VIÐ og ÞEIR
12.7.2007 | 00:10
Ef satt reynist þá eru þetta ansi sláandi niðurstöður fyrir stjórnvöld vestra. Ég man að Magnús Þorkell Bernharðsson, okkar helsti sérfræðingur í málefnum mið-austurlanda, sagði eftir árisina á Tvíburaturnana að það versta sem vesturlönd gerðu í stöðunni væri að ráðast til atlögu, án þess að hafa skýr markmið. Eftir það var ráðist inní Afganistan og þar voru markmiðin skýr: Að koma talibönunum frá völdum.
Þá hófust bollleggingar um að ráðst inní Írak. Þá varaði Magnús við innrás inní landið, því markmiðin væru alls ekki skýr. Enda muna allir hringavitleysuna í kringum það allt saman, og einnig hvernig íslensk stjórnvöld létu teyma sig á asnaeyrunum í því máli með því að styðja innrásina, þrátt fyrir endalausar sannanir fyrir því að Bandaríkjamenn hefðu ekki farið með rétt mál.
Innrásin í Írak, ásamt veru Bandaríkjamanna í Sádí-Arabíu (þar sem finna má eina af helgustu stöðum múslima) er undirrót þess vanda sem menn standa frammi fyrir í dag. Síðan má auðvitað ekki gleyma því að saga vesturlanda í þessum löndum er vægast sagt ömurleg. Hún einkennist af forræðishyggju sem einkennist af kynþáttahatri (í besta falli vantrausti á því að enginn geti stjórnað nema hann sé hvítur), því vesturlönd, og þá sér í lagi Bretland og Bandaríkin eiga sér ljóta sögu í samskiptum við arabalöndin. Arðrán og svik eru líklega bestu orðin til þess að lýsa þessum samskiptum. Síðan er auðvitað mikil tortryggni í arabalöndunum vegna stuðnings Bandaríkjamann við Ísrael (það er reyndar orðin sagan endalausa, sem maður lifir líklega ekki til að sá hvernig endar).
Málin hafa þróast nákvæmlega með þeim hætti sem hryðjuverkamennirnir létu sér bara dreyma um. Þetta hefur snúist uppí við vs. þeir. Kristni vs. Islam. Vesturlönd vs. Arabar. Í því tilliti hefur orðræða Bush ekki hjálpað til. Hann hefur notað biblíulegt málfar til þess að undirstrika að VIÐ erum góðir, en ÞEIR eru vondir. Árásin á Tvíburaturnana var ekki hægt að setja í trúarflokk, eða heilagt stríð (jihad). Í slíku stríði er fylgt ákveðnum reglum sem ekki var farið eftir í árásinni á Tvíburatrunana (fólki ekki gefinn kostur á uppgjöf, börnum ekki þyrmt, konum ekki þyrmt, og það sem mest er um vert, þar voru múslimar líka drepnir).
Hryðjuverkaárásir eiga ekkert skylt við trúna og í trúartextum er ekkert sem styður slíkt athæfi. Hér er hins vegar skelfileg afbökun og pólitísk misnotkun á ferðinni. Það er snúið útúr Kóraninum og hann misnotaður gróflega til þess að réttlæta morð á saklausu fólki. Það þekkist víða í sögunni að snúið hefur verið útúr eða setningum kippt úr samhengi til þess að réttlæta grimmdarverk.
Mæli með því að fólk lesi bók Magnúsar Þorkells Bernharðssonar "Píslarvottar nútímans" til þess að glöggva sig á sögu Islam, og ekki síður sögu Íraks og Írans. Í þeirri bók færiri hann góð rök fyrir því að píslarvættisdauði hafi verið stofnanvæddur í stríðinu milli Írans og Íraks (þar sem Bandaríkjamenn studdu Íraka heilshugar og töldu sig eiga góðan bandamann í Saddam Hussein)
Al-Qaeda hefur náð fyrri styrk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Innrás bandaríkjamanna í Írak var á þeim rökum reist, að í Írak væru framleidd efnavopn, ,án þess að það væri beint sannað. Nema með því að Írakski herinn beitti efnavopnum gegn Kúrdum á sínum tíma, og ljóst að Írakski herinn bjó a.m.k. yfir þeim vopnum sem notuð voru þá. Erfitt var að vita hvað þeir hefðu þróað frá því þá, eða hvað herinn ætti, af efnavopnum.
Í kjölfar árasanna á NY 2001, réðust aljóðahersveitir inn í Afghanistan og mættu þar heiftúðugri mótspyrnu ofsatrúarliðs. Í ljósi þessarar reynslu, og grunsemda um að leiðtogarnir væru flúnir til Íraks, hafa bandaríkjamenn líklega talið að ekki væru efni til þess, að láta Saddam Hussein njóta vafans, um hvort Írak framleiddi virk efnavopn, eða ekki. Því ef svo væri, hefði það bara verið tímaspursmál, hvenær Al Quida menn kæmust yfir þau til þess að nota í Bandaríkunum. Með efnavopnum má deyða gríðarlegan fjölda fólks með einföldum hætti.
Það er ljóst að Írakar, eða Sadddam Hussein, létu á laumulegan hátt í veðri vaka að þeir ættu þróuð efnavopn, sem reyndist svo rangt. Framkoma þeirra við eftirlitssveitir UN skaut stoðum undir þá kenningu að þeir ættu efnavopn sem þeir væru að reyna að fela. Þeir hafa e.t.v. talið þetta gefa fælingarmátt, en það snerist upp í andstæðu sína.
Þótt Al Quida hafi náð fyrri mætti, að því talið er, þá er munurinn sá, að vesturveldin eru nú viðbúin. Verði Al-Quida ágengt, að fremja hryðjuverk á vesturlöndum, mun stuðningi við stríðsrekstur í mið austurlöndum vaxa fiskur um hrygg, og auknar fjárveitingar munu fást víðsvegar að, til þess að ganga þeim milli bols og höfuðs. Það er e.t.v. tilgangur þessarar fréttatilkynningar, um styrk Al-Quida.
Hræðsla, er öflugt stjórnunartæki, og vopnaframleiðendur eru ríkir, vel tengdir, og voldugir.
Njörður Lárusson, 12.7.2007 kl. 01:37
Njörður: Ég held að það sé sama hversu vel menn telja sig undirbúna, þá er nánast ógjörningur að verjast hryðjuverkum algjörlega. Þar beita menn öllum meðulum, markmiðin eru að valda sem mestri ringulreið og usla með öllum tiltækum ráðum.
Ég deili vissulega áhyggjum margra yfir ástandi mála í Íran. Afskipti Bandaríkjamanna (og vesturvelda yfir höfuð) gera ekkert annað en að hella olíu á þá elda sem þar loga. Vesturlönd eru ekki góðu gæjarnir á þessum slóðum, sama hvernig menn reyna að sannfæra fólk á þessum stöðum. Sagan segir þeim líka að vesturveldum er ekki treystandi. Saga þessara landa hófst ekki í gær, og söguskilningurinn nær mun lengra aftur en 50 ár, eða jafnvel 100 ár, og manni finnst stundum sem leiðtogar þeirra ríkja sem mest hafa haft mest afskipti af arabalöndunum ættu e.t.v. að taka eins og einn kúrs í sögu mið-austurlanda.
Guðmundur Örn Jónsson, 12.7.2007 kl. 11:41
Góð og yfirveguð færsla.
Það er vandratað í þessum frumskógi og erfitt að stíga niður án þess að troða á einhverjum kaunum.
Ég spyr mig oft hvaða hlutverki ætli yfirráðin yfir olíunni spili í þessu stríði? Bin Ladin er jú fæddur inní olíumafíuna. Hinsvegar hefur honum tekist að snúa þessu uppí trúarbragðastríð og það (að ég tel) þökk sé flausturskenndum viðbrögðum vesturlanda.
Það sem gerir heimsyfirráða stefnu Islam hættulegri en heimsbyltingu kommúnista (að ég held) er að kommúnistar voru trúlausir (a.m.k. að nafninu til) og því var jarðlífið þeim kært þ.e. þeir væntu sér engra verðlauna í framhaldlífinu. Öfgamenn Islam geta hinsvegar ekki beðið eftir að komast "heim" í Paradís.
Ásgeir Rúnar Helgason, 12.7.2007 kl. 16:30
Það er nokkuð til í þessari samlíkingu á hryðjuverkamönnum sem kenna sig við islam og kommúnistunum hins vegar. Reyndar voru þeir sem héldu um stjórnataumana í kommúnistaríkjunum margir hverjir hrein og klár illmenni sem víluðu ekki fyrir sér að stráfella alla þá sem hugsuðu ekki innan "kassans".
Dr. Gunnar Kristjánsson prestur á Reynivöllum lærði í A-Þýskalandi á sínum tíma og það sem honum fannst óhuggulegast var að engum var hægt að treysta, fjölskyldumeðlimir njósnuðu um hvern annan og framseldu í hendur alræðisvaldhafanna.
Bin Laden spilaði inná grunntóninn hjá aröbum með því að benda á að vesturveldin væru að vanhelga alla hina heilögu staði með veru sinni t.d. í Sádí-Arabíu. Ég hins vegar hef alltaf efast um heiðarleika hans í trúnni, og mér er nær að halda að hann hafi verið gjörsamlega snar geðveikur. Hans helsta markmið var að drepa, drepa og drepa. Enda hafa múslimar almennt hreinustu skömm á aðgerðum hans. Hins vegar hefur málstaður hans orðið "sympatískari" eftir því sem tíminn hefur liðið og eftir því sem vesturlönd drepa fleiri saklausa borgara í Afganistan og Írak.
Guðmundur Örn Jónsson, 12.7.2007 kl. 22:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.