Paradísarfuglar pólitíkur og tónlistar.

Skelltum okkur í helgarfrí í höfuðborgina um helgina.  Það er búið að vera hreint magnað að fylgjast með fréttum um helgina, þar sem allir saka alla um svik.

2judasÁ nokkrum stöðum sá maður að Sjallar hefðu átt svikin skilið, þar sem þeir fóru illa með Ólaf F. eftir síðustu kosningar.  Þessu hefur bæði áhugafólk um pólitík haldið fram og líka pólitíkusar.  Maður hlýtur að spyrja um siðferðisstandard hjá fólki sem heldur þessu fram. 
Hvernig getur ein hnífsstunga réttlætt aðra?
Af hverju eru Sjallar sárir, þegar þeir fóru svona með Ólaf F.?
Af hverju lætur Bingi eins og það sé í lagi að haga sér svona, finnst Sjallar höguðu sér svona?
Af hverju eru borgarfulltrúar Sjalla að jarma, ef þeir voru tilbúnir að láta Villa gossa?

Pólitíkin er undarlegt fyrirbæri.  Manni sýnist sem svo að fæstir í þessu máli hafi hreina samvisku.  Þetta er svolítið einsog börn í sandkassa.  Allir benda á næsta og segja "hann gerði svona líka, og þá má ég." 

"Svo skal böl bæta og bend'á eitthvað annað" sungu þeir Megas og Tolli forðum með Íkarus, og það á svo sannarlega vel við í þessu máli.

***************

Úr því að "skrifið" berst að Megasi, þá er auðvitað rétt að gera grein fyrir þessum prýðistónleikum sem við Gíslína (og Ólöf, systir mömmu, og Sveinbjörn, maðurinn hennar) fórum á um helgina í Laugardalshöll þar sem meistarinn var í fantaformi.

Þessir tónleikar voru stanslaus tveggja tíma keyrsla, þar sem allt það besta var borið fram.  Það var reyndar allnokkuð af fyrri plötu Megasar og Senuþjófanna. 

Það var með hreinum ólíkindum að verða vitni að því að Megas skyldi spila fyrir fulla höll (allt í sætum).  Meðalaldur gestanna var nokkuð fyrir ofan meðallag á popptónleikum, og ég sá meira að segja a.m.k. eitt sóknarbarn mitt þarna (Árni Johnsen var mættur og sat á besta stHold er moldað).

Það er erfitt að segja hvað stóð uppúr, en þarna var boðið uppá allnokkrar snilldar útsetningar af gömlum slögurum, einsog t.d. Orfeus og Evridís, Ég á mig sjálf, Tvær stjörnur.  Og svo auðvitað hefðbundnari útfærslur á lögum einsog Krókódílamanninum, Við sem heima sitjum, Ragnheiður biskupsdóttir, Gamla gasstöðin, Borðið þér orma, Spáðu í mig, Saga úr sveitinni, Paradísarfuglinn og fleira og fleira, ásamt nýrra efni sem hljómar ótrúlega vel á tónleikum.

Hljóðfæraleikur Senuþjófanna var alveg feikilega góður og þéttur og varla slegin feilnóta allt kvöldið. 

Ég fjárfesti síðan í nýju plötu Megasar og Senuþjófanna og er búinn að hlusta nokkuð á hana og það er óhætt að segja að hún lofi góði, enda er hér um rökrétt framhald af fyrri plötu að ræða.  Platan ber heitið Hold er mold og er koverið vægast sagt ögrandi þar sem þrjár íðilfagrar yngismeyjar sitja oná legsteini Jónasar Hallgrímsson, hvar undir eru meintar líkamsleifar þjóðskáldsins.  Það var snillingurinn Ragnar Kjartansson sem tók myndina sem prýðir koverið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Arnar Guðmundsson

já þetta með pólitíkina, hún er eins og hún er. En ég er bara þannig gerður að ég skil vel sárindi Sjallanna. Þau sögðu það skírum orðum á föstudaginn bæði Gísli Marteinn og konan sem ég man nú ekki hvað heitir að Björn Ingi væri heigull af því að hann vildi ekki fara eftir því sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði upp með. Hef ég einhvern tímann talað um hroka Sjallanna, ef ekki þá er þetta hroki og ekkert annað. Hitt má líka velta sér upp úr hvort Björn Ingi hafi komið heiðarlega fram í þessari atburðarás. Það veit ég ekkert um því mér sýnist þetta bara vera orð gegn orði hjá þessum blessuðum pólitíkusum.

Og svo er það meistari Megas. Gott að kallinn sé búinn að ná fyrri styrk í tónleikahaldi. Ég hef nefnilega upplifað Megas á trúbadorahátíðinni í Neskaupstað og þar var hann sér til skammar og kom fram útúr reyktur og gjörsamlega ótalandi. Reynar var hann svo lélegur að ég gafst upp á að hlusta á hann eftir 20 mín. tónleika sem var mikil synd því ég hlakkaði mikið til að heyra í honum svona live en því miður þá var hann ekki að virka hjá mér live. En mikið djöfull er hann samt góður og skemmtilegur laga smiður. Hann er kannski bara fínn þegar hann þarf bara að syngja en ef hann þarf líka að spila þá fer allt til fjandans hjá honum. Fyrirgefðu orðbragðið hjá mér séra minn.

Guðmundur Arnar Guðmundsson, 15.10.2007 kl. 14:08

2 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Pólitíkin er ótrúleg og ef til vill mætti segja að þar hæfði skel kjaft í svo mörgum tilfellum.

Það er nú enginn smáræðis styrkur sem meistari Megas hefur náð.  Ég held að allir þeir sem sótt hafa tónleka með meistaranum hafi einhverntíman lent á "formlausum" tónleikum hjá honum, þ.e.a.s. tónleikum þar sem hann hefur kannski ekki verið í besta formi.

Ég man eftir tónleikum sem ég fór einu sinni á með honum í Stúdentakjallaranum.  Þetta voru án alls efa allra lélegustu tónleikar meistarans, því eftir að hafa beðið í 2 1/2 tíma eftir honum, þá gafst ég upp, enda orðinn all slompaður af bjórþambi.  Það kom á daginn að meistarinn mætti rétt fyrir lokun og þá tók því ekki að byrja tónleika. 

En svo upplifir maður stórtónleika eins og á laugardagskvöldið.  62 ára gamall og í fanta formi, spurning hvort kóngurinn verði í sama formi og meistarinn þegar hann verður 62.

Guðmundur Örn Jónsson, 15.10.2007 kl. 17:49

3 Smámynd: Guðmundur Arnar Guðmundsson

Það er ekki gott að segja. Spurning hvor hafi tekið meira af forminu um ævina.

Guðmundur Arnar Guðmundsson, 16.10.2007 kl. 09:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband