Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Gleði í Mongólíu

Hef aldrei náð kontakt við þennan FIFA lista.  Hvernig stendur t.d. á því að lið geta fallið um 25 sæti á milli þess sem listinn er birtur eða hoppað upp um 25 sæti?

Ísland stendur í stað þrátt fyrir dapurt gengi.

Menn hljóta að hoppa hæð sína í loft upp í Mongólíu og Bólivíu.  Á sama tíma grætur fólk óskaplega á Jamaika. 


mbl.is Brasilía í efsta sæti á styrkleikalista FIFA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mark er mark

Ég er aðeins að velta fyrir mér þessari frétt, þ.e.a.s. hver hin eiginlega frétt er. Auðvitað stendur mark ÍA, sama hvort félögin koma með sameiginlega yfirlýsingu eður ei. Alveg eins og mark Maradona stóð gegn Englendingum forðum, þó alþjóð hefði séð að hönd Guðs, var bara hönd hins dauðlega Maradona.

Það hefði hins vegar verið stór frétt (og raunar stór skandall) ef mark ÍA hefði ekki staðið.

Stóra málið í þessu er að allur ágreiningur er úr sögunni, og menn kjósa að horfa fram á veginn, en ekki sitja við þennan leik og velta fyrir sér hvað hver gerði eða sagði, á meðan á leik stóð eða eftir leik. Yfirlýsingin segir enda að gert sé gert og sagt sé sagt og ekkert meira með það.


mbl.is Mark ÍA stendur og sættir hafa náðst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríð og friður

Þetta þykir mér umhugsunarvert sérstaklega í því ljósi að við getum varla talist vera í hringiðu hryðjuverkanna.  Það er líka umhugsunarvert að alltaf skuli vera til nægjanlegt fjármagn í hernaðarbröltið, þar sem markmiðið er að tortíma og limlesta.  En það virðist aldrei vera til nægjanlegt fjármagn til þess að bjarga lífi.

Forystumenn voldugustu ríkja heims koma saman á fundum ár eftir ár og velta fyrir sér hverri krónu sem fara á til þróunaraðstoðar og menn draga lappirnar þegar kemur að því að fella niður skuldir fátækari þjóða.  EN þegar kemur að hergögnum og morðtólum hverskonar þá er aldrei spurt um krónur og aura, þá eru allar kistur fullar af peningum.

Mér þykir þetta líka umhugsunarvert í ljósi orða föður stúlku sem lést á Landsspítalanum um daginn.  Hann sagði að það væri undarlegt hversu miklu íslendingar eyddu í varnir gegn hryðjuverkum, og þó hefðu engin hryðjuverk verið framin á Íslandi.  Síðan kæmi að eiturlyfjavandanum, þá væru peningar skornir við nögl, og þó flæða eiturlyf yfir allt og brjóta niður einstaklinga og fjölskyldur.

Kannski er niðurstaða frelsispostulanna sú að réttast væri að lögleiða eiturlyfin (það vilja a.m.k. margir lögleiða hass og maríjúana með þeim rökum að þau séu svo væg og það hafi hvort eð er allir prófað að fá sér í haus, eða eina jónu).  Með slíkum aðgerðum hyrfi eiturlyfjavandinn!!!

Grun hef ég um að ef menn eyddu viðlíka fjármunum í að bjarga fólki, eða huga að velferð fólks á alla lund, að þá myndi stríðsógnin minnka til muna.  En það er líklega ekki von á slíku meðan brjálaðir stríðsherrar halda um stjórnartauminn, hvort sem er austan eða vestan Atlantshafs.


mbl.is Varnir æfðar með Bandaríkjaher í næsta mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dularfullur þjófnaður.

Gestabókin hvarf með DULARFULLUM HÆTTI.  Ef gestabókin hefur horfið með dularfullum hætti, þá gæti nú orðið erfitt að hafa uppá henni aftur.  Það getur varla verið eitthvað dularfullt við þjófnað, eða hvað? Það gæti hins vegar verið nokkuð dularfullt ef bókin hefði hreinlega gufað upp í höndunum á starfsmanni hótelsins, en það virðist ekki hafa gerst skv. fréttinni.

Ég ætla mér ekki að gera lítið úr því tjóni sem orðið hefur við hvarf gestabókarinnar, en ég held að það sé nákvæmlega ekkert dularfullt við hvarfið.  Þvert á móti held ég, og nú tala ég án allrar ábyrgðar, að einhver dauðleg manneskja hafi verið hér að verki.


mbl.is Dýrmæt gestabók horfin af Hótel Búðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VIÐ og ÞEIR

Ef satt reynist þá eru þetta ansi sláandi niðurstöður fyrir stjórnvöld vestra. Ég man að Magnús Þorkell Bernharðsson, okkar helsti sérfræðingur í málefnum mið-austurlanda, sagði eftir árisina á Tvíburaturnana að það versta sem vesturlönd gerðu í stöðunni væri að ráðast til atlögu, án þess að hafa skýr markmið. Eftir það var ráðist inní Afganistan og þar voru markmiðin skýr: Að koma talibönunum frá völdum.

Þá hófust bollleggingar um að ráðst inní Írak. Þá varaði Magnús við innrás inní landið, því markmiðin væru alls ekki skýr. Enda muna allir hringavitleysuna í kringum það allt saman, og einnig hvernig íslensk stjórnvöld létu teyma sig á asnaeyrunum í því máli með því að styðja innrásina, þrátt fyrir endalausar sannanir fyrir því að Bandaríkjamenn hefðu ekki farið með rétt mál.

Innrásin í Írak, ásamt veru Bandaríkjamanna í Sádí-Arabíu (þar sem finna má eina af helgustu stöðum múslima) er undirrót þess vanda sem menn standa frammi fyrir í dag. Síðan má auðvitað ekki gleyma því að saga vesturlanda í þessum löndum er vægast sagt ömurleg. Hún einkennist af forræðishyggju sem einkennist af kynþáttahatri (í besta falli vantrausti á því að enginn geti stjórnað nema hann sé hvítur), því vesturlönd, og þá sér í lagi Bretland og Bandaríkin eiga sér ljóta sögu í samskiptum við arabalöndin. Arðrán og svik eru líklega bestu orðin til þess að lýsa þessum samskiptum. Síðan er auðvitað mikil tortryggni í arabalöndunum vegna stuðnings Bandaríkjamann við Ísrael (það er reyndar orðin sagan endalausa, sem maður lifir líklega ekki til að sá hvernig endar).

Málin hafa þróast nákvæmlega með þeim hætti sem hryðjuverkamennirnir létu sér bara dreyma um. Þetta hefur snúist uppí við vs. þeir. Kristni vs. Islam. Vesturlönd vs. Arabar. Í því tilliti hefur orðræða Bush ekki hjálpað til. Hann hefur notað biblíulegt málfar til þess að undirstrika að VIÐ erum góðir, en ÞEIR eru vondir. Árásin á Tvíburaturnana var ekki hægt að setja í trúarflokk, eða heilagt stríð (jihad). Í slíku stríði er fylgt ákveðnum reglum sem ekki var farið eftir í árásinni á Tvíburatrunana (fólki ekki gefinn kostur á uppgjöf, börnum ekki þyrmt, konum ekki þyrmt, og það sem mest er um vert, þar voru múslimar líka drepnir).

Hryðjuverkaárásir eiga ekkert skylt við trúna og í trúartextum er ekkert sem styður slíkt athæfi. Hér er hins vegar skelfileg afbökun og pólitísk misnotkun á ferðinni. Það er snúið útúr Kóraninum og hann misnotaður gróflega til þess að réttlæta morð á saklausu fólki. Það þekkist víða í sögunni að snúið hefur verið útúr eða setningum kippt úr samhengi til þess að réttlæta grimmdarverk.

Mæli með því að fólk lesi bók Magnúsar Þorkells Bernharðssonar "Píslarvottar nútímans" til þess að glöggva sig á sögu Islam, og ekki síður sögu Íraks og Írans. Í þeirri bók færiri hann góð rök fyrir því að píslarvættisdauði hafi verið stofnanvæddur í stríðinu milli Írans og Íraks (þar sem Bandaríkjamenn studdu Íraka heilshugar og töldu sig eiga góðan bandamann í Saddam Hussein)


mbl.is Al-Qaeda hefur náð fyrri styrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarkall frá Íran

Nú berast heldur dapurlegar fréttir frá Íran.  Ég fékk skeyti frá Amnesty þar sem þetta kemur fram:

Íran: Hjálp óskast á ný
Maður grýttur til bana og óttast að kona hljóti sömu örlög

Það hryggir okkur að tilkynna að Jafar Kiana (ónefndi maðurinn sem átti á hættu að vera tekinn af lífi ásamt Mokarrameh Ebrahimi) var grýttur til dauða í þorpinu Aghche-kand, nálægt bænum Takestan í Qazvin-héraði, fimmtudaginn 5. júlí. Amnesty International óttast að Ebrahimi hljóti sömu örlög nema yfirmaður dómsmála í Íran, Ayatollah Hashemi Shahroudi, skerist undir eins í leikinn.

Kiani og Ebrahimi voru dæmd til að vera grýtt til dauða fyrir hjúskaparbrot undir 83. grein íranskra hegningarlaga. Parið hefur setið í Choubin-fangelsi í 11 ár og talið er að tvö börn þeirra dvelji í fangelsi hjá móður sinni. Parið átti að taka af lífi þann 21. júní sl. en aftökunum var frestað eftir að aktívistar í Stop Stoning Forever-herferðinni komu fréttum af örlögum parsins út til almennings og bréfum rigndi inn til íranskra stjórnvalda. Í kjölfarið gaf Ayatollah Shahroudi út skipun um að aftökunni skyldi frestað. Dómurinn var enn í gildi en ekki var talið að honum yrði framfylgt í bráð.

Það var því mikið áfall þegar Stop Stoning Forever-herferðin sagði þær fréttir þann 7. júlí að Jafar Kiani hefði verið grýttur til dauða tveimur dögum fyrr, aðallega af embættismönnum á svæðinu.

Óttast er að Mokarrameh Ebrahimi hljóti sömu örlög. Því eru allir félagar Amnesty International hvattir til að skrifa írönskum yfirvöldum bréf í samræmi við eftirfarandi leiðbeiningar og krefjast þess að hætt verði aftökuna á Ebrahimi og dómurinn yfir henni mildaður.

Með von um að sem flestir sjái sér fært að taka þátt.

Ég læt fylgja með leiðbeiningar um hvernig maður ber sig að við að senda bænaskjal til Írans fyrir þá sem áhuga hafa á því.  Hvert og eitt bréf skiptir máli.  Það er nauðsynlegt að láta deigan alls ekki síga.  Það er engin launung að lyktir þessa máls eru mun dapurlegri en maður hafði vonast til, og þess vegna er enn nauðsynlegra að sofna ekki á vaktinni.

Vinsamlega sendið bréf svo fljótt sem auðið er á persnesku, arabísku, ensku, frönsku, eða eigin tungumáli og:
-
hvetjið yfirvöld til að stöðva aftökuna á Mokarrameh Ebrahimi undir eins
- 
hvetjið yfirvöld til að milda dauðadóminn yfir Mokarrameh Ebrahimi
- 
hvetjið yfirvöld til að skýra frá því hvort Jafar Kiani var grýttur til dauða þann 5. júlí og, ef það er rétt, hvort það brjóti gegn frestun á aftöku sem yfirmaður dómsmála hafði þegar gefið út
- 
lýsið yfir ófrávíkjanlegri andstöðu ykkar gegn dauðarefsingunni sem brjóti gegn réttindum til lífs og sé grimmileg, ómannleg og vanvirðandi refsing
- hvetjið yfirvöld til að afnema lög sem kveði á um fólk sé grýtt til dauða

Sendist til:

Head of the Judiciary
Ayatollah Mahmoud Hashemi Shahroudi
Ministry of Justice, Ministry of Justice Building,
Panzdah-Khordad Square, Tehran, Islamic Republic of Iran
Fax: +98 21 3390 4986 (please keep trying)
Email: info@dadgostary-tehran.ir (In the subject line: FAO Ayatollah Shahroudi)
Salutation: Your Excellency

 Director, Qazvin State Government Office
Please mark: for the attention of the Director of Qazvin State Government Office
Fax: + 98 281 3682941 or + 98 281 3682895
Salutation: Dear Sir

Copies to:

Leader of the Islamic Republic
His Excellency Ayatollah Sayed ‘Ali Khamenei, The Office of the Supreme Leader
Shoahada Street, Qom, Islamic Republic of Iran
Email: info@leader.ir, istiftaa@wilayah.org


mbl.is Grýttur til bana fyrir hjúskaparbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyjamenn látnir hanga í lausu lofti.

Réttast væri að loka þessa aðila inní herbergi og hleypa þeim ekki út fyrr en saminingar hafa náðst. Það er með hreinum ólíkindum að menn skuli komast upp með að slíta samningaviðræðum um umferð á þjóðveginn milli lands og Eyja. Maður hlítur að kalla eftir viðbrögðum stjórnmálamanna sem voru nógu tunguliprir í kringum kosningarnar, sumir myndu líklega segja að þeir hafi verið kjaftgleiðir. Þá lofuðu allir að gera allt sem í þeirra valdi stæði til þess að koma samgöngum milli lands og Eyja í betra horf. Maður hafði á tilfinningunni að daginn eftir kosningar yrðu komin göng, Bakkafjara og nýr Herjólfur. En síðan er niðurstaðan sú að við erum í nákvæmlega sömu sporum, enda skiptum við líklega ekki máli fyrr en eftir fjögur ár.
Á þessu eru þó heiðarlegar undantekningar, eins og gengur.
mbl.is Slitnar upp úr viðræðum um aukaferðir Herjólfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirlýsingar á yfirlýsingar ofan

Öll þessi deila verður ansi hjákátleg, þegar haft er í huga að hér eru fullorðnir karlmenn að leika sér af áhuganum einum (það er a.m.k. ekki opinbert að íslenskir knattspyrnumenn séu atvinnumenn hérlendis).  Í þessu samhengi langar mig að benda á blogg Kára Auðar Svanssonar, til að menn setji vandamálið í rétt samhengi.

En í bloggi sínu segi Kári meðal annars:

Stjarnfræðilegum upphæðum er mokað í knattspyrnudindla fyrir að leika sér með bolta eins og krakkar, en á meðan lepur hátt í helmingur jarðarbúa dauðann úr skel, og ótaldar eru þær milljónir sem látast ár hvert úr sjúkdómum sem hægt er að lækna með einni sprautu hér á Vesturlöndum.

Vildi bara benda á hversu vandamál þessara fullorðnu stráka er léttvægt.  Ég segi nú bara ekki annað en að mikið vildi ég að þetta væri stærsta vandamálið sem heimurinn þyrfti að glíma við.


mbl.is Yfirlýsing frá Keflvíkingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

34 ár frá goslokum í Eyjum

EldgosÍ dag eru 34 ár frá því að opinberum goslokum var lýst yfir í Eyjum.  Það var 23. janúar 1973 sem eldgos hófs í Heimaey, skammt frá Kirkjubæjunum.  Tveir menn (Hjálmar Guðnason og Ólafur Gränz) sem voru á gangi um nóttina uppá Helgafell sáu jörðina hreinlega opnast fyrir augum sér. Þannig að opinberlega séð þá voru það þessi tveir sem urðu fyrstir varir við gosið. 

Ég hef spjallað við marga Eyjamenn um þennan tíma eftir að ég kom hingað til Eyja og sögur þeirra eru hreint út sagt sláandi.  En ég hef líka komist að því að þriðji aðilinn varð líka vitni að upphafi gossins.  Það var kona, Inga Jóhann Halldórsdóttir, að nafni(ekkjan hans Hjölla múr).  Hún hafði verið að sýsla fram eftir ásamt vinkonu sinni Fríðu í Bólstaðarhlíð.  Þegar Inga kom heim og var að hafa sig í háttinn þá finnur hún þessa skjálfta sem voru undanfarar gossins.  Hún horfir síðan út um gluggann í átt að Kirkjubæjunum og sér þá hvernig jörðin hreinlega opnast og eldspýjurnar standa uppí loftið og nánast um leið opnast jörðin öll eins og rennilás.  Hún vekur mann sinn og börn, hringir uppá Kirkjubæina og síðan í lögregluna.

Austurbærinn 24. janúar 1973Af sinni einskæru hógværð þá ákvað Inga að hafa sig ekki í frami við fjölmiðla, því það væru áreiðanlega aðrir sem væru betur til þess fallnir en hún, og þess vegna er það opinber söguskoðun að einungis tveir hafi verið vitni að upphafi gossins. 

Annars er goslokahátíðin haldin hér í Eyjum með pompi og prakt og fólk gerir sér dagamun.  M.a. verður haldin Göngumessa sem hefst í Landakirkju þaðan er gengið uppá Eldfell, þar sem minnisvarði um goslokin stendur og göngumessunni lýkur síðan í Stafkirkjunni, en þar verður síðan boðið uppá súpu og fínerí á Stafkirkjulóðinni. 

Ég komst að því að upphafs gossins er einnig minnst á a.m.k. einu heimili hér í Eyjum, en það er hjá henni Marý á Kirkjubæ.  Þá býður Marý uppá kaffi og fínerí og síðan er gítarspil og fjöldasöngur frameftir kvöldi.  En Kirkjubæirnir stóðu alveg við gossprunguna og fóru strax undir hraun. 

Það er gaman að kíkja inná vefinn Heimaslóð.is þar sem ýmiskonar fróðleik er að finna um gosið og hvað eina annað sem tengist vestmannaeyjum.


Að grýta konur til dauða

Grýtt til dauðaÞað var óhuggulegt myndbandið sem ég fékk sent til mín í tölvupósti í dag.  Þar sést þegar tvær konur eru grýttar til dauða í Íran. Það er með ólíkindum að slíkt skuli enn viðgangast í dag í skjóli og fyrir tilstuðlan stjórnvalda í nokkrum löndum.  Raunar á ég erfitt með að skrifa undir dauðarefsingu, sama hvernig hún er framkvæmd.  En í tilfelli þeirra landa sem hér um ræðir (Íran, Pakistan, Afganistan, Nígería og Sádi Arabía) þá eru það einkum konur sem grýttar eru til dauða. Sem sýnir okkur að enn er langt í land á mörgum stöðum.  Það er á svo mörgum stöðum í heiminum sem konur eru ekki að berjast fyrir jöfnum launum, heldur jafnri tilvist í heiminum.  Að líf þeirra sé metið, ekki bara til jafns við karlinn, heldur til einhvers.

Ég er alls ekki að gera lítið úr launajafnréttisbaráttunni með þessum orðum, heldur vekja aðeins athygli á því hversu vandamálin eru ólík.

Ég hvet ykkur til þess að kíkja á þessa síðu, þar sem þetta myndband er að finna.  þarna er einnig hægt að senda Mohammad Khatami, forseta Írans "bænaskjal".

A.T.H. Þetta myndband er alls ekki fyrir viðkvæma, jafnvel þó myndgæðin séu döpur, þá er upplifunin mjög sterk og óhugguleg.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband