Færsluflokkur: Bloggar

Sá sem á tvo kyrtla, gefi þeim, er engan á!

1.skóflustunganFyrirsögnin er sótt í orð Jóhannesar skírara og gefur okkur tilefni til þess að velta því fyrir okkur hvað það er sem mestu máli skiptir í lífi okkar.

Oft virðist mér sem einkunnarorð íslendinga megi finna í ljóði Ísaks Harðarsonar "Tilgangur lífsins":

Og ég - fíflið

barnið með bláu augun

sem hef leitað að sjálfum mér,

tilgangi lífsins, í heilan áratug

(sem þætti ekki langur tími

á sumum bæjum)

 

í trúarbrögðunum

skáldskapnum

dulspekinni

tilfinningunum

 

skynja loks, hve blindur ég hef verið

allan tímann

 

Því hann hefur alltaf blasað við

- Tilgangur lífsins -

Því hann hefur alltaf

verið þráðbeint framan við nös mína

hér og nú

Tilgangur lífsins!

Ekki þar, þá, eða annars staðar

heldur hér, nú, í hversdagsleikanum:

 

Hinn ynislegi, guðdómlegi

Tilgangur lífsins:

 

AUKINN HAGVÖXTUR!

 

Aukinn hagvöxtur kann að vera góður, svo langt sem hann nær - en hann nær alls ekki langt, þegar um raunveruleg lífsgæði er að ræða.  Hugmyndin um að gefa þeim kirtil sem engan á, eða að heimta ekki meira en fyrir okkur er lagt, samræmast ekki hugmyndum um aukinn hagvöxt. 

Aukinn hagvöxtur krefst þess að við séum sístritandi fyrir auknum lífsgæðum - sífellt að fórna dýrmætum tíma í aukna yfirvinnu á kostnað þeirra sem okkur þykir vænt um og standa okkur næst.  Á kostnað þeirra sem ekki eiga kyrtil.  Okkur ber auðvitað miklu frekar að bera góða ávexti, en ekki eintóma hagvexti.

Síðan má auðvitað velta því fyrir sér hvað hagvöxtur þýðir. Veit það nokkur maður fyrir víst. Eru barnsfæðingar ekki dæmi um aukinn hagvöxt, léleg ending bíla og heimilistækja þýða aukinn hagvöxt, því endingarleysi kallar á endurnýjun allra hluta.  Aukinn hagvöxtur er líklega ekkert sérstakur vinur umhverfisins. - Eða hvað?

 


Hugsað til baka

Sat hér í þönkum mínum í hádeginu og var að velta því fyrir mér hvað gamlir skólafélagr frá Stórutjörnum eru að gera í dag. Ég hef aðeins verið að velta þessu fyrir mér síðan við Gíslína fórum norður á jarðarför sr. Péturs í Laufási, því í erfidrykkjunni hitti ég mörg minna gömlu skólasystkyna.

Það er óhætt að segja að gamlir vinir og félagar hafa farið í ólíkar áttir.  Nokkrir eru bændur, þó alls ekki margir miðað við það að þegar við vorum "sperlar"* þá ætluðum við allir að verða bændur. Í þessum hópi eru vélstjórar, sálfræðingur, smiðir, tamningamaður, verkfræðingur, garðyrkjufræðingur, tölvuséní, framkvæmdastóri og fleira.

Það merkilega við þessa upprifjun er hvað það eru sorglega margir af gömlum bekkjar-og skólafélögum sem ég hef enga hugmynd um hvað eru að gera í dag, og hef jafnvel ekki hugmynd um hvar eru staðsett í heiminum. Ég veit þó að allnokkrir ala manninn í danaveldi og ein í Bandaríkjunum.

Það er merkilegt að hugsa til þess að þetta er fólk sem maður var í miklu samneyti við í mörg ár, jafnvel allan sólarhringinn, því ég var í heimavist frá 9 ára aldri og til loka grunnskólagöngu, skuli svona algjörlega hverfa - gufa upp úr lífi manns. Einhvernveginn hélt maður að það myndi aldrei fenna yfir sporin, en svo vaknar maður upp við að maður veit ekkert um margt af þessu fólki.

*sperlar = Á Stórutjörnum var alltaf talað um litlu krakkana í skólanum sem sperla.


Sannleikurinn í Baugsmálinu!!!

Það er þó nokkuð síðan ég áttaði mig á því að Baugsmálið snýst að meira eða minna leyti um það sama og fótbolti. Þetta er allt saman spurning um það með hverjum maður heldur í þessum æsispennandi leik, sem fer þó auðvitað ekki fram á fótbloltavelli, heldur í réttarsölum ovinnie og gazzag fjölmiðlum.

Jón Gerald Sullenberger er stálheiðarlegur og myndi aldrei segja ósatt!!

Jón Steinar er stálheiðarlegur og myndi aldrei segja ósatt!!

Davíð Oddsson er stálheiðarlegur og myndi aldrei segja ósatt!!

Jón Ásgeir er stálheiðarlegur og myndi aldrei segja ósatt!!

Jónína Benediktsdóttir er stálheiðarleg og myndi aldrei segja ósatt!!

Jóhannes Jónsson er stálheiðarlegur og myndi aldrei segja ósatt!!

Hreinn Loftsson er stálheiðarlegur og myndi aldrei segja ósatt!!

Styrmir Gunnarsson er stálheiðarlegur og myndi aldrei segja ósatt!!

Jón H. B. Snorrason er stálheiðarlegur og myndi aldrei segja ósatt!!

Allt það fólk sem kemur nærri Baugsmálinu á einn eða annan hátt er stálheiðarlegt og myndi aldrei segja ósatt!!!

Ef við göngum útfrá því að allir þessir aðilar séu að segja satt, þá er sannleikurinn svo sannarlega ekki algildur. Nákvæmlega eins og í fótboltanum.  Í mínum huga er ekkert lið í enska boltanum jafn merkilegt og Q.P.R. (ég treysti mér nú varla til að halda því fram að það sé besta liðið) aðrir myndu segja að minna merkileg lið eins og t.d. Liverpool eða Man. utd eða jafnvel Chelsea eða Arsenal væru mun merkilegri og betri lið (og ég þekki meira að segja einn sem myndi segja að Tottenham væri ekki síðra).

Sem sagt spurningin er sú með hverjum heldur þú í Baugsmálinu?? Það er alveg sama með hverjum hver heldur, því auðvitað er sá eða sú sem ég held með stálheiðarleg(ur) og myndi aldrei segja ósatt!!

Baugsmálið snýst ekki nema að litlu leyti um að sannleikurinn nái fram að ganga, heldur miklu fremur um það hver vinnur. Hvort liðið vinnur. Það er ekki spurt að því hvort liðið lék betri fótbolta, heldur hvort liðið náði að skora fleiri mörk.


Prestur giftist kvenfélagskonu

cash&juneVið hjónaleysin höfum ætlað okkur að ganga í það heilaga í allnokkur ár, á þeim 10 árum sem við höfum rölt saman þennan æviveg, en einhvernvegin aldrei látið verða af því. En nú er sem sagt komið að því - þó ekki alveg strax!!

Stóri dagurinn verður í haust og það er þegar farið að huga að ýmsu í kringum brúðkaupið.

Ekki datt mér, ólofuðum manninum, í hug að þetta væri svona mikið tilstand. Við Gíslína (prests-kærastan og kvenfélagskona með meiru) kíktum á brúðkaupsheimasíðu og það liggur nú við að manni fallist hendur yfir öllu því sem fram undan er. Við höfum þó ákveðið að fara ekki út í nein þyrluflug og brjálæði í kringum brúðkaupið. En þrátt fyrir það er margt sem þarf að huga að því það er stór ættbogi í kringum okkur bæði sem við erum í miklum tengslum við. Ef til vill erum við ekki að gera okkur þetta auðveldara fyrir með því að gifta okkur hér í Eyjum, því allt okkar fólk býr uppá fasta landinu, og margir fyrir norðan. En gifting er líklega jafn góð ástæða og hver önnur til þess að safna öllu þessi fólki saman á Heimaey.

Það er ýmislegt skondið sem talað er um á síðunni í tengslum við brúðkaup, en það sérkennilegasta sem ég rakst á var neyðartaska brúðhjóna, sem þau eiga að hafa við hendina á brúðkaupsdeginum. Í þessari tösku á m.a. að vera: verkjatöflu, brjóstsviðatöflur, plástrabox, nefsprey, hálsbrjóstsykur, magastyllandi lyf, dömubindi, glært púður, blautþurrkur, tissjupakki, hárspennur, barnapúður, snyrtidót, hreinsikrem, fatarúlla........................Listinn heldur endalaust áfram.

Þetta er greinilega ekki neyðarTASKA, heldur neyðarKOFFORT! 

P.S. Það voru mér þó nokkur vonbrigði að hinir tveir Q.P.R. félagarnir skyldu ekki kommentera á Q.P.R. bloggið mitt. Líklega eru þeir ekki komnir með nettengingu ennþá.


Að duga eða drepast fyrir Q.P.R.

Nú fer baráttan hjá mínum mönnum í Q.P.R. heldur að harðna.  Ef þeir ætla að forðast fall þurfa þeir heldur betur að fara að spýta í lófana.

Þeir unnu góðan sigur á Leicester í fyrradag á útivelli. Ég var nú reyndar hálfsmeykur um þeir myndu renna á rassinn í eitt skelfilega skiptið enn.

Það var lánsmaðurinn, og jafnaldri minn, Idakez sem kom mínum mönnum á bragðið, en hann er nýkominn að láni frá Southampton. Þetta er greinilega lán sem er að bera árangur.

En síðan var síðan daninn knái Nygaard sem bætti við tveimur mörkum og innsiglaði góðan útisigur.

Það er óhætt að segja að mínir menn hafa mátt muna sinn fífil fegurri, það er ekki svo ýkja langt síðan þeir voru í efstu deild og stóðu sig með hreinum ágætum. Upphafi að niðulægingatímabilinu má rekja til þess þegar sir Les Ferdinand flutti sig um set til Newcastle árið 1995, þar sem hann stóð sig frábærlega, eins hans var von og vísa. Þegar Ferdinand fór þá vantaði annan markahrók, hann hafði fram að því skorað helming allra marka Q.P.R., en það kom enginn í staðinn og við tók frjálst fall niður um tvær deildir.

Það er vonandi að niðulægingartímabili Q.P.R. fari að ljúka og þeir fari að leika meðal þeirra bestu, reyndar þarf ansi margt að breytast svo af því geti orðið. T.d. þurfa þeir að fara að spila fótbolta og hætta þessu eilífa "kick and run" stíl sem einkennir þá nú um þessar mundir.


Sól í hjarta, sól í sinni, sól bara sól!

Ég held ég verði að vera sammála Guðmundi Ragnari Björnssyni, þegar hann spyr hvort Sól í Straumi séu farin að grípa í hálmstrá í þessu máli.

Ég tel þessa tilkynningu alveg fjarstæðu fyrir þessi góðu samtök, því þau hafa góðan málstað. Þessi málatilbúnaður gefur manni þær hugmyndir að málstaðurinn sé veikur.

En málstaðurinn er góður og samtökin ættu að einbeita sér að því að koma þeim góðu skilaboðum til Hafnfirðinga sem þau hafa hingað til gert. Þar sem þau hafa m.a. fjallað um stóraukna mengun af stækkun álvers og svara þeim ótrúlega hræðsuáróðri sem Alcan hefur haldið á lofti, sem samtök iðnaðarins hafa síðan tekið undir.

Haldið áfram með ykkar góða starf hjá Sól í Straumi, en fallið ekki í þá gryfju að það líti svo út að þið séuð að grípa í hálmstráin.


mbl.is Sól í Straumi: Fjárhagsleg rök fyrir samþykki stækkunar Alcan brostin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gifting samkynhneigðra

Hér er um mjög stórt mál að ræða.

Nú er ég prestur í þjóðkirkjunni (sem sr. Hjörtur Magni Fríkirkjuprestur myndi kalla "djöfullega stofnun") og þar er einmitt þetta mál ákaflega mikið rætt innan prestastéttarinnar, og óhætt að segja að sitt sýnist hverjum.

Málið er þó í ákveðnum farvegi og vonandi fæst einhver niðurstaða í málið á prestastefnu sem haldin verður í apríl norður á Húsavík.

Það væri fróðlegt að framkvæma skoðanakönnun meðal þjóðkirkjufólks, um afstöðuna til þessa máls, til þess að fá úr því skorið hvar fólk stendur í málinu. Þó þyrfti á einhvern hátt að tryggja öfgalausa umræðu áður, þar sem öll sjónarmið fengju að koma fram, án upphrópana eða særinda.

Oft hefur umræðan verið með þeim hætti að hún er öllum málsaðilum til háborinnar skammar og gýfuryrði hafa fokið, og fólk nánast verið tekið af lífi.

Það væri gaman að heyra hvar gestir bloggsins standa í þessu máli.


mbl.is Svíar líklega fyrstir þjóða til að gifta samkynhneigða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álver eða moldarkofar?

Mikið yrði það sorgleg niðurstaða ef Hafnfirðingar myndu samþykkja stækkun álvers. Niðurstaða þessarar kosningar er í raun ekki einkamál Hafnfirðinga. Því þeir verða að fá orku í álverið annarsstðar frá, ekki framleiða þeir rafmagnið í Hafnarfirði.

Þessi staða sem upp er komin í Hafnarfirði getur komið upp allstaðar þar sem álver eru. Eigendur segja: "við viljum stækka um helming, og ef það gengur ekki þá erum við bara farnir."  Þetta tangarhald sem álversrisarnir hafa á hverju samfélagi fyrir sig er óhuggulegt.

Hvað gerist ef Reyðarál vill stækka um helming eftir fimm ár? Þá hóta þeir auðvitað bara að fara ef þeir fá ekki að stækka.

Ég trúi því ekki að Húsvíkingar og gamlir sveitungar úr Þingeyjarsýslu vilji í alvöru vera háðir dutlungum einhvers álrisa út í heimi. Þingeyingar hafa hingað til ekki verið tilbúinir að sitja og standa einsog þeim er sagt, heldur frekar þegar þeim hentar. En ef þeir samþykkja álver þá eru þeir búnir að framselja ákveðið vald yfir sjálfum sér úr landi.

Fyrirsögnin hjá mér er tilvísun í ofnotaða tuggu sem álverssinar hafa haldið mikið á lofti. Í þeirra huga er enginn millivegur: Annað hvort fáum við álver eða við förum aftur í moldarkofana. Það sjá allir rökleysuna í þessari fullyrðingu. Á sama hátt gæti ég sagt: Ég hef um tvennt að velja að kaupa bíl uppá 10 milljónir eða hest, enginn millivegur, allt eða ekkert. Lífið er ekki svart eða hvítt.

Ég hvet Hafnfirðinga til að láta reyna á þessa hótun álversins í Straumsvík. Þetta er verðmætt land sem yrði eftirsótt ef álverið færi. Ég hef reyndar ekki nokkra einustu trú á því að álverið fari, því verðið sem þeir greiða fyrir raforkuna er það lægsta sem þekkist á byggðu bóli.


mbl.is Fleiri með en á móti álversstækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt skip til Eyja

Það er stór dagur hér í Eyjum. Ný Vestmannaey VE 444 lagðist að bryggju áðan. Það var tignarlegt að sjá þrjú skip Bergs - Hugins sigla inn höfnina: Nýju Vestmannaey, gömlu Vestmannaey og Smáey.

Maggi Kristins fór þess á leit við mig að ég blessaði hið nýja skip og var það mér bæði ljúft og skylt. Þetta var góð stund þar sem allir viðstaddir fóru m.a. með gamla sjóferðarbæn sr. Odds V. Gíslasonar.

Það er nú ekki laust við að manni finnist maður eiga eitthvað í skipinu eftir svona athöfn, enda skiptir blessun skips miklu fyrir sjómenn.

Nú ríkir mikil bjartsýni hér í Eyjum eftir góða loðnuvertíð og nýtt skip. Þess má síðan geta að önnur tvö ný skip eru á leiðinni til Eyja á næstunni.  Hér láta menn verkin tala og láta engan bilbug á sér finna, þó oft blási reyndar á móti.vestmannaey VE 444

Ég læt sjóferðarbæn sr. Odds fylgja hér með.

 

 

 

Sjóferðarbæn við blessun Vestmannaeyjar VE 444   

Í nafni Guðs, föður, sonar og heilags anda.

Almáttugi Guð, ég þakka þér að þú hefur gefið mér líf

og heilsu svo að ég geti unnið mín störf í sveita míns andlits.

 

Drottinn minn og Guð minn. Þegar ég nú ræ til fiskveiða

og finn vanmátt minn og veikleika skipsins

gegn huldum kröftum lofts og lagar,

þá lyfti ég upp til þín augum trúar og vonar

og bið þig í Jesú nafni að leiða oss á djúpið,

blessa oss að vorum veiðum og vernda oss,

að vér aftur farsællega heim til vor náum

með þá björg, sem þér þóknast að gefa oss.

 

Blessa þú ástvini vora, og leyf oss að fagna aftur

samfundum, svo vér, fyrir heilags anda náð,

samhuga flytjum þér lof og þakkargjörð.

 

Ó, Drottinn, gef oss öllum góðar stundir,

skipi og mönnum í Jesú nafni. Amen.

 


Að spila bingó, eða ekki spila bingó?

Í sjálfu sér get ekki séð neitt athugavert við að fólk spili bingó, fari á böll, eða geri svo sem hvað annað yfir hina kristnu helgidaga. En ef við eigum að sleppa því að halda í  þessa daga sem helga daga, þá hlítur það að koma að sjálfu sér að vinnuveitendur hætta að gefa frí á þessum dögum, er það ekki? Til hvers að halda í frí á dögum sem tengjast ákveðinni helgi ef fólk lítur ekki á þá sem helgidaga? Fólk verður að velja og hafna.

 


mbl.is Bannað að spila bingó á ákveðnum tímum um páska
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband