Andri Snær góður í Kastljósinu

AndriMér þótti Andri Snær standa sig með prýði í Kastljósinu í kvöld, þar sem greinilega átti að leiða hann og Rannveigu Rist saman í æsilegar kappræður. En eins og Andra var von og vísa þá lét hann ekki hafa sig út í persónulgan níð. Andri reyndi að leiða þjóðinni og Rannveigu það fyrir sjónir að nauðsynlegt væri að hugsa um stóriðjuframkvæmdir á heildstæðann hátt, en ekki í einstökum og afmörkuðum reitum. Ég held að Rannveig hafi alveg skilið hvert hann var að fara, en hún neitaði auðvitað að hlusta á mál hans, enda í kosningabaráttu. Það var uaðheyrt á málflutningi Rannveigar að nú á að beita öllum ráðum til þess að tryggja stækkun álversins, og þarna kom hótunin um lokun álversins alveg grímulaust fram, meira að segja tímasetningin (eftir 6 ár).

Málflutningur Andra snérist aftur á móti um ábyrgð stjórnvalda á þeirri stöðu sem er í samfélaginu, að það sé að myndast gjá á milli fólks vegna ólíkra hagsmuna. Hvernig verður sambandið innan fjölskyldunnar ef einn er á móti stækkun en annar með og sá hinn sami vinnur í álverinu. Er þá ekki sá sem er á móti stækkuninni ábyrgur fyrir atvinnumissi hjá fjölskyldumeðlim? Vill það einhver? Þetta þekki ég vel í minni fjölskyldu, þar sem ættingjar hafa hagsmuna að gæta við byggingu álversins í Reyðarfirði.

Andri komst vel frá sínu og ég held að fólk hljóti að vera sammála um að hann hafi verið laus við allar upphrópanir og læti. Enda væri það þá ekki sá Andri sem ég þekki, sem færi af stað með æðibunugangi og látum. Við höfum einmitt rætt umhverfismálin nokkuð okkar á milli og það sem einkennir hans málflutning er rökfesti og áhugi á velferð náungans. Enda hefur hann einmitt oft sagt að þessi umræða væri miklu auðveldari ef þeir sem vildu virkja út um allar jarðar væru hrein og klár illmenni. En þannig er staðan einmitt ekki. Fólk úr báðum hópum er ósköp venjulegt fólk sem þarf að borga skuldir eins og ég og þú, fólk sem hefur áhyggjur af börnum sínum, fólk sem er í megindráttum svipað á allan hátt. Nema að viðhorfin til þess hvaða skref á að taka varðandi stóriðjur er gjörólík.

Þetta er eins og með svo mörg mál í dag, það eru ólíkar leiðir að sama marki. Í þessu tilfelli er verið að takast á um velferð þjóðarinnar, hvernig hún verði tryggð.  Ég er harður á því að hún verði ekki tryggð með stækkun álvera eða fjölgun álvera. Þetta snýst um það að tryggja fleirum velferð en nákvæmlega okkur sem lifum hér og nú. Málið snýst líka um komandi kynslóðir og velferð þeirra.

Ég hvet alla þá sem eiga enn eftir að lesa Draumalandið eftir Andra að láta nú verða af því það verður enginn fyrir vonbrigðum. Ég gaf tveimur félögum mínum úr guðfræðideildinni bókina (báðir hallir undir sjálfstæðisflokkinn) bókina, öðrum í vígslugjöf og hinum í útskriftargjöf, og ég held bara að bókin hafi komið þeim báðum á óvart.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: E.Ólafsson

Er nú ekki sammála þér að Andri Snær hafi verið góður.  Hann átti voðalega erfitt með að orða hlutina rétt og maður skildi ekki alltaf hvað hann var að meina í málflutningi sínum.  Fannst að þeir sem væru á móti stækkuninni á álverunni hefðu átt að senda einhvern sem er vanari því að standa í rökræðum.  Hann var ekki góður

E.Ólafsson, 27.3.2007 kl. 02:05

2 Smámynd: Þorsteinn Gunnarsson

Ég á alltaf svolítið erfitt með að hlusta á hann Andra Snæ en gaf mér tíma til þess í kvöld og verð að segja það að mér fannst hann koma með góðan vinkil og öfgalausan. Hinsvegar stóð ég mig að því að vera farinn að hugsa um það hversu magnað það væri nú ef ég hefði þá einbeitingu sem einu sinni var til staðar og gæti bara lesið hann í stað þess að þurfa að hlusta því einhverveginn er ég þess fullviss að prentmálið sé hans miðill. Hinsvegar hef ég enga skoðun í sjálfu sér á því hvort þessi álversstækkun eigi að eiga sér stað eða ekki. Mér finnst báðir aðilar hafa talsvert til síns máls.

Þorsteinn Gunnarsson, 27.3.2007 kl. 02:47

3 Smámynd: Fanný Guðbjörg Jónsdóttir

Ég er ekki sammála þér. Ég setti mig einmitt í stellingar og hlakkaði til að hlusta á málefnalegar umræður hjá Rannveigu og Andra. Andri náði engan vegin að koma frá sér efninu og Rannveig vissi alveg hvað hún var að tala um. Kastljósið varð þunnt, einstefna í þetta skiptið.
En hann hefur staðið sig vel í áróðrinum, nú er fólk farið að búast við því að hann standi sig betur hvað málefnin varðar. Ekki nóg að vera sætur rithöfundur og brosa, það þarf meira að koma frá þessum manni ef hann ætlar að koma fram í umræðuþáttum á við þennan.

Fanný Guðbjörg Jónsdóttir, 27.3.2007 kl. 03:14

4 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Eiríkur: Það er alltaf spurning hvernig fólk vill setja upp svona umræðuþætti. Ódýra leiðin hefði verið að fá einhvern til að rífst við hina yfirveguðu Rannveigu Rist. En hverju hefði sú umræða skilað. Andri kom með nýjan pól inní umræðuna um heildarmyndina á málinu.

Fanný: Rannveig veit vissulega alltaf hvað hún ætlar að segja, enda yfirvegaður stjórnandi þarna á ferðinni. Andra er auðvitað mikið niðri fyrir af því að umhyggja hans fyriri málinu er raunveruleg, ég get vitnað um það. Mér finnst ekki rétt hjá þér að tala um áróður í málflutningi Andra. Hann hefur einfaldlega verið að koma með nýjan vinkil inní steingelda umræðu sem einkennst hefur af upphrópunum og fordæmingu á báða bóga. Hann hefur fengið þá gjöf frá Guði að geta hugsað utan hins hefðbundna kassa.

Þorsteinn: Ég get verið sammála því að Andri nær sér hvað best á skrið í prentmálinu, enda erfitt að finna jafn skemmtilegan og góðann penna og hann. Ég bendi á "Bláa hnöttinn", "Bónusljóð" og "Love Star" því til staðfestingar, auk "Draumalandsins"

Guðmundur Örn Jónsson, 27.3.2007 kl. 10:17

5 identicon

Ég tel að það sé rangt að telja það hótun að greina frá því að álverinu verði lokað, verði það ekki stækkað. Það er einfaldlega staðreynd og það væri óheiðarlegt af aðstandendum álversins að greina ekki frá þessari staðreynd þegar hin mikilvæga ákvörðun verður tekin.

Stefán Einar Stefánsson (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 15:06

6 identicon

Ég er nú alveg á því að hann Andri Snær á að halda sig við skriftir. Mér finnst hann ekki góður ræðumaður og alls ekki ná sér á strik í svona rökræðum. Hann virkar óöruggur og mér fannst hann ekkert sérlega sannfærandi. En Andri Snær er frábær penni og uppáhaldssagan mín eftir hann er smásagan Sjóarinn og hafmeyjan sem kom út í smásagnasafninu Uppspuni. Það er algjör snilld.

Ingibjörg fyrir austan (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 15:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband