Enn af prestastefnu
15.5.2007 | 14:39
Í Mogganum í gær birtist hin ágætasta grein eftir sr. Jón Helga Þórarinsson, sóknarprest í Langholtskirkju. Þar fjallar hann um heitasta málið á prestastefnu 2007, og raunar eitt heitasta málið innan kirkjunnar í dag. Mig langar aðeins að grípa niður í grein Jóns Helga:
Hjónaband eða staðfest samvist?
Á prestastefnunni var hins vegar felld tillaga sem um 40 prestar og guðfræðingar lögðu fram þess efnis að Alþingi heimili prestum og forstöðumönnum trúfélaga að gefa samkynhneigð pör saman í hjónaband. Þeir sem lögðu þessa tillögu fram hafa komist að þeirri niðurstöðu að hugtakið hjónaband skuli ekki aðeins ná yfir hjúskap karls og konu heldur einnig yfir hjúskap samkynhneigðra sem nú ber heitið staðfest samvist.
Þó svo að sumum finnist þetta næsta lítið mál þá kallar þessi umræða á margvíslegar vangaveltur um inntak hjónabandsins. Sú umræða á sér stað um þessar mundir en henni er þó hvergi nærri lokið og gögn um málið eru takmörkuð að mínu mati. Málið þarf að vinna betur og með svipuðum hætti og unnið hefur verið með biblíuskilning og túlkun ýmissa ritningartexta er snerta þetta málefni. Því taldi ég framlagningu þessarar tillögu til atkvæðagreiðslu ekki tímabæra og vildi að hún yrði send biskupi og kenningarnefnd sem yfirlýsing ofangreindra presta með þeirri ósk að tillit yrði tekið til þeirra sjónarmiða þegar kenningarnefnd býr málið í hendur kirkjuþings í haust. Þetta töldu ýmsir flutningsmanna ekki ásættanlegt og því fór sem fór og þykir mér mjög miður að greiða hafi þurft atkvæði um svo veigamikið mál sem að mínu mati hefur alls ekki hlotið næga umfjöllun innan kirkjunnar.
Þetta er góð og raunsönn grein eftir Jón Helga. Hann setur málið upp eins og það blasir við án allra upphrópana eða skammaryrða, sem er auðvitað mjög mikilvægt fyrir málið í heild sinni.
P.S. Myndin er tekin af mér og spúsu minni á prestastefnunni
Athugasemdir
Var engin mynd tekin af mér þarna á stefnunni???
Ólafur Jóhann Borgþórsson, 16.5.2007 kl. 23:36
Það voru teknir heilu bílfarmarnir af myndum af þér, ég held samt að þér þætti betra að sjá þær fyrst áður en þær verða settar fyrir almenningssjónir
Guðmundur Örn Jónsson, 17.5.2007 kl. 13:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.