Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
Sigurlaug Njálsdóttir f. 4.12.1924. d. 11.3.2008
25.3.2008 | 12:33
Þann 11. mars sl. dó amma mín sem ég kallaði alltaf ömmu á Þingvöllum. Útför hennar fór fram í Akureyrarkirkju 19. mars, þar sem ég og sr. Svavar Akureyrarkirkjuklerkur skiptum með okkur verkum í athöfninni.
Í gegnum hugann fljóta ýmsar minningar um konu sem var um margt merkileg kona, sem oftar en ekki mátti hafa meira fyrir lífinu en margur annar.Hún missti móður úr berklum ári eftir að hún fæddist og var í framhaldi komið í fóstur. Alla sína æsku, og raunar alla ævi saknaði hún þess mikið að hafa ekki fengið að kynnast mömmu sinni og það markaði hana mjög.
Lífið lengi framan af ævi hennar var allnokkrum þyrnum stráð. Æskan var henni erfið og einkenndist af eilífu basli og þónokkurri hörku.
Hún minntist t.d. fermingardagsins með nokkurri beiskju. Hún var send ein í kirkjuna ásamt yngri uppeldisbróður, sem einnig hafði verið tekinn í fóstur, og þegar heim var komið úr kirkju tók hún aftur til við að vinna á heimilinu, engin veisla, engar gjafir, enginn dagamunur.
En sárasti dagur sem hún upplifði var líklega síðasti skóladagurinn hennar, því hún vissi að ekki yrði um frekari menntun að ræða á lífsleiðinni, þó hún þráði ekkert heitara en að leggja útá menntaveginn. Hún gekk grátandi heim úr skólanum og horfði á eftir mörgum skólasystkyna sinna halda í gagnfræðiskóla, sem þótti bara allnokkuð á þeim árum.
Hún kynntist afa mínum á Akureyri sem hafði ekki ósvipaðan bakgrunn og hún, kom úr fjölskyldu sem hafði verið skipt upp vegna fátæktar og var í vinnumennsku víða. Á sokkabandsárum þeirra var hann vinnumaður á Setbergi, sem var bær ekki langt frá Þingvöllum þar sem amma ólst upp.
Þau giftu sig í framhaldinu og byggðu sér hús í Grænumýri á Akureyri, en þaðan fluttu þau tveimur árum síðar uppí Þingvelli, þar sem þau innréttuðu gamla fjósið sem íbúð. Það er óhætt að segja að það hafi verið þröngt í búi hjá þeim lengi framan af, og stundum þurfti að treysta á góðvild Ingva í Hafnarbúðinni með aðföng, sem síðan var endurgreitt við fyrsta tækifæri.
Ef til vill má segja að kreppan hafi varað lengur hjá afa og ömmu en mörgum öðrum, og þau fóru ekki að horfa á bjartari tíð fyrr en langt var liðið á 7. áratuginn.
Á Þingvöllum var sannkallaður sælureitur, bóndabær í miðju Akureyrar. Þetta var nokkurskonar draumveröld, þar sem tíminn hægði á sér og gott var að koma. Á fáum stöðum hefur mér liðið betur en árin sem ég bjó á Þingvöllum eftir að við amma höfðum vistaskipti.
Ég geri mér grein fyrir því í dag að afi og amma voru ekki vel stæð í fjárhagslegum og veraldlegum skilningi, en samt upplifði ég þau alltaf sem ríkt fólk þegar ég var lítill. Það var allt svo snyrtilegt og fínt hjá þeim og vel hugsað um alla hluti. Þau voru líklega eitthvert það nægjusamasta fólk sem ég hef kynnst, enda sagði amma alltaf þegar hún komst á eftirlaun að hún hefði nú bara aldrei haft annað eins af fjármunum á milli handanna.
Erfiðleikar framan af ævinni mótuðu ömmu svo sannarlega, hún var oft á tíðum bitur útí fortíðina og átti erfitt með að vinna sig útúr henni. Þess vegna gat hún oft virkað hvöss og var það vissulega stundum. En það var alltaf hægt að eiga góðar stundir með henni, hún hafði áhuga á fólki og líðandi stund og vildi m.a. ræða þær framkvæmdir sem framundan eru á Akureyri, skipulag byggðar og þessháttar, alveg frammí andlátið.
Hún amma var stolt af afkomendum sínum, sama á hverju gekk. Hún hafði t.d. alltaf trú á því að eitthvað myndi verða úr mér þó lífernið lengi vel hafi ekki gefið fyrirheit um það.
Þegar afi dó árið 1991 má segja að nokkuð af lífsneistanum hafi dofnað, og hún saknaði hans mikið og við ræddum oft saman um árin þeirra saman, erfiðleika og gleðistundir. En mesta áfallið og stærsta sorgin var þegar frumburðinn, hann Siddi, dó árið 1997. Hún gat aldrei sætt sig við að lifa son sinn, enda snýr veröldin auðvitað öll á haus þegar foreldrar lifa börn sín. Sonur Sidda, Sigurður Freyr, flutti til ömmu og það er óhætt að fullyrða að það hafi verið henni mjög dýrmætt að hafa hann á heimilinu, ekki síður en honum.
Vissulega er söknuðurinn sár nú þegar hún amma er dáin, en hann verður manni auðvitað ekki eins erfiður í ljósi þess að hún var svo sannarlega sátt við að kveðja, og reyndar fyrir allnokkru. Hún var ekki í nokkrum vafa um að afi og Siddi myndu taka á móti sér þegar hún kæmist yfir móðuna miklu, og þá loks fengi hún að hitta mömmu sína.
Í síðustu heimsókn minni til ömmu fylgdi hún Mía mér norður og sýndi henni allar fimleikakúnstirnar sínar uppá sjúkrahúsi við mikinn fögnuð og gleði. Þar bað hún mig um að taka með hempuna næst þegar ég kæmi, því ég þyrfti áreiðanlega að kasta rekum yfir hana. Hún vissi auðvitað að hverju stefndi og var sátt við að endalokin hérna megin grafar nálguðust. Það var mér að sjálfsögðu ljúft og skylt að verða við þessum óskum hennar ömmu.
Myndir úr brúðkaupsveislu
14.1.2008 | 23:03
Allnokkrir hafa komið að máli við mig og haft orð á því að engar myndir úr brúðkaupinu okkar Gíslínu hafi birst á blogginu. Hér verður bætt úr því.
Við Mía sungum bæði í brúðkaupsveislunni. Hljóðin sem komu frá brúðgumanum voru ekki alveg jafn hugljúfir og hjá dótturinni, svo vægt sé til orða tekið:
Gifting og þríburaskírn
1.1.2008 | 15:48
Gleðilegt nýtt ár, langaði að taka aðeins fyrir atburð í desembermánuði.
15. desember síðastliðinn annaðist ég hjónavígslu og skírði þríbura. Hjónin eru Hilmar, elsti og besti vinur minn, og Thelma, frænka hennar Gíslínu. Þau eru bændur í Leyningi inní Eyjafirði.
Um tíma virtist þetta ekki ætla að ganga eftir. Gíslína ætlaði uppá land á fimmtudegi, með seinna flugi, en því var aflýst vegna veðurs. Ég ætlaði uppá land með Herjólfi á föstudagsmorgni, en báðar ferðir Herjólfs féllu niður þann daginn og allt flug auðvitað líka. Við komumst loks með flugi til R-víkur á laugardagsmorgni, en þá var seinkun á fluginu okkar norður um rúma tvo tíma. Hlynur mágur kom okkur í annað flug, þannig að við komumst norður og keyrðum í botni inní Leyning (með viðkomu í Jólahúsinu í Vín, því ég gleymdi skírnarkertum í asanum).
Gifting og skírn gekk að óskum og sem betur fer var seinkun á flugi suður, þannig að við gátum notið smástundar með góðum vinum áður en við fórum suður í fertugsafmæli til Gunnu mágkonu (hennar Gíslínu).
Þríburarnir heita: Berglind Eva, Dagbjört Lilja og Kristján Sigurpáll.
***
Núna í dag var hátíðarmessa hér í Landakirkju. Ég hafði samband við Óla Jóagóðan félaga og vin sem er prestur í Seljakirkju (og vestmannaeyingur í húð og hár) og fékk hann til að prédika í messunni. Þetta er sami háttur og við höfðum á í fyrra í messu á nýársdegi, spurning um að skapa hefð. Óli stóð sig að sjálfsögðu með prýði, eins og hans er von og vísa, og kirkjugestir voru ánægðir með að fá að heyra í honum í stólnum.
Vinir og fjölskylda | Breytt 26.1.2008 kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)