Markmið næstu kjarasmaninga
1.10.2007 | 22:13
Um síðastliðna helgi var þing AN haldið heima hjá pabba og mömmu á Illugastöðum. Þar var m.a. eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða, sem ég er mjög hrifinn af og vona bara að fólki beri gæfa til að fylgja henni eftir í kjarabaráttunni.
Ályktun um kjaramál30. þing Alþýðusambands Norðurlands hvetur til þjóðarsáttar um jöfnun lífskjara á Íslandi.Verkalýðshreyfingin hefur lengi barist fyrir þessu markmiði og náð miklu fram, launþegum til hagsbóta. Þrátt fyrir að mikið hafi áunnist í kjara- og réttindabaráttu verkafólks er það nöturleg staðreynd að á sama tíma og lágmarkslaun eru undir fátækramörkum eru dæmi um að menn í fjármálaheiminum taki sér mánaðarlaun sem jafngilda launum 519 verkamanna samkvæmt almennu kjarasamningunum. Verkalýðshreyfingin hefur oft bent á þá misskiptingu sem viðgengst á Íslandi og kallað eftir umræðum um málið.
Í ljósi þessara staðreynda er mikilvægt að verkalýðshreyfingin setji sér það markmið í komandi kjaraviðræðum við atvinnurekendur að almennir kauptaxtar láglaunafólks hækki verulega og að kaupmáttur þeirra verði tryggður. Um leið er því hafnað að aðeins sumir, ekki síst í fjármálageiranum, fái að njóta þeirrar velmegunar sem verið hefur í íslensku hagkerfi á síðustu árum.
Alþýðusamband Norðurlands hafnar alfarið þessari misskiptingu og minnir á að verkalýðshreyfingin hefur lagt sitt af mörkum til að tryggja stöðugleika og þannig grunn að vaxandi kaupmætti, en það er ekki nóg. Aðrir verða að axla ábyrgð líka svo sem stjórnvöld, sveitarfélög og fjármálastofnanir. Þessir aðilar geta ekki endalaust staðið á hliðarlínunni eins og þeim komi málið ekkert við. Þjóðarsátt um jöfnun lífskjara byggir á því að allir axli ábyrgð, ekki bara verkalýðshreyfingin.
Alþýðusamband Norðurlands krefst þess að launaleynd verði afnumin og kynbundnum launamun verði útrýmt.
Það hlýtur allt réttsýnt fólk að sjá að það verður ekki lengur unað við það að þeir sem eru á lægstu töxtum þurfi alltaf að bíða með að taka út hagnaðinn í góðærinu á meðan þeir sem sitja á toppunum "eiga svo sannarlega skilið að fá hagnaðinn af góðærinu strax til baka."
Þetta er auðvitað svo skelfilega óréttlátt að það nær ekki nokkuri átt. Það getur ekki talist eðlilegt að það þurfi fleiri hundruð manns til að ná uppí laun eins manns. Hvers vegna metur samfélagið vinnu eins svona miklu, miklu, meira en annars? Ég held að fólki sé smám saman farið að blöskra þessi skelfilega misskipting.
Ég er ekki að segja að þé slæmt að græða, en fyrr má nú rota en dauðrota.
Athugasemdir
Ég get ekki verið meira sammála þér, heyr, heyr!!
Annars verð ég nú að segja að ég varð pínu hugsi þegar ég sá fyrir og eftir myndirnar af ykkur hjónakornunum :) Til hamingju með giftinguna til ykkar beggja.
Sigga Júlla (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 11:47
Sæll, ég þakka fyrir innlitið á síðuna, gaman að heyra í gömlum kunningjum. Bið að heilsa fjölskyldunni. Já og til hamingju með giftinguna.
Gestur (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 20:26
Geir Gunnarsson læknanemi kom með athyglisverða hugmynd fyrir nokkru í annálum íslenskrar sögu:
“Þetta er í raun afar einfalt. Við látum einfaldlega setja lög um hámarkslaun. Engin fær að ráðstafa meiru en þreföldum lágmarkslaunum á mánuði. Á þann hátt drögum við upp lágmarklaunin í leiðinni. Forstjórarnir vilja áreiðanlega ekki hafa of lág laun. Allt fé sem fólk erfir eða vinnur sér inn umfram þreföld lágmarkslaun á mánuði verður lagt inná verðtryggðan reikning með bestu leyfilegum vöxtum. Einskonar ríkisskuldabréf eins og í gamladaga þegar hringvegurinn var fjármagnaður. Fé sem þú átt og getur tekið út þegar þú nærð ekki upp í tekjuþakið. Þannig myndast sjóður í samfélaginu sem hægt er að nota til að fjármagna uppbyggingu.”
