Blessun staðfestrar samvistar til umfjöllunar á Leikmannastefnu
10.5.2007 | 11:16
Nú er nýlokið Leikmannastefnu Þjóðkirkjunnar, sem haldin var á Stykkishólmi að þessu sinni. Þar er að finna áhugaverða samþykkt:
"Leikmannastefnan lýsir stuðningi við drög að ályktun kenningarnefndar um Þjóðkirkjuna og staðfesta samvist og leggur sérstaka áherslu á að þau mál er lúta að hjónabandsskilningi og blessun eða staðfestingu samvistar samkynhneigðra eru enn til umræðu og verða ekki til lykta leidd innan kirkjunnar fyrr en á Kirkjuþingi á hausti komanda.
Leikmannastefna telur að góður vilji sé til þess í söfnuðum landsins að mæta óskum um að prestar komi að blessun og staðfestingu samvistar samkynhneigðra.
Á hinn bóginn er enn sterkari vilji meðal safnaðarfólks til þess að standa vörð um hefðbundinn skilning á hjónabandinu sem sáttmála karls og konu og sem sköpunarreglu Guðs. Um fyrirsjáanlega framtíð er því ekki um það að ræða að leikmenn innan kirkjunnar séu almennt reiðubúnir til þess að skilgreina hjónaband eða hjúskap kynhlutlaust. Í þessum efnum telur leikmannastefna að hægara og raunsærra sé að bæta við hliðstæðu og jafngildu vígsluformi en að breyta inntaki hjónavígslunnar.
Leikmannastefna telur að til álita komi af hálfu Kirkjuþings að heimila prestum, sem það kjósa, að staðfesta samvist samkynhneigðra para. Alþingi og kirkja gætu hugsanlega mæst í samþykkt og samskilningi á slíku heimildarákvæði.
Leikmannastefna varar við einföldunum og upphrópunum í sambandi við þau flóknu álitamál sem uppi eru varðandi Þjóðkirkjuna og staðfesta samvist. Þeir sem vilja fjalla um þau á opinberum vettvangi eru hvattir til þess að kynna sér áður álit kenningarnefndar og form helgisiðanefndar fyrir blessun staðfestrar samvistar. Innan Þjóðkirkjunnar er fengist við þessi mál af einurð og alvöru og þau verða leidd til lykta af hennar hálfu á Kirkjuþingi í haust."
Þarna má segja að leikmannastefnan gangi skrefi lengra en prestastefna gerði, og hefði ef til vill gert ef tillaga Péturs og Sigurðar hefði fengist rædd að einhverju marki. (Sú tillaga gekk útá að þeir prestar sem það kysu yrðu vígslumenn staðfestrar samvistar) Ég fagna samþykkt leikmannastefnunnar, en þess ber auðvitað að geta, eins og fram kemur hjá leikmannastefnu, að það er á Kirkjuþingi sem málið verður leitt til lykta. Það sem samþykkt er á prestastefnu eða leikmannastefnu fellur nánast marklaust niður ef Kirkjuþing samþykkir eitthvað annað, eða fellir málið með einhverjum hætti. Þannig að næsta skref verður tekið á Kirkjuþingi ef að líkum lætur. Það verður sannarlega spennandi að fylgjast með störfum Kirkjuþings, og ekki verður síður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þeirri skoðanakönnun sem samþykkt var að Biskupsstofa myndi gera.
Nánar um málið á vef Þjóðkirkjunnar
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég er ekki (Guðmundur) (Örn) (Jónsson)
9.5.2007 | 16:09
Ég vil taka það skýrt fram að ég er Guðmundur Örn Jónsson.
Ég er EKKI Guðmundur JÓNSSON - kenndur við Byrgið
Ég er EKKI Guðmundur Örn RAGNARSSON - forstöðumaður samfélags trúaðra
Þótti rétt að koma þessu á framfæri áður en ofsóknir á hendur mér byrja. Hér er semsé um fyrirbyggjandi aðgerð að ræða, það er aldrei of varlega farið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Óska eftir pólitískri framtíðarsýn!
9.5.2007 | 12:33
Það sem hefur vantað inní kosningabaráttuna er heildstæð stefna um framtíð landsins og umræður um það hvernig stjórnmálamenn vilja sjá samfélagið þróast. Ég er orðinn ansi þreyttur á öllum slagorðunum, upphrópunum og klisjum sem enga merkingu hafa. Hvaða heildstæða stefna er það sem flokkar boða með því að yfirbjóða hverja aðra í loforðaflaumi? Það er segin saga þegar pólitíkusar "ræða saman" þá falla menn strax oní þann pytt að níða skóinn á hverjum öðrum. - Steingrímur J. var á móti lögleiðingu bjórs og þess vegna á hann enn að vera á móti bjór! Hvers lags málflutningur er þetta? Bjór er leyfður á Íslandi í dag.
Ég sakna umræðunnar sem ætti að eiga sér stað. Ég sakna þess að ekki er rætt um eftirlaun þingmanna, sem þeir skömmtuðu sér svo ríflega, og hétu því að þessum lögum yrði breytt. Þessi ákvörðun snertir heildstæða stefnu fólks um réttlæti í samfélaginu. Viljum við að fólk njóti jafnræðis, viljum réttlæti? Eða viljum við að þeir sem það geta ryðjist fram fyrir í röðinni? Líklega verður þetta mál eða viðlíka mál ekki rædd, enda tóku allir flokkar þátt í þessum gjörningi, þó sumir hafi bakkað út þegar í ljós kom að almenningi blöskraði.
Hver er framtíðarsýn pólitíkusa? Er hún einhver? Eða vilja menn ekki ræða hana vegna þess að klisjur og upphrópanir virka betur í kosningabaráttu, ásamt löngum loforðalistum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
62 ár frá stríðslokum og 76 ár frá fæðingu Guðmundar Heiðmanns
8.5.2007 | 20:42
Í dag er merkilegur dagur því þann 8. maí árið 1945 voru opinber stríðslok seinni heimsstyrjaldarinnar. En dagurinn er ekki síður merkilegur fyrir þær sakir að afi minn, hann Guðmundur Heiðmann, fæddist þennan dag fyrir 76 árum. Til hamingju með daginn!!
Afi í Árhvammi er ákaflega merkilegur maður og hefur ekki alltaf kosið að fara troðnar slóðir í skoðunum sínum. Hann kenndi mér t.d. að taka ekki öllu sem sagt er sem sjálfsögðum hlut, líka því sem sagt er í fjölmiðlum. Hann steig í pontu á bændafundi og sagði að Framsóknarflokkurinn hefði ekkert gott gert fyrir bændur, Alþýðuflokkurinn væri í raun mun betri kostur fyrir bændur - Fyrir þetta varð hann fyrir þónokkru aðkasti viðstaddra, svo vægt sé til orða tekið.
Bæði afa og ömmu í Árhvammi á ég margt að þakka, enda ólst ég að nokkru upp hjá þeim. Hjá þeim lærði ég að hver og ein ær skiptir máli, ég lærði virðingu fyrir öllu sem lifir, ég lærði að meta Hörð Torfa og Megas (man að amma söng "Gamli sorrý gráni" fyrir okkur), ég lærði að meta Vilmund Gylfason sem ljóðskáld, ég lærði að Jónas Hallgrímsson væri eitt merkilegasta skáld sem við Íslendingar höfum alið (að sjálfsögðu var skylda að læra ljóð Jónasar búandi í sömu sveit og hann var alin upp í), ég lærði auðvitað svo ótalmargt fleira sem ég nýti á vegferð minni í dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Í mér leynist 50% framsóknarmaður
8.5.2007 | 12:06
Mæli með kosningaprófi á vef Háskólans á Bifröst fyrir þá sem enn eru óákveðnir. Það er hver að verða síðastur að taka ákvörðun. Ég tók prófið og á samkvæmt því að kjósa VG, þ.e. skoðanir mínar eru í mestu samræmi við stefnu VG.
VG 56,25% - Framsókn 50% - Íslandshr. 40% - Samfylking 25% - Sjálfstæðisfl. 18,75% - Frjálslyndir 4%.
Það er síðan spurning hvort það nægi manni að vera 56.25% sammála skoðunum ákveðins flokks til að kjósa hann. Niðurstaðan varðandi framsókn kom mér nokkuð á óvart því ég er í einu grundvallaratriði ósammála þeim, það er varðandi virkjanamálin. Ég get ekki skrifað undir að við eigum að virkja allt þvers og kruss áður en dætur mínar ná 18 ára aldri. Það getur ekki verið skynsamlegt að klára öll virkjanatækifæri á "no time". Það eru virkjanamálin sem helst flækjast fyrir framsóknarmönnum og græni kallinn þeirra vísar beint í að þeir vilji halda áfram að virkja eins og þeir eigi lífið að leysa. (Síðan má auðvitað velta fyrir sér þeirri stefnu sem græni kallinn þeirra fer í auglýsingunni, en fæ ekki betur séð en hann stefni til fortíðar, en ekki framtíðar, eins og margir hafa bent á).
Ég prófaði síðan að hafa enga skoðun á málunum í könnuninni og þá kemur í ljós að skoðanir mínar eru mestu samræmi við skoðanir Samfylkingarinnar???
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ójafnrétti í bloggheimum
6.5.2007 | 00:45
Af 30 bloggvinum eru bara 5 konur. Þetta er nú hreint ekki góð skipting og klárt að ég þarf að afla fleiri kvenkyns bloggvina þannig að jafnvægi komist á bloggvina hópinn. Ég vil nú kannski ekki meina að ég beinlínis missi svefn yfir þessu en.... Það er þó bót í máli að bloggvinir mínir, kvenkyns, eru kjarnakonur og allar á við a.m.k. 5 karlkyns bloggara.
Mæli með bókinni "Vaknaðu kona" sem Skjaldborg gaf út um árið
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föllum fram og tilbiðjum Jón Ásgeir
4.5.2007 | 00:33
Alveg þótti mér það dæmalaust hrokafullt hjá Gesti Jónssyn, verjanda Jóns Ásgeirs í Kastljósinu í kvöld, þegar hann fór að tala um að fólk slyldi gera sér grein fyrir því að Jón Ásgeir (og Baugur) væri einn stærsti atvinnurekandi á Englandi og fólk á Íslandi ætti honum svo mikið að þakka því hann ætti svo stóran þátt í góðum kjörum almennings. (Man þetta ekki orðrétt, en þetta var inntakið)
Hverslags málatilbúnaður er þetta? Á Jón Ásgeir að vera undanskilin landslögum af því hann á svo stórt fyrirtæki? Eða af því hann á Bónus? Eru þeir tímar ekki liðnir að Jón og sr. Jón eru ekki jafnir fyrir lögum? Eða hélt Gestur kannski bara að þeir tímar væru enn í gildi? Eða eru Þeir tímar kannski ennþá og þess vegna varð hann svo hissa á niðurstöðu héraðsdóms?
Ég spjallaði við mann í kvöld sem hefur alltaf haft fulla samúð með Jóni Ásgeiri í þessu máli, en hann sagði við mig að þessi yfirlýsing verjandans fengi sig til að endurskoða hug sinn í málinu finnst Gesti fyndist stærð fyrirtækisins koma málinu við á einhvern hátt.
Síðan ganga sögur af tilraunum til mútugreiðslna eins og eldur í synu um samfélagið. Ekki veit ég hvað er hæft í þeim sögum, en fólk hlítur að hugsa sitt eftir þessa yfirlýsingu, og þá sýnist nú hverjum sitt, og menn viðra marga möguleika, og ýmsir velta ýmsu fyrir sér........
P.S. Mæli með Bónusljóðunum hans Andra Snæs, hrein snilld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Að skammast sín
1.5.2007 | 22:13
Stundum kemur það fyrir að maður að maður skammast sín og það er einmitt það sem ég geri nú. Ég klikka á því að hringja í elsta og besta vin minn á afmælisdeginum hans, sem var í gær 30. apríl. Til að bæta þetta að einhverjum hluta þá sendi ég þér, Hilmar, mínar bestu kveðjur á öðrum í afmæli. Hilmar er einn af þeim mönnum sem ég ber mikla virðingu fyrir og treysti fullkomlega. Hann var langt á undan öllum öðrum þegar hann fjárfesti í Commandor 64 tölvu. Þetta þótti fólki í sveitinni undarleg fjárfesting, að kaupa sér tölvu fyrir offjár (auk þess sem margir héldu örugglega að tölvur væru bara enn ein tískubólan sem myndi á endanum springa). Í dag er Hilmar félagi minn og fóstbróðir, bóndi norður í Eyjafirði, nánartiltekið Leyningi, þar býr hann myndarlegu búi ásmt henni Thelmu og syni þeirra Guðjóni. Ég veit nú reyndar að þessi gleymska í mér varpar engum skugga á vináttu okkar, en mér þótti þó við hæfi að senda honum þessa kveðju í tilefni gærdagsins. Þess má til gamans geta að Hilmar er einnig blogg-vinur minn, en hefur þó ekki látið næganlega til sín taka á þeim vetvangi sökum tímaskorts - því mörgu þarf að hyggja að á stóru búi.
Segja má að Hilmar upplifi annan hluta draums sem ég átti mér þegar ég var lítill, og ég upplifi hinn hlutann. Því þegar ég var lítill þá langaði mig til þess að verða eins og sr. Pétur heitinn í Laufási, sem þá bjó reyndar á Hálsi. Ég sá dæmið svona: Pétur var bóndi, með öruggar tekjur sem prestur. Þannig að þegar við fóstbræðurnir leggjum saman í púkkið þá má segja að draumurinn hafi ræst.
Bóndi er bústólpi, bú er landsstólpi.
P.S. Myndin er klárlega stolin af heimasíðu af heimasíðu Guðjóns
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Velferð fyrir alla, nema.....
1.5.2007 | 16:14
1. maí er varla svipur hjá sjón, miðað við það sem áður var. Ég er alinn uppí sveit norður í landi og þar varð maður svosem aldrei neitt sérstaklega var við 1. maí, enda sauðburður að hefjast og nóg annað að sýsla. Menn fóru ekki að drýfa sig í bæjarferð til þess eins að marsera um götur með kröfuspjöld á lofti í leiðindaveðri.
Slagorð dagsins er "Velferð fyrir alla" og er það hið besta mál svo langt sem það nær. Í þessu ljósi er svolítið grátlegt að rifja upp heimsókn Geirs H. Haarde í Kastljósið þegar hann var spurður útí biðlista á geðdeildir. Í þeim málaflokki er allt í kalda kolum, svo vægt sé til orða tekið. Foreldrum nánast haldið í gíslingu heima yfir veikum börnum sínum og þeir sem þurfa aðstoð í þessum málum verða að bíða.. og bíða... og bíða... Geir komst undan að svara spurningum um þessi mál og fór beint í biðlista fyrir aldraða, sem hann segir að sjái nú fyrir endan á. En hvorugur þessi hópur má við því að bíða, og þegar talað er um að eftir 4 ár verði biðlistar þessara hópa úr sögunni, er það einfaldlega of seint. Margir eldri borgarar verða dánir, og margir úr hópi andlegra veikra falla því miður fyrir eigin hendi, fjölskyldur uppgefnar og andlega- og fjárhagslega gjaldþrota.
Hópur andlegra veikra er ekki góður þrýstihópur, og þess vegna er hættan alltaf sú að þeir verði útundan í góðærinu. Það er því miður reyndin í góðærinu. Biðlistar inná geðdeildir verður að hverfa strax, ekki eftir 4 ár. Nógu erfitt er fyrir aðstandendur að horfa uppá fjölskyldumeðlim hverfa inní heim andlegra krankleika, þó ekki sé bætt ofaná allt saman endalausum áhyggjum af því hvort viðkomandi geri sjálfum sér mein, eða jafnvel öðrum. Síðan bætast fjárhagsáhyggjur ofaná þetta því veikindaleyfi eru oft á tíðum löngu búin hjá fjölskyldunni þegar viðkomandi kemst að.
