Að hafa hjartað á réttum stað?

Ég komst að því núna fyrir skömmu að hjartað í mér er í sjónvarpinu.

Þann 1. okt. s.l. átti ég eins árs vígsluafmæli.  Þann 1. okt. 1987 hófust sjónvarpsútsendingar á fimmtudögum á rúv.  Ég var hér búinn að setja mig í heilmiklar stellingar á blogginu og áformaði mikil skrif um þessi merku tímamót á rúv.  En ég bloggaði nú reyndar ekkert um það.

En ég man þegar ákveðið var að sjónvarpa á fimmtudögum að þá hugsaði ég: "hvern fjandann ætla menn að sýna?  Er ekki verið að sýna allt sjónvarpsefni sem til er í dag?"  Ég sá fyrir mér að fimmtudagar yrðu svona endursýningarkvöld, "best of" á dagskrá vikunnar.

En svo vara bara til heilmikið efni.  Já það sem afdalamaður að norðan varð hissa. 

Semsagt ég mundi ekkert eftir prestsvígslu minni 1. okt. fyrir ári síðan, en mundi eftir sjónvarpi í fimmtudögum fyrir 20 árum. 


Tralla-lalla-la Vialli-lilli-li

Það væri auðvitað all nokkur klassi yfir því að fá Vialli til að stjórna mínum mönnum.  Ég vona bara að hann falli í þá grifju sem Gullit féll í með Newcastle á sínum tíma: að spila sexí football.
mbl.is Vialli í viðræðum við QPR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markmið næstu kjarasmaninga

rich.poorUm síðastliðna helgi var þing AN haldið heima hjá pabba og mömmu á Illugastöðum.  Þar var m.a. eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða, sem ég er mjög hrifinn af og vona bara að fólki beri gæfa til að fylgja henni eftir í kjarabaráttunni.

Ályktun um kjaramál30. þing Alþýðusambands Norðurlands hvetur til þjóðarsáttar um jöfnun lífskjara á Íslandi.

 Verkalýðshreyfingin hefur lengi barist fyrir þessu markmiði og náð miklu fram, launþegum til hagsbóta. Þrátt fyrir að mikið hafi áunnist í kjara- og réttindabaráttu verkafólks er það nöturleg staðreynd að á sama tíma og lágmarkslaun eru undir fátækramörkum eru dæmi um að menn í fjármálaheiminum taki sér mánaðarlaun sem jafngilda launum 519 verkamanna samkvæmt almennu kjarasamningunum. Verkalýðshreyfingin hefur oft bent á þá misskiptingu sem viðgengst á Íslandi og kallað eftir umræðum um málið.

 Í ljósi þessara staðreynda er mikilvægt að verkalýðshreyfingin setji sér það markmið í komandi kjaraviðræðum við atvinnurekendur að almennir kauptaxtar láglaunafólks hækki verulega og að kaupmáttur þeirra verði tryggður.  Um leið er því hafnað að aðeins sumir, ekki síst í fjármálageiranum, fái að njóta þeirrar velmegunar sem verið hefur í íslensku hagkerfi á síðustu árum.

 Alþýðusamband Norðurlands hafnar alfarið þessari misskiptingu og minnir á að verkalýðshreyfingin hefur lagt sitt af mörkum til að tryggja stöðugleika og þannig grunn að vaxandi kaupmætti, en það er ekki nóg. Aðrir verða að axla ábyrgð líka svo sem stjórnvöld, sveitarfélög og fjármálastofnanir. Þessir aðilar geta ekki endalaust staðið á hliðarlínunni eins og þeim komi málið ekkert við. Þjóðarsátt um jöfnun lífskjara byggir á því að allir axli ábyrgð, ekki bara verkalýðshreyfingin.

 Alþýðusamband Norðurlands krefst þess að launaleynd verði afnumin og kynbundnum launamun verði útrýmt.

 Það hlýtur allt réttsýnt fólk að sjá að það verður ekki lengur unað við það að þeir sem eru á lægstu töxtum þurfi alltaf að bíða með að taka út hagnaðinn í góðærinu á meðan þeir sem sitja á toppunum "eiga svo sannarlega skilið að fá hagnaðinn af góðærinu strax til baka."  

 Þetta er auðvitað svo skelfilega óréttlátt að það nær ekki nokkuri átt.  Það getur ekki talist eðlilegt að það þurfi fleiri hundruð manns til að ná uppí laun eins manns.  Hvers vegna metur samfélagið vinnu eins svona miklu, miklu, meira en annars?  Ég held að fólki sé smám saman farið að blöskra þessi skelfilega misskipting. 

Ég er ekki að segja að þé slæmt að græða, en fyrr má nú rota en dauðrota.

Það var mikið!

Þessi ákvörðun kemur nú ekki beint á óvart, enda virðist manni maðurinn ekki hafa nokkra tilfinningu fyrir því starfi sem hann gegndi.  Í leiknum á móti WBA ákvað hann t.d. að stilla upp þriggja manna sóknarlínu!!  Halló!!  Með hvaða mannskap hélt hann að hann væri með í höndunum?  Það er himin og haf á milli þessara liða, og að láta sér detta í hug að sækja á sem flestum á móti liði sem er í toppbaráttunni (verandi sjálfur á botninum) er alveg ótrúlegt.

Auðvitað hefur verið ákveðin örvænting í kallinum vegna stöðu klúbbsins og síðan hefur það auðvitað ekki virkað róandi á hann að vita af Vialli á staðnum.  Vonandi að nýir eigendur nái nú að koma einhverju í lag hjá mínum mönnum.

Eina vonin á þessari leiktíð, er að QPR nái að halda sér uppi og setji sér það markmið fyrir næstu ár að komast upp um deild, en fyrst er auðvitað að tolla í deildinni.  Það er óásættanlegt fyrir þennan fornfræga klúbb að sitja einir á botni deildarinnar með þrjú stig.  Krafan er auðvitað að vera ekki í fallsæti - það er nú alltog sumt sem ég fer fram á og allir stuðningsmenn þessa ágæta félags.


mbl.is Gregory rekinn frá QPR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um dauða Guðs

god%20bad%20driverÞegar litið er á mismunandi tilbrigði við stefið um dauða Guðs er oft erfitt að segja til um hvort hann sé lífs eða liðinn.  Yfirleitt er hann með einhverju lífsmarki en skilyrðin til lífs hafa hins vegar breyst.  Dauði hans er oft tengdur breytingum í hugmyndasögu vestrænnar menningar.

T.S. Elliot útskýrði breytinguna á eftirfarandi hátt:  "Það virðist eitthvað hafa gerst sem hefur aldrei gerst áður: þó við vitum ekki alveg hvenær eða hvernig eða hvar."

Menn hafa yfirgefið Guð, ekki fyrir aðra guði, segja þeir, heldur fyrir engan guð; og það hefur aldrei gerst áður.

Nietzsche lét vitfirring einn hlaupa inn í mannþröngina og öskra: "Guð er dauður! Guð verður áfram dauður! Og við höfum drepið hann!"  Menning vesturlanda hafði breyst það mikið á kostnað trúarlegra hugmynda að ekki var lengur hægt að tala um Guð á líkan hátt og áður.  Þessi hugmynd hefur verið tjáð margsinnis og hér hafa skilyrðin til lífs breyst og ekki alveg hægt að útiloka að eitthvað líf bærist hjá Guði.

Ég endurnýjaði aðeins kynni mín við bandarísku guðfræðingana William Hamilton og Thomas J. J. Altizer.  Þeir gengu lengra en flestir áður og lýstu yfir raunverulegum dauða Guðs (ekki bara hugmyndafræðilegum dauða). 

Hamilton gekk ekki alveg jafn langt og Altizer, því hjá honum var Guð á hægri leið með að deyja.  Dauði Guðs táknaði breytingu á þann hátt að yfirnáttúrulegu eiginleikarnir voru að hverfa og hann varð háðari tíma og rúmi.  Mér hefur reyndar alltaf þótt erfitt að skilja þetta alveg.  Það er t.a.m. erfitt að tímasetja dauðann en Hamilton brást við þeirri spurningu með svari í þremur liðum:

1) Koma og dauði Jesú gera dauða Guðs mögulegan
2) 19da öldin raungerir dauða Guðs
3) Í dag er það hlutskipti okkar að skilja þetta og sætta okkur við það.

Hugmyndir Altizer eru alls ekki einfaldari, þær eru raunar svo ótrúlegar að það er svona alveg á mörkunum að hægt sé að tala um hann sem guðfræðing.  Hann hrærir saman biblíunni, Hegel, Nietzsche, Sartre, Blake, Freud og austrænum kryddjurtum í guðfræðilegan graut sem erfitt, ef ekki ómögulegt, er að melta. Ég skal alveg viðurkenna að ég skil hvorki upp né niður í honum, enda hafði ég alltaf meira gaman af að skoða hugmyndir Hamiltons. 

Hugmyndin um dauða Guðs er vissulega "skemmtileg" hugarleikfimi, en ég held reyndar að þessi ágæta hugmynd sé sjálf dauð.  Hreyfingin sem fylgdi þessum ágætu mönnum hefur ekki þótt trúverðug og ekki notið mikillar hylli.  Svo má auðvitað setja spurningarmerki við það hvort það sem þeir félagar framreiddu geti yfirhöfuð kallast guðfræði. 

Ef til vill gæti Guð tekið sér orð Mark Twain í munn og sagt: "Fregnir af andláti mínu er stórlega ýktar."


Barátturljóð

Langaði til að deila með ykkur stórbrotnu ljóði eftir Elías Mar. Það er nú kannski ekki beint bjartsýnis ljóð, en það sýnir vel þann tíðaranda sem það er sprottið uppúr. Sérstaklega finnst mér gott orðalagið: Berjizt ekki fyrir; berjist gegn. Það er kannski málið þegar öllu er á botninn hvolft, þetta eru kannski hugsjónir stríðsrekstrar og landvinninga. 


 

Berjizt þér, berjizt þér, djöflar og andskotar.
Borið glóandi töngum í naglkvikur og pyndið, pyndið.
Ímyndið yður að lífið
sé einkum og sér í lagi í því fólgið að hata.
Berjizt ekki fyrir; berjizt gegn.
Teljið yður trú um að sú stefna sé rétt
sem hótar að beita aflsmun. Dansið
í nautnþyrstu ofvæni kringum vetnissprengjuna, já
allar þær sprengjur sem bezt geta tortímt. Ræktið
eiturjurtir og sýkla óvinum yðar til matar. Hatið. 

Trúið því, að hugsjónir sigri eða láti sigrast með vopnum.
Sannlega mun reyk fórnarinnar bera við ský.
Sannlega mun nóttin verða sem dagur og
himinninn hverfa fyrir glampanum af þeim loga.
Sannlega mun eyðingin bera eilíft vitni um mikilleik yðar,
þér djöflar og andskotar. 

Öskrið og ærið.
Neytið valdsins til að sanna að þér hafið það.
Miskunnið ekki.
Eyðið hverir öðrum á báli yðar taumlausu villu.
Sama er mér.
---
Morguninn
eftir nótt tortímingar skal ég
þerra svitann af ennum yðar, þar sem þér
engizt af ótta við sólargeislann,
og færa yður vatn úr læknum þann morgun, 

og ég skal líkna Sigurvegaranum
hvar hann þreyttur liggur
í allri sinni smæð. 

Elías Mar 1951

Endurnýjuð kynni af Birtingi

voltaireÍ Reykjavíkurferð okkar hjóna hef ég verið að endurnýja kynni mín af Birting eftir Voltaire.  Síðast las ég þessa mögnuðu bók fyrir 20 árum, veturinn sem ég sótti fermingarfræðslu til Hönnu Maríu, til að byrja með og síðar Bolla Gústavssyni.  Skemmtileg blanda Birtingur og Biblían.  Læt fylgja með ótrúlega lýsingu á því þegar Birtingur ákveður að flýja úr Búlgarska hernum og hugsa um orsök og afleiðingu (allra hluta).  Þetta er ótrúleg lýsing á afleiðingum stríðs:

"þorpið var Abaraþorp sem Búlgarar höfðu eytt með báli samkvæmt þjóðarrétti.  Sundurlamdir karlarnir horfðu á barkadregnar konur sínar deyja með börnin á blóðugum brjóstunum; í öðrum stað lágu ungar stúlkur í andarslitrum sem hetjurnar höfðu rist blóðörn eftir að hafa haft gagn þeirra og gaman; aðrar voru hálfbrenndar að hrópa á menn að aldrepa sig. Heilasletturnar voru dreifðar út um allt innan um staka handleggi og afhöggna fætur.

Birtingur flýtti sér eins og hann gat í annað þorp: það heyrði undir Búlgara, og hetjur Abara höfðu leikið það eins."

Já blessað stríðið dregur aðeins það besta fram í hverjum manni.


Áfram heldur Grímsævintýrið

Þetta blessaða Grímsævintýri er með hreinum ólíkindum.  Þessi afsökunarbeiðni Kristjáns L. hefði auðvitað átt að koma strax daginn eftir að hann kom fram með ásakanir á hendur Einari, og í raun hefði Kristján L. aldrei átt að nefna hann varðandi ábyrgð í málinu.  Það sá það hver einasti maður að Kristján L. hafði hlaupið á sig í málinu og því þykir manni afsökunarbeiðnin nokkuð seint komin fram.  Ef til vill hefur Kristján L. verið að leita að einhverjum vinklum á þessu fíaskói svo hægt væri að klína einhverju á Einar.

Maður veltir fyrir sér hvaða akk Kristján L. sá sér í því að ásaka Einar Hermannson í málinu.  Þurfti að passa uppá einhvern anna í málinu?  Hafði Einar kannski áunnið sér reiði samgöngu"guðsins" á einhvern hátt?  Kannski var málið bara að finna einhvern til að skella skuldinni á.  En það var ekki klókt að kenna Einari um klúðrið, því allir sem lásu skýrsluna sem gerð var um málið sáu að Einar gerði nákvæmlega það sem hann var beðinn um að gera, nothing more - nothing less.

Það stendur auðvitað uppúr að batnandi mönnum er best að lifa, og vonandi gáir Kristján L. að sér í framtíðinni.  Það skiptir nefnilega máli hvað samgönguráðherra segir.  Hann er ekki lengur í stjórnarandstöðunni þar sem hann getur leyft sér að gaspra um hluti, menn og málefni án ábyrgðar, eins og manni sýnist hann hafa gert í Vaðlaheiðargangnamálinu, sem ætti nú reyndar að vera byrjað að gera, ef hugmyndir stjórnarandstæðingsins Kristjáns L. hefðu náð fram að ganga.


mbl.is Kristján biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt á haus í trúmálum og enska boltanum

Ég sat hér í morgun og var að fá mér kaffisopa þegar ég heyrði í útvarpinu að siðmennt ætlar sér að vera með einhverskonar giftingarathöfn í Fríkirkjunni í Reykjavík.  Þessi athöfn er auðvitað ekki kirkjuleg og hún er heldur ekki borgaraleg.  Ónei, hún er veraldleg!!  Það er einhvernvegin allt svona hálfkjánalegt við þetta mál, svo ekki sé tekið dýpra í árinni.  Af hverju vill fólk sem ekki trúir á tilvist Guðs fá að hafa athöfn í Guðshúsi?  Er ekki til fullt af fínu húsnæði í borginni?  Fríkirkjan er lánuð til þess að þar geti farið fram athöfn sem hefur ekki nokkurn skapaðan hlut með Guð að gera og þeir sem fá hana eru siðmenntarmenn sem hafa nú ekki beint vandað þessum "trúarnötturum" kveðjurnar.  Hvar ættu mörkin að liggja varðandi notkun á Guðshúsi?  Er það við aðra trúarhópa?  Trúleysingja?  Eða eiga kannski engin mörk að vera?  Er þá ekki alveg hægt að lán kirkjurnar til djöfladýrkenda?

Þetta mál allt saman minnir mann á að kasta ekki grjóti úr glerhúsi.  Ég verða að viðurkenna að mér finnst þetta veraldlega-siðmenntar-fríkirkjubrúðkaup ótrúlega fyndið.  Nú tökum við höndum saman, kirkjan og siðmennt, og boðum trú/trúleysi hreint og ómengað, þannig að allir geti verið glaðir.  Þannig er hægt að hvetja presta til að prédika um það hversu trúleysi sé undursamlegt og að sama skapi gæti siðmenntarfólk farið útá kristniboðsakurinn og vitnað um það hvernig allt er frá Guði komið.  Svart er hvítt og hvítt er svart.  Einhvernveginn grunar mig þó að Hirti Magna þyki ekki leiðinlegt að fá tækifæri til að fá umfjöllun um sig í fjölmiðla, því Fríkirkjan í Reykjavík er auðvitað Hjörtur Magni. 

Annað mál sem mig langar aðeins að tæpa á og er með hreinum ólíkindum.  En það er sú staðreynd að Jose Mourinho skuli hafa verið látinn fara frá Chelsea.  Sigursælasti þjálfari liðsins frá upphafi er látinn fara eftir c.a. þrjú ár í starfi.  Þetta er ótrúlega stuttur tími sem hann hefur en samt hefur honum tekist að verða sigursælasti þjálfari liðsins frá upphafi.  Hverslag hálfvitar stjórna málum á þessum slóðum.  Maðurinn er rekinn eftir að hafa unnið tvo enska deildarmeistaratitla, einn FA bikar og tvo deildarbikar.  Það sér hver maður að þetta er auðvitað óásættanlegur árangur.

Nú þegar Mourinho er að leita sér að vinnu þá væri kannski hægt að benda honum á að annað Lundúnarlið sem á í nokkrum vandræðum um þessar mundir, nefnilega QPR.  Þá þyrfti hann heldur ekki að rífa börnin úr skóla og þyrfti ekki að flytja.  Hann gæti áreiðanlega komið mínum mönnum upp um deild með vinstri hendinni einni ef það hentaði honum frekar.

Já meistari Altúnga vissi hvað hann söng þegar hann hélt því fram að allt hér í heimi stefndi ekki aðeins til hins betra, heldur til hins besta.


Hugsanleg niðurstaða um hugsanlegt álver

Það er gaman að sjá þá uppbyggingu og bjartsýni sem ríkir á Húsavík um þessar mundir.  Ég set hins vegar spurningamerki við þær forsendur sem fyrir þessu ástandi eru.

Bærinn tók nýlega framkvæmdalán uppá 600 miljónir.  Það er gert vegna mikillar bjartsýni á því að hugsanlega verði tekin ákvörðun um að huga að álversframkvæmdum á svæðinu.  Mér finnst vera heldur mikið að ef-um í þessari jöfnu.

Ef ákvörðun verður tekin um að staðsetja álver við Húsavík, þá er enn langt í álver, a.m.k. ef öllum reglum verður fylgt.  En svo er auðvitað hugsanlegt að engum eða fáum reglum verði fylgt og þá er auðvitað styttra í álver.

Miðað við hvernig gangurinn hefur verið í álversmálum hér á landi hingað til þá er líklega eins gott fyrir Húsvíkinga að hafa til taks pláss fyrir helmingsstækkun á því álveri sem hugsanlega verður sett þarna niður, annars er hætta á hótunum um að hugsanlegt álver fari ef hugsanleg stækkun á hugsanlegu álveri nær ekki í gegn.

Hvað ætli gerist ef ekkert álver verður reist við Húsavík?  Hvað ætli verði um 600 miljón króna framkvæmdalán bæjarins?

Lánið sem bærinn tók er auðvitað ákveðinn þrýstingur á stjórnvöld í þá veru að álver verði einfaldlega að rísa á Húsavík.  Er álver eina leiðin?  Er ekki bara nóg að tala um að hugsanlega komi hugsanlegt álver á staði þar sem innspýtingar er þörf?  Það virðist vera málið á Húsavík.  Allt hefur tekið kipp varðandi hugsanlega niðurstöðu um hugsanlegt álver.


mbl.is Nýr hafnargarður í Húsavíkurhöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband