Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Lokaritgerð úr Guðfræði "Hvar erum við nú stödd? - Umræðan um hjónaband samkynhneigðra í kristnu samhengi við upphaf nýrrar aldar."

Lokaritgerð mín úr guðfræðideld Háskólans fjallaði um hjónaband samkynhneigðra. Hér er hún öllum opin til aflestrar, en þó ekki kóperingar nema með samþykki höfundar, ef einhver er til sem nennir og hefur þolinmæði í að fara í gegnum hana.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hugvekja á Þjóhátíð

Setning ÞjóhátíðarÁgætu Þjóðhátíðargestir.  Til hamingju með daginn og dagana sem framundan eru.  Það er auðvitað von mín og trú að hér muni allt ganga vel og að við eigum hér ánægjulegar stundir, þar sem gömul tryggðarbönd munu halda og ný jafnframt bundin.

Í aðdraganda þessarar Þjóðhátíðar hefur nýtt lag með háðfuglunum úr Baggalúti verið nokkuð til umræðu og óhætt að segja að sitt sýnist hverjum í þeim efnum.

Mörgum hefur þótt vegið að Þjóðhátíð hér í Eyjum með texta Baggalúta, en hann er jú vissulega á köflum á mörkunum eins og maður myndi segja.  Lýsingin á ástandinu er óneitanlega nokkuð döpur, svo ekki sé meira sagt.

Þessi texti gefur okkur þó færi á að velta skemmtanahaldi yfir Þjóðhátíð fyrir okkur, og ætti auðvitað að þjappa fólki saman um að hafa gaman í jákvæðasta skilningi þess orðs.  Nú kann auðvitað einhver að spyrja: “Hvenær er gaman á neikvæðan hátt?”  Jú við þekkjum þær sögur, og ef til vill hafa einhverjir sjálfir reynslu af því, að hafa svo gaman að maður muni ekki neitt.  Þá fyrst fernú gamanið farið að kárna.

Það sem ég á við er að við tökum höndum saman um að samþykkja ekki neikvætt gaman, að samþykkja hvorki ofbeldi eða aðra vitleysu, gagnvar náunga okkar.  Heimamenn hér í Eyjum gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að Þjóðhátíðin geti farið vel fram, og gestir eru boðnir velkomnir og upplagið allt fyrir Þjóðhátíð er með svo jákvæðum hætti að það væri sorglegt ef fáeinir svartir sauðir eyðilegðu gleðina og ánægjuna fyrir öllum öðrum.

Ég upplifði mína fyrstu Þjóðhátíð í Eyjum síðasta sumar, og verð að segja alveg eins og er að ég bjóst eiginlega við því að hér væri um hefðbundna útihátíð að ræða.  En svo áttar maður sig á því að hér er eitthvað allt annað á ferðinni.  Þetta er eitthvað meira, merkilegra, betra.  Það er eitthvað svo stórkostlegt að sjá Vestmannaeyinga hreinlega flytja inní Herjólfsdal yfir þessa daga. Borð, stólar, myndir og bakkelsi eru flutt í hvítu tjöldin, og maður finnur svo vel hversu velkomnir allir eru, og hversu mikil hátíð fer í hönd.  

Þjóðhátíð er auðvitað fyrst og fremst veisla bæði fyrir líkama og anda.  Og veislur eru eitthvað sem Jesús kunni svo sannarlega að meta, að fólk hittist og hefði gaman.  Hann var meira að segja sjálfur útlistaður sem mathákur og nánast veislusjúkur af andstæðingum sínum.  Já Jesús sótti veislur og samkvæmi og hélt þar margar ræður.  En það voru auðvitað engar skálræður eða athyglissjúkar ég-um-mig-frá-mér-til-mín-snakkræður, heldur djúpvitrar mannlífsgreiningar og tilvistarhugleiðingar.

Veislur og gleði eru vissulega mikilvægur þáttur í lífi okkar.  Við höfum flest tekið þátt í miklum veislum, sumir oftar en aðrir.  Og þegar við höldum á vit bestu minninganna úr uppvextinum eða hugsum um fjölskyldur sem dafna, þá er tengingin svo oft við veislur og gleði.  Þá er lífið farsælt og sáttin ríkir þegar við borðum saman.

Þannig er það einmitt á Þjóðhátíð og þannig á það líka að vera, að við efnum til veislu af því okkur langar til að gleðjast með hvort öðru.  Það er slíkt samfélag sem okkur öllum er ætlað að vera í heiminum.  Það er nefnilega staðreynd að Kristin trú er átrúnaður borðsins, ekki síður en orðsins.

Það er einlæg von mín að við göngum til þessarar miklu hátíðar með gleði í hjörtum og sól í sinni og að á þessari Þjóhátíð megi “elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.” eins og segir í 85. Davíðssálmi.

Þá kem ég aftur að upphafinu, þ.e. hinum umdeilda texta baggalútsmanna og spurningin er auðvitað sú hvort við tökum texta þeirra sem djúpvitran vitnisburð um mannlífsgreiningu hér á Þjóðhátíð í Eyjum.
Við skulum a.m.k. ekki láta hann verða það. 

Við leggjum þessa Þjóðhátíð í hendur Drottins og biðjum þess að allt fari hér á besta veg. Og að við getum saman verið stolt af því að vera þátttakendur á Þjóðhátíð. 

Fögnum og verum glöð, en minnumst þess jafnan að við sem erum eldri, erum að sjálfsögðu fyrirmyndir yngra fólksins, og þannig tökum við öll þátt í því að móta og skapa þá stemmingu sem við viljum að ríki.  Í sönnum veislu og gleðianda Jesú Krists, þar sem allir gleðjast saman og hjálpast að við að gera þessa Þjóðhátíð að góðum minningarfjársjóði sem leita má í þegar fram líða stundir. Og hjálpast auðvitað að við að gera lífið yndislegt.
Amen.

Myndina tók Óskar Pétur Friðriksson við setningarathöfnina. 
Fleiri myndir frá Þjóðhátíðinni má sjá á síðunum: 
http://eyjar.net/ 
http://www.sudurlandid.is/Eyjafrettir/


Pönk og prédikanir

Heiðar Ingi frændi minn og fóstbróðir var fertugur 18 janúar.  Að því tilefni hélt hann afmælisveislu, sem var með nokkuð öðru sniði en venja er.  Haldnir voru pönktónleikar í Laugarneskirkju, þar sem Blái hnefinn frá Akureyra pönkaði, og pönksveit afmælisbarnsins lék nokkur vel valin lög sem eru í uppáhaldi hjá honum Heiðari. Annað slagið voru gestasöngvara fengnir til að pönkast aðeins líka. 

Heiðar fékk mig til að flytja aðra af tveim prédikunum kvöldsins, hina flutti sr. Bjarni Karlsson.  Ég læt prédikun mína fylgja hér með, sem var nú reyndar venju fremur persónuleg, enda tilefnið nokkuð annað en hefðbundin sunnudagsguðsþjónusta.

Nú er prédikunin komin "óklippt" á síðuna. Njótið heil!

Kæri söfnuður, kæra afmælisbarn: Gleðilegt nýtt ár, og til hamingju með afmælið, árin 40.

Þegar afmælisbarnið hafði samband við mig og spurði hvort ég væri tilbúin að prédika í afmælinu, þá var ég ekki lengi að slá til, enda átti ég hreint ágæta prédikun í pokahorninu sem var alveg ónotuð, a,m.k. ágæta grunnhugmynd. 
Svipað og ágætur frændi minn, sem starfaði sem prestur og þegar kom að jólaprédikun þá átti hann ágætis prédikun á lager sem aldrei hafði verið flutt um haustið, vegna messufalls í ótíð.  Prédikunin byrjaði svona:  Kæri söfnuður, nú eru jólin og þið vitið nú allt um þau”.  Síðan vatt hann sér yfir í efni hinnar ónotuðu haustprédikunar þar sem hann tók haustannir sveitamanna föstum tökum og fjallaði að mestu um göngur, réttir og sláturtíð.

Það er sem ég segi það er óþarfi að láta góða prédikun ónotaða, ekki síst ef menn hafa lagt einhverja vinnu í hana.

Enn eitt árið hefur runnið sitt skeið og nýtt ár er gengið í garð.  Það kemur manni alltaf einhvernvegin á óvart þegar nýtt ártal kemur í ljós.  Við tekur klassískur ruglingur á ártölum frameftir nýju ári og svo loks þegar nýtt ár er einhvernvegin orðin hluti af manni sjálfum, þá kemur enn eitt árið.  Það er það sama sem gerist hjá manni þegar afmælisdögunum fjölgar, maður þarf ævinlega að hugsa sig tvisvar um þegar maður er spurður um aldur.

----

Það er ekki málið hvað maður getur, heldur hvað maður gerir, segir í hinu ódauðlega lagi “Tilfinning” sem Purrkurk pillnikk flutti fyrir margt löngu. Segja má að þessi orð hafa fylgt mér nánast allt lífið.  Það er nefnilega ótrúlegur sannleikur í þessum orðum sem hægt er að heimfæra uppá svo marga hluti.  Þessi orð krefja mann eiginlega um afstöðu, eða þá afstöðuleysi, sem er þá alveg sérstök afstaða út af fyrir sig. 

Einn af þeim mörgu mögnuðu ritningartextum biblíunnar, þar sem skýr afstaða til Guðs og fylgis við hann er tekin, er að finna í Jobsbók. En í Jobsbók segir frá samskiptum Jobs við Guð, þarna kemur líka inn hið fræga veðmál  sem átti sér stað á stað á himnum á milli Guðs og gamla bakarans, eins og Lúther kallaði djöfulinn. Jobsbók er raunasaga þess sem allt missir, en sættist að lokum við Guð og allt fer á betri veg.   Það er ekki nokkur vafi á því að allir geta fundið eitthvað einhversstaðar í Jobsbók sem þeir geta samsamað sig við, hvort sem það er í ræðum Jobs eða vina hans. 

Glíman við Guð, lífið og ekki síst glíman við okkur sjálf getur oft á tíðum verið nokkuð erfið, ekki síst ef við ætlum okkur að geraalla hluti sjálf án nokkurrar aðstoðar frá öðru fólki, og hvað þá án aðstoðar frá Guði.

Það er einmitt í þessu ljósi, - ljósi þessarar baráttu sem Job stóð í og sem við öll stöndum í, sem er svo gaman að sjá Heiðar Inga á þeim stað í lífinu sem hann nú er á, og kannski kann einhverjum líka að þykja undarlegt að sjá mig á þeim stað sem ég er á í dag.

Staðan er óneitanlega svolítið ólík því sem áður var, þegar við frændur stóðum í allnokkrum flísalögnum þegar ég kom suður og eins þegar hann kom norður.  

Fyrir þá sem ekki vita þá voru flísalagnir háþróað dulmál sem notað var í ákveðnum efnaviðskiptum á sínum tíma.  Að sjálfsögðu vorum við sannfærðir um að enginn skildi þetta magnaða dulmál.  En fyrir þá sem eitthvað þekktu til okkar þá hefur það nú hljómaði heldur undarlega að tveir menn með tíu þumalfingur stæðu í jafnmikilli flísalagningu og gefið var í skyn.

Hér áður fyrr vorum við að sjálfsögðu sannfærðir um að við gætum allt sem við gerðum og gerðum allt sem við gætum.  En það er með þetta eins og svo margt, þegar menn fara fram úr sjálfum sér að þá er það auðvitað býsna margt sem fólk veit ekki að það getur og annað sem það heldur að það geti, en getur alls ekki.

Það er svo undarlegt með það að við frændur höfum svo oft verið á svipuðum stað í lífinu, og eins og títt er um yngri fóstbræður, þá leit ég, og lít reyndar enn, allnokkuð upp til Heiðars. 

Það var t.d. Heiðar sem kenndi mér að meta pönk.  Ég man eins og gerst hafi í gær þegar ég heyrði pönk fyrst inní herbergi hjá honum heima á Illugastöðum.  Það liggur við að manni vökni um hvarma þegar maður hugsar til þessarar stundar. 
Ég fékk að vera inní herbergi hjá stóra frændanum, sem vissi allt og gat allt.  Og saman hlustuðum við á þá mögnuðustu tóna sem ég hafði á minni stuttu ævi heyrt.  Og kveðskapurinn var heldur ekkert slor.

Ég leyfi mér að bregða upp nokkrum áhrifaríkum myndum af þeim kveðskap sem fluttur var þarna í herberginu í sveitinni forðum, og feta þar með í fótspor frænda þegar hann veislustjórnaði brúðkaupi útí Eyjum nú á haustdögum:
Byrjum á nokkrum línum úr hinu ódauðlega lagi Augun úti með Purrkinum

Það er stórkostlegt
alveg meiriháttar
Liggur í augum úti

Það er meiriháttar
það liggur í augum úti

Það er frábært
Það er stórkostlegt
alveg meiriháttar, alveg hreint sjúkt!!!

Í niðurlaginu á Gleði, í flutningi sömu sveitar segir síðan:

Það er svo gaman
En svo kemst ekki í vinnuna fyrr en á
fyrr en á mánudaginn
mánudaginn

Í þessum ljóðlínum endurspeglast gleðin yfir lífinu, gleðin yfir hinu hversdagslega, eins og að mæta til vinnu á mánudegi.  Já, hér er sannleikurinn fundinn, hér stendur hann nakinn fyrir framan mann.  Ef til vill hefur sannleikurinn verið höndlaður í þessum orðum, orðin höndluð af sannleikanum eða sannleikurinn í orðunum höndlaður af sannleikanum, án þess að ég ætli að hætta mér að svo stöddu frekar útí þá háguðfræðilegu umræðu sem tekur á höndlun sannleikans.

Sannleikur málsins er hins vegar sá að líf Heiðars í dag er nokkuð ólíkt því sem áður var, ef til vill mætti segja að lífið í dag sé “alveg meirihátta”, og jafnvel “alveg hreint sjúkt”.  Það liggur alveg í augum úti.  Fullt hús af börnum, yndisleg kona, heimili sem er uppfullt af kærleika og ást og svo auðvitað rúsínan í pylsuendanum: Líf sem er grundvallað á trú á algóðan Guð.

Líf með Guði hefur alltaf staðið til boða, - í þeim málum hafa dyrnar aldrei verið lokaðar. 

-----

Í lífinu almennt höfum við heilmarga valkosti, við erum ekki leiksoppur örlaganna þar sem við siglum stjórnlaust að feigðarósi, ó nei.  Við höfum val um svo margt.  En þar með er ekki sagt að við framkvæmum allt það sem við getum, enda er í raun lítið gert með það sem við getum ef við fylgjum því ekki eftir með einhverskonar framkvæmd.

Lokaorð Jobs í glímu sinni við Guð eru ef til vill orð sem Heiðar Ingi, og svo margir kannast við, í glímunni við lífið og í glímu sinni við Guð, þar sem hann hefur oftar en ekki fengið að heyra það: Ég þekkti þig af afspurn, en nú hefir auga mitt litið þig!  Fyrir því tek ég orð mín aftur og iðrast í dufti og ösku.

Og þá kemur eiginleg spurningin sem hollt er að velta fyrir sér:  Fyrir hvað viljum við að þetta ár standi í lífi okkar?  Fyrir hvað munu næstu 40 ár í lífi þínu, Heiðar, standa?  Leiðin er opin, en það er okkar að taka af skarið og ákveða hvort það verði Guð sem vísa mun veginn og leiða okkur áfram.  Það er nefnilega ekki málið hvað maður getur heldur hvað maður gerir.

Og að lokum:
Pönkið lifir, ef algóður Guð lofar.
Amen.   

Gifting og þríburaskírn

Gleðilegt nýtt ár, langaði að taka aðeins fyrir atburð í desembermánuði.

15. desember síðastliðinn annaðist ég hjónavígslu og skírði þríbura.  Hjónin eru Hilmar, elsti og besti vinur minn, og Thelma, frænka hennar Gíslínu.  Þau eru bændur í Leyningi inní Eyjafirði. 

Um tíma virtist þetta ekki ætla að ganga eftir.  Gíslína ætlaði uppá land á fimmtudegi, með seinna flugi, en því var aflýst vegna veðurs.  Ég ætlaði uppá land með Herjólfi á föstudagsmorgni, en báðar ferðir Herjólfs féllu niður þann daginn og allt flug auðvitað líka.  Við komumst loks með flugi til R-víkur á laugardagsmorgni, en þá var seinkun á fluginu okkar norður um rúma tvo tíma.  Hlynur mágur kom okkur í annað flug, þannig að við komumst norður og keyrðum í botni inní Leyning (með viðkomu í Jólahúsinu í Vín, því ég gleymdi skírnarkertum í asanum).

Gifting og skírn gekk að óskum og sem betur fer var seinkun á flugi suður, þannig að við gátum notið smástundar með góðum vinum áður en við fórum suður í fertugsafmæli til Gunnu mágkonu (hennar Gíslínu).

Þríburarnir heita: Berglind Eva, Dagbjört Lilja og Kristján Sigurpáll.

***

Núna í dag var hátíðarmessa hér í Landakirkju.  Ég hafði samband við Óla Jóagóðan félaga og vin sem er prestur í Seljakirkju (og vestmannaeyingur í húð og hár) og fékk hann til að prédika í messunni.  Þetta er sami háttur og við höfðum á í fyrra í messu á nýársdegi, spurning um að skapa hefð.  Óli stóð sig að sjálfsögðu með prýði, eins og hans er von og vísa, og kirkjugestir voru ánægðir með að fá að heyra í honum í stólnum.


Messuþrenna.

Í dag náði ég þrennu!!!  Ég byrjaði á barnamessu í morgun kl. 11.00, síðan prédikaði ég við guðsþjónustu kl. 14.00 og loks sá ég um poppmessu kl. 20.00 þar sem hljómsveitin Tríkót spilaði.  (Tríkót er vestmanneyska og þýðir íþróttagalli).  Á milli messa fór ég á fimleikasýningu hjá fimleikafélaginu Rán, þar sem dóttir mín Mía Rán sýndi ásamt mörgum öðrum listir sínar.

Á morgun byrjar síðan kirkjuheimsóknatörnin fyrir jólin, þar sem leikskólarnir og grunnskólarnir koma í heimsókn til okkar í kirkjuna.  Vonandi að blessuð börnin verði ekki fyrir miklum skaða af þessum kirkjuheimsóknum.

Næsta föstudag ætla ég síðan að bruna norður og skíra þríbura, sem vinur minn Hilmar og "næstum því konan hans", Thelma eiga.  Það er þó nokkuð tilhlökkunarefni, enda ekki á hverjum degi sem maður fær að skíra þríbura.  Á laugardaginn förum við hjónin síðan í fertugsafmæli til Gunnu "mágkonu", og svo kem ég aftur til Eyja á sunnudaginn til að ná jólatónleikum kirkjukórs Landakirkju þar sem hún Diddu mun syngja einsöng á samt heimakonunni Helgu.

***

QPR náði sér ekki af botni deildarinnar í gær, nú verða menn að fara girða sig í brók.  Það lítur allt út fyrir að illa geti farið í vor ef fram heldur sem horfir.

 


Af fölsuðum og ófölsuðum biblíum

biblia_120506Á föstudag fékk í hendur nýja biblíu. Mér líst nokkuð vel á þessa þýðingu og er alveg sérstaklega ánægður með að talað sé um systkin þar sem áður stóð bræður, enda verið að tala um trúsystkini en ekki bara bræður. Þessi breyting sýnir manni vel hversu mikið samfélagið hefur breyst frá ritunartíma þeirra rita sem finna má í biblíunni. Á þeim tíma þótti varla taka því að ávarpa konur, þannig að karlpeningurinn var bar ávarpaður, enda kom konum málið ekki við á annan hátt en að fylgja því sem karlinn sagði.

Semsagt, ég er ánægður með að mál beggja kynja sé komið inní biblíuna, það er þó ekki alveg algilt og hefur t.d. verið sleppt í mjög þekktum textum eins sæluboðunum. Annað er að tvítalan er að miklu leyti farin út og í staðin notað venjuleg fleirtala eins og "ykkur". Ágæt greining á þessu öllu er að finna á bloggi Davíðs Þórs síðan í febrúar. Færslan þar ber hið skemmtilega heiti Faðirokkarið. Einnig er gott blogg hjá Akureyrarklerkinum Svavari um nýja biblíuþýðingu

En einsog ævinleg sýnist sitt hverjum þegar hugtakið nýtt er annars vegar. Þannig fer Snorri í Betel mikinn á bloggi sínu og talar um Falsaða biblíu 21. aldar.  Það er gott til þess að vita að Snorri í Betel býr yfir þeim eina sanna sannleika sem máli skiptir við biblíuþýðingar.  Það sem Snorri kvartar helst yfir varðandi nýja biblíu er að orðið kynvilla skuli ekki lengur vera notað yfir gríska orðið "arsenokoites".  Auðvitað finnst Snorra vont að orðið kynvilla skuli ekki vera notað lengur í biblíunni, þá er auðvitað hætta á því að ekki sé hægt að lemja á samkynhneigðum með þessu orði í framtíðinni.

Reyndar hefur annar bloggari, sem stundum er nokkuð harðorður líka bloggað um nýja þýðingu.  Jón Valur Jensson fjallar um sama ritningarstað og sama orð og Snorri, en hann gerir það á mun yfirvegaðri hátt.  Niðurstaða þessara tveggja heiðursmanna er reyndar sú að þarna hafi þýðingarnefndin komist að rangri niðurstöðu varðandi "kynvilluna".  En Jón Valur er þó ekki á því að öll biblían sé þar með ónýt.

Ég hef reyndar fulla trú á því að Snorri og örugglega fleiri munu halda orðinu kynvilla á lofti um samkynhneigða, en með nýjum kynslóðum og nýrri biblíuþýðingu hættir fólk vonandi að lemja á samkynhneigðum með biblíunni.  Þetta ferli tekur þó einhvern tíma, það er vitað mál. 

En það er gott til þess að vita að Snorri skákar öllum fræðimönnum með vitneskju sinni um þetta eina gríska orð, sem Páll postuli virðist reyndar hafa búið til, því ekki finna menn það notað hjá öðrum, og því verður þýðing á þessu orði auðvitað alltaf vandamál.  En í augum Snorra er biblía 21. aldar falsbiblía vegna þessa eina orðs.  Eða hvað?  Fer það kannski líka í taugarnar á honum að það er talað um systkin en ekki bara bræður?  Eða fer það líka í taugarnar á honum að apokrýfu bækur Gamla testamentisins eru aftur komnar inní biblíuna eftir nokkurt hlé.?


Rangur maður, á röngum tíma, í vitlausu húsi?

stopÞað er stór gaman að lesa pistil sr. Hjartar Magna Fríkirkjuprests sem birtist á visir.is.  Þar fer hann yfir tilurð þess að "veraldlegt" brúðkaup var haldið í Fríkirkjunni.

Þegar maður les þessa fínu, nánast tímamótagrein sr. Hjartar Magna þá er ekki laust við að manni finnist hann ekkert kannast við að hann sé prestur, kemur nánast af fjöllum.  Þannig þótti honum nú lítið mál að gifta fólk í kirkjunni sinni án þess að minnast einu orði á Guð í því samhengi, enda bara forpokaðir ríkislaunaðir kirkjustofnunarprestar sem slíkt gera.  Auðvitað er það eins og hver önnur fjarstæða að prestur sé eitthvað að flækja Guði inní kirkju.

Sr. Hjörtur Magni segir í pistlinum: 

"Manngildi, réttlæti og frelsi eru einmitt grunngildin í boðskap siðræns húmanisma. Þeir hafa víða verið brautryðjendur á sviði mannréttinda. Í boðskap þeirra um frelsi er átt við frelsi mannsandans undan ýmsum þeim höftum og fjötrum sem meðal annars trúarbrögð hafa skapað.

Mér dettur ekki til hugar að mótmæla þessu, enda held ég nú svosem að fólk geri það almennt ekki.  Ég tel sjálfan mig vera kristinn húmanista sem hef manngildi í öndvegi. 

Jafnframt talar sr. Hjörtur Magni um að gagnrýni húmanista á synda- og sektarboðskap kirkjunnar eigi fullan rétt á sér.  Og það er alveg hárrétt hjá sr. Hirti Magna.  Öll gagnrýni á rétt á sér, líka sú sem við erum ekki sammála.  Það gildir um hvaða málefni sem er.  Í framhaldi af þessu segir sr. Hjörtur:

Hinir rétttrúuðu finna húmanistum einnig það til foráttu að þeir byggja ekki lífsskoðun sína á bókstafslegri tilvísun í yfirnáttúruleg furðuverk, skáldskap og myndlíkingar, sem finna má í ævafornum trúarritum. Í stað þess reyna húmanistar að nálgast okkur út frá upplýstri heimsmynd nútímans og reyna að efla okkar eigin sjálfsmynd.

Ég velti því fyrir mér hvort sr. Hjörtur Magni sé smám saman að gera sér grein fyrir því að hann leggi ekki nokkurn trúnað á "þann skáldskap" og "þær myndlíkingar" sem talað er um í biblíunni.  Ef til vill hefur sr. Hjörtur Magni enga sérstaka trú á þeim játningum sem Fríkirkjan í Reykjavík þó játar, ég veit það ekki.  Fríkirkjusöfnuðurinn í Reykjavík hefur nefnilega nákvæmlega sömu játningar til grundvallar og Þjóðkirkjan, á því er enginn munur og þess vegna er trúin sú sama, þó stjórnunin sé ekki sú sama.

Svo endar sr. Hjörtur Magni á þessum orðum:

Kristur leitast við að sameina alla í kærleika. Hann er hafinn yfir alla flokkadrætti kirkjustofnana, lífsskoðana eða trúarbragða.

Spurningin er þá bara fyrir hvað prestur stendur yfir höfuð, þar með talinn sr. Hjörtur Magni.  Ég get alveg skrifað undir það hjá sr. Hirti Magna að Jesús Kristur sé hafinn yfir flokkadrætti, en eftirfylgd við Jesú Krist er hins vegar algjör, það undirstrikar Jesú margoft, ef við kjósum yfir höfuð að taka mark á guðspjöllunum.  Það gera auðvitað ekki allir, ég geri mér fulla grein fyrir því, og óþarfi að agnúast útí þau sem það ekki gera.  Ég leyfi mér hins vegar að velta því fyrir mér hvort það skipti einhverju máli hvað fólk segir, eftir því hvaða stöðu eða starfi það gegnir.

Væri t.d. ekki svolítið magnað að sjá landsfundarmenn á flokksþingi VG mæra stefnu Sjálfstæðisflokksins í hástert?  Þó VG og Sjallar séu ekki sammála um ákveðin grundvallaratriði þá er ekki þar með sagt að þetta fólk geti ekki talað saman og virt skoðanir hvors annars, skárra væri það nú.  En Sá sem er skráður í VG, og sér ekki sólina fyrir stefnu Sjálfstæðisflokksins, ætti kannski frekar að skrá sig úr VG og í Sjálfstæðisflokkinn. 

Allt saman spurning um að vera staddur á "réttum" stað samkvæmt þeim skoðunum sem maður stendur fyrir. 

 Spurning hvort orð Egils Helgasonar eigi við í þessu tilfelli:

Þaðan sem ég bý sé ég í turnana á tveimur gömlum kirkjum, Dómkirkjunni og Fríkirkjunni. Mér finnst nærvera Dómkirkjunnar þægileg. Hins vegar virðist Fríkirkjan vera orðin vettvangur pólitískrar baráttu þar sem trúin er hálfgert aukaatriði.

Hér má lesa stuttan pistil Egils um "veraldlegu" giftinguna.

Í þessu bloggi felli ég enga dóma um eitt eða neitt, ég leyfi mér hins vegar að velta upp ýmsum spurningum, enda spurning hvort ég hef verið "höndlaður af sannleikanum" eða hvort "ég hef höndlað sannleikann" eða þá hreinlega hvort "sannleikurinn hefur verið höndlaður af hinum eina sanna sannleika"?


Um dauða Guðs

god%20bad%20driverÞegar litið er á mismunandi tilbrigði við stefið um dauða Guðs er oft erfitt að segja til um hvort hann sé lífs eða liðinn.  Yfirleitt er hann með einhverju lífsmarki en skilyrðin til lífs hafa hins vegar breyst.  Dauði hans er oft tengdur breytingum í hugmyndasögu vestrænnar menningar.

T.S. Elliot útskýrði breytinguna á eftirfarandi hátt:  "Það virðist eitthvað hafa gerst sem hefur aldrei gerst áður: þó við vitum ekki alveg hvenær eða hvernig eða hvar."

Menn hafa yfirgefið Guð, ekki fyrir aðra guði, segja þeir, heldur fyrir engan guð; og það hefur aldrei gerst áður.

Nietzsche lét vitfirring einn hlaupa inn í mannþröngina og öskra: "Guð er dauður! Guð verður áfram dauður! Og við höfum drepið hann!"  Menning vesturlanda hafði breyst það mikið á kostnað trúarlegra hugmynda að ekki var lengur hægt að tala um Guð á líkan hátt og áður.  Þessi hugmynd hefur verið tjáð margsinnis og hér hafa skilyrðin til lífs breyst og ekki alveg hægt að útiloka að eitthvað líf bærist hjá Guði.

Ég endurnýjaði aðeins kynni mín við bandarísku guðfræðingana William Hamilton og Thomas J. J. Altizer.  Þeir gengu lengra en flestir áður og lýstu yfir raunverulegum dauða Guðs (ekki bara hugmyndafræðilegum dauða). 

Hamilton gekk ekki alveg jafn langt og Altizer, því hjá honum var Guð á hægri leið með að deyja.  Dauði Guðs táknaði breytingu á þann hátt að yfirnáttúrulegu eiginleikarnir voru að hverfa og hann varð háðari tíma og rúmi.  Mér hefur reyndar alltaf þótt erfitt að skilja þetta alveg.  Það er t.a.m. erfitt að tímasetja dauðann en Hamilton brást við þeirri spurningu með svari í þremur liðum:

1) Koma og dauði Jesú gera dauða Guðs mögulegan
2) 19da öldin raungerir dauða Guðs
3) Í dag er það hlutskipti okkar að skilja þetta og sætta okkur við það.

Hugmyndir Altizer eru alls ekki einfaldari, þær eru raunar svo ótrúlegar að það er svona alveg á mörkunum að hægt sé að tala um hann sem guðfræðing.  Hann hrærir saman biblíunni, Hegel, Nietzsche, Sartre, Blake, Freud og austrænum kryddjurtum í guðfræðilegan graut sem erfitt, ef ekki ómögulegt, er að melta. Ég skal alveg viðurkenna að ég skil hvorki upp né niður í honum, enda hafði ég alltaf meira gaman af að skoða hugmyndir Hamiltons. 

Hugmyndin um dauða Guðs er vissulega "skemmtileg" hugarleikfimi, en ég held reyndar að þessi ágæta hugmynd sé sjálf dauð.  Hreyfingin sem fylgdi þessum ágætu mönnum hefur ekki þótt trúverðug og ekki notið mikillar hylli.  Svo má auðvitað setja spurningarmerki við það hvort það sem þeir félagar framreiddu geti yfirhöfuð kallast guðfræði. 

Ef til vill gæti Guð tekið sér orð Mark Twain í munn og sagt: "Fregnir af andláti mínu er stórlega ýktar."


Allt á haus í trúmálum og enska boltanum

Ég sat hér í morgun og var að fá mér kaffisopa þegar ég heyrði í útvarpinu að siðmennt ætlar sér að vera með einhverskonar giftingarathöfn í Fríkirkjunni í Reykjavík.  Þessi athöfn er auðvitað ekki kirkjuleg og hún er heldur ekki borgaraleg.  Ónei, hún er veraldleg!!  Það er einhvernvegin allt svona hálfkjánalegt við þetta mál, svo ekki sé tekið dýpra í árinni.  Af hverju vill fólk sem ekki trúir á tilvist Guðs fá að hafa athöfn í Guðshúsi?  Er ekki til fullt af fínu húsnæði í borginni?  Fríkirkjan er lánuð til þess að þar geti farið fram athöfn sem hefur ekki nokkurn skapaðan hlut með Guð að gera og þeir sem fá hana eru siðmenntarmenn sem hafa nú ekki beint vandað þessum "trúarnötturum" kveðjurnar.  Hvar ættu mörkin að liggja varðandi notkun á Guðshúsi?  Er það við aðra trúarhópa?  Trúleysingja?  Eða eiga kannski engin mörk að vera?  Er þá ekki alveg hægt að lán kirkjurnar til djöfladýrkenda?

Þetta mál allt saman minnir mann á að kasta ekki grjóti úr glerhúsi.  Ég verða að viðurkenna að mér finnst þetta veraldlega-siðmenntar-fríkirkjubrúðkaup ótrúlega fyndið.  Nú tökum við höndum saman, kirkjan og siðmennt, og boðum trú/trúleysi hreint og ómengað, þannig að allir geti verið glaðir.  Þannig er hægt að hvetja presta til að prédika um það hversu trúleysi sé undursamlegt og að sama skapi gæti siðmenntarfólk farið útá kristniboðsakurinn og vitnað um það hvernig allt er frá Guði komið.  Svart er hvítt og hvítt er svart.  Einhvernveginn grunar mig þó að Hirti Magna þyki ekki leiðinlegt að fá tækifæri til að fá umfjöllun um sig í fjölmiðla, því Fríkirkjan í Reykjavík er auðvitað Hjörtur Magni. 

Annað mál sem mig langar aðeins að tæpa á og er með hreinum ólíkindum.  En það er sú staðreynd að Jose Mourinho skuli hafa verið látinn fara frá Chelsea.  Sigursælasti þjálfari liðsins frá upphafi er látinn fara eftir c.a. þrjú ár í starfi.  Þetta er ótrúlega stuttur tími sem hann hefur en samt hefur honum tekist að verða sigursælasti þjálfari liðsins frá upphafi.  Hverslag hálfvitar stjórna málum á þessum slóðum.  Maðurinn er rekinn eftir að hafa unnið tvo enska deildarmeistaratitla, einn FA bikar og tvo deildarbikar.  Það sér hver maður að þetta er auðvitað óásættanlegur árangur.

Nú þegar Mourinho er að leita sér að vinnu þá væri kannski hægt að benda honum á að annað Lundúnarlið sem á í nokkrum vandræðum um þessar mundir, nefnilega QPR.  Þá þyrfti hann heldur ekki að rífa börnin úr skóla og þyrfti ekki að flytja.  Hann gæti áreiðanlega komið mínum mönnum upp um deild með vinstri hendinni einni ef það hentaði honum frekar.

Já meistari Altúnga vissi hvað hann söng þegar hann hélt því fram að allt hér í heimi stefndi ekki aðeins til hins betra, heldur til hins besta.


Jón í Brauðhúsum

Ein af allra mögnuðustu smásögum sem ég hef lesið er "Jón í Brauðhúsum" eftir H. K. Laxness. Þetta áhrifamikil saga sem segir af því þegar tveir lærisveinar Jesú (Jóns) hittast fyrir tilviljun og fara að rifja upp gamla tíma. Þessi saga er nöturleg frásögn þeirra Filipusar og Andrésar, sem biðu eftir upprisu meistara síns, sem aldrei reis upp. Skemmtilegur debatinn á milli þeirra þegar þeir reyna að rifja upp boðskap Jóns, og það er óhætt að segja að minnið svíkur, því þeir eru aldrei sammála um það sem Jóns hafði sagt.
Þetta er umhugsunarverð saga fyrir trúaða jafnt sem vantrúaða eða trúlausa. Hvað ef Jesús hefði ekki risið upp?
Hlustið endilega á nóbelsskáldið lesa söguna á slóðinni: http://www.gljufrasteinn.is/sound/braudhus.mp3
Það er hrein unun að hlusta á Laxness lesa söguna.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband