Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
Hægri stjórn? Baugsstjórn? Velferðarstjórn?
21.5.2007 | 11:53
Það er að verða nokkuð ljóst að ný ríkisstjórn verður D+S-stjórn, sem er draumastjórn Baugsmanna. Það verður spennandi að fylgjast með Sjálfstæðismönnum, bæði innan þingflokksins og utan, þegar þeir fara í eina sæng með Samfylkingunni. Það hafa ekki alltaf verið falleg orð sem þeir hafa látið frá sér fara í garð Samfylkingarinnar, og þá sérstaklega í garð Ingibjargar Sólrúnar. Tengist líklega því að Ingibjörg er sterkjur leiðtogi sem kallarnir í Sjálfstæðisflokknum hafa alltaf óttast.
Ég vona að stjórnin fari ekki frjálshyggjuleiðina í botn, en svo gæti auðvitað farið, miðað við stefnu flokkanna. Það er þó vonandi að Ingibjörg verði trú uppruna sínum úr kvennalistanum og þau mál sem sá ágæti lista stóð fyrir, nái fram að ganga.
Annars var ég frekar "svag" fyrir D+VG, en Steingrímur Joð klúðraði málum svo rækilega, að það tekur hann ekki nokkur maður alvarlega um þessar mundir, vonandi að hann taki sig á. Ef það gerist ekki þá er VG dæmt til að vera í stjórnarandstöðu svo lengi sem hann er formaður. Hann sýndi fádæma dómgreindarskort í Silfri Egils þegar hann hamaðist á Framsókn, og raunar öllum í kjölfarið.
Annars er það ágætt að Framsókn skuli vera í stjórnarandstöðu, löngu kominn tími til að hvíla þann ágæta flokk. Nú verður tíminn notaður til að byggja flokkinn upp, en ætli þeir eigi nokkuð í vandræðum með að finna sér eitthvað til að klúðra fyrir sjálfum sér, það er a.m.k. venjan.
Ég er hræddur um að VG hafi náð sínum toppi hvað fylgi í kosningum varðar, það er tilfinning sem margir finna fyrir, því þó þeir hafi bætt við sig fylgi þá er eitthvert vanþækklæti í herbúðum þeirra, eða jafnvel einhver hroki yfir því að vera orðin stærri en framsókn. Leiðin verður líklega erfið úr þessu hjá stjórnarandstöðu flokki Íslands.
Stjórnarmyndunarviðræður halda áfram eftir hádegi í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ótrúlegur bloggari hann Páll.
18.5.2007 | 10:09
Rakst á alveg hreint ótrúlega bloggsíðu sem Páll Kristbjörnsson guðfræðingur heldur úti og ber heitið Vor syndugra andans spjall. Ég bið ykkur endilega að kíkja í heimsókn til Páls. Ég hélt fyrst að þetta væri eitthvað grín, svona í svipuðum anda og Sylvía Nótt, síðan hélt ég að maðurinn væri ekki með öllum mjalla, en núna er ég aftur kominn inná að þetta sé eitthvað grín hjá Páli. Það getur eiginlega ekki annað verið. Sjálfsagt á ég eftir að sveiflast milli þess að þetta sé grín annars vegar eða eitthvert brjálæði hins vegar, svona eins og maður fyrst tvístígandi varðandi Sylvíu.
Ef einhver þekkir til mannsins, látið mig endilega vita hvort hér sé um guðfræði-Sylvíu að ræða eður ei.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Enn af prestastefnu
15.5.2007 | 14:39
Í Mogganum í gær birtist hin ágætasta grein eftir sr. Jón Helga Þórarinsson, sóknarprest í Langholtskirkju. Þar fjallar hann um heitasta málið á prestastefnu 2007, og raunar eitt heitasta málið innan kirkjunnar í dag. Mig langar aðeins að grípa niður í grein Jóns Helga:
Hjónaband eða staðfest samvist?
Á prestastefnunni var hins vegar felld tillaga sem um 40 prestar og guðfræðingar lögðu fram þess efnis að Alþingi heimili prestum og forstöðumönnum trúfélaga að gefa samkynhneigð pör saman í hjónaband. Þeir sem lögðu þessa tillögu fram hafa komist að þeirri niðurstöðu að hugtakið hjónaband skuli ekki aðeins ná yfir hjúskap karls og konu heldur einnig yfir hjúskap samkynhneigðra sem nú ber heitið staðfest samvist.
Þó svo að sumum finnist þetta næsta lítið mál þá kallar þessi umræða á margvíslegar vangaveltur um inntak hjónabandsins. Sú umræða á sér stað um þessar mundir en henni er þó hvergi nærri lokið og gögn um málið eru takmörkuð að mínu mati. Málið þarf að vinna betur og með svipuðum hætti og unnið hefur verið með biblíuskilning og túlkun ýmissa ritningartexta er snerta þetta málefni. Því taldi ég framlagningu þessarar tillögu til atkvæðagreiðslu ekki tímabæra og vildi að hún yrði send biskupi og kenningarnefnd sem yfirlýsing ofangreindra presta með þeirri ósk að tillit yrði tekið til þeirra sjónarmiða þegar kenningarnefnd býr málið í hendur kirkjuþings í haust. Þetta töldu ýmsir flutningsmanna ekki ásættanlegt og því fór sem fór og þykir mér mjög miður að greiða hafi þurft atkvæði um svo veigamikið mál sem að mínu mati hefur alls ekki hlotið næga umfjöllun innan kirkjunnar.
Þetta er góð og raunsönn grein eftir Jón Helga. Hann setur málið upp eins og það blasir við án allra upphrópana eða skammaryrða, sem er auðvitað mjög mikilvægt fyrir málið í heild sinni.
P.S. Myndin er tekin af mér og spúsu minni á prestastefnunni
Bloggar | Breytt 16.5.2007 kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Áfram - ekkert stopp....á falli Framsóknar.
15.5.2007 | 14:12
Hér hittir hinn geðþekki veðurfræðingur naglann á höfuðið. Það er klárt ef Framsókn ætlar sér ekki að fremja pólitískt "harikíri" þá er það eina rétta í stöðunni að draga sig í hlé og hugsa málið alvarlega. Það er klárlega eitthvað að, eitthvað er það sem gerir það að verkum að flokkurinn nær ekki líðhylli.
Kannski er það ákveðinn vingulsháttur sem er vandamálið, það er a.m.k. alveg klárt að Framsóknarmenn vita ekki fyrir víst hvað best er að gera. Seyðandi hljómur valdsins kitlar, það er alveg ljóst, og það var heyrandi á nýjum þingmanni Framsóknar í NA-kjördæmi, Höskuldi Þórhallssyni (sem er einmitt sonur sr. Þórhalls, heitins, Höskuldssonar hins ástssæla prests úr Hörgárdal) að það skipti kannski ekki öllu máli hvaða stjórn yrði fyrir valinu, svo framarlega sem Framsókn væri með!!
Já það getur verið erfitt að gera sér grein fyrir því hvenær best er standa fast á sínu og hvenær best er einfaldlega að sleppa og viðurkenna að eitthvað mikið sé að.
Framhald núverandi stjórnarsamstarfs feigðarflan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Madama Tobba gefur góð ráð.
15.5.2007 | 11:46
Fyrir allnokkrum árum keypti ég mér jakkaföt í herrafataverslun Kormáks og Skjaldar. Þetta voru afbragðs góð jakkaföt frá Kóróna og hafa reynst mér afar vel. En með þessum jakkafötum keypti ég lítið kver sem ber heitið Handbók hjóna, og höfundurinn: Madama Tobba, landsfrægur ráðgjafi um hvað eina það sem sem samlífi fólks viðkemur. Þetta kver kom líklega fyrst út í upphafi 3. áratugar síðustu aldar. Langar til að deila með bloggheimi smávægilegu úr viskubrunni þessa kvers.
Ég gef madömunni orðið:
Góð kona forðast það, sem í daglegu tali er kallað að sýnast, - Plága er það að verða hér, hversu margt er öðruvísi en það sýnist. Konur eru t.d. margar með falskt hár, falskar tennur og falskanhörundslit. Sé nú gætt að því, af hverju þetta fals stafar, kemur það í ljós, að í mörgum tilfellum eru það heit krullujárn, krullupinnar og ýmiskonar hárelexíar, sem hafa eyðilagt hárið; sætindi og hirðuleysi hafa valdið skemmdum í tönnum, en hörundslitinn falsa konur eingöngu til að sýnast.
Góð kona má umfram allt ekki vera hégómagjörn eða "pjöttuð", eins og það er kallað á Reykjavíkurmáli. En hreinleg á hún að vera, vel búin og hirðusöm.
--------
Góður eiginmaður hefur stjórn á geði sínu. Hann er eigi uppstökkur eða langrækinn. Hann er hreinlyndur og nærgætinn. Honum finnst lífið ánægjulegt. Hann sér eitthvað gott í öllu, og hann fellir ekki ósanngjarna dóma yfir hinum óhamingjusömu, sem falla í tálsnörur lífsins.
Góður eiginmaður er reglusamur. Hann neytir ekki áfengis, - að minnsta kosti eigi í óhófi. Mörg konan hefur átt - og á enn - um sárt að binda vegna drykkjuskaparins, og hverjum manni á að vera það alvörumál, að konan hans, sem honum þykir vænna um en nokkra aðra konu, verði ekki í þeirra hópi. Menn ættu því að halda sér frá drykkjuskap strax á unga aldri og drekka aldrei fyrsta staupið; því fylgir oft annað og hið þriðja og svo koll af kolli, uns maðurinn verður þræll ástríðunnar og missir vald á sjálfum sér. Auðveldasta leiðin til að forðast það að verða ofdrykkjumaður er sú, að drekka aldrei fyrsta staupið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ekkert álver í Vestmannaeyjum
13.5.2007 | 22:57
Ég verð að játa að mér fannst þessi krafa Steingríms Joð ótrúlega kauðaleg, alveg jafn kauðaleg og viðbrögð Jóns Sig þegar hann sagðist bara alls ekki kannast við neinar árásir Framsóknarmanna á Steingrím. Það var engu líkara en Jón hefði ekki séð auglýsinguna, eða ekki verið með gleraugun á nefinu þegar þær voru sýndar, því engum dylst að í herferð Framsóknar er verið að vísa í títtnefndan Steingrím Joð. Jafnvel þó auglýsingin hafi bæði verið ósmekkleg og leiðinleg þá finnst mér þetta þó helst til mikið upphlaup hjá formanni VG. Niðurstaðan er jafntefli í kauðaskap.
Annars er ástæða til að óska VG til hamingju með stórsigur. Þetta er eini flokkurinn sem bætir raunverulega við fylgi sitt. Sjálfstæðismenn eru komnir á sínar slóðir með fylgi sitt, og svosem engin stór tíðindi þó fylgið sé meira en í síðustu kosningum, því það var nánast í sögulegu lágmarki (þó þeir hafi vissulega farið neðar áður). Samfylking tapar, Framsókn "skít-tapar", Frjálslyndir standa í stað og I-listi er eins og hann er. Ég neita því ekki að það voru allnokkur vonbrigði að ríkisstjórnin skyldi halda velli, en það þýðir ekki að gráta Björn bónda.
Hins vegar held ég að skilaboð fólksins í landinu séu skýr: EKKI meiri virkjanaframkvæmdir (a.m.k. ekki í bili) því Framsókn er holdgervingur stóriðjustefnunnar, það er Sjálfstæðisflokkurinn ekki þó þeir hafi setið í ríkisstjórn líka á þessum mestu virkjana tímum sögunnar. Auglýsingar Framsóknar vísa beint í áframhaldandi stóriðjuáform þeirra, þegar þeir tala um "að halda áfram á sömu braut", því Framsókn virðist ekki hafa hugmyndaflug til þess að koma fram með aðrar lausnir en álver við hvert fótmál. Fólki blöskrar útsala á raforku til erlendra stórfyrirtækja.
Ég lýsi því hér með yfir, og legg höfuð að veði, að í Vestmannaeyjum verður aldrei ráðist í byggingu álvers. Já það er sem ég segi það er gott að búa í Vestmannaeyjum, og því hvet ég umhverfisverndarsinna og náttúru-unnendur til þess að flykkjast til hinna fögru Vestmannaeyja.
(Myndin er af sólarlagi í Vestmanneyjum og er tekin út um stofugluggan á prestssetinu)
Steingrímur krefur Jón um afsökunarbeiðni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fylgi Framsóknar minna í dag en í gær!
11.5.2007 | 20:17
Fylgi Framsóknarflokks dalar á ný | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hart í ári hjá tryggingafélögum.
11.5.2007 | 19:45
Já það er skelfilegt ástandið hjá tryggingfélögum. Nú bíður maður auðvitað spenntur eftir "óhjákvæmilegum" hækkunum annar tryggingafélaga, því þau standa, eins og allir vita, mjög höllum fæti.
Tryggingamiðstöðin hækkar iðgjöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Blessun staðfestrar samvistar til umfjöllunar á Leikmannastefnu
10.5.2007 | 11:16
Nú er nýlokið Leikmannastefnu Þjóðkirkjunnar, sem haldin var á Stykkishólmi að þessu sinni. Þar er að finna áhugaverða samþykkt:
"Leikmannastefnan lýsir stuðningi við drög að ályktun kenningarnefndar um Þjóðkirkjuna og staðfesta samvist og leggur sérstaka áherslu á að þau mál er lúta að hjónabandsskilningi og blessun eða staðfestingu samvistar samkynhneigðra eru enn til umræðu og verða ekki til lykta leidd innan kirkjunnar fyrr en á Kirkjuþingi á hausti komanda.
Leikmannastefna telur að góður vilji sé til þess í söfnuðum landsins að mæta óskum um að prestar komi að blessun og staðfestingu samvistar samkynhneigðra.
Á hinn bóginn er enn sterkari vilji meðal safnaðarfólks til þess að standa vörð um hefðbundinn skilning á hjónabandinu sem sáttmála karls og konu og sem sköpunarreglu Guðs. Um fyrirsjáanlega framtíð er því ekki um það að ræða að leikmenn innan kirkjunnar séu almennt reiðubúnir til þess að skilgreina hjónaband eða hjúskap kynhlutlaust. Í þessum efnum telur leikmannastefna að hægara og raunsærra sé að bæta við hliðstæðu og jafngildu vígsluformi en að breyta inntaki hjónavígslunnar.
Leikmannastefna telur að til álita komi af hálfu Kirkjuþings að heimila prestum, sem það kjósa, að staðfesta samvist samkynhneigðra para. Alþingi og kirkja gætu hugsanlega mæst í samþykkt og samskilningi á slíku heimildarákvæði.
Leikmannastefna varar við einföldunum og upphrópunum í sambandi við þau flóknu álitamál sem uppi eru varðandi Þjóðkirkjuna og staðfesta samvist. Þeir sem vilja fjalla um þau á opinberum vettvangi eru hvattir til þess að kynna sér áður álit kenningarnefndar og form helgisiðanefndar fyrir blessun staðfestrar samvistar. Innan Þjóðkirkjunnar er fengist við þessi mál af einurð og alvöru og þau verða leidd til lykta af hennar hálfu á Kirkjuþingi í haust."
Þarna má segja að leikmannastefnan gangi skrefi lengra en prestastefna gerði, og hefði ef til vill gert ef tillaga Péturs og Sigurðar hefði fengist rædd að einhverju marki. (Sú tillaga gekk útá að þeir prestar sem það kysu yrðu vígslumenn staðfestrar samvistar) Ég fagna samþykkt leikmannastefnunnar, en þess ber auðvitað að geta, eins og fram kemur hjá leikmannastefnu, að það er á Kirkjuþingi sem málið verður leitt til lykta. Það sem samþykkt er á prestastefnu eða leikmannastefnu fellur nánast marklaust niður ef Kirkjuþing samþykkir eitthvað annað, eða fellir málið með einhverjum hætti. Þannig að næsta skref verður tekið á Kirkjuþingi ef að líkum lætur. Það verður sannarlega spennandi að fylgjast með störfum Kirkjuþings, og ekki verður síður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þeirri skoðanakönnun sem samþykkt var að Biskupsstofa myndi gera.
Nánar um málið á vef Þjóðkirkjunnar
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég er ekki (Guðmundur) (Örn) (Jónsson)
9.5.2007 | 16:09
Ég vil taka það skýrt fram að ég er Guðmundur Örn Jónsson.
Ég er EKKI Guðmundur JÓNSSON - kenndur við Byrgið
Ég er EKKI Guðmundur Örn RAGNARSSON - forstöðumaður samfélags trúaðra
Þótti rétt að koma þessu á framfæri áður en ofsóknir á hendur mér byrja. Hér er semsé um fyrirbyggjandi aðgerð að ræða, það er aldrei of varlega farið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)