Hækkun eða lækkun? Það er efinn.
20.7.2007 | 14:48
Hér virðist stefna í eitthvert þrátefli og með ólíkindum að sjá hversu mikið ber á milli í þeim upphæðum sem talað er um að ASÍ fái frá hinu opinbera. Annars vegar 30 milljónir og hins vegar 1,5 milljón (ef ég skil þessa yfirlýsingu rétt). Reyndar segir þessi yfirlýsing ekki mikið ef að er gáð.
Ég set reyndar spurningarmerki við fullyrðingar þess manns sem talar fyrir hönd Bónus (eða Baugsbúðanna) þegar hann heldur því fram að verslunarrekstur sé alls ekki eins arðbær og margir halda. Ef verslunarrekstur stórrar keðju eins og Bónus væri ekki arðbær, þá myndu menn nú líklega hætta þessari vitleysu og setja peningana sína í eitthvað annað.
Annað atriði sem ég sá að fulltrúi ASÍ og Bónuss voru að rífast um í Kastljósi um daginn var einmitt verð til neytenda. Bónussinn sagði að heildsalar hefðu hækkað verðið á vörum sínum og því hefðu smásala neyðst til að hækka lítillega verð hjá sér. Þetta kann að vera rétt (ég legg ekkert mat á það) en það breytir því ekki að verð til neytenda hefur hækkað, hvað sem öllum heildsölum líður. Það er verið að tala um verð til neytenda, en ekki smásala. Ég sá það glögglega að þessir tveir aðilar voru einfaldlega ekki að tala um sama málið, og á meðan svo er þá fæst engin niðurstaða í málið.
Forseti ASÍ svarar gagnrýni framkvæmdastjóra SA | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kokkurinn seldur
19.7.2007 | 22:22
Þetta þykja mér slæmar fréttir. Það er vont þegar einn aðalleikmaður minna manna er seldur. Cook hefur verið einn af fáu ljósu punktunum í slöku (í besta falli miðlungs) liði QPR. En það er eins og ævinlega, mitt félag í enska er eins og útungunarstöð fyrir stærri klúbbana. En ég hélt nú einhvernvegin í þá von að Cook myndi vera a.m.k. eitt tímabil í viðbót og hjálpa til við að gera atlögu að sæti í úrvalsdeildinni.
Spurning hvort maður fari ekki að taka fram takkaskóna aftur.
Cook í raðir Fulham | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Að vera til sýnis
19.7.2007 | 22:11
Þær eru ótrúlega hártoganirnar í lögfræðinni. Að halda því fram að um opið rými sé að ræða þegar tjald er dregið fyrir þennan klefa eða rými, er með ólíkindum.
Er ég að greiða atkvæði í opnu rými þegar ég kýs t.d. í alþingiskosningum og dreg tjaldið fyrir. Ég hélt að ég væri útaf fyrir mig í lokuðu rými/klefa.
Spurning hvort maður geti þá ekki allt eins farið í sturtu niðrá miðjum Austurvelli, eins og að fara í sturtu í sturtuklefa þar sem maður dregur sturtuhengið fyrir?
Hártoganir og útúrsnúningar, það er málið.
Eigandi Goldfinger og dansari á staðnum sýknuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Svipmyndir á svipstundu
19.7.2007 | 09:45
Gaman að segja frá því að hún Gíslína (prestskærastan) er að koma sér fyrir á flickr.com. Myndirnar hennar er að finna á þessum stað.
Annars fer að styttast í að hún verði prestsfrú (og ég verð í alvörunni kallinn hennar). Það verður semsé 8. sept. Við erum nú reyndar ekki beint á áætlun með undirbúninginn. Boðskortin voru að fara í prentun í gær, en það var hún Dagnýsem hannaði þau, mjög flott, hipp og kúl, ákaflega móðins.....
Nú á bara eftir að redda kirkju, sal, presti, búa til gestalista, fá einhvern til að elda, sauma brúðarkjól, velja föt á stelpurnar, velja föt á mig, finna músíkkanta og eitthvað smotterí í viðbót.
Nei, nei, þetta gengur þokkalega allt saman. En kíkið endilega á myndirnar hjá frúnni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Greiningardeildarvölvan hefur talað.
19.7.2007 | 09:16
Greiningardeildir þessara blessaðra banka eru ótrúleg fyrirbæri. Þarna er talað í sama stíl og völva Vikunnar. "Síðan sé ég hamingju og einhversstaðar í heiminum verður jarðskjálfti, eða flóð, eða eitthvað. Árið 2009 mun verðbólgumarkmið nást, gæti dregist framá 2010".
Þetta er ótrúlegt. Ætli fólk leggi almennt sömu trú á orð greiningadeildanna og völvunnar. Eða eru greiningadeildir framlenging á völvum allra tíma - véfrétt.
En á þessum undarlegu spám stjórnast síðan viðskiptalífið, hlutabréf rjúka upp, eða falla, krónan tekur kippi í einhverjar áttir. Það sem þessar greiningadeildir eru í raun að gera er að búa til væntingar í þá átt sem þeim hentar og vonast til þess að "markaðurinn" (þ.e. fólk sem sýslar með hlutabréf, krónur og aura) fylgi í þessa átt og fjárfesti í samræmi við plottið.
Ég segi að "markaðurinn" eigi ekki að láta þetta fólk á greiningadeildunum stjórna öllu. Mér sýnist það svona álíka gáfulegt og að láta stjörnuspána stjórna því hvort maður kaupir, selur eða sparar.
Læt fylgja með speki fyrir þá sem eru að huga að húsnæðiskaupum: "Nú er rétti tíminn til að fjárfesta í húsnæði því húsnæðismarkaðurinn er að taka stökk uppá við, nema hann geri það ekki. En þá getur tvennt gerst: Annað hvort stendur markaðurinn í stað, og þá skiptir ekki máli hvort hús er keypt núna eða seinna; eða að húsnæðismarkaðurinn lækkar, en þá er rétt að bíða með að kaupa sér húsnæði, þar til markaðurinn nær jafnvægi og fer að síga uppá við. En þá er líklega ekki gáfulegt að bíða lengur með húsnæðiskaup. Þetta gæti orðið árið 2009. Ergó-ekki kaupa húsnæði núna, nema þið viljið það.
Kaupþing: gífurleg óvissa í íslensku efnahagslífi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Gleði í Mongólíu
18.7.2007 | 13:03
Hef aldrei náð kontakt við þennan FIFA lista. Hvernig stendur t.d. á því að lið geta fallið um 25 sæti á milli þess sem listinn er birtur eða hoppað upp um 25 sæti?
Ísland stendur í stað þrátt fyrir dapurt gengi.
Menn hljóta að hoppa hæð sína í loft upp í Mongólíu og Bólivíu. Á sama tíma grætur fólk óskaplega á Jamaika.
Brasilía í efsta sæti á styrkleikalista FIFA | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mark er mark
17.7.2007 | 17:33
Ég er aðeins að velta fyrir mér þessari frétt, þ.e.a.s. hver hin eiginlega frétt er. Auðvitað stendur mark ÍA, sama hvort félögin koma með sameiginlega yfirlýsingu eður ei. Alveg eins og mark Maradona stóð gegn Englendingum forðum, þó alþjóð hefði séð að hönd Guðs, var bara hönd hins dauðlega Maradona.
Það hefði hins vegar verið stór frétt (og raunar stór skandall) ef mark ÍA hefði ekki staðið.
Stóra málið í þessu er að allur ágreiningur er úr sögunni, og menn kjósa að horfa fram á veginn, en ekki sitja við þennan leik og velta fyrir sér hvað hver gerði eða sagði, á meðan á leik stóð eða eftir leik. Yfirlýsingin segir enda að gert sé gert og sagt sé sagt og ekkert meira með það.
Mark ÍA stendur og sættir hafa náðst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Stríð og friður
16.7.2007 | 12:35
Þetta þykir mér umhugsunarvert sérstaklega í því ljósi að við getum varla talist vera í hringiðu hryðjuverkanna. Það er líka umhugsunarvert að alltaf skuli vera til nægjanlegt fjármagn í hernaðarbröltið, þar sem markmiðið er að tortíma og limlesta. En það virðist aldrei vera til nægjanlegt fjármagn til þess að bjarga lífi.
Forystumenn voldugustu ríkja heims koma saman á fundum ár eftir ár og velta fyrir sér hverri krónu sem fara á til þróunaraðstoðar og menn draga lappirnar þegar kemur að því að fella niður skuldir fátækari þjóða. EN þegar kemur að hergögnum og morðtólum hverskonar þá er aldrei spurt um krónur og aura, þá eru allar kistur fullar af peningum.
Mér þykir þetta líka umhugsunarvert í ljósi orða föður stúlku sem lést á Landsspítalanum um daginn. Hann sagði að það væri undarlegt hversu miklu íslendingar eyddu í varnir gegn hryðjuverkum, og þó hefðu engin hryðjuverk verið framin á Íslandi. Síðan kæmi að eiturlyfjavandanum, þá væru peningar skornir við nögl, og þó flæða eiturlyf yfir allt og brjóta niður einstaklinga og fjölskyldur.
Kannski er niðurstaða frelsispostulanna sú að réttast væri að lögleiða eiturlyfin (það vilja a.m.k. margir lögleiða hass og maríjúana með þeim rökum að þau séu svo væg og það hafi hvort eð er allir prófað að fá sér í haus, eða eina jónu). Með slíkum aðgerðum hyrfi eiturlyfjavandinn!!!
Grun hef ég um að ef menn eyddu viðlíka fjármunum í að bjarga fólki, eða huga að velferð fólks á alla lund, að þá myndi stríðsógnin minnka til muna. En það er líklega ekki von á slíku meðan brjálaðir stríðsherrar halda um stjórnartauminn, hvort sem er austan eða vestan Atlantshafs.
Varnir æfðar með Bandaríkjaher í næsta mánuði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Dularfullur þjófnaður.
12.7.2007 | 16:39
Gestabókin hvarf með DULARFULLUM HÆTTI. Ef gestabókin hefur horfið með dularfullum hætti, þá gæti nú orðið erfitt að hafa uppá henni aftur. Það getur varla verið eitthvað dularfullt við þjófnað, eða hvað? Það gæti hins vegar verið nokkuð dularfullt ef bókin hefði hreinlega gufað upp í höndunum á starfsmanni hótelsins, en það virðist ekki hafa gerst skv. fréttinni.
Ég ætla mér ekki að gera lítið úr því tjóni sem orðið hefur við hvarf gestabókarinnar, en ég held að það sé nákvæmlega ekkert dularfullt við hvarfið. Þvert á móti held ég, og nú tala ég án allrar ábyrgðar, að einhver dauðleg manneskja hafi verið hér að verki.
Dýrmæt gestabók horfin af Hótel Búðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
VIÐ og ÞEIR
12.7.2007 | 00:10
Ef satt reynist þá eru þetta ansi sláandi niðurstöður fyrir stjórnvöld vestra. Ég man að Magnús Þorkell Bernharðsson, okkar helsti sérfræðingur í málefnum mið-austurlanda, sagði eftir árisina á Tvíburaturnana að það versta sem vesturlönd gerðu í stöðunni væri að ráðast til atlögu, án þess að hafa skýr markmið. Eftir það var ráðist inní Afganistan og þar voru markmiðin skýr: Að koma talibönunum frá völdum.
Þá hófust bollleggingar um að ráðst inní Írak. Þá varaði Magnús við innrás inní landið, því markmiðin væru alls ekki skýr. Enda muna allir hringavitleysuna í kringum það allt saman, og einnig hvernig íslensk stjórnvöld létu teyma sig á asnaeyrunum í því máli með því að styðja innrásina, þrátt fyrir endalausar sannanir fyrir því að Bandaríkjamenn hefðu ekki farið með rétt mál.
Innrásin í Írak, ásamt veru Bandaríkjamanna í Sádí-Arabíu (þar sem finna má eina af helgustu stöðum múslima) er undirrót þess vanda sem menn standa frammi fyrir í dag. Síðan má auðvitað ekki gleyma því að saga vesturlanda í þessum löndum er vægast sagt ömurleg. Hún einkennist af forræðishyggju sem einkennist af kynþáttahatri (í besta falli vantrausti á því að enginn geti stjórnað nema hann sé hvítur), því vesturlönd, og þá sér í lagi Bretland og Bandaríkin eiga sér ljóta sögu í samskiptum við arabalöndin. Arðrán og svik eru líklega bestu orðin til þess að lýsa þessum samskiptum. Síðan er auðvitað mikil tortryggni í arabalöndunum vegna stuðnings Bandaríkjamann við Ísrael (það er reyndar orðin sagan endalausa, sem maður lifir líklega ekki til að sá hvernig endar).
Málin hafa þróast nákvæmlega með þeim hætti sem hryðjuverkamennirnir létu sér bara dreyma um. Þetta hefur snúist uppí við vs. þeir. Kristni vs. Islam. Vesturlönd vs. Arabar. Í því tilliti hefur orðræða Bush ekki hjálpað til. Hann hefur notað biblíulegt málfar til þess að undirstrika að VIÐ erum góðir, en ÞEIR eru vondir. Árásin á Tvíburaturnana var ekki hægt að setja í trúarflokk, eða heilagt stríð (jihad). Í slíku stríði er fylgt ákveðnum reglum sem ekki var farið eftir í árásinni á Tvíburatrunana (fólki ekki gefinn kostur á uppgjöf, börnum ekki þyrmt, konum ekki þyrmt, og það sem mest er um vert, þar voru múslimar líka drepnir).
Hryðjuverkaárásir eiga ekkert skylt við trúna og í trúartextum er ekkert sem styður slíkt athæfi. Hér er hins vegar skelfileg afbökun og pólitísk misnotkun á ferðinni. Það er snúið útúr Kóraninum og hann misnotaður gróflega til þess að réttlæta morð á saklausu fólki. Það þekkist víða í sögunni að snúið hefur verið útúr eða setningum kippt úr samhengi til þess að réttlæta grimmdarverk.
Mæli með því að fólk lesi bók Magnúsar Þorkells Bernharðssonar "Píslarvottar nútímans" til þess að glöggva sig á sögu Islam, og ekki síður sögu Íraks og Írans. Í þeirri bók færiri hann góð rök fyrir því að píslarvættisdauði hafi verið stofnanvæddur í stríðinu milli Írans og Íraks (þar sem Bandaríkjamenn studdu Íraka heilshugar og töldu sig eiga góðan bandamann í Saddam Hussein)
Al-Qaeda hefur náð fyrri styrk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)