(Geir Gunnarsson: Íslensk saga 2007)
Þessi hugmynd Geirs Gunnarssonar að "verðtryggja" lágmarkslaun í hámarkslaunum þ.e. að setja lög um að enginn megi taka út hærri laun en sem nemur nokkrum lágmarkslaunum er ef til vill útópía en við þurfum útópíur í dag til að brjóta samfélagið úr viðjum þeirra alþjóðlegu auðbauga sem tröllríða landinu og þjóðinni.
Ásgeir Rúnar Helgason, 2.10.2007 kl. 21:03
Ég rakst einmitt á þessa tilvitnun á bloggi þínu Ásgeir og fannst hún nokkuð góð. Ég held að háleit markmið séu hið besta mál. Þetta er allt saman spurning um að hrifsa ekki meira til sín en maður þarf. Maður sér alveg hvernig peninga-og valdasýkin heltekur fólk sem finnst alveg jafn sjálfsagt að tala um miljarða eins og við hin tölum um hundraðkalla eða þúsundkalla. Hvað ætlar viðkomandi að gera við enn einn miljarðinn? Markmiðið er ekki lengur bara að komast af og hagnast, heldur að græða græðginnar vegna.
Ég er einmitt að fjalla um Jóhannes skírara í fermingarfræðslunni um þessar mundir, en hann sagði:
Sá sem á tvo kyrtla, gefi þeim, sem engan á og eins gjörir sá er matföng hefur.
Heimtið ekki meira en fyrir yður er lagt.
Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum. Látið yður nægja mála yðar.
Þyrftum að fá eins og einn "Jóhannes skírara" í pólitíkina í dag.
Takk fyrir góðar kveðjur frá ykkar Sigga Júlla og Gestur.
Guðmundur Örn Jónsson, 3.10.2007 kl. 12:02
Hér var lagt upp með "markmið næstu Kjarasamninga", ég veit ekki hvað skal segja. Er ekki íslenska þjóðin búin að missa af tækifærinu að skapa hér grundvöll til jafnréttis? Skattleysismörk hafa ekki einu sinni haldið í við verðbólguna sem þýðir ekkert annað en aukin dulbúin skattbyrði á þá sem lægstu launin hafa. Ríkisstjórnin slær nú um sig með því að boða hækkun á persónuafslætti, en sú hækkun nær ekki að halda í við verðbólguna og vísitöluhækkanir. Ekki myndi ég vilja vera einstæður leikskólakennari með tvö börn í leiguhúsnæði á Höfuðborgarsvæðinu meðan að aðrir skutlast í "bústaðinn" á einkaþyrlunni eða til London á "leik" í einkaþotunni. En eiga allir að vera jafnir?
Hlynur (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 01:46
Ég held að sá munur sem er á launum fólks og afkomu geti ekki látið samvisku nokkurrar manneskju í friði sem á annað borð hugsar útí þessi mál. Ég held að við getum náð fram mun meiri jöfnuði í samfélaginu en nú er. Þetta er frekar spurning um vilja en getu. Af hverju í ósköpunum hafa menn ekki treyst sér til að setjast niður í alvörunni og reiknað sig niður á þá upphæð sem einstaklingur þarf til að lifa af í þjóðfélaginu. Getur leikskólakennarinn t.d. lifað af launum sínum og borgað 100.000 kr. í húsaleigu á mánuði? Getum við það?
Í gærkvöldi sá ég viðtal við Einar Má Jónsson sagnfræðing. Allt sem hann hafði þar fram að færa var eins og talað úr mínu hjarta. Þar benti hann á hvernig frjálshyggjan skilur eftir sig eyðimerkur í samfélögum heimsins. Allt í einu er velferðarkerfið orðið slæmt á vesturlöndum - skandinavíska kerfið, sem allir heilbrigðir einstaklingar eru sammála um að sé það besta sem komið hefur fram, er í augum frjálshyggjumanna afsprengi hins illa. Þeir leyfa sér meira að segja að líkja því við kommúnisma, eða setja það í besta falli í sama flokk.
En um leið og einhver leyfir sér að gagnrýna frjálshyggjuna þá er hann afturhaldsseggur sem vill höft á alla skapaða hluti, og vill að við fetum braut hins sovéska einræðiskerfis. Þetta eru útúrsnúningarnir og vitleysan sem viti bornu fólki er boðið uppá. Það er með ólíkindum hvernig frjálshyggjupostulum tekst ævinlega að snúa öllu á haus og toga og teygja hugtök eftir sínum hentugleika
Guðmundur Örn Jónsson, 4.10.2007 kl. 09:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.