Um dauða Guðs
28.9.2007 | 16:17
Þegar litið er á mismunandi tilbrigði við stefið um dauða Guðs er oft erfitt að segja til um hvort hann sé lífs eða liðinn. Yfirleitt er hann með einhverju lífsmarki en skilyrðin til lífs hafa hins vegar breyst. Dauði hans er oft tengdur breytingum í hugmyndasögu vestrænnar menningar.
T.S. Elliot útskýrði breytinguna á eftirfarandi hátt: "Það virðist eitthvað hafa gerst sem hefur aldrei gerst áður: þó við vitum ekki alveg hvenær eða hvernig eða hvar."
Menn hafa yfirgefið Guð, ekki fyrir aðra guði, segja þeir, heldur fyrir engan guð; og það hefur aldrei gerst áður.
Nietzsche lét vitfirring einn hlaupa inn í mannþröngina og öskra: "Guð er dauður! Guð verður áfram dauður! Og við höfum drepið hann!" Menning vesturlanda hafði breyst það mikið á kostnað trúarlegra hugmynda að ekki var lengur hægt að tala um Guð á líkan hátt og áður. Þessi hugmynd hefur verið tjáð margsinnis og hér hafa skilyrðin til lífs breyst og ekki alveg hægt að útiloka að eitthvað líf bærist hjá Guði.
Ég endurnýjaði aðeins kynni mín við bandarísku guðfræðingana William Hamilton og Thomas J. J. Altizer. Þeir gengu lengra en flestir áður og lýstu yfir raunverulegum dauða Guðs (ekki bara hugmyndafræðilegum dauða).
Hamilton gekk ekki alveg jafn langt og Altizer, því hjá honum var Guð á hægri leið með að deyja. Dauði Guðs táknaði breytingu á þann hátt að yfirnáttúrulegu eiginleikarnir voru að hverfa og hann varð háðari tíma og rúmi. Mér hefur reyndar alltaf þótt erfitt að skilja þetta alveg. Það er t.a.m. erfitt að tímasetja dauðann en Hamilton brást við þeirri spurningu með svari í þremur liðum:
1) Koma og dauði Jesú gera dauða Guðs mögulegan
2) 19da öldin raungerir dauða Guðs
3) Í dag er það hlutskipti okkar að skilja þetta og sætta okkur við það.
Hugmyndir Altizer eru alls ekki einfaldari, þær eru raunar svo ótrúlegar að það er svona alveg á mörkunum að hægt sé að tala um hann sem guðfræðing. Hann hrærir saman biblíunni, Hegel, Nietzsche, Sartre, Blake, Freud og austrænum kryddjurtum í guðfræðilegan graut sem erfitt, ef ekki ómögulegt, er að melta. Ég skal alveg viðurkenna að ég skil hvorki upp né niður í honum, enda hafði ég alltaf meira gaman af að skoða hugmyndir Hamiltons.
Hugmyndin um dauða Guðs er vissulega "skemmtileg" hugarleikfimi, en ég held reyndar að þessi ágæta hugmynd sé sjálf dauð. Hreyfingin sem fylgdi þessum ágætu mönnum hefur ekki þótt trúverðug og ekki notið mikillar hylli. Svo má auðvitað setja spurningarmerki við það hvort það sem þeir félagar framreiddu geti yfirhöfuð kallast guðfræði.
Ef til vill gæti Guð tekið sér orð Mark Twain í munn og sagt: "Fregnir af andláti mínu er stórlega ýktar."
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 16:18 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.