2x2 var.
Ég man að ég ætlaði að verða búðarkona þegar ég yrði stór. Ég man ég ætlaði að verða bóndi þegar ég yrði stór. Ég man ég ætlaði að verða eins og pabbi þegar ég yrði stór. Ég man ég ætlaði að verða prestur þegar ég yrði stór.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Grínarinn Þorvaldur Gylfason
13.4.2007 | 12:23
Í Fréttablaðinu í gær var pistill eftir Þorvald Gylfason á bls. 28. Þar fer hann mikinn í umfjöllun sinni um lausagöngu búfjár og hrossa. Gaman að sjá þessa skiptingu á búfénaði annars vegar og hrossum hins vegar. En það vantar alveg skilgreiningu á búfénaði hjá Þorvaldi. Ég stóð í þeirri meiningu að hross væru líka búfénaður, en Þorvaldur veit örugglega betur.
Annars er þessi grein alveg ótrúleg samsuða hjá Þorvaldi. Hann veður úr einu í annað. Byrjar á að fjalla um framboð umhverfisflokka, þaðan fer hann yfir í uppgræðslumál og tekur dæmi fólki sem hefur haft uppi varnaðarorð í 100 ár varðandi örfokaland. Síðan fjallar Þorvaldur um mengun og sóðaskap í landinu og er tekur dæmi af ófremdarástandi í þeim efnum í fjörunni við Skúlagötu og í miðbæ Reykjavíkur. Loks tekur hann dæmi af umfjöllun um lausagöngu búfjár. Þar finnst honum verst að fólk sé að hafa áhyggjur af því að "búfé og hross" (aftur þessi skipting) á þjóðvegum landsins auki slysahættu. Í lokin tekur hann fyrir Landgræðslu ríkisins og leggur síðan til að Landbúnaðarráðuneytið verði lagt niður.
Þetta er í stuttu máli pistill Þorvaldar. Þar kemur hann ekki fram með neinar staðreyndir máli sínu til stuðnings, heldur talar í klisjum og upphrópunum. Hvað hefur hann fyrir sér í þessum málum? Ég held svei mér þá að maðurinn sé að grínast með þessum pistli. Hvar er vandamálið? Hvar er uppblástur mestur, og af hverju?
Ég veit ekki betur en bændur séu að græða upp landið. Það eru fjölmargir bændur í starfi hjá Landgræðslunni einmitt við það verkefni að græða upp landið, og í langflestum tilfellum er beit stjórnað með ábyrgum hætti. Auðvitað er hægt að benda á svarta sauði í þessu máli eins og öðrum. Á sama hátt og hægt er að benda á vandaða pistla og óvandaða.
Það vandamál sem Þorvaldur talar um í pistli sínum var vissulega vandamál áður fyrrr, en hann hefur alveg gleymt að fylgjast með, því það er langt síðan farið var að taka á vandanum og það er her manns að vinna að landgræðslu.
Pistill Þorvaldar virðist mér álíka grátbroslegur og þegar Baldur Hermannson sagði í þættinum "þjóð í hlekkum hugarfarsins" að þess yrði ekki langt að bíða þar til sauðkindin færi að éta blágrýtið í landinu, því hún væri búin að éta upp allan annan gróður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ah Ching litla svikin
6.4.2007 | 10:55
Mig langar til þess að segja ykkur dálitla sögu frá Kína af þeim veruleika sem fólk þar í landi stendur frammi fyrir. Þessi saga er eins og endurskyn af því þegar Júdas sveik Jesú.
Ah Ching er stúlka, sem býr í litlu þorpi í fjallahéruðum Kína. Hún er alin upp hjá foreldrum sem elska hana ákaflega mikið eins og foreldrar gjarnan gera. Nótt eina vaknar hún upp við það að teppi er haldið fyrir vitum hennar, svo þétt að hún getur varla andað. Hún hrópar á móður sína eftir hjálp, og teppið er dregið af henni.
Sér til mikillar furðu þá sér hún að sá sem reyndi að kæfa hana var faðir hennar, og hún fer að gráta og lofar föður sínum því að hún skuli vera góð stelpa.
Daginn eftir flýr hún að heiman og leitar hælis hjá ömmu sinni og segir henni hvað hafi gerst. Amma hennar verður svo sorgmædd að hún grætur yfir frásögn Ching. Þegar dagur er að kvöldi komin þá býr gamla konan um Ching og býður góða nótt. Um nóttina kemur amma hennar inn í herbergið, þar sem Ching liggur sofandi, og beytir öllum sínum kröftum til að kæfa barnabarnið sitt.
Í þessari litlu sögu breytist allt eins og hendi sé veifað. Þau sem hún treysti, voru þau sem síðan sviku hana
Að eignast stúlku í Kína getur þýtt endalok fjölskyldunnar og vegna þeirra takmarkana sem gilda í landinu varðandi barnafjölda er oft gripið til slíkra óyndisúrræða sem lýst var í þessari sögu. Móðir Ah Ching bað jafnt á nóttu sem degi að hið ófædda barn yrði drengur og þegar lítil stúlka kom í heiminn grét móðir hennar bæði yfir örlögum sínum og dóttur sinnar, en einnig yfir örlögum fjölskyldunna.
Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að foreldrar Ah Ching og fjölskyldan öll eru ekki vont fólk. Þau eru ekki hin klassísku illmenni, heldur búa þau við allt annan veruleika en við hér á vesturlöndum. Við getum ekki skilið þennan raunveruleika, en við erum mjög dugleg að fordæma.
Inn í þennan heim þarf fagnaðarerindið að geta talað. Ef það getur ekki talað inn í þennan veruleika þá á það ekkert erindi til þessa fólks. Allt tal um jafnrétti á vesturlöndum verður sem hljómandi málmur eða hvellandi bjalla" því sá veruleiki sem stúlkur á þessum slóðum búa við varðar spurninguna um líf og dauða í bókstaflegri merkingu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Góðir hlutir gerast enn.
4.4.2007 | 00:26
Enn á ný höfðum við Eyjamenn ástæðu til að fagna (jú það er rétt, ég er farinn að tala um "okkur" Eyjamenn). Ég fékk það ánægjulega verkefni að blessa hið nýja Gullberg og áhöfn þess. Það er ekki langt síðan ég stóð í sömu sporum þegar ég blessaði Vestmannaey og áhöfn þess (það var 15. mars síðastliðinn). Koma nýrra skipa hingað til Eyja fer að verða daglegur viðburður, því enn er von á fleiri nýjum skipum.
Það er magnað að fá að njóta þess heiðurs að blessa nýtt skip, og er ekki ósvipað skírn að því leyti að mikil gleði og eftirvænting er í loftinu.
Þegar ég kom til Eyja hafði ég nánast engann skilning á lífi fólks í sjávarplássi. En afdalamaðurinn er allur að koma til og ég er farinn að gera mér einhverjar hugmyndir um það hvenær vertíð hefst og hvenær vertíð endar. Og það sem meira er ég átta mig orðið á því hversu mikill atburður það er þegar nýtt skip kemur í heimahöfn. (Kannski hægt að líkja því að nokkru við nýbyggð fjárhús eða fjós í sveitinni, sem er því miður næsta fáheyrður atburður nú til dags).
Það er gaman að fylgjast með því hversu duglegir Eyjamenn eru og nýtt skip og auknar aflaheimildir eru gott dæmi um það. Þar spilar mjög inní að þeir sem stjórna útgerðunum hafa enn þessa samfélagslegu ábyrgð. Þeir láta sig samfélagið varða og eru ekki tilbúnir að selja kvóta frá Eyjum í von um skjótfengann gróða. Þeir átta sig á því hver það er sem skapar gróða þeirra. Þessi hugsun er því miður hverfandi hjá þeim sem stjórna fyrirtækjum í landinu. Ég vann hjá slíkum mönnum fyrir norðan sem gengu undir nafninu "Kennedy-bræðurnir". Þeir áttuðu sig á ábyrgð sinni í samfélaginu og gáfu til baka, líkt og útgerðarmenn í Eyjum. Því miður höfum við horft uppá mörg fyrirtæki skilja eftir sig sviðna jörð í heilu byggðarlögunum af því að hægt var að græða örlítið meira með fækkun fólks, sameiningu og flutningi. Slíkir aðilar gleyma því hvaðan auður þeirra er kominn og hver það er sem hefur skapað hann, standa jafnvel í þeirri meiningu að þeir hafi skapað sinn auð einir og sér. Það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar slíkir peningamenn stjórna fyrirtækjum.
![]() |
Nýtt skip til Vestmannaeyja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)