Velferð fyrir alla!!
Velferð fyrir alla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Prestastefna 2007 - "Íslenska Synodan"
29.4.2007 | 16:34
Það hefur verið allnokkur umfjöllunin sem Prestastefnan á Húsavík hefur fengið. Þar er ekki allt sem fram kemur í fjölmiðlum sannleikanum samkvæmt. Á leið minni aftur heim til Eyja í gær keypti ég mér DV, þar sem ég sá að á forsíðu var fyrirsögnin "Kirkjan mismunar". Í greininni er sagt að tillaga 42 menninganna hafi verið kolfelld (sem er hárrétt), en "Prestastefna samþykkti hins vegar tillögu með 43 atkvæðum gegn 39 að prestar, sem það kjósa, megi vígja samkynhneigða í staðfesta samvist". Hið rétta er að á Prestastefnu kom fram dagskrártillaga þar sem samþykkt var að vísa þessari tillögu til biskups og kenninganefndar. Tillagan sjálf fékkst aldrei rædd. En það á að fara fram skoðanakönnun um þessa tillögu á meðal presta.
Er nema von að fólk almennt sé hálfringlað í þessari umræðu, þegar ekki er hægt að gera þá kröfu til fjölmiðla að þeir fari rétt með. Í þessu máli hefur það líka lengi tíðkast að tala í upphrópunum, það á við fólk úr báðum hópum.
Niðurstaða margra samkynhneigðra í þessu máli er sú að færa eigi vígsluvaldið frá trúfélögum, þetta varð ég mjög var við þegar ég vann lokaritgerð mína í guðfræðinni og fékk afnot af gögnum á bókasafni Samtakanna 78. Þessi krafa er síðan að verða æ háværari hjá almenningi.
Það hefur mörgum prestum reynst erfitt að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í fjölmiðlum, sérstaklega vegna þess að oft er snúið út úr orðum þeirra og þeir stimplaðir sem fordómafullir afturhaldsseggir. Þess vegna hafi þeir frekað kosið að segja ekkert við fjölmiðla, enda er umræðan oft á tíðum ó-interessant fyrir megin þorra fólks, þar sem tekist er um guðfræðihugmyndir, trúfræði og annað sem er ekki hluti af dægurumræðunni. Fjölmiðlar vilja líka setja málið í þann farveg að úr verði kappræða, tvær fylkingar sem takast á oní skotgröfunum. En það er, þegar öllu er á botninn hvolft, engan vegin gott fyrir umræðuna og málið í heild sinni.
Þess vegna var fjölmiðlum ekki hleypt inn þegar umræður um þetta mál fór fram. Það er síðan ákaflega undarlegt þegar prestar koma fram í fjölmiðlum og kvarta annars vegar undan því að ekki hafi farið fram leyninleg atkvæðagreiðsla um tillögu 42 menninganna, og hins vegar undan því að byrgt hafi verið fyrir alla glugga og fjölmiðlum ekki hleypt inn. Ég kem þessu ekki heim og saman.
Annars var prestastefna ákaflega góð að svo mörgu leyti. Menn voru heiðarlegir í umræðunni um ályt kenninganefndar, án þess að vera í einhverjum persónulegum væringum, það var gott. Síðan var þetta hið besta samfélag, og gaman að hitta kollega sína víðsvegar af landinu. Þess má síðan geta að "hin heilaga þrenning" hittist þarna aftur eftir alltof langt hlé. (Við vorum mikið saman í guðfræðideildinni: Ég, Hólmgrímur (héraðsprestur fyrir austan) og Ævar Kjartansson (útvarpsmaður). Við gengum reyndar undir nafninu "hin heilaga þrenning og Henning" því fjórði aðilinn var Henning Emil, sem búið hefur erlendis undanfarin misseri.
ATH Gíslína tók myndir sem fylgja bloggfærslunni. Hún var óþreytandi með vélina fyrir norðan, og tók margar góðar.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)