Stríð og friður
16.7.2007 | 12:35
Þetta þykir mér umhugsunarvert sérstaklega í því ljósi að við getum varla talist vera í hringiðu hryðjuverkanna. Það er líka umhugsunarvert að alltaf skuli vera til nægjanlegt fjármagn í hernaðarbröltið, þar sem markmiðið er að tortíma og limlesta. En það virðist aldrei vera til nægjanlegt fjármagn til þess að bjarga lífi.
Forystumenn voldugustu ríkja heims koma saman á fundum ár eftir ár og velta fyrir sér hverri krónu sem fara á til þróunaraðstoðar og menn draga lappirnar þegar kemur að því að fella niður skuldir fátækari þjóða. EN þegar kemur að hergögnum og morðtólum hverskonar þá er aldrei spurt um krónur og aura, þá eru allar kistur fullar af peningum.
Mér þykir þetta líka umhugsunarvert í ljósi orða föður stúlku sem lést á Landsspítalanum um daginn. Hann sagði að það væri undarlegt hversu miklu íslendingar eyddu í varnir gegn hryðjuverkum, og þó hefðu engin hryðjuverk verið framin á Íslandi. Síðan kæmi að eiturlyfjavandanum, þá væru peningar skornir við nögl, og þó flæða eiturlyf yfir allt og brjóta niður einstaklinga og fjölskyldur.
Kannski er niðurstaða frelsispostulanna sú að réttast væri að lögleiða eiturlyfin (það vilja a.m.k. margir lögleiða hass og maríjúana með þeim rökum að þau séu svo væg og