Færsluflokkur: Enski boltinn
Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga
24.8.2007 | 16:37
Það er vonandi að þessi viðskipti nái fram að ganga. Hver veit nema QPR verði næsta stórveldi í enska boltanum. Það hljómar ljúft í eyrum að heyra þulina tala um "meistaraheppni" eða "það er stórmeistara bragur á QPR núna". Ég sé það alveg fyrir mér þegar bikarinn kemur heim á Loftust Road og ungt fólk flykkist í aðdáendahópinn. Já stórveldistíminn er framundan, það er engin spurning.
Nema að Loftus Road verði breytt í æfingasvæði fyrir formúlubíla. Allt getur gerst.
Liðsstjóri Renault íhugar kauptilboð í QPR | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvar eru fréttir úr 1. deild á Syn2?
14.8.2007 | 12:10
Ég er einn af þeim sem keypti mér áskrift af Syn2. Það sem ég var ákaflega spenntur fyrir var að fá fréttir úr ensku 1. deildinni með í þessum pakka. Auðvitað hef ég gaman af ensku úrvalsdeildinni og á þar mitt uppáhaldslið, Newcastle, en mitt enska fótboltahjarta slær samt í London hjá QPR. Þess vegna sakna ég þess að enn hafi ekki verið gerð góð grein fyrir 1. deildinni á Syn2 og kalla hér með eftir aukinni umfjöllun eins og lofað var.
Stóru tíðindin úr 1. deildinni eru að QPR gerði jafntefli í sínum fyrsta leik við Bristol City á útivelli. En mér sýnist að það geti orðið spennandi að fylgjast með Coventry og Ipswich, en bæði lið unnu stórt í fyrstu umferð. Niðurlægingaskeið Southampton virðist ætla að halda áfram, miðað við stórtap á heimavelli.
Ef ég horfi alveg raunhæft á stöðuna þá sýnist mér sem svo að mínir menn muni ekki komast upp á meðal þeirra bestu að þessu sinni, enda verða þeir einfaldlega að hafa breiðari og betri hóp til þess að ætla sér einhverjar rósir í þeim málum. Ég vonast samt til þess að þeir lendi ofan við miðju.
Kokkurinn seldur
19.7.2007 | 22:22
Þetta þykja mér slæmar fréttir. Það er vont þegar einn aðalleikmaður minna manna er seldur. Cook hefur verið einn af fáu ljósu punktunum í slöku (í besta falli miðlungs) liði QPR. En það er eins og ævinlega, mitt félag í enska er eins og útungunarstöð fyrir stærri klúbbana. En ég hélt nú einhvernvegin í þá von að Cook myndi vera a.m.k. eitt tímabil í viðbót og hjálpa til við að gera atlögu að sæti í úrvalsdeildinni.
Spurning hvort maður fari ekki að taka fram takkaskóna aftur.
Cook í raðir Fulham | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Já nú er gaman!
21.4.2007 | 22:51
Stóru tíðindi dagsins eru þau að Q.P.R. tryggði sæti sitt í ensku 1. deildinni. Leeds tapaði og þar með er sæti minna manna öruggt. Eins og staðan er þá eru þeir í 18. sæti, sem er nú reyndar ekki sérlega glæsilegur árangur, en þó betri árangur en hjá þeim sem falla. Bendi á þessa slóð, þar er hægt að raula Q.P.R. slagara (þeir eru margir slagararnir sem eru klárlega bannaðir innan 18, eins og þessi hér) Gaman að sjá hversu mikill kærleikur er milli minna manna og Chelsea.
Já nú er gaman að vera Q.P.R.-maður, þó ég hafi reyndar sagt annað um daginn. Ég held að fyrir næsta tímabil ættu mínir menn að leyta hófanna á Íslandi varðandi fjármagn til leikmannakaupa. Það er víst ábyggilegt að nóg er til af fjársterkum aðilum sem vilja styðja við bakið á jafn merkilegu liði og Q.P.R. Ég var til að mynda á bílasýningu Toyota hér í Eyjum í dag, þar var skrifað undir samstarfssamning á milli Toyota og ÍBV og Maggi Kristins klæddist að sjálfsögðu íþróttatreyju með númerinu 44. Frábært framtak hjá Magga, hann er trúr sínum uppruna og óþreytandi að styðja við bakið á góðum málum hér í Eyjum sem annars staðar.
Það er spurning hvort ég læði ekki þeirri hugmynd að Magga að Q.P.R. vanti góðan bakhjarl í framtíðinni (það er a.m.k. mun betri kostur en Stoke)
Ég spái því að Q.P.R. bjargi sér frá falli (vonandi, kannski...)
16.4.2007 | 21:11
Mínir menn virðast ætla að bjarga sér frá falli, þrátt fyrir tap gegn Sunderland í síðasta leik. 3 sigrar það sem af er apríl mánuði er jöfnun á besta "runni" tímabilsins frá því í nóvember, þá unnu þeir 3 leiki af 5 og töpuðu tveim.
Það eru þrír leikir eftir á tímabilinu hjá mínum mönnum: Cardiff heima, Úlfarnir úti og Stoke heima. Þeir ættu að geta unnið Cardiff og Stoke og hefnt þar með taps í fyrri leiknum. En ég er hræddur um að Úlfarnir taki þá í kennslustund. Ef þessi spá mín gengur eftir, sem byggist reyndar byggist meira á óskhyggju en nokkru öðru, þá eru þeir pottþéttir með sæti sitt í deildinni.
Annars varð ég fyrir áfalli í dag þegar dóttir mín, sem ég hef reynt að ala upp í Guðs ótta og góðum siðum, sagði mér að Q.P.R. væru ekki bestir, þeir væru alltaf síðastir, og framvegis myndi hún halda með Man.utd. en til var hefur hún Liverpool. Já svo bregðast krosstré sem önnur tré. Ég skrifa þetta reyndar á hópþrýsting úr leikskólanum og frá Eyjamönnum almennt. Hvar er samstaðan með fjölskylduföðurnum? Samúðin með þeim sem minna mega sín í heimi fótboltans?
Já það er sem ég segi það er erfitt að vera stuðningsmaður Q.P.R. í Eyjum. En bráðum kemur betri tíð með blóm í haga og sætum sigrum á sparkvöllum Bretlands (vonandi). Það er að verða ansi þreytandi að ylja sér við sjóð gamalla minninga og fornrar frægðar.
Að duga eða drepast fyrir Q.P.R.
19.3.2007 | 13:58
Nú fer baráttan hjá mínum mönnum í Q.P.R. heldur að harðna. Ef þeir ætla að forðast fall þurfa þeir heldur betur að fara að spýta í lófana.
Þeir unnu góðan sigur á Leicester í fyrradag á útivelli. Ég var nú reyndar hálfsmeykur um þeir myndu renna á rassinn í eitt skelfilega skiptið enn.
Það var lánsmaðurinn, og jafnaldri minn, Idakez sem kom mínum mönnum á bragðið, en hann er nýkominn að láni frá Southampton. Þetta er greinilega lán sem er að bera árangur.
En síðan var síðan daninn knái Nygaard sem bætti við tveimur mörkum og innsiglaði góðan útisigur.
Það er óhætt að segja að mínir menn hafa mátt muna sinn fífil fegurri, það er ekki svo ýkja langt síðan þeir voru í efstu deild og stóðu sig með hreinum ágætum. Upphafi að niðulægingatímabilinu má rekja til þess þegar sir Les Ferdinand flutti sig um set til Newcastle árið 1995, þar sem hann stóð sig frábærlega, eins hans var von og vísa. Þegar Ferdinand fór þá vantaði annan markahrók, hann hafði fram að því skorað helming allra marka Q.P.R., en það kom enginn í staðinn og við tók frjálst fall niður um tvær deildir.
Það er vonandi að niðulægingartímabili Q.P.R. fari að ljúka og þeir fari að leika meðal þeirra bestu, reyndar þarf ansi margt að breytast svo af því geti orðið. T.d. þurfa þeir að fara að spila fótbolta og hætta þessu eilífa "kick and run" stíl sem einkennir þá nú um þessar mundir.