Undirbúningur fyrir næsta partý
8.10.2008 | 00:29
Það hefur lítið farið fyrir umræðum um hátíðarhöld fyrir 1. des. afmælið sem forseti vor nefndi við þingsetninguna. Þar talaði hann um nauðsyn þess að gera því góð skil þegar við fögnum 100 ára heimastjórnarafmæli.
Ég geri mér grein fyrir því að enn eru nokkur ár í hátíðarhöldin, en forsetinn hlýtur að vera farinn að undirbúa herlegheitin finnst þetta var það sem honum lág hvað mest á hjarta mitt í öllu niðursveiflu og krepputali.
Mér finnst fjölmiðlar alveg hafa gleymt sér í aukaatriðunum. Á meðan þeir eru að fjalla um kreppu og bankahrun, þá er forsetinn að huga að því sem máli skiptir: PARTÝ!! Því þó allir séu grúttimbraðir eftir stanslaus veisluhöld undanfarinna ára, þá er forsetinn ekki búinn að fá nóg. Ónei, hann er rétt að byrja og er sá eini sem gerir sér grein fyrir því að "show must go on" sama hvað hvað tautar og raular.
Nú verður íslenska þjóðin að fá að vita hvernig undirbúningurinn gangi, hverjum verður boðið, hverjum verður ekki boðið, hvað verður að borða: hver er in og hver er out.
Það er gott að íslensk þjóð skuli vera svo heppin að hafa sitjandi forseta sem er með puttann á púlsinum og gerir sér grein fyrir ástandi mála, og ekki síður hvað það er sem þjóðin þarf að heyra á erfiðleika tímum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vondar ákvarðanir
12.9.2008 | 09:47
Það er alveg hreint merkilegt að horfa uppá undarlegheitin í þessu ljósmæðramáli öllu saman.
Hér eru það auðvitað konur sem eru að þjónusta konur og þeir sem skorið geta á hnútinn eru karlar: fjármálaráðherra og heilbrigðismálaráðherra. Þannig blasir málið við fólki almennt. Karlar að níðast á konum eins og svo oft áður.
Útspil fjármálaráðherra er að fara með uppsagnir ljósmæðra fyrir dóm svo uppsagnirnar verði dæmdar ólöglegar.
Útspil heilbrigðismálaráðherra er: Ekki neitt. Hann hefur tekið þann pól í hæðina að aðgerðarleysi sé einmitt málið til að leysa deiluna, svo undarlegt sem það kann annars að hljóma.
Málið virðist einhvernvegin vera þannig vaxið að það er öllum ljóst, nema þeim sem öllu ráða, hversu borðliggjandi það er að ganga að kröfum ljósmæðra. Þær hafa flutt mál sitt af festu og öryggi og náð að setja það fram á einfaldan hátt. Þjóðin held ég að standi almennt með ljósmæðrum í þessari baráttu.
Ríkisstjórn og þeir sem ráða geta ekki lengur treyst á glampann af ólympíusilfrinu og verða að leysa þetta mál. Hefðu raunar átt að vera löngu búnir að því, en maður spyr um áhuga, áherslur og forgang, sem er einhvernvegin svo allt annar en þjóðarsálin segir til um.
Ákvörðun fjármálaráðherra um lögsókn er vond, það er alveg ljóst og er ekki til þess fallin að auka á virðingu og vinsældir sitjandi ríkisstjórnar.
Fæddi og fór strax heim til sín | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sparisjóður stendur vel
4.9.2008 | 10:28
Alveg er ég hissa á því að stærsta frétt dagsins skuli ekki rata inná forsíður allra netmiðla. Stóra fréttin er auðvitað sú að Sparisjóður Suður-Þingeyinga er stórveldi í viðskiptaheiminum. Á meðan aðrir sparisjóðir eru annað hvort að rúlla yfir eða láta gráðuga hákarla gleypa sig, stendur Sparisjóður Suður-Þingeyinga keikur og skilar hagnaði á fyrstu sex mánuðum ársins.
Galdurinn er að hafa ekki látið glepjast af Exista eða öðrum sprungnum blöðrum. 53 milljónir í hagnað eftir fyrstu sex mánuðina. Það er kannski ekki stór fjárhæð miðað við margt annað, en það er þó nokkuð betra en tug-og hundruð milljóna tap annarra.
Ég er alveg sérstaklega ánægður með sparisjóðinn minn og hlít auðvitað að eigna henni Dagnýju útibússtjóra á Fosshóli hlut í þessum hagnaði. Það er svo auðvitað gott til þess að vita að peningarnir sem ég á Sparisjóðnum mínum eyðast ekki upp eins og víðast hvar annarsstaðar.
Í þessum sparisjóði hef ég alla mín tíð verið í viðskiptum. Fyrst í Sparisjóði Fnjóskdæla, sem síðar sameinaðist Sparisjóð Kinnunga, sem síðan varð Sparisjóður Suður-Þingeyinga.
Gott hjá Sparisjóð Suður-Þingeyinga!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Góð grein Andra Snæs
2.9.2008 | 12:14
Hún er góð greini sem félagi minn Andri Snær skrifaði í Moggan í gær (1. sept.) Ég er svo hjartanlega sammál honum, að ég leyfi mér að birta hana alla svo þú getir líka notið hennar.
Hvenær er komið nóg?
Eftir Andra Snæ Magnason
Andri Snær Magnason Eftir Andra Snæ Magnason: "Getur ritstjórn Morgunblaðsins útskýrt fyrir lesendum hvenær skuldin við iðnaðinn er greidd?"Morgunblaðið birti ritstjórnargrein þann 19. ágúst þar sem orðið ,,hræsni kemur fyrir í fyrirsögn ásamt mynd af söngkonunni Björk. Orðrétt segir: ,,Björk sé á móti álverum. Samt byggist vinna hennar meðal annars á því að ferðast á milli landa með flugvélum, sem eru smíðaðar úr áli, og syngja fyrir fólk. Það eru ekki bara flugvélarnar sem eru smíðaðar úr áli heldur einnig geisladiskarnir sem Björk setur tónlist sína á og selur í bílförmum um allan heim. Klykkt er út með eftirfarandi áminningu: ,,Eru allir andstæðingar álvera samkvæmir sjálfum sér?
Eftir að hafa fylgst með þessari umræðu í nokkur ár er ekki laust við að manni fallist hendur. Flestir Íslendingar ferðast í flugvélum og kaupa geisladiska. Er íslensk náttúruverndarbarátta þá siðferðilega röng og byggð á hræsni og vanþekkingu? Eru skilaboðin þau að hræsnarar sem nota álflugvélar geti sjálfum sér um kennt þegar tvö eða þrjú álver verða byggð til viðbótar á næstu árum? Þar sem þessi viðhorf heyrast einnig frá þingmönnum, ráðherrum og bloggsíðum þá skulum við taka þetta alvarlega. Hvaða tölfræði leggur ritstjórn Morgunblaðsins til grundvallar með þessari vægast sagt dónalegu framsetningu ,,hræsnari er eitthvað ljótasta orð sem er hægt að nota um manneskju. Ef ritstjórn hefði gefið sér tíma til að lesa sitt eigið blað hefði hún fundið nýlega grein eftir Björk þar sem hún segist alls ekki vera á móti álverum heldur einfaldlega að nú sé komið nóg og tími kominn til að búa eitthvað til úr álinu í stað þess að flytja óunnið úr landi. En hvenær hættir maður að vera hræsnari, hvenær má segja: Nóg komið? Var Straumsvík ekki nóg? Og var Grundartangi ekki nóg? Og voru Alcoa og Kárahnjúkavirkjun ekki nóg? Nú vill ríkisstjórn tvöfalda umfang þungaiðnaðar með Húsavík og Helguvík. Verður það nóg? Þurfa flugvélar svona mikið ál? Meðal farþegaþota vegur u.þ.b. 50 tonn. Flugfloti Icelandair vegur u.þ.b. 1000 tonn. Flugvélar má endurvinna en burtséð frá því er ,,endurnýjunarþörf flotans innan við 50 tonn á ári. Á Íslandi eru á hverju ári framleidd 700.000 tonn af áli. Það þýðir að á hverju ári framleiðum ,,við 14.000 sinnum meira en flug á Íslandi krefst. Þannig að ef við hugsum eingöngu um flug þá gætu Íslendingar flogið næstu 14.000 árin bara með því áli sem var framleitt árið 2008. Við gætum flogið í einnota flugvélum án þess að ganga á forðann.
Farþegaflugfloti Bandaríkjanna vegur u.þ.b. 200.000 tonn. Við gætum endurnýjað flugflota USA, Evrópu og Kína á hverju ári en þess þarf auðvitað ekki. Á hverju ári fara milljón tonn af gos- og bjórdósum á ruslahaugana í Bandaríkjunum. Þeir henda meira en fjórföldum flugflotanum á hverju einasta ári. Getur verið að ál sé of mikið notað málmurinn of ódýr og þess vegna hent í gríðarlegu magni? Umbúðir verða að rusli í þúsund sinnum meira magni en tónlistariðnaður notar í geisladiska. Getur ritstjórn Morgunblaðsins útskýrt fyrir lesendum hvenær skuldin við iðnaðinn er greidd? Hvenær menn verða loksins ,,samkvæmir sjálfum sér? Er það þegar við bræðum 20.000 sinnum meira en flugið krefst? Var ekki Straumsvík nóg? Vill ritstjórnin standa við þessi orð að Björk sé hræsnari og ósamkvæm sjálfri sér eða var blaðið að höfða til lægri hvata og fordóma lesenda sinna? En í hvaða tilgangi?
Áróðurinn dynur daglega og nær svo langt að Íslendingar eru farnir að halda að allt sé ál sem gljáir. Margir halda að bílar séu að mestu leyti úr áli. En ál er aðeins um 3% af málmframleiðslu heimsins, 95% er stál. Hér heima er ekkert stállobbý og afleiðingin er heilaþvottur sem verður alveg sérstakt rannsóknarefni í framtíðinni. Í heiminum eru árlega framleiddir 1,4 milljarðar tonna af stáli en aðeins um 40 milljón tonn af áli. Stál er og verður mikilvægasti málmur mannkyns Ólympíuleikvangurinn í Kína er hreiður ofið úr stáli, skipafloti okkar er úr stáli, brýr, járnbrautir og hrærivélar eru úr stáli. Hér skrifa vel mataðir bæjarstjórar eins og Árni Sigfússon um ,,græna málminn að það væri betra fyrir heiminn ef ál leysti stál af hólmi á sem flestum sviðum. Stál er unnið úr djúpum námum og járngrýtisfjöllum. Ál er unnið úr yfirborðsnámum þegar jörð er skafin undan frumskógum með tilheyrandi eyðingu vistkerfa. Til að framleiða eitt tonn af áli þarf 30 sinnum meiri raforku en til að framleiða eitt tonn af stáli. Jafnvel endurvinnsla á áli er raforkufrekari en frumvinnsla á stáli. Er vit í að velja frekar málm sem kallar á eyðingu lands á Íslandi og í frumskógum, málm sem er svo miklu heimtufrekari á orku og auðlindir jarðar?
Nú þegar vélin malar sem aldrei fyrr og Íslendingar þurfa á fjölmiðlum að halda sem standa í lappirnar eru þessi viðhorf mikil vonbrigði. Einmitt núna á að leika mörg fegurstu háhitasvæði landsins jafn grátt og Hellisheiðina, oftar en ekki með ágengri nýtingu sem gengur á forðann. Núna á að eyðileggja langstærsta laxastofn Íslands með stíflum í Þjórsá. Er það virklega þetta sem þjóðin vill? Er siðferðilega rangt að vilja ekki selja Alcoa orku á lágmarksverði, að skuldsetja ekki orkufyrirtæki okkar fyrir hundruð milljarða? Að fórna ekki dýrmætum svæðum? Að setja ekki öll eggin í eina körfu? Að gera fyrirtækin ekki að ráðandi afli á Íslandi? Hafa almannatenglar KOM, GSP, Athygli, Alcoa, Century, Rio Tinto, Landsvirkjunar, Landsnets, Samorku, OR og HS skilað þessum undraverða árangri? Erum við svo heillum horfin að fjölmiðlar, bloggarar og þingmenn níða okkar bestu dætur fyrir hvað? Að elska landið sitt?
Höfundur er rithöfundur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Dagbókarlestur
19.8.2008 | 23:14
Hef eytt ansi miklum tíma í dagbækur Matthíasar fyrrverandi Moggaritstjóra. Þetta er alveg hreint mögnuð lesning á köflum, og stundum nánast eins og reifari.
Gaman að lesa um samskipti stjórnmálamanna við ritstjórann, sem hefur klárlega verið skriftafðir ansi margra í gegnum tíðina.
Það er ekki síður gaman að lesa sögur af gengnum snillingum eins og Laxness, Kjarval, Bjarna Ben og fl. Og svo er auðvitað svolítið krassandi að lesa um það hvernig "félagar" og "vinir" hafa talað um "félaga" sína og "vini" við Matthías.
Matthías er greinilega þannig gerður að um leið og menn sjá hann og hitta þá taka þeir til við að segja allt af létta, koma jafnvel með algjör "topp secret" skjöl og upplýsingar til þess að sýna honum og leita ráða um hvað gera eigi með. Hæfileki sem margir vildu sjálfsagt búa yfir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Go you 'Rs
10.8.2008 | 14:51
Nú getur maður aðeins sest niður eftir nokkuð annasaman tíma. Þjóðhátíð með öllu tilheyrandi, var reyndar á vaktinni föstudag og sunnudag, en sleppti fram af mér beislinu á laugardag. Svo voru tvær útfarir í gær og ein skírn og kistulagning og skírn daginn þar áður, og svo messa í dag.
Það er annars sorglegt að sjá hversu litla umfjöllun fyrsta umferð 1. deildarinnar ensku hafa fengið í netmiðlum.
Ég átti satt best að segja von á því að allt myndi keyra um koll eftir glæsilegan sigur minna manna í fyrsta leik sínum. Þeir lentu að vísu undir strax í upphafi leiks, en svo komu tvö mörk á tveimur mínútum sem dugðu til sigurs.
Það er ljóst að ég er bjartsýnn á gengi minna mann fyrir þetta tímabil og á ekki von á öðru en að við spilum í úrvalsdeildinni að ári,- þetta er nú reyndar frómt frá sagt alltaf hugarfarið fyrir hvert tímabil, sem hefur síðan tilhneigingu til þess að enda með brotlendingu og alltof oft hafa þeir sloppið með skrekkinn við fall.
En NÚNA er ég alveg sérstaklega bjartsýnn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hugvekja á Þjóhátíð
2.8.2008 | 13:49
Í aðdraganda þessarar Þjóðhátíðar hefur nýtt lag með háðfuglunum úr Baggalúti verið nokkuð til umræðu og óhætt að segja að sitt sýnist hverjum í þeim efnum.
Mörgum hefur þótt vegið að Þjóðhátíð hér í Eyjum með texta Baggalúta, en hann er jú vissulega á köflum á mörkunum eins og maður myndi segja. Lýsingin á ástandinu er óneitanlega nokkuð döpur, svo ekki sé meira sagt.
Þessi texti gefur okkur þó færi á að velta skemmtanahaldi yfir Þjóðhátíð fyrir okkur, og ætti auðvitað að þjappa fólki saman um að hafa gaman í jákvæðasta skilningi þess orðs. Nú kann auðvitað einhver að spyrja: Hvenær er gaman á neikvæðan hátt? Jú við þekkjum þær sögur, og ef til vill hafa einhverjir sjálfir reynslu af því, að hafa svo gaman að maður muni ekki neitt. Þá fyrst fernú gamanið farið að kárna.
Það sem ég á við er að við tökum höndum saman um að samþykkja ekki neikvætt gaman, að samþykkja hvorki ofbeldi eða aðra vitleysu, gagnvar náunga okkar. Heimamenn hér í Eyjum gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að Þjóðhátíðin geti farið vel fram, og gestir eru boðnir velkomnir og upplagið allt fyrir Þjóðhátíð er með svo jákvæðum hætti að það væri sorglegt ef fáeinir svartir sauðir eyðilegðu gleðina og ánægjuna fyrir öllum öðrum.
Ég upplifði mína fyrstu Þjóðhátíð í Eyjum síðasta sumar, og verð að segja alveg eins og er að ég bjóst eiginlega við því að hér væri um hefðbundna útihátíð að ræða. En svo áttar maður sig á því að hér er eitthvað allt annað á ferðinni. Þetta er eitthvað meira, merkilegra, betra. Það er eitthvað svo stórkostlegt að sjá Vestmannaeyinga hreinlega flytja inní Herjólfsdal yfir þessa daga. Borð, stólar, myndir og bakkelsi eru flutt í hvítu tjöldin, og maður finnur svo vel hversu velkomnir allir eru, og hversu mikil hátíð fer í hönd.
Þjóðhátíð er auðvitað fyrst og fremst veisla bæði fyrir líkama og anda. Og veislur eru eitthvað sem Jesús kunni svo sannarlega að meta, að fólk hittist og hefði gaman. Hann var meira að segja sjálfur útlistaður sem mathákur og nánast veislusjúkur af andstæðingum sínum. Já Jesús sótti veislur og samkvæmi og hélt þar margar ræður. En það voru auðvitað engar skálræður eða athyglissjúkar ég-um-mig-frá-mér-til-mín-snakkræður, heldur djúpvitrar mannlífsgreiningar og tilvistarhugleiðingar.
Veislur og gleði eru vissulega mikilvægur þáttur í lífi okkar. Við höfum flest tekið þátt í miklum veislum, sumir oftar en aðrir. Og þegar við höldum á vit bestu minninganna úr uppvextinum eða hugsum um fjölskyldur sem dafna, þá er tengingin svo oft við veislur og gleði. Þá er lífið farsælt og sáttin ríkir þegar við borðum saman.
Þannig er það einmitt á Þjóðhátíð og þannig á það líka að vera, að við efnum til veislu af því okkur langar til að gleðjast með hvort öðru. Það er slíkt samfélag sem okkur öllum er ætlað að vera í heiminum. Það er nefnilega staðreynd að Kristin trú er átrúnaður borðsins, ekki síður en orðsins.
Það er einlæg von mín að við göngum til þessarar miklu hátíðar með gleði í hjörtum og sól í sinni og að á þessari Þjóhátíð megi elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast. eins og segir í 85. Davíðssálmi.
Þá kem ég aftur að upphafinu, þ.e. hinum umdeilda texta baggalútsmanna og spurningin er auðvitað sú hvort við tökum texta þeirra sem djúpvitran vitnisburð um mannlífsgreiningu hér á Þjóðhátíð í Eyjum.
Við skulum a.m.k. ekki láta hann verða það.
Við leggjum þessa Þjóðhátíð í hendur Drottins og biðjum þess að allt fari hér á besta veg. Og að við getum saman verið stolt af því að vera þátttakendur á Þjóðhátíð.
Fögnum og verum glöð, en minnumst þess jafnan að við sem erum eldri, erum að sjálfsögðu fyrirmyndir yngra fólksins, og þannig tökum við öll þátt í því að móta og skapa þá stemmingu sem við viljum að ríki. Í sönnum veislu og gleðianda Jesú Krists, þar sem allir gleðjast saman og hjálpast að við að gera þessa Þjóðhátíð að góðum minningarfjársjóði sem leita má í þegar fram líða stundir. Og hjálpast auðvitað að við að gera lífið yndislegt. Amen.
Myndina tók Óskar Pétur Friðriksson við setningarathöfnina.
Fleiri myndir frá Þjóðhátíðinni má sjá á síðunum:
http://eyjar.net/
http://www.sudurlandid.is/Eyjafrettir/
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þjóðhátíð að hefjast!
31.7.2008 | 16:09
Blaðamannafundur í Lundaholu 6 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Spáin fyrir helgina
16.7.2008 | 12:16
Skírn, skírn, skírn, messa, skírn.
Helgin verður fjörug og fín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Dauði fátækra barna
29.5.2008 | 15:16
Það væri hægt að bjarga hundruðum þúsunda þessara barna með því að skaffa þeim hreint vatn.
Vatnið er til staðar í löndunum, vandinn er bara að nálgast vatnið sem er neðanjarðar. Og hvernig gerum við það, jú með því t.d. að byggja brunna sem kosta um 250.000 og duga fyrir heilu þorpin í afríku.
Vandamálið er ekki að peningarnir séu ekki til, vandamálið er viljaleysi. Staðreyndin er sú að það er ekki nokkur vilji til þess að breyta ástandinu. Þetta kann að virðast mikil dómharka, en er það svo? Mér sýnist málið snúast, eins og ævinlega, helst um að skara eld að eigin köku.
Hér á landi gráta fjármálafyrirtækin yfir slakri afkomu miðað við undanfarin ár. Fólk talar um hversu dýrt bensínið sé orðið, hversu mikil verðbólgan sé orðin, hversu dýrt sé að versla í matinn. Vissulega er það rétt að margir hér á landi eiga erfitt með að ná endum saman, það er staðreynd sem ekki er hægt að horfa framhjá. Það er staðreynd sem ætti að vera hægt að vinna bug á með markvissum hætti.
En önnur staðreynd er sú að þau vandamál sem margir eru að velta fyrir sér eru lúxusvandamál. Staða bankanna er í raun lúxusvandamál, að hagnaðurinn sé bara 10 milljarðar í stað 25 milljarða eins og vonast var eftir. Þegar við lítum á heildarmyndina þá eru þessi lúxusvandamál ekki það sem öllu skiptir. Þegar við horfum til þess að á sama tíma og bensín hækkar um 2 krónur á einum degi, þá hafa 30.000 börn dáið vegna fátæktar.
Í augum heimsins virðist það ekki vera neitt sérstakt vandamál að 30.000 börn deyi á dag. Dauði fátækra barna kemur ekki fram í úrvalsvísitölum kauphalla, gengi gjaldmiðla á vesturlöndum eða afkomu fyrirtækja. Í raun snerta þessar fréttir engan.
Eða hvað?
Er ekki sorgin sú sama hjá ríkum foreldrum og fátækum?
Er ekki missirinn jafn sár hjá mér og föður sem býr í Úganda?
Allar fréttir snerta einhvern. Það er bara svo þægilegt að horfa framhjá þeirri staðreynd, ekki síst þegar atburðirnir eiga sér stað í lífi einhvers sem við þekkjum ekkert til og að ég nú tali ekki um ef atburðirnir eiga sér stað í fjarlægum löndum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)