Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Dagbókarlestur

Hef eytt ansi miklum tíma í dagbækur Matthíasar fyrrverandi Moggaritstjóra.  Þetta er alveg hreint mögnuð lesning á köflum, og stundum nánast eins og reifari.

Gaman að lesa um samskipti stjórnmálamanna við ritstjórann, sem hefur klárlega verið skriftafðir ansi margra í gegnum tíðina. 

Það er ekki síður gaman að lesa sögur af gengnum snillingum eins og Laxness, Kjarval, Bjarna Ben og fl.  Og svo er auðvitað svolítið krassandi að lesa um það hvernig "félagar" og "vinir" hafa talað um "félaga" sína og "vini" við Matthías.

Matthías er greinilega þannig gerður að um leið og menn sjá hann og hitta þá taka þeir til við að segja allt af létta, koma jafnvel með algjör "topp secret" skjöl og upplýsingar til þess að sýna honum og leita ráða um hvað gera eigi með.  Hæfileki sem margir vildu sjálfsagt búa yfir.

http://www.matthias.is/


Go you 'Rs

Nú getur maður aðeins sest niður eftir nokkuð annasaman tíma.  Þjóðhátíð með öllu tilheyrandi, var reyndar á vaktinni föstudag og sunnudag, en sleppti fram af mér beislinu á laugardag.  Svo voru tvær útfarir í gær og ein skírn og kistulagning og skírn daginn þar áður, og svo messa í dag. 

QPR_CrestÞað er annars sorglegt að sjá hversu litla umfjöllun fyrsta umferð 1. deildarinnar ensku hafa fengið í netmiðlum.

Ég átti satt best að segja von á því að allt myndi keyra um koll eftir glæsilegan sigur minna manna í fyrsta leik sínum.Wink  Þeir lentu að vísu undir strax í upphafi leiks, en svo komu tvö mörk á tveimur mínútum sem dugðu til sigurs.

Það er ljóst að ég er bjartsýnn á gengi minna mann fyrir þetta tímabil og á ekki von á öðru en að við spilum í úrvalsdeildinni að ári,- þetta er nú reyndar frómt frá sagt alltaf hugarfarið fyrir hvert tímabil, sem hefur síðan tilhneigingu til þess að enda með brotlendingu og alltof oft hafa þeir sloppið með skrekkinn við fall.

En NÚNA er ég alveg sérstaklega bjartsýnn.


Hugvekja á Þjóhátíð

Setning ÞjóhátíðarÁgætu Þjóðhátíðargestir.  Til hamingju með daginn og dagana sem framundan eru.  Það er auðvitað von mín og trú að hér muni allt ganga vel og að við eigum hér ánægjulegar stundir, þar sem gömul tryggðarbönd munu halda og ný jafnframt bundin.

Í aðdraganda þessarar Þjóðhátíðar hefur nýtt lag með háðfuglunum úr Baggalúti verið nokkuð til umræðu og óhætt að segja að sitt sýnist hverjum í þeim efnum.

Mörgum hefur þótt vegið að Þjóðhátíð hér í Eyjum með texta Baggalúta, en hann er jú vissulega á köflum á mörkunum eins og maður myndi segja.  Lýsingin á ástandinu er óneitanlega nokkuð döpur, svo ekki sé meira sagt.

Þessi texti gefur okkur þó færi á að velta skemmtanahaldi yfir Þjóðhátíð fyrir okkur, og ætti auðvitað að þjappa fólki saman um að hafa gaman í jákvæðasta skilningi þess orðs.  Nú kann auðvitað einhver að spyrja: “Hvenær er gaman á neikvæðan hátt?”  Jú við þekkjum þær sögur, og ef til vill hafa einhverjir sjálfir reynslu af því, að hafa svo gaman að maður muni ekki neitt.  Þá fyrst fernú gamanið farið að kárna.

Það sem ég á við er að við tökum höndum saman um að samþykkja ekki neikvætt gaman, að samþykkja hvorki ofbeldi eða aðra vitleysu, gagnvar náunga okkar.  Heimamenn hér í Eyjum gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að Þjóðhátíðin geti farið vel fram, og gestir eru boðnir velkomnir og upplagið allt fyrir Þjóðhátíð er með svo jákvæðum hætti að það væri sorglegt ef fáeinir svartir sauðir eyðilegðu gleðina og ánægjuna fyrir öllum öðrum.

Ég upplifði mína fyrstu Þjóðhátíð í Eyjum síðasta sumar, og verð að segja alveg eins og er að ég bjóst eiginlega við því að hér væri um hefðbundna útihátíð að ræða.  En svo áttar maður sig á því að hér er eitthvað allt annað á ferðinni.  Þetta er eitthvað meira, merkilegra, betra.  Það er eitthvað svo stórkostlegt að sjá Vestmannaeyinga hreinlega flytja inní Herjólfsdal yfir þessa daga. Borð, stólar, myndir og bakkelsi eru flutt í hvítu tjöldin, og maður finnur svo vel hversu velkomnir allir eru, og hversu mikil hátíð fer í hönd.  

Þjóðhátíð er auðvitað fyrst og fremst veisla bæði fyrir líkama og anda.  Og veislur eru eitthvað sem Jesús kunni svo sannarlega að meta, að fólk hittist og hefði gaman.  Hann var meira að segja sjálfur útlistaður sem mathákur og nánast veislusjúkur af andstæðingum sínum.  Já Jesús sótti veislur og samkvæmi og hélt þar margar ræður.  En það voru auðvitað engar skálræður eða athyglissjúkar ég-um-mig-frá-mér-til-mín-snakkræður, heldur djúpvitrar mannlífsgreiningar og tilvistarhugleiðingar.

Veislur og gleði eru vissulega mikilvægur þáttur í lífi okkar.  Við höfum flest tekið þátt í miklum veislum, sumir oftar en aðrir.  Og þegar við höldum á vit bestu minninganna úr uppvextinum eða hugsum um fjölskyldur sem dafna, þá er tengingin svo oft við veislur og gleði.  Þá er lífið farsælt og sáttin ríkir þegar við borðum saman.

Þannig er það einmitt á Þjóðhátíð og þannig á það líka að vera, að við efnum til veislu af því okkur langar til að gleðjast með hvort öðru.  Það er slíkt samfélag sem okkur öllum er ætlað að vera í heiminum.  Það er nefnilega staðreynd að Kristin trú er átrúnaður borðsins, ekki síður en orðsins.

Það er einlæg von mín að við göngum til þessarar miklu hátíðar með gleði í hjörtum og sól í sinni og að á þessari Þjóhátíð megi “elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.” eins og segir í 85. Davíðssálmi.

Þá kem ég aftur að upphafinu, þ.e. hinum umdeilda texta baggalútsmanna og spurningin er auðvitað sú hvort við tökum texta þeirra sem djúpvitran vitnisburð um mannlífsgreiningu hér á Þjóðhátíð í Eyjum.
Við skulum a.m.k. ekki láta hann verða það. 

Við leggjum þessa Þjóðhátíð í hendur Drottins og biðjum þess að allt fari hér á besta veg. Og að við getum saman verið stolt af því að vera þátttakendur á Þjóðhátíð. 

Fögnum og verum glöð, en minnumst þess jafnan að við sem erum eldri, erum að sjálfsögðu fyrirmyndir yngra fólksins, og þannig tökum við öll þátt í því að móta og skapa þá stemmingu sem við viljum að ríki.  Í sönnum veislu og gleðianda Jesú Krists, þar sem allir gleðjast saman og hjálpast að við að gera þessa Þjóðhátíð að góðum minningarfjársjóði sem leita má í þegar fram líða stundir. Og hjálpast auðvitað að við að gera lífið yndislegt.
Amen.

Myndina tók Óskar Pétur Friðriksson við setningarathöfnina. 
Fleiri myndir frá Þjóðhátíðinni má sjá á síðunum: 
http://eyjar.net/ 
http://www.sudurlandid.is/Eyjafrettir/


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband