Óska eftir pólitískri framtíðarsýn!
9.5.2007 | 12:33
Það sem hefur vantað inní kosningabaráttuna er heildstæð stefna um framtíð landsins og umræður um það hvernig stjórnmálamenn vilja sjá samfélagið þróast. Ég er orðinn ansi þreyttur á öllum slagorðunum, upphrópunum og klisjum sem enga merkingu hafa. Hvaða heildstæða stefna er það sem flokkar boða með því að yfirbjóða hverja aðra í loforðaflaumi? Það er segin saga þegar pólitíkusar "ræða saman" þá falla menn strax oní þann pytt að níða skóinn á hverjum öðrum. - Steingrímur J. var á móti lögleiðingu bjórs og þess vegna á hann enn að vera á móti bjór! Hvers lags málflutningur er þetta? Bjór er leyfður á Íslandi í dag.
Ég sakna umræðunnar sem ætti að eiga sér stað. Ég sakna þess að ekki er rætt um eftirlaun þingmanna, sem þeir skömmtuðu sér svo ríflega, og hétu því að þessum lögum yrði breytt. Þessi ákvörðun snertir heildstæða stefnu fólks um réttlæti í samfélaginu. Viljum við að fólk njóti jafnræðis, viljum réttlæti? Eða viljum við að þeir sem það geta ryðjist fram fyrir í röðinni? Líklega verður þetta mál eða viðlíka mál ekki rædd, enda tóku allir flokkar þátt í þessum gjörningi, þó sumir hafi bakkað út þegar í ljós kom að almenningi blöskraði.
Hver er framtíðarsýn pólitíkusa? Er hún einhver? Eða vilja menn ekki ræða hana vegna þess að klisjur og upphrópanir virka betur í kosningabaráttu, ásamt löngum loforðalistum?
Athugasemdir
Heill og sæll. Datt hér inn og líkaði lesturinn. Sammála því að eitthvað vantar uppá skýra sýn. Þó sýnu mest hjá stjórnarflokkunum, þeir kunna listina "að fara undan í flæmingi" Ég hef, eins og þú verið að rifja upp "gamlar syndir" og hérna er hjá þér viðbót, og spyrja má að því, sem miður fór , ekki síður en það sem var gott. Sem betur fer á það eingöngu við í pólitíkinni, reyni yfirleitt að horfa á góðu hliðarnar á sem flestum sviðum lífsins.
Bestu kveðjur
Bára
Báran, 9.5.2007 kl. 12:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.