Góðir hlutir gerast enn.

Gullberg VE 292Enn á ný höfðum við Eyjamenn ástæðu til að fagna (jú það er rétt, ég er farinn að tala um "okkur" Eyjamenn).  Ég fékk það ánægjulega verkefni að blessa hið nýja Gullberg og áhöfn þess.  Það er ekki langt síðan ég stóð í sömu sporum þegar ég blessaði Vestmannaey og áhöfn þess (það var 15. mars síðastliðinn).  Koma nýrra skipa hingað til Eyja fer að verða daglegur viðburður, því enn er von á fleiri nýjum skipum.

Það er magnað að fá að njóta þess heiðurs að blessa nýtt skip, og er ekki ósvipað skírn að því leyti að mikil gleði og eftirvænting er í loftinu.

Þegar ég kom til Eyja hafði ég nánast engann skilning á lífi fólks í sjávarplássi.  En afdalamaðurinn er allur að koma til og ég er farinn að gera mér einhverjar hugmyndir um það hvenær vertíð hefst og hvenær vertíð endar. Og það sem meira er ég átta mig orðið á því hversu mikill atburður það er þegar nýtt skip kemur í heimahöfn. (Kannski hægt að líkja því að nokkru við nýbyggð fjárhús eða fjós í sveitinni, sem er því miður næsta fáheyrður atburður nú til dags).

Það er gaman að fylgjast með því hversu duglegir Eyjamenn eru og nýtt skip og auknar greedybigaflaheimildir eru gott dæmi um það. Þar spilar mjög inní að þeir sem stjórna útgerðunum hafa enn þessa samfélagslegu ábyrgð. Þeir láta sig samfélagið varða og eru ekki tilbúnir að selja kvóta frá Eyjum í von um skjótfengann gróða. Þeir átta sig á því hver það er sem skapar gróða þeirra. Þessi hugsun er því miður hverfandi hjá þeim sem stjórna fyrirtækjum í landinu. Ég vann hjá slíkum mönnum fyrir norðan sem gengu undir nafninu "Kennedy-bræðurnir". Þeir áttuðu sig á ábyrgð sinni í samfélaginu og gáfu til baka, líkt og útgerðarmenn í Eyjum. Því miður höfum við horft uppá mörg fyrirtæki skilja eftir sig sviðna jörð í heilu byggðarlögunum af því að hægt var að græða örlítið meira með fækkun fólks, sameiningu og flutningi. Slíkir aðilar gleyma því hvaðan auður þeirra er kominn og hver það er sem hefur skapað hann, standa jafnvel í þeirri meiningu að þeir hafi skapað sinn auð einir og sér.  Það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar slíkir peningamenn stjórna fyrirtækjum.


mbl.is Nýtt skip til Vestmannaeyja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorgarfréttir

Íva BráEins og dagurinn byrjaði vel. Ég var gríðarlega spenntur yfir því að standa sem prestur í Landakirkju og ferma myndarlegan hóp ungmenna. Það gekk allt saman vel og fór mjög farsællega, það var svo sem ekki von á öðru. Síðan tók við heilmikið rjómaterturallý, þar sem ég þeyttist á milli veislusala í bænum.

Það var síðan ekki fyrr en ég kom heim, undir kvöld, að ég sá hvað hafði gerst fyrr um daginn. Q.P.R. hafði tapað í eitt skelfilega skiptið enn. Þeir voru víst arfaslakir á heimavelli á móti West Brom. áttu bara 9 skot á markið á móti 17 hjá West Brom.  Gamla brýnið Paul Furlong brenndi af víti, og skömmin var þar með fullkomnuð. Nú eru bara 3 stig í neðsta sætið. Já það getur verið erfitt að vera Q.P.R.-maður.

Að öðru, sem kætti mig síðan þegar líða fór á kvöldið. En það eru niðurstöður kosninganna í Hafnarfirði.

Rannveig Rist vill meina að kosningabaráttan í Hafnarfirði hafi verið "ójöfn". Hagur Hafnarjarðar hafi lítið fengið að komast að í fjölmiðlum. Að ýmsu leyti finnst mér þetta undarleg fullyrðing hjá henni. Ég veit ekki betur en að Alcan og Hagur Hafnarfjarðar hafi talað á sömu nótum, og því fer fjarri að Alcan hafi ekki komist að í umræðum fjölmiðla. Það hefði hins vegar verið ósanngjart ef bæði Alcan og Hagur Hafnarfjarðar hefðu hvort um sig fengið sama pláss í umræðunni og Sól í straumi.

Niðurstöður kosninganna (eins og allt stefnir í) eru þó ekki bara gleðilegar fyrir andstæðing stækkunar. Það sorglega við þessa niðurstöðu er að Hafnfirðingar skiptast í tvær andstæðar fylkingar sem eru nánast nákvæmlega jafn stórar. Ég er hræddur um að þessar kosningar gefi okkur mynd af því hvernig staðan er í landinu. Tvær nánast jafnstórar fylkingar sem takast á. Tvær þjóðir? Það er kannski of túlkun. En hitt er staðreynd, eins og Andri Snær benti á, að það eru ráðamenn (pólitíkusar) sem bera ábyrgð á þessum klofningi í samfélaginu. Sem reyndar birtist víðar: höfuðborgarsvæðið vs. landsbyggðin; konur vs. karlar; Bakkafjara vs. jarðgöng til Eyja. Og svona væri hægt að halda áfram.

En nú er komið nóg. Ferming aftur á morgun og áframhaldandi rjómaterturallý.


Pönkið lifir

crassÉg var ekki mikill aðdáandi hinnar steingeldu 80's tónlistar sem tröllríður öllu á Bylgjunni, ég var heldur ekki mikill þungarokkari ég var alltaf meira svag fyrir pönkið, þar þurftu menn svosem ekki að kunna mikið til þess að vera í hljómsveitum.

Ég man að á námsárum mínum í VMA þá komu nokkrir nemendur úr skólanum í íbúðarkytruna sem ég og frændi minn bjuggum í og föluðust eftir raddböndum mínum í hljómsveit. Í þessari heimsókn tjáðu þeir mér að hljómsveitin yrði hrá rokkhljómsveit, jafnvel pönk-band. Ég þekktist boðið og æfingar hófust. Eitthvað vorum við ekki sammála um skilninginn á því hvað pönk væri, mér þóttu þeir heldur vandvirkir og þeim þótti ég heldur óvandaður. Eins og sönnum pönkara sæmdi þá tók ég þann pólinn í hæðina að stressa mig ekki of mikið á æfingunum, og var kannski ekki alltaf samvinnuþýður þegar ég mætti.

Dag einn frétti ég að hljómsveitin "mín" hefði tekið þátt í hljómsveitakeppni, án minnar þátttöku. En eins og það væri ekki nóg svekkelsi, þá unnu þeir keppnina. Mér var umsvifalaust sagt upp störfum og þeir héldu áfram í veikri von um að slá í gegn með vönduðum söng án feilnóta í undirspilinu.

Ekkert varð af meikinu stóra hjá fyrrum félögum. Í dag eru tveir þeirra sjómenn og einn er rafvirki, en ég er prestur og syng einsöng fyrir fólk á sunnudögum í Landakirkju.


Enn eitt stjórnmálaaflið sem ætlar að slá í gegn

flugÞað halda bókstaflega allir að þeir geti komist á þing. Nú er greint frá því á rúv að "Baráttusamtökin" ætli að bjóða fram, og þeirra helsta mál er að koma Reykjavíkurflugvelli úr miðbænum og bæta stöðu aldraðra og öryrkja.

Ég er alveg sáttur við að samtök berjist fyrir bættri stöðu aldraðra og öryrkja, en síður með að flugvellinum verði bolað úr borginni. Það er slæmt fyrir flugsamöngur í landinu og það er slæmt fyrir landsbyggðina. Að fara með flugvöllin úr Vatnsmýrinni er ekkert annað en að ryðja vandamáli á undan sér. Hvert á flugvöllurinn að fara? Til Keflavíkur? Á landfyllingu?

Ef flugvöllurinn fer til Keflavíkur þá er það klárt að þjónustan við landsbyggðina skerðist. Fólk á erindi í höfuðborgina, þar sem öll þjónusta er fyrir hendi og stjórnsýslan. Það er undarlegt að höfuðborgarsamtök sem þessi skuli ekki finna til þeirrar ábyrgðar sem felst í því að búa í borg.

Hvaða lausnir ætla þessi samtök að koma með til að koma til móts við landsbyggðina? Eða er þeim kannski alveg sama?

Það væri kannski vitið að skella eins og einu álveri niður í Vatnsmýrinni. Það er alls ekki svo vitlaus hugmynd. Það er fátt fallegra en umhverfisvænt álver í miðbænum.

Annars held ég svei mér þá að þetta flugvallarmál sé orðið frekar þreytt. Það nennir varla nokkur maður að tala um þessa endaleysu lengur. Svo hvað er ég að derra mig?


Ekki pláss í fangelsinu - gistihúsið fullt

litla-hraunÍ fréttablaðinu í dag á bls. 2 kemur fram að þrír einstaklingar sem boðaðir voru til afplánunar refsidóms fengu ekki pláss þegar til átti að taka. Að taka út refsingu í fangelsi hefur ekki bara í för með sér heilmikið rót í lífi þess sem í fangelsi fer, heldur líka fjölskyldu þeirra.

Fyrir nokkrum árum var vinur minn dæmdur í fangelsi fyrir brot sem tengdust þeirri óreglu sem hann var í. Ég bjó þá fyrir norðan, og við báðir reyndar. Hann fékk sent bréf þar sem tiltekið var að hann ætti að mæti í fangelsið á Skólavörðustígnum á ákveðnum degi. Við félagar lögðum land undir fót og fórum suður, en þegar til átti að taka þá var ekkert pláss, gistihúsið var fullt og okkur sagt að hann ætti að koma aftur eftir nokkra daga. Nú voru góð ráð dýr því við höfðum ekki reiknað með því að redda okkur gistingu og hún lá ekki á lausu fyrir auralitla norðlendinga. Þetta bjargaðist þó allt saman og ég fylgdi félaga mínum í fangelsið nokkrum dögum seinna. En sá biðtími sem við stóðum alltí einu frammi fyrir var nánast óbærilegur, bæði fyrir félaga minn, mig sjálfann og alla fjölskylduna.

Refsivist er nefnilega ekki einkamál þeirra sem hana þurfa að afplán, öll fjölskyldan kemur inní þessa jöfnu, og fjölskyldan er ekki sek í þessum málum.

Það sem eftir stendur í frásögninni, er að sá andlegi undirbúningur sem hafði átt sér stað fyrir refsivistina var í uppnámi. Þetta þekkir fólk auðvitað sem er að undirbúa sig undir erfið mál eða erfið verkefni sem lenda síðan "á hold".

Það er bagalegt að ekki skuli vera hægt að taka á mót föngum þegar þeir eru boðaðir til refsivista, og þá er ekki við fangelsismálayfirvöld að sakast, heldur fjárveitingarvaldið. Þaðan eiga að koma peningar til uppbyggingar í þessum málaflokki. Það væri auðvitað best ef refsivist gæti hafist sem fyrst eftir að dómur fellur svo fólk hafi þetta ekki hangandi yfir höfði sér svo mánuðum skipti, það gerir engum gott.


Andri Snær góður í Kastljósinu

AndriMér þótti Andri Snær standa sig með prýði í Kastljósinu í kvöld, þar sem greinilega átti að leiða hann og Rannveigu Rist saman í æsilegar kappræður. En eins og Andra var von og vísa þá lét hann ekki hafa sig út í persónulgan níð. Andri reyndi að leiða þjóðinni og Rannveigu það fyrir sjónir að nauðsynlegt væri að hugsa um stóriðjuframkvæmdir á heildstæðann hátt, en ekki í einstökum og afmörkuðum reitum. Ég held að Rannveig hafi alveg skilið hvert hann var að fara, en hún neitaði auðvitað að hlusta á mál hans, enda í kosningabaráttu. Það var uaðheyrt á málflutningi Rannveigar að nú á að beita öllum ráðum til þess að tryggja stækkun álversins, og þarna kom hótunin um lokun álversins alveg grímulaust fram, meira að segja tímasetningin (eftir 6 ár).

Málflutningur Andra snérist aftur á móti um ábyrgð stjórnvalda á þeirri stöðu sem er í samfélaginu, að það sé að myndast gjá á milli fólks vegna ólíkra hagsmuna. Hvernig verður sambandið innan fjölskyldunnar ef einn er á móti stækkun en annar með og sá hinn sami vinnur í álverinu. Er þá ekki sá sem er á móti stækkuninni ábyrgur fyrir atvinnumissi hjá fjölskyldumeðlim? Vill það einhver? Þetta þekki ég vel í minni fjölskyldu, þar sem ættingjar hafa hagsmuna að gæta við byggingu álversins í Reyðarfirði.

Andri komst vel frá sínu og ég held að fólk hljóti að vera sammála um að hann hafi verið laus við allar upphrópanir og læti. Enda væri það þá ekki sá Andri sem ég þekki, sem færi af stað með æðibunugangi og látum. Við höfum einmitt rætt umhverfismálin nokkuð okkar á milli og það sem einkennir hans málflutning er rökfesti og áhugi á velferð náungans. Enda hefur hann einmitt oft sagt að þessi umræða væri miklu auðveldari ef þeir sem vildu virkja út um allar jarðar væru hrein og klár illmenni. En þannig er staðan einmitt ekki. Fólk úr báðum hópum er ósköp venjulegt fólk sem þarf að borga skuldir eins og ég og þú, fólk sem hefur áhyggjur af börnum sínum, fólk sem er í megindráttum svipað á allan hátt. Nema að viðhorfin til þess hvaða skref á að taka varðandi stóriðjur er gjörólík.

Þetta er eins og með svo mörg mál í dag, það eru ólíkar leiðir að sama marki. Í þessu tilfelli er verið að takast á um velferð þjóðarinnar, hvernig hún verði tryggð.  Ég er harður á því að hún verði ekki tryggð með stækkun álvera eða fjölgun álvera. Þetta snýst um það að tryggja fleirum velferð en nákvæmlega okkur sem lifum hér og nú. Málið snýst líka um komandi kynslóðir og velferð þeirra.

Ég hvet alla þá sem eiga enn eftir að lesa Draumalandið eftir Andra að láta nú verða af því það verður enginn fyrir vonbrigðum. Ég gaf tveimur félögum mínum úr guðfræðideildinni bókina (báðir hallir undir sjálfstæðisflokkinn) bókina, öðrum í vígslugjöf og hinum í útskriftargjöf, og ég held bara að bókin hafi komið þeim báðum á óvart.


Íslandshreyfingin og klámblöð

hvert skal halda"Við erum á móti því að ríkisvaldið sé að stjórna því hvort fólk lesi klámblöð" sagði Ósk Vilhjálmsdóttir talskona Íslansdhreyfingarinnar í Silfri Egils í gær. Þá benti Andrea Ólafsdóttir VG á að Íslandshreyfingin væri þar með í raun á móti núgildandi lögum. Nokkuð klaufalegt hjá Ósk og góður punktur hjá Andreu.

Ég er ansi hræddur um að Íslandshreyfingin sé andvana fædd. Og það er óneitanlega undarlegt þegar flokksaðilar halda því fram að þeir séu eini flokkurinn sem er grænn í gegn sérstaklega í ljósi þess að það er VG sem hefur stjórnað umræðunni í aðdraganda kosningabaráttunnar. Sú umræða hefur einmitt að stórum hluta snúist um umhverfismál - grænu málin. Íslandshreyfingin bætir engu við þá umræðu sem átt hefur séð stað fram að þessu.

Íslandshreyfingin er í raun Sjálfstæðisflokkurinn í grænum lit, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn með áherslu á umhverfismál, ef mið er tekið af málflutningi Óskar í umræddum Silfur Egils þætti. Í þessu ljósi er það undarlegt að Íslandshreyfingin skuli helst taka fylgi frá VG.

En svona er nú póltíkin skrítin, það væri kannski ráð að fá Snorra Ásmunds aftur í framboð með "Vinstri, hægri, snú".


Samkomulag um ekki neitt?

handabandHugmyndir flokkanna um eyðslu í auglýsingar tengjast auðvitað fylgi þeirra. Þannig að þeir sem minnst fylgi haf vilja eyða mestu, enda bjargaði Framsókn sér í síðustu kosningum með miklum auglýsingum.

Hins vegar held ég að hér sé bara um einhverskonar gervisamkomulag að ræða ef ekkert þak verður sett á landshlutafjölmiðlum. Þá þýðir þetta samkomulag í raun bara takmörkun á auglýsingar í hluta af fjölmiðlum. Þannig að þessi upphæð kemur til með að verða notuð í þágu Reykjavíkurlistanna, nema t.d. Vesturbæjarblaðið sé skilgreint sem landshlutablað, og K.R. útvarpið landshlutaútvarp. Í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það, þar sem það næst bara á höfuðborgarsvæðinu (held það sé rétt hjá mér)

Já menn eiga eftir að toga og teygja þetta samkomulag í allar áttir, alveg eins og hverjum hentar. Niðurstaðan verður sú að það verður auglýst sem aldrei fyrr í Fréttum í Vestmannaeyjum, Skessuhorninu og fleiri góðum blöðum, gott ef það væri ekki markaður fyrir héraðsfréttablöðin til að gefa út fullt af aukablöðum, sem væru troðfull af auglýsingum frá stjórnmálaflokkunum.


mbl.is Auglýsingakostnaður stjórnmálaflokkanna takmarkaður við 28 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögleiðing vændis kallar á skattlagningu vændis

Mér finnst gott hjá ágætum manni sem ætlar að borga skatt af vændi. Þetta er einmitt til þess að sýna ráðmönnum framá fáránleika þeirra laga sem þeir hafa samþykkt. Skamm, skamm. 

pretty-womanÞað er dapurt að alþingi skuli senda þau skilaboð til þjóðarinnar í þinglok að vændi sé eitthvað sem er samþykkt. Það er hvorki ólöglegt að selja eða kaupa kynlífsþjónustu. Það er hins vegar ólöglegt fyrir þriðja aðila að hagnast á vændi.

Það er ekki meirhluti fyrir því á þinginu að fara hina svokölluðu sænsku leið, þar sem það er gert ólöglegt að kaupa vændi.  Þessi stífna þingmanna virðist tengjast hinni útjöskuðu klisju að vændi sé elsta atvinnugreinin í heiminum. Og þetta tengist líka hinni lífsseigu mýtu um hamingjusömu hóruna, sem hefur yndi af því að svala kynlífsþorsta manna með ólíklegustu hvatir. Gott ef líf vændiskvenna er ekki bara svipað því sem gerist í myndinni "Pretty Woman". (Þetta er svona svipað ef við ímyndm okkur að "sjómannslíf, sjómannslíf, ástir og ævintýr" gefi okkur raunsanna mynd á sjómennsku)

Já við Íslendingar getum svo sannarlega gengið um meðal annara þjóða með höfuðið hátt, því við viljum auðvitað ekki að vændi fari í undirheimana, og við leysum vandamálið með því að fá það uppá yfirborðið og gera vændi og vændiskaup lögleg.

Það verður líklega ekki langt að bíða þar til eiturlyf verða lögleg, þ.e. neysla og sala þeirra, svo lengi sem þriðji aðili hagnast ekki á viðskiptunum. Já hugsið ykkur hvílík paradís Ísland verður, engir glæpir, enda allt það sem nú er ólöglegt verður löglegt.


Nýjar tölur úr hraðakeppninni.

speedingEnn bætist í keppnina hver kemst hraðast. Það er ekki ónýtt að fá opinbera dómgæslu hjá lögreglunni og úrslitin kynnt í fjölmiðlum.

Ég velti því fyrir mér hvort það virki ekki hreinlega hvetjandi á unga, raunveruleika fyrrta ökuþóra að koma alltaf með helstu úrslit í hraðaksturskepnninni í fjölmiðla.

Spurningin er auðvitað sú hvað er til ráða? Það virðist ekki virka mjög vel að greina frá mestum hraða í hvert eitt sinn, því það þarf auðvitað alltaf að bæta eldri met. Met eru til þess að keppa að og fella.


mbl.is Tekinn á 165 km hraða á Reykjanesbrautinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband