Ég á ekki kærustu lengur

Eftir allnokkurt blogghlé, sem helgast af undirbúningi fyrir brúðkaup, er rétt að gera brúðkaupið upp. Við Gíslína giftum okkur s.l. laugardag með pompi og prakt í Landakirkju. Hólmgrímur skólafélagi minn úr guðfræðinni annaðist athöfnina og gerði það með stakri prýði. Hólmgrímur er héraðsprestur í Austfjarðarprófastsdæmi og er jafnframt 1/3 af "hinni heilögu þrenningu" úr guðfræðinni (Ævar Kjartans, Hólmgrímur og undirritaður). Reyndar var alltaf sagt: "hin heilaga þrenning og Henning", en Henning var einnig ómissandi í hópnum. Júlli frændi og Hörður Torfa sáu um tónlistina í brúðkaupinu, ásamt organista Landakirkju og Óskari Sig.

Veislan var mikið húllumhæ í "happy-happy-joy-joy-stíl". Heiðar Ingi, fóstbróðir og uppeldisfrændi var veislustjóri og stóð sig að sjálfsögðu með miklum ágætum. Hörður Torfa kom og spilaði nokkur lög fyrir okkur, "nafni" spilaði og söng, og spilaðu undir hjá mér þegar ég söng Fjöllin hafa vakað í pönk stílnum. Síðan kom Makríllinn (sem er einskonar hliðarsjálf Heiðars Inga) og tók lagið, en hann hefur nánast legið algjörlega í dvala eftir að skapari hans hætti að drekka. Kristín Dögg (10 ára) tók lagið fyrir okkur og stóð sig mjög vel. Loks stjórnuðu Arnar og Júlli fjöldasöng.

Ræður voru nokkrar: Ævar, Gunna "mágkona", Sonja, Ásgeir og að sjálfsögðu mamma. Þetta var stórgóð skemmtun sem Mía dóttir mín vill endilega endurtaka sem fyrst og hún er þegar byrjuð að bjóða fólki í næsta brúðkaup hjá okkur.

Ákveðinn hápunktur í brúðkaupsveislunni var þegar hún Mía mín söng fyrir okkur lagið "Ó mamma gef mér rós í hárið á mér". Hún vildi reyndar ekki syngja án undirleiks þannig að Hörður Torfa gekk í málið og spilaði undir hjá henni. Ekki slæmt að byrja ferilinn á að fá Hörð sem undirleikara.


Frelsi til að...

Já það er frábært þetta málfrelsi.  En spurningin er frelsi til hvers?  Frelsi til að níða niður?  Frelsi til að móðga?  Frelsi til að gera lítið úr sannfæringu annarra (hvort heldur trúar- eða ekki-trúarsannfæringu)?

Ég átta mig ekki alveg á málinu, ég verð að viðurkenna það.  Fyrir hverju eru þessir ritstjórar í alvörunni að berjast?  Það þarf vart að koma þeim á óvart að einhverjir skuli móðgast. 

Hvað með frelsi nýnasista til að koma sínum málum á framfæri í dagblöðum?  Hvað með frelsi kynþáttahatara til að koma sínum málum á framfæri?  Hvað með frelsi homma- og lesbíuhatara til að koma sínum málum á framfæri?

Hvaða frelsi er hér verið að tala um?

Ég held að eina ástæðan fyrir ákvörðun þessara ritstjóra sé að hygla sjálfum sér og auglýsa auðvitað blaðið.  Ég held að ákvörðun þeirra risti ekki dýpra en í peningapyngjur lesenda sinna.  Ef þeir væru í alvörunni þessir miklu frelsispostular, sem þeir gefa sig út fyrir að vera, þá beittu þeir sér af öllum lífs og sálar kröftum til opna augu fólks (já heilu þjóðanna) fyrir ranglæti heimsins.  Af nógu er að taka. 

Hér rétt austan við Skandinavíu er t.d. hommum misþyrmt með aðstoð lögreglu, og þykir hið besta mál.  Kannski flokkast það undir frelsi stjórnvalda til að hata og misþyrma hommum?


mbl.is Dönsk blöð birta „Múhameðshundinn"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að skjóta börn

Að hugsa sér, þrjú börn voru skotin af misgá, herinn hélt þetta væru herská börn!!  Hvernig er heimurinn eiginlega?  Ég stóð einhvernvegin í þeirri meiningu að það ætti einfaldlega ekki að skjóta börn, jafnvel þó þau séu herská eða ódæl á einhvern hátt.

Ísraelski herinn gerir sig sekan um a.m.k. tvennt í þessu máli.  Annars vegar að skjóta saklausa borgara - saklaus börn, og hins vegar að ætla sér að skjóta börn - herská börn.  Það má vart á milli sjá hvort vekur hjá manni meiri hrylling. 

Ljóð Kristjáns frá Djúpalæk, Slysaskot í Palestínu (Í víngarðinum), lýsir ástandinu á þessum slóðum vel.  Þetta er áhrifaríkt og magnað ljóð sem má auðvitað heimfæra á hvern þann stað þar sem stríðsástand ríkir.

Lítil stúlka. Lítil stúlka.
Lítil svarteyg dökkhærð stúlka
liggur skotin.
Dimmrautt blóð í hrokknu hári.
Höfuðkúpan brotin.

Ég er Breti, dagsins djarfi
dáti, suður í Palestínu,
en er kvöldar klökkur, einn,
kútur lítill, mömmusveinn.

Mín synd er stór. Ó, systir mín.
Svarið get ég, feilskot var það.
Eins og hnífur hjartað skar það,
hjarta mitt, ó, systir mín,
fyrirgefðu, fyrirgefðu,
anginn litli, anginn minn.

Ég ætlaði að skjóta hann pabba þinn.


mbl.is Börn sem Ísraelar skutu unnu ekki fyrir hryðjuverkamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég vil, ég vil ekki, ég vil, ég vil ekki....

Það kom til mín maður og bað mig að taka að sér ákveðið verkefni. Ég svaraði strax NEI. Síðan ræddi ég málin við Gíslínu og dætur mínar og þá urðum við sammála um að það væri rétt að ég tæki að mér verkefnið. Ég setti mig aftur í samband við þennan mann. Nú eru liðnir tveir dagar og ekkert svar fæ ég frá manninum til baka. Þetta er óþolandi framkoma, ekkert kemur mér á óvart í þessu máli lengur.

Er þetta hátterni mitt réttlætanlegt?
Það myndi ég ekki segja. En einhvernvegin svona sýnist manni varaformaður Þórs á Akureyri haga sér skv. frétt Vikudags.
Forsagan er sú að Akureyrabær hefur átt í viðræðum við Þór um uppbyggingu frjálsíþróttaaðstöðu á Þórssvæðinu. Þeim hugmyndum var hafnað á aðalfundi félagsins, en almennur félagsfundur gaf síðan stjórninni umboð til þess að ganga til viðræðna við Akureyrarbæ.

Nú fussar Árni, varaformaður, og sveiar yfir því að bærinn hafi ekki enn svarað beiðni þeirra um viðræður um málið, sem þeir sjálfir höfðu þó áður hafnað.

Það er greinilega erfitt að gera það upp við sig hvort hér eigi að halda eða sleppa.


Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga

Það er vonandi að þessi viðskipti nái fram að ganga.  Hver veit nema QPR verði næsta stórveldi í enska boltanum.  Það hljómar ljúft í eyrum að heyra þulina tala um "meistaraheppni" eða "það er stórmeistara bragur á QPR núna".  Ég sé það alveg fyrir mér þegar bikarinn kemur heim á Loftust Road og ungt fólk flykkist í aðdáendahópinn.  Já stórveldistíminn er framundan, það er engin spurning.

Nema að Loftus Road verði breytt í æfingasvæði fyrir formúlubíla.  Allt getur gerst.


mbl.is Liðsstjóri Renault íhugar kauptilboð í QPR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bakkafjara hin meiri

Í tíufréttum rúv í kvöld var fjallað um fyrirhugaða Bakkafjöru, sem nú virðist vera besti kosturinn í þeirri stöðu sem upp er komin. Ég ætla mér svo sem ekki að taka afstöðu til þessara mála, enda hef ég takmarkaða þekkingu þar á.
Hins vegar þótti mér athyglisvert viðtalið við landeiganda og ábúanda á Bakka. Það kemur nefninlega í ljós að það hefur ekki nokkur maður talað við hann um málið.

Maður hlítur að spyrja sig að því af hverju hafi aldrei verið talað við þennan ágæta ábúanda. Það er ekki eins og þessi hugmynd hafi verið að fæðast í gær. Ég er ekki að tala um neinar samningaviðræður um verð eða eitthvað svoleiðist, heldur sjálfsagða kurteisi, sem fælist í því að minnast á þær hugmyndir sem í gangi eru. Ætli geti verið að stjórnvöld hafi hugsað sem svo: "Við þurfum ekkert að skipta okkur af þessum Bakkabónda því við tökum bara landið eignarnámi og borgum honum kannski 5 milljónir fyrir".

Svo er fólk að hneykslast á aðgerðarsinnum þegar kemur að samskiptum við stjórnvöld.


Ó Bjössi, lífið er bardús.....

Það er svolítið spaugilegt að sjá hversu Björn Bjarnason er viðkvæmur gagnvart sjálfum sér.  Í pistli á vefsíðu sinnis.l. laugardag er Björn mjög sár útí Eyjamanninn Sigmund:

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins fetar Sigmund í fótspor ruglukollanna á visir.is og gefur ranglega til kynna, að ég vilji takmarka för ungs fólks um miðborg Reykjavíkur. Sigmund er sjálfum sér samkvæmur í rugli sínu. Hann hefur um margra ára skeið látið eins og ég sé að stofna eða hafi stofnað íslenskan her. Gangist menn upp í að hafa rangt fyrir sér, eiga þeir það við sjálfan sig en ekki aðra. Sé einhverjum skemmt, er tilganginum náð.

Sigmund hefur teiknað í Moggan í mörg herrans ár og myndir hans hafa nú ekki alltaf verið heilagur sannleikur, en þar er samt alltaf um einhvern beittan sannleika að ræða, kryddaður með góðum húmor.

Annars er gaman að heimasíðu Björns, það eru ekki allir þingmenn eða ráðherrar sem gefa jafn opinskátt upp hvað þeir eru að hugsa í tengslum við hin ólíkustu mál.


Allt gengur upp hjá Magnúsi Kristinssyni!!!

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var sagt frá komu Bergeyjar VE 544 til Eyja.  Í kjölfarið var viðtal við Magga Kristins, sem á útgerðina Berg-Huginn (og reyndar Toyotu og fleira).  Maggi var spurður hvort þetta myndi allt saman ganga upp í ljósi kvótaskerðingarinnar og Maggi svaraði: "Það gengur allt upp sem ég geri".

Þetta svar lýsir skemmtilegum töffaraskap og auðvitað ákveðnum húmor líka.

Ég átti töluverð samskipti við Magga þegar ég kom hingað til Eyja, þar sem hann var formaður sóknarnefndar.  Þau samskipti voru alltaf góð, enda maðurinn einstaklega röskur og laus við allt "bullshitt".  Málin voru afgreidd og gengið hreint til verks með skjótum og öruggum hætti.  Þetta gekk að sjálfsögðu upp!!!


Þríburar

Félagi minn og fóstbróðir, Hilmar, er orðinn pabbi í annað sinn.  Það munar þá ekkert um það þegar slíkt gerist, það fæddust þríburar, tvær stelpur og einn strákur.  Mig langar til að óska þeim Hilmari og Thelmu til hamingju, og auðvitað stóra-stóra-stóra bróður, Guðjóni Valberg líka.

Ég segi nú ekki annað en að það er meira en að segja það að eignast þríbura.  Þrennt af öllu og síðan verður að huga að bílakaupum, nánast rútu í fullri stærð.  Ég veit reyndar að þau koma til með að standa sig vel, en það er nokkuð ljóst að það verður í nógu að snúast.  Það er ekki eins og bændur geti tekið sér fæðingarorlof og farið í frí frá búinu.

Núna eru litlu stubbarnir á vökudeild í Reykjavík, fjarri heimahögunum, og heilsast bara vel.


Hvar eru fréttir úr 1. deild á Syn2?

Ég er einn af þeim sem keypti mér áskrift af Syn2.  Það sem ég var ákaflega spenntur fyrir var að fá fréttir úr ensku 1. deildinni með í þessum pakka.  Auðvitað hef ég gaman af ensku úrvalsdeildinni og á þar mitt uppáhaldslið, Newcastle, en mitt enska fótboltahjarta slær samt í London hjá QPR.  Þess vegna sakna ég þess að enn hafi ekki verið gerð góð grein fyrir 1. deildinni á Syn2 og kalla hér með eftir aukinni umfjöllun eins og lofað var.

Stóru tíðindin úr 1. deildinni eru að QPR gerði jafntefli í sínum fyrsta leik við Bristol City á útivelli.  En mér sýnist að það geti orðið spennandi að fylgjast með Coventry og Ipswich, en bæði lið unnu stórt í fyrstu umferð.  Niðurlægingaskeið Southampton virðist ætla að halda áfram, miðað við stórtap á heimavelli.

Ef ég horfi alveg raunhæft á stöðuna þá sýnist mér sem svo að mínir menn muni ekki komast upp á meðal þeirra bestu að þessu sinni, enda verða þeir einfaldlega að hafa breiðari og betri hóp til þess að ætla sér einhverjar rósir í þeim málum.  Ég vonast samt til þess að þeir lendi ofan við miðju.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband