Er samkynhneigð fordæmd af Guði?

Fyrir ekki svo löngu síðan átti ég í rökræðum á öðru bloggi við mann um það hvort biblían fordæmdi samkynhneigð eður ei. Þegar maður bregst við pistlum á blogginu finnst mér eiginlega skylda að vera ekki of orðmargur, auk þess sem manni gefst ekki alltaf færi á að skrifa jafn vel ígrundaðan texta, öðru máli gegnir þegar maður bloggar sjálfur. Þannig að hér er að finna einskonar svar mitt í þeirri umræðu sem ég tók þátt í á bloggi þessa manns.

biblíanÞegar kemur að umfjöllun biblíunnar um samkynhneigð hefur fólk verið duglegt að tína til þá texta sem fjalla á neikvæðan hátt um kynferðislegt samband tveggja einstaklinga af sama kyni.  Þess ber að geta áður en lengra er haldið að hvergi er minnst á samkynhneigð í biblíunni, enda er hvorki orðið „samkynhneigð” til hjá höfundum hennar, né hugmyndin um að samband samkynhneigðra.  Þar sem biblían á annað borð minnist á kynferðislegt samband tveggja einstaklinga af sama kyni þá er sú umfjöllun alltaf neikvæð. 

Algengt er að vísað sé í Gamla testamentið til að sýna fram á hversu rangt samkynhneigt líferni yfir höfuð er.  Hér er um að ræða frásögnina af því þegar Guð bjargar Lot úr eyðingu Sódómu og ákvæði í helgiritasafninu.  Sagan af eyðingu Sódómu og Gómorru er líklega eitt af þekktustu minnum Gamla testamentisins og túlkun kirkjunnar á þessari sögu á liðnum öldum hefur án efa átt mjög mikinn þátt í því að móta og viðhalda fordómum í garð samkynhneigðra einstaklinga. 

Hér er ekki meiningin að fara nákvæmlega í þessa texta, enda væri það til að æra óstöðugan, svo oft hefur verið fjallað um þá.  Hins vegar hljótum við að velta því fyrir okkur hvaða þýðingu þessir textar hafa fyrir kristið fólk í nútímanum.  En fyrst aðeins nokkur orð um kjarnaatriði þessara texta.

Eyðing Sódómu e. William TurnerSagan af eyðingu Sódómu og björgun Lot er sögð til þess að árétta hversu rangt það er að sýna öðrum óvirðingu og ekki síður til að sýna hvernig fer fyrir þeim sem ekki sýna aðkomumönnum og útlendingum gestrisni. Þessi túlkun er engan veginn gripin úr lausu lofti, enda segir í Esekíel 16.49: „Sjá, synd Sódómu systur þinnar var ofdramb.  Hún og dætur hennar höfðu gnótt matar og lifðu góðu lífi í makindum, en réttu þó ekki hinum voluðu og fátæku hjálparhönd.”  Auk þess sjáum við að vísað er til eyðingar Sódómu í Nýja testamentinu án þess að þar sé á nokkurn hátt gefið til kynna að eyðing hennar tengist kynferðislegum athöfnum.  Þetta sjáum við vel til að mynda í Mattheusarguðspjalli 10.12-15 og 11.23-24 og í Lúkasarguðspjalli 10.10-12.

Í heilagleikalögunum í 3. Mósebók kemur fram að karlmenn skuli ekki leggjast með öðrum karlmönnum sem konur væru.  Hér verðum við að hafa í huga að heilagleikalögin tengjast hreinsun hjá Hebreunum, hreinsun líkama og anda hjá ákveðinni þjóð sem á undir högg að sækja í óvinveittu umhverfi.  Það er athyglisvert að hér er einungis talað um kynlíf tveggja karla en ekki minnst einu orði á kynlíf tveggja kvenna.  Hvernig á að túlka það? 

Eins og áður sagði þá tengjast heilagleiklögin ákveðinni þjóð á tilteknum tíma í ákveðnum aðstæðum.  Þetta verðum við að hafa í huga þegar við skoðum þessa texta, eins og reyndar alla texta biblíunnar, því enginn texti verður til í tómarúmi, heldur endurspeglar hann ávallt aðstæður þess samtíma sem hann er skrifaður í.  Þess vegna verðum við að varast að taka textana úr samhengi og fleygja þeim inn í nútímasamfélag án allra skýringa eða fyrirvara. 

Í þessu samhengi má benda á að fyrir 150 árum voru textar úr biblíunni notaðir sem rök fyrir þrælahaldi, því víða í biblíunni er að finna jákvætt viðhorf til þrælahalds.  En andstæðingar þrælahalds sáu í hendi sér hversu rangt þrælahald var og við hljótum að geta tekið undir það, jafnvel þó biblían segi okkur annað.  Refsing fyrir framhjáhald var til að mynda dauði og sama gilti ef maður svaf hjá konu sem var hrein mey og föstnuð öðrum manni. (5.M. 22.22-24)  Jafnvel þó okkur kunni ekki að geðjast að framhjáhaldi þá grípum við þó ekki til jafn öfgafullra aðgerða og biblían vissulega boðar að við skulum gera. 

Í mörgum kirkjudeildum er fólk sem hefur haldið framhjá bæði gift og vígt. Í biblíunni er að finna miklar og flóknar leiðbeiningar um tíðablóð kvenna, sæði karla og einnig hversu lengi konur voru taldar óhreinar eftir og á meðan blæðingum stóð og einnig eftir barnsburð. 

Allar þessa flóknu reglur hafa ekkert gildi fyrir okkur í dag, enda allt annað samfélag upp á teningnum.  Sæði var til dæmis álitið heilagt á ritunartíma Gamla testamentisins og fóru fram miklar hreinsanir í kringum sáðlát eins og við sjáum í 3. Mósebók 15.16-18.  Í dag eru vissulega oft hreinsanir í kringum sáðlát en slíkur þvottur hefur ekkert með heilagleika sæðisins að gera, heldur tengist miklu fremur almennum þrifnaði.

Meira um málið síðar....

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú ert að búa þér til gervivandamál, Guðmundur, með því að tala um "hneigðina". Biblían og m.a.s. Páll postuli ítrekað lýsa gjörðina, mökin, andstæð vilja Guðs og nota miklu harðari orð um þau en kemur fram í þessum orðum mínum. Horfztu í augu við þá staðreynd. Vandræðaleg, óbein réttlæting þín á óhlýðni við þau fyrirmæli Ritningarinnar með því að tala um þrælahald og hreinsun kvenna dugar þér lítt eða alls ekki. Lestu það, sem Einar Sigurbjörnsson hefur skrifað um hreinsun kvenna eða Jón Rafn Jóhannsson á Kirkju.net um heilsusamleg áhrif hennar fyrir Gyðingakonur í Vínarborg um aldamótin 1900, sem misstu ekki sín börn í barnsfararsótt, sem lék kristnar konur grátt, enda engir hreinsunarsiðir þar. Hugsum og rannsökum, áður en við fordæmum Gamla testamentið fyrir meinta úrelta vitleysu.

Jón Valur Jensson, 24.5.2007 kl. 00:42

2 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Jón ég er ekki að halda því fram að almennt hreinlæti sé gömul og úrelt vitleys, að halda því fram er viljandi útúrsnúningur á umræðunni.

Ég bendi líka á að Páll skrifar í ákveðnu umhverfi á ákveðnum tíma við ákveðnar aðstæður.

Ætlum við að nota þessi fyrirmæli Páls úr Kórentubréfinu í dag þar sem Páll segir: "skulu konur þegja á safnaðarsamkomunum, því að ekki er þeim leyft að tala, heldur skulu þær vera undirgefnar, eins og líka lögmálið segir.  En ef þær vilja fræðast um eitthvað, þá skulu þær spyrja eiginmenn sína heima. Því að það er ósæmilegt fyrir konu að tala á safnaðarsamkomu". Ég bara spyr. Auðvitað ekki, enda samræmist það ekki kjarna kristindómsins.

Guðmundur Örn Jónsson, 24.5.2007 kl. 09:49

3 Smámynd: Mofi

Ef Biblían hefði verið tekin alvarlega þá hefði það þrælahald sem stundað t.d. í Bandaríkjunum fyrir sirka 150 árum aldrei átt sér stað. Biblían t.d. bannar algjörlega að taka frjálsann mann og gera hann að þræli (2. Mósebók 21:16). Ef t.d. þræll slapp frá húsbónda sínum þá átti hann að vera frjáls og mátti ekki skila honum til baka ( 5. Mósebók 23:15-16 ). Svo það er alveg á hreinu að það þrælahald sem við þekkjum frá Bandaríkjunum fyrir 150 árum var algjörlega fordæmt af Biblíunni og engann veginn hægt að nota Biblíuna til að réttlæta það.  Ef það var eitthvað sem menn notuðu til að réttlæta þrælahald þá var það hugmyndir manna um þróun og að þetta fólk væri hálfpartin dýr en ekki menn.

Varðandi Pál og textann um konur þá var konum ekki bannað að taka þátt í samkomum í Ísrael og jafnvel dæmi um konu sem var í rauninni hæst ráðandi í Ísrael. Þannig að eðlilegast er að túlka texta Páls þannig að honum var beint til samfélags þar sem það hefði verið hneisa að kona tæki þátt í samkomum og þar sem fagnaðarerindið átti að hafa algjörann forgang þá áttu kristnir í þessu samfélagi ekki að storka því. Þannig að ég er alveg sammála þér Guðmundur að þarna er Páll að tala til ákveðins samfélags á ákveðnum tíma og rangt af okkur að láta það gilda út fyrir það.

Mofi, 24.5.2007 kl. 10:56

4 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Sammála þér Mofi varðandi þrælahaldið USA, en það breytir ekki þeirri staðreynd að biblían var m.a. eitt af þeim "tækjum" sem notuð voru til að réttlæta þrælahald. En eins og ég segi þá vitum við betur í dag. Og auðvitað snérist þrælahaldið líka um að hvítir álitu svarta ekki vera manneskjur, eins og þú bendir réttilega á.

En í þessu máli sjáum við hversu auðvelt það getur reynst að nota góða hluti til illra verka.

Guðmundur Örn Jónsson, 24.5.2007 kl. 12:41

5 Smámynd: Mofi

Það sem mér finnst vera mikilvægt er að það var í rauninni ekki hægt að nota texta í Biblíunni til að réttlæta þrælahald eins og Bandaríkin voru með því að þannig þrælahald var algjörlega bannað af Biblíunni.  Þeir höfðu sömu Biblíu og við í dag svo þeir hefðu alveg átt að vita betur.  Kannski aðalega ósammála orðalaginu, að það var ekki Biblían sem var notuð til illra verka heldur notuðu menn lygar og í þessum lygum notuðu menn Biblíuna. Ef fólk hefði almennt vitað hvað Biblían sagði um þrælahald þá hefðu þannig lygar aldrei sannfært neinn.

Já, sammála þér að það er auðvelt að nota góða hluti til illra verka.

Mofi, 24.5.2007 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband