Botnlaus virðing fyrir sjómönnum

Í gær fór ég á fína tónleika hér í Eyjum, þessir tónleikar voru haldnir til minningar um þá Eyjamenn sem farist hafa á sjó og hrapað frá árunum 1977 - 1988.  Þarna komu fram margt fínt tónlistarfólk og höfðum við Gíslína mjög gaman af.  Inná milli atriða voru nöfn þeirra sem farist hafa lesin upp, og farið aðeins yfir hvert sjóslys fyrir sig.  Auk þess var myndum af sjómannslífi varpað upp á vegg og myndum af þeim sem farist hafa.

Kveikjan að þessum tónleikum var Helliseyjarslysiðárið 1984, en þá fórst Hellisey VE 503 þann 11. mars c.a. 5 km. fyrir austan stórhöfða. Með Hellisey fórust fjórir á aldrinum 19-20 ára.  Einn komst lífs af og synti í land alla þessa leið í svarta myrkri.

Þetta var áhrifamikil stund og góð.  Sjóskaðar snerta alla hér í Eyjum á einn eða annan hátt, og það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir marga þegar þessir atburðir voru rifjaðir upp á svona samkomu, en þetta var allt vel gert og hlutirnir sagðir eins og þeir voru.

Kynnir kvöldsins, Páll Scheving, sá einnig um að telja upp þá sem látist hafa og rifjaðu oft upp sögur um hinn látna.  Marga þeirra hafði hann þekkt, a.m.k. kannast við.

Virðing mín fyrir störfum sjómanna minnkaði ekki eftir gærkvöldið, það er alveg ljóst.  Það er ekki hægt annað en að bera botnlausa virðingu fyrir þessum mönnum.  Starf þeirra hefur oft á tíðum verið sveipað ákveðinni rómantík í lögum, þar sem sjómannslífið er bara hopp og hí og trallallalla.  Svo er maður viðstaddur svona atburð eins og gær, þar sem farið er yfir málin af yfirvegun og alvöru og maður lýtur í kringum sig og áttar sig á því að allsstaðar í kringum mann eru félagar þeirra sem höfðu farist.  Maður áttar sig á alvöru málsins.  Stundum er sjómennskan uppá líf og dauða, því þó bátarnir stækki og verði fullkomnari, þá eru náttúruöflin söm við sig.  Þetta er staðreynd sem sjómenn eru mjög meðvitaðir um, enda hafa þeir reynt ýmislegt á eigin skinni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband