Dauði fátækra barna

Á hverjum einasta degi, allt árið um kring  er áætlað að 30.000 börn deyi vegna fátæktar. 
Það væri hægt að bjarga hundruðum þúsunda þessara barna með því að skaffa þeim hreint vatn.
Vatnið er til staðar í löndunum, vandinn er bara að nálgast vatnið sem er neðanjarðar.  Og hvernig gerum við það, jú með því t.d. að byggja brunna sem kosta um 250.000 og duga fyrir heilu þorpin í afríku.
poverty2
Vandamálið er ekki að peningarnir séu ekki til, vandamálið er viljaleysi.  Staðreyndin er sú að það er ekki nokkur vilji til þess að breyta ástandinu.  Þetta kann að virðast mikil dómharka, en er það svo? Mér sýnist málið snúast, eins og ævinlega, helst um að skara eld að eigin köku.

Hér á landi gráta fjármálafyrirtækin yfir slakri afkomu miðað við undanfarin ár.  Fólk talar um hversu dýrt bensínið sé orðið, hversu mikil verðbólgan sé orðin, hversu dýrt sé að versla í matinn.  Vissulega er það rétt að margir hér á landi eiga erfitt með að ná endum saman, það er staðreynd sem ekki er hægt að horfa framhjá.  Það er staðreynd sem ætti að vera hægt að vinna bug á með markvissum hætti. 

En önnur staðreynd er sú að þau vandamál sem margir eru að velta fyrir sér eru lúxusvandamál.  Staða bankanna er í raun lúxusvandamál, að hagnaðurinn sé bara 10 milljarðar í stað 25 milljarða eins og vonast var eftir.  Þegar við lítum á heildarmyndina þá eru þessi lúxusvandamál ekki það sem öllu skiptir.  Þegar við horfum til þess að á sama tíma og bensín hækkar um 2 krónur á einum degi, þá hafa 30.000 börn dáið vegna fátæktar.

Í augum heimsins virðist það ekki vera neitt sérstakt vandamál að 30.000 börn deyi á dag.  Dauði fátækra barna kemur ekki fram í úrvalsvísitölum kauphalla, gengi gjaldmiðla á vesturlöndum eða afkomu fyrirtækja.  Í raun snerta þessar fréttir engan. 
Eða hvað? 
Er ekki sorgin sú sama hjá ríkum foreldrum og fátækum? 
Er ekki missirinn jafn sár hjá mér og föður sem býr í Úganda?

Allar fréttir snerta einhvern.  Það er bara svo þægilegt að horfa framhjá þeirri staðreynd, ekki síst þegar atburðirnir eiga sér stað í lífi einhvers sem við þekkjum ekkert til og að ég nú tali ekki um ef atburðirnir eiga sér stað í fjarlægum löndum. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Swami Karunananda

Hundrað prósent sammála! Hvaða máli skiptir eiginlega allt þetta dægurþras um stöðu efnahagsmála eða stjórnmálaástandið í landinu o.s.frv. miðað við þá staðreynd að milljónir og aftur milljónir manna í heiminum búa við ömurlega fátækt, sem og þá hreinlega glæpsamlegu sannreynd að þrjátíuþúsund börn deyja daglega algerlega að nauðsynjalausu, því enginn vafi leikur á að það er miklu meira en nóg fé og fæði til í veröldinni svo engin manneskja þyrfti nokkurn tíma að deyja úr sulti.

Swami Karunananda, 29.5.2008 kl. 16:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband