Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Eru allir skapaðir í Guðs mynd?

Ég talaði við guðhrædda og góða konu um daginn sem sagði mér að sér fyndist samkynhneigð "viðbjóður" og slíkt fólk ætti ekki að sjást í kirkju. Hún sagðist jafnframt líta á samkynhneigð sem ákveðna tegund af fötlun!!! Fram að þessu hafði ég setið á mér í samtalinu, en gat ekki lengur orða bundist og spurði hvort henni fyndist að kirkjan ætti þar með að hætta kirkjustarfi fatlaðra? 

Já það er með ólíkindum það sem fólk lætur frá sér fara þegar málefni samkynhneigðra ber á góma. En það skal skýrt tekið fram að samkynhneigð er ekki ákveðin tegund af fötlun. En vegna þessarar konu og reyndar málflutnings fleiri aðila sem ég hef rekist á, á netrallýi mínu ætla ég aðeins að halda áfram að fjalla um biblíuna og samkynhneigð. 

Þegar kemur að vangaveltum um sköpun mannsins í mynd Guðs er að sjálfsögðu eðlilegt að horfa til fyrri sköpunarsögunnar sem er að finna í 1. kafla 1. Mósebókar:   sköpun

„Og Guð sagði: “Vér viljum göra manninn eftir vorri mynd, líkan oss, og hann skal drottna yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir fénaðinum og yfir villidýrunum og yfir öllum skriðkvikindum sem skríða á jörðinni.”  Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.  Og Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau: “Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.” 1. Mósebók 1.26-28. 

Hér segir klárlega að manneskjan sé sköpuð í Guðs mynd, en hér er einnig talað um drottnun hennar yfir jörðinni auk þess sem frjósemishlutverkið er undirstrikað.  Ég ætla einkum að beina sjónum mínum að frjósemisparti frásagnarinnar og þeirri hugmynd að manneskjan sé sköpuð í Guðs mynd. 

 

Fyrst verðum við að gera okkur grein fyrir því að fyrr á öldum var karlmaðurinn einungis talinn skapaður í mynd Guðs, og konan hafði bara aukahlutverki að gegna í þessari sviðsetningu sem Guð hafði búið karlmanninum.  Lengi vel héldu lærðustu sérfræðingar og kirkjufeður því fram að konan væri ekkert annað en vanskapaður karlmaður, og væri einungis nothæf til undaneldis.  Í raun var hún bara „hlutur”, samkvæmt þessari hugmynd, en ekki virkur þáttakandi í sköpun nýs einstaklings.  Þessi neikvæðni í garð kvenna tengist hugmyndinni um þiggjanda og geranda í kynlífi í grísk-rómverskri menningu og fram á miðaldir.

 

Engum dettur í hug að láta það út úr sér í dag að konan sé vanskapaður karlmaður.  „Tímarnir breytast og mennirnir með” segir máltækið.  Það á svo sannarlega vel við þegar kemur að viðhorfi kirkjunnar til kvenna.  Viðhorf kirkjunnar í dag miðað við það sem var fyrir 50 árum, hvað þá 500 árum er ekki saman að jafna. 

 

Þannig sjáum við að þó kirkjan telji sig boðbera sannleikans á öllum tímum, þá er hinn sögulegi sannleikur ekki sá sami í dag og hann var í gær.  Samfélagið tekur stöðugum breytingum og kirkjan verður að sjálfsögðu að fylgjast með því sem gerist í samfélaginu.  Það er ekki þar með sagt að hún hlaupi á eftir einhverjum kreddum eða vitleysi þó hún taki breytingum í viðhorfi og túlkun á textum biblíunnar, enda er tiltölulega stutt síðan nútíma biblíurannsóknir hófust á.  Við sjáum hins vegar í hendi okkar að sú túlkun sem gilti áður, um að maðurinn væri skapaður í Guðs mynd, átti einungis við karlamanninn en ekki konuna; ekki við óheilbrigða karlmenn heldur heilbrigða.  Slíkt þykir okkur firra í dag.

 

lennon_onoHugmyndin um gagnkvæmni kynjanna hefur verið nokkuð lífsseig innan kirkjunnar.  Þessi hugmynd gengur í stórum dráttum út á það að manneskjan verði ekki heil fyrr en í hjónabandi karls og konu.  Með þessum rökum væri hægt að segja að manneskjan sé ekki nema að hálfu leyti sköpuð í Guðs mynd því í hjónabandinu verða einstaklingarnir heilir, - eitt hold,- og þannig verður til hin „sanna” sköpun í mynd Guðs. 

 

Þessi skilningur er í besta falli ákaflega vandræðalegur, því margir kjósa einfaldlega að giftast ekki og lifa jafnvel einlífi.  Aðrir hafa ekkert val vegna líkamlegra eða andlegra krankleika.  Þó ekki væri nema af þessum ástæðum þá hafa þessi rök í raun fyrir löngu verið afgreidd sem ákveðin rökleysa, jafnvel þó margir kirkjunnar menn kjósi að nota þau enn í dag.

 

Í sköpunarfrásögunni hér að framan eru ekki sett nein skilyrði fyrir því að manneskjan sé sköpuð í Guðs mynd: „Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.”  Í frásögninni er hvergi minnst á hjónabandið, enda skipti kirkjan sér ekki af hjónabandinu að neinu marki fyrstu 1000 ár kristninnar.

 

Í þessu ljósi hafa menn gripið til þess ráðs að segja kynhvötina ekki vera hluta af guðsmyndinni.  Nokkuð augljóst virðist vera að þessi hugmynd tengist þeim vandræðagangi sem kirkjan hefur í gegnum tíðina sýnt af sér varðandi málefni sem tengjast kynlífi, kynhvöt og kynhneigð. Oft virðist manni það vera reglan að þeim mun uppteknari sem kirkjufeðurnir eru af einlífinu, þeim mun uppteknari eru þeir í raun af kynlífinu og þeim hvötum sem þar liggja að baki.

 

Orðið sjálft, kynhvöt, gefur okkur strax þá mynd að hér sé um hvöt að ræða sem er meðfædd. Enda gefur textinn í raun ekkert annað til kynna en að kynhvötin sé hluti af Guðs góðu sköpun.  Ef kynhvötin hefur ekki verið hugsuð sem hluti af Guðs góðu sköpun þá hefði textinn án efa tekið það skýrt fram.  Þessi texti sýnir okkur svo ekki verður um villst að við erum öll sköpuð í Guðs mynd, öll jafn mikið, óháð kyni, kynþætti eða kynferði.

 

Í raun snýst túlkun á textum biblíunnar, um að sjá skóginn fyrir trjánum.  Þ.e. að reyna að koma auga á kjarnann í boðskapi textans.  Hvað er það sem skiptir máli í viðkomandi texta, hvað skiptir minna máli og hvað skiptir engu máli. 

Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í Gamla testamentisfræðum við Guðfræðideild Háskóla Íslands, hefur bent á að „það væri misnotkun á biblíunni og hinum rauða þræði í boðskap hennar að nota texta eins og 3M 18.22 og 20.13 sem vegvísi fyrir kristna kirkju um hvaða afstöðu hún skuli taka til samkynhneigðra og baráttu.” Hér hittir Gunnlaugur einmitt naglann á höfuðið því sköpunarsögu textinn fjallar ekki á neinn hátt um samkynhneigð.  Hann fjallar aftur á móti um sköpunina.  Hann fjallar um að manneskjan sé sköpuð í Guðs mynd óháð kyni, litarhætti eða kynhneigð.

Kannski kemur meira seinna...sjáum til í hvaða áttir hugurinn reikar


Er samkynhneigð fordæmd af Guði?

Fyrir ekki svo löngu síðan átti ég í rökræðum á öðru bloggi við mann um það hvort biblían fordæmdi samkynhneigð eður ei. Þegar maður bregst við pistlum á blogginu finnst mér eiginlega skylda að vera ekki of orðmargur, auk þess sem manni gefst ekki alltaf færi á að skrifa jafn vel ígrundaðan texta, öðru máli gegnir þegar maður bloggar sjálfur. Þannig að hér er að finna einskonar svar mitt í þeirri umræðu sem ég tók þátt í á bloggi þessa manns.

biblíanÞegar kemur að umfjöllun biblíunnar um samkynhneigð hefur fólk verið duglegt að tína til þá texta sem fjalla á neikvæðan hátt um kynferðislegt samband tveggja einstaklinga af sama kyni.  Þess ber að geta áður en lengra er haldið að hvergi er minnst á samkynhneigð í biblíunni, enda er hvorki orðið „samkynhneigð” til hjá höfundum hennar, né hugmyndin um að samband samkynhneigðra.  Þar sem biblían á annað borð minnist á kynferðislegt samband tveggja einstaklinga af sama kyni þá er sú umfjöllun alltaf neikvæð. 

Algengt er að vísað sé í Gamla testamentið til að sýna fram á hversu rangt samkynhneigt líferni yfir höfuð er.  Hér er um að ræða frásögnina af því þegar Guð bjargar Lot úr eyðingu Sódómu og ákvæði í helgiritasafninu.  Sagan af eyðingu Sódómu og Gómorru er líklega eitt af þekktustu minnum Gamla testamentisins og túlkun kirkjunnar á þessari sögu á liðnum öldum hefur án efa átt mjög mikinn þátt í því að móta og viðhalda fordómum í garð samkynhneigðra einstaklinga. 

Hér er ekki meiningin að fara nákvæmlega í þessa texta, enda væri það til að æra óstöðugan, svo oft hefur verið fjallað um þá.  Hins vegar hljótum við að velta því fyrir okkur hvaða þýðingu þessir textar hafa fyrir kristið fólk í nútímanum.  En fyrst aðeins nokkur orð um kjarnaatriði þessara texta.

Eyðing Sódómu e. William TurnerSagan af eyðingu Sódómu og björgun Lot er sögð til þess að árétta hversu rangt það er að sýna öðrum óvirðingu og ekki síður til að sýna hvernig fer fyrir þeim sem ekki sýna aðkomumönnum og útlendingum gestrisni. Þessi túlkun er engan veginn gripin úr lausu lofti, enda segir í Esekíel 16.49: „Sjá, synd Sódómu systur þinnar var ofdramb.  Hún og dætur hennar höfðu gnótt matar og lifðu góðu lífi í makindum, en réttu þó ekki hinum voluðu og fátæku hjálparhönd.”  Auk þess sjáum við að vísað er til eyðingar Sódómu í Nýja testamentinu án þess að þar sé á nokkurn hátt gefið til kynna að eyðing hennar tengist kynferðislegum athöfnum.  Þetta sjáum við vel til að mynda í Mattheusarguðspjalli 10.12-15 og 11.23-24 og í Lúkasarguðspjalli 10.10-12.

Í heilagleikalögunum í 3. Mósebók kemur fram að karlmenn skuli ekki leggjast með öðrum karlmönnum sem konur væru.  Hér verðum við að hafa í huga að heilagleikalögin tengjast hreinsun hjá Hebreunum, hreinsun líkama og anda hjá ákveðinni þjóð sem á undir högg að sækja í óvinveittu umhverfi.  Það er athyglisvert að hér er einungis talað um kynlíf tveggja karla en ekki minnst einu orði á kynlíf tveggja kvenna.  Hvernig á að túlka það? 

Eins og áður sagði þá tengjast heilagleiklögin ákveðinni þjóð á tilteknum tíma í ákveðnum aðstæðum.  Þetta verðum við að hafa í huga þegar við skoðum þessa texta, eins og reyndar alla texta biblíunnar, því enginn texti verður til í tómarúmi, heldur endurspeglar hann ávallt aðstæður þess samtíma sem hann er skrifaður í.  Þess vegna verðum við að varast að taka textana úr samhengi og fleygja þeim inn í nútímasamfélag án allra skýringa eða fyrirvara. 

Í þessu samhengi má benda á að fyrir 150 árum voru textar úr biblíunni notaðir sem rök fyrir þrælahaldi, því víða í biblíunni er að finna jákvætt viðhorf til þrælahalds.  En andstæðingar þrælahalds sáu í hendi sér hversu rangt þrælahald var og við hljótum að geta tekið undir það, jafnvel þó biblían segi okkur annað.  Refsing fyrir framhjáhald var til að mynda dauði og sama gilti ef maður svaf hjá konu sem var hrein mey og föstnuð öðrum manni. (5.M. 22.22-24)  Jafnvel þó okkur kunni ekki að geðjast að framhjáhaldi þá grípum við þó ekki til jafn öfgafullra aðgerða og biblían vissulega boðar að við skulum gera. 

Í mörgum kirkjudeildum er fólk sem hefur haldið framhjá bæði gift og vígt. Í biblíunni er að finna miklar og flóknar leiðbeiningar um tíðablóð kvenna, sæði karla og einnig hversu lengi konur voru taldar óhreinar eftir og á meðan blæðingum stóð og einnig eftir barnsburð. 

Allar þessa flóknu reglur hafa ekkert gildi fyrir okkur í dag, enda allt annað samfélag upp á teningnum.  Sæði var til dæmis álitið heilagt á ritunartíma Gamla testamentisins og fóru fram miklar hreinsanir í kringum sáðlát eins og við sjáum í 3. Mósebók 15.16-18.  Í dag eru vissulega oft hreinsanir í kringum sáðlát en slíkur þvottur hefur ekkert með heilagleika sæðisins að gera, heldur tengist miklu fremur almennum þrifnaði.

Meira um málið síðar....

Blessun staðfestrar samvistar til umfjöllunar á Leikmannastefnu

thjodkirkjan_logoNú er nýlokið Leikmannastefnu Þjóðkirkjunnar, sem haldin var á Stykkishólmi að þessu sinni. Þar er að finna áhugaverða samþykkt:

"Leikmannastefnan lýsir stuðningi við drög að ályktun kenningarnefndar um Þjóðkirkjuna og staðfesta samvist og leggur sérstaka áherslu á að þau mál er lúta að hjónabandsskilningi og blessun eða staðfestingu samvistar samkynhneigðra eru enn til umræðu og verða ekki til lykta leidd innan kirkjunnar fyrr en á Kirkjuþingi á hausti komanda.

Leikmannastefna telur að góður vilji sé til þess í söfnuðum landsins að mæta óskum um að prestar komi að blessun og staðfestingu samvistar samkynhneigðra.

Á hinn bóginn er enn sterkari vilji meðal safnaðarfólks til þess að standa vörð um hefðbundinn skilning á hjónabandinu sem sáttmála karls og konu og sem sköpunarreglu Guðs. Um fyrirsjáanlega framtíð er því ekki um það að ræða að leikmenn innan kirkjunnar séu almennt reiðubúnir til þess að skilgreina hjónaband eða hjúskap kynhlutlaust. Í þessum efnum telur leikmannastefna að hægara og raunsærra sé að bæta við hliðstæðu og jafngildu vígsluformi en að breyta inntaki hjónavígslunnar.

Leikmannastefna telur að til álita komi af hálfu Kirkjuþings að heimila prestum, sem það kjósa, að staðfesta samvist samkynhneigðra para. Alþingi og kirkja gætu hugsanlega mæst í samþykkt og samskilningi á slíku heimildarákvæði.

Leikmannastefna varar við einföldunum og upphrópunum í sambandi við þau flóknu álitamál sem uppi eru varðandi Þjóðkirkjuna og staðfesta samvist. Þeir sem vilja fjalla um þau á opinberum vettvangi eru hvattir til þess að kynna sér áður álit kenningarnefndar og form helgisiðanefndar fyrir blessun staðfestrar samvistar. Innan Þjóðkirkjunnar er fengist við þessi mál af einurð og alvöru og þau verða leidd til lykta af hennar hálfu á Kirkjuþingi í haust."

Þarna má segja að leikmannastefnan gangi skrefi lengra en prestastefna gerði, og hefði ef til vill gert ef tillaga Péturs og Sigurðar hefði fengist rædd að einhverju marki. (Sú tillaga gekk útá að þeir prestar sem það kysu yrðu vígslumenn staðfestrar samvistar) Ég fagna samþykkt leikmannastefnunnar, en þess ber auðvitað að geta, eins og fram kemur hjá leikmannastefnu, að það er á Kirkjuþingi sem málið verður leitt til lykta. Það sem samþykkt er á prestastefnu eða leikmannastefnu fellur nánast marklaust niður ef Kirkjuþing samþykkir eitthvað annað, eða fellir málið með einhverjum hætti. Þannig að næsta skref verður tekið á Kirkjuþingi ef að líkum lætur. Það verður sannarlega spennandi að fylgjast með störfum Kirkjuþings, og ekki verður síður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þeirri skoðanakönnun sem samþykkt var að Biskupsstofa myndi gera.

Nánar um málið á vef Þjóðkirkjunnar


Prestastefna 2007 - "Íslenska Synodan"

Prestastefna 2007 084Það hefur verið allnokkur umfjöllunin sem Prestastefnan á Húsavík hefur fengið. Þar er ekki allt sem fram kemur í fjölmiðlum sannleikanum samkvæmt. Á leið minni aftur heim til Eyja í gær keypti ég mér DV, þar sem ég sá að á forsíðu var fyrirsögnin "Kirkjan mismunar". Í greininni er sagt að tillaga 42 menninganna hafi verið kolfelld (sem er hárrétt), en "Prestastefna samþykkti hins vegar tillögu með 43 atkvæðum gegn 39 að prestar, sem það kjósa, megi vígja samkynhneigða í staðfesta samvist".  Hið rétta er að á Prestastefnu kom fram dagskrártillaga þar sem samþykkt var að vísa þessari tillögu til biskups og kenninganefndar. Tillagan sjálf fékkst aldrei rædd. En það á að fara fram skoðanakönnun um þessa tillögu á meðal presta.

Er nema von að fólk almennt sé hálfringlað í þessari umræðu, þegar ekki er hægt að gera þá kröfu til fjölmiðla að þeir fari rétt með.  Í þessu máli hefur það líka lengi tíðkast að tala í upphrópunum, það á við fólk úr báðum hópum. 

Niðurstaða margra samkynhneigðra í þessu máli er sú að færa eigi vígsluvaldið frá trúfélögum, þetta varð ég mjög var við þegar ég vann lokaritgerð mína í guðfræðinni og fékk afnot af gögnum á bókasafni Samtakanna 78. Þessi krafa er síðan að verða æ háværari hjá almenningi.

Það hefur mörgum prestum reynst erfitt að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í fjölmiðlum, sérstaklega vegna þess að oft er snúið út úr orðum þeirra og þeir stimplaðir sem fordómafullir afturhaldsseggir. Þess vegna hafi þeir frekað kosið að segja ekkert við fjölmiðla, enda er umræðan oft á tíðum ó-interessant fyrir megin þorra fólks, þar sem tekist er um guðfræðihugmyndir, trúfræði og annað sem er ekki hluti af dægurumræðunni. Fjölmiðlar vilja líka setja málið í þann farveg að úr verði kappræða, tvær fylkingar sem takast á oní skotgröfunum. En það er, þegar öllu er á botninn hvolft, engan vegin gott fyrir umræðuna og málið í heild sinni.

Þess vegna var fjölmiðlum ekki hleypt inn þegar umræður um þetta mál fór fram. Það er síðan ákaflega undarlegt þegar prestar koma fram í fjölmiðlum og kvarta annars vegar undan því að ekki hafi farið fram leyninleg atkvæðagreiðsla um tillögu 42 menninganna, og hins vegar undan því að byrgt hafi verið fyrir alla glugga og fjölmiðlum ekki hleypt inn. Ég kem þessu ekki heim og saman.

Prestastefna 2007 188Annars var prestastefna ákaflega góð að svo mörgu leyti. Menn voru heiðarlegir í umræðunni um ályt kenninganefndar, án þess að vera í einhverjum persónulegum væringum, það var gott. Síðan var þetta hið besta samfélag, og gaman að hitta kollega sína víðsvegar af landinu. Þess má síðan geta að "hin heilaga þrenning" hittist þarna aftur eftir alltof langt hlé. (Við vorum mikið saman í guðfræðideildinni: Ég, Hólmgrímur (héraðsprestur fyrir austan) og Ævar Kjartansson (útvarpsmaður). Við gengum reyndar undir nafninu "hin heilaga þrenning og Henning" því fjórði aðilinn var Henning Emil, sem búið hefur erlendis undanfarin misseri.

ATH Gíslína tók myndir sem fylgja bloggfærslunni. Hún var óþreytandi með vélina fyrir norðan, og tók margar góðar.


Landsfundur Sjálfstæðismanna ályktar um skólamál

SjálfstæðisflokkurinnÉg fékk þær upplýsingar af landsfundi Sjálfstæðisflokksins að komið hefði fram tillaga um að bæta í ályktunina um skólamálin að "hvers kyns starfsemi trúfélaga eigi ekkert erindi inní ríkisrekinn einkaskóla".

Það er skemmst frá því að segja að þessi tillaga var kolfelld.

Til hamingju með þetta Sjálfstæðismenn. Þetta sýnir okkur líka að það er verið að vinna mjög gott starf þar sem vinaleiðin hefur verið í gangi, þrátt fyrir hávær mótmæli einstakra manna sem hafa verið duglegir við að koma skoðunum sínum á framfæri í fjölmiðlum. Miðað við málflutning þeirra mætti ætla að þeir lytu svo á að prestar og djáknar sem starfa í vinaleiðinni séu að bjóða börnum eiturlyf, eða jafnvel þvinga eiturlyfjum inná þau. En svo er auðvitað ekki, enda hefur vinaleiðin margsannað gildi sitt, og krakkar leita mikið til þeirra sem að henni koma.

Enn og aftur: Flott hjá Sjálfstæðismönnum


Sr. Hjörtur Magni - hinn eini sanni boðberi Krists á jörðu

Það er gott til þess að vita að hinn eini sanni boðberi kristinnar trúar skuli vera fundinn. Hann fannst í Fríkirkjunni í Reykjavík, þar sem hann lifir á engisprettum og villihunangi (eins og Jóhannes forðum). Það er nú eitthvað annað en Þjóðkirkjuprestarnir sem þjóna í hundruð miljóna musterum á góðum ríkislaunum, skv. því sem sr. Hjörtur Magni segir.  Sr. Hjörtur Magni mun útbreiða umburðarlindi úr prédikunarstól Fríkirkjunnar í Reykjavík alla sunnudaga, sem og á heimsíður Fríkirkjunnar í Reykjavík og hvar sem hann hefur tækifæri til.  Á meðan munu prestar Þjóðkirkjunnar halda áfram að þjóna í hinni "djöfullegu stofnun" sem Þjóðkirkjan er, svo notað sé orðalag sr. Hjartar Magna.

Þeir sem vilja fræðast meira um málið er bent á frétt á Stöð 2 og Kompásþátt frá 18 febrúar á sömu stöð.

 


Ah Ching litla svikin

 Nú hefur verið nóg við að vera í tengslum við fermingar og páskahátíðina, þannig að bloggið hefur setið nokkuð á hakanum. En í gærkvöldi (Skírdagskvöld) var ég með prédikun í Landakirkju. Þar voru svik þeirra sem við treystum mest og best í brennidepli hjá mér.  Ég set hér litla frásögn inn sem ég fléttaði inní prédikuna:

KínaMig langar til þess að segja ykkur dálitla sögu frá Kína af þeim veruleika sem fólk þar í landi stendur frammi fyrir.  Þessi saga er eins og endurskyn af því þegar Júdas sveik Jesú.

 

Ah Ching er stúlka, sem býr í litlu þorpi í fjallahéruðum Kína.  Hún er alin upp hjá foreldrum sem elska hana ákaflega mikið eins og foreldrar gjarnan gera.  Nótt eina vaknar hún upp við það að teppi er haldið fyrir vitum hennar, svo þétt að hún getur varla andað.  Hún hrópar á móður sína eftir hjálp, og teppið er dregið af henni. 

Sér til mikillar furðu þá sér hún að sá sem reyndi að kæfa hana var faðir hennar, og hún fer að gráta og lofar föður sínum því að hún skuli vera góð stelpa. 

 

Daginn eftir flýr hún að heiman og leitar hælis hjá ömmu sinni og segir henni hvað hafi gerst.  Amma hennar verður svo sorgmædd að hún grætur yfir frásögn Ching.  Þegar dagur er að kvöldi komin þá býr gamla konan um Ching og býður góða nótt.  Um nóttina kemur amma hennar inn í herbergið, þar sem Ching liggur sofandi, og beytir öllum sínum kröftum til að kæfa barnabarnið sitt. 

 

Í þessari litlu sögu breytist allt eins og hendi sé veifað.  Þau sem hún treysti, voru þau sem síðan sviku hana

 

Að eignast stúlku í Kína getur þýtt endalok fjölskyldunnar og vegna þeirra takmarkana sem gilda í landinu varðandi barnafjölda er oft gripið til slíkra óyndisúrræða sem lýst var í þessari sögu.  Móðir Ah Ching bað jafnt á nóttu sem degi að hið ófædda barn yrði drengur og þegar lítil stúlka kom í heiminn grét móðir hennar bæði yfir örlögum sínum og dóttur sinnar, en einnig yfir örlögum fjölskyldunna. 

 

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að foreldrar Ah Ching  og fjölskyldan öll eru ekki vont fólk.  Þau eru ekki hin klassísku illmenni, heldur búa þau við allt annan veruleika en við hér á vesturlöndum.  Við getum ekki skilið þennan raunveruleika, en við erum mjög dugleg að fordæma.

 

Inn í þennan heim þarf fagnaðarerindið að geta talað.  Ef það getur ekki talað inn í þennan veruleika þá á það ekkert erindi til þessa fólks.  Allt tal um jafnrétti á vesturlöndum verður sem „hljómandi málmur eða hvellandi bjalla" því sá veruleiki sem stúlkur á þessum slóðum búa við varðar spurninguna um líf og dauða í bókstaflegri merkingu. 

Van-trú

Það er svolítið gaman að fylgjast með þeirri umræðu sem fram fer á vef van-trúaðra. Þar finnst mér sem öfgatrú á einhverri van-trú ráði oft ríkjum. Enda eru van-trúaðir oft flokkaðir sem ákveðinn trúhópur hjá trúarbragðafræðingum víðast hvar í heiminum. Orðfæri þeirra minnir enda oft á trúarlegt orðalag þeirra sem fremur eru kenndir við öfgar í trúarskoðunum. þar eru menn og málefni fordæmd og allir flokkaðir í vini eða óvini. Og þeir sem ekki eru sammála þeirra skoðunum fá svo sannarlega að finna til tevatnsins.

Ég veit að nokkrir prestar og guðfræðingar hafa átt nokkur orðaskipti við van-trúar menn á netinu, aðallega sér til gamans, og þeir segja að það sé alveg óborganlegt hversu auðvelt sé að fá hina van-trúuðu uppá háa-cið. Þetta er nánast orðin eins og íþrótt hjá sumum sem eiga í orðaskiptum við þá og oft er ansi gaman að fylgjast með hvernig fordæmingarnar verða meiri og æsingurinn magnast hjá þeimredcross.

Í lokin þá má kannski minnast á að þegar fellibylurinn Katrín reið yfir New Orleans árið 2005, þá voru það kristin hjálpar- og sjálboðaliðasamtök sem voru fyrst á svæðið til að hjálpa þeim sem þurftu á hjálp að halda. Hvergi sáust samtök van-trúaðra, guðleysingja, eða truleysingja.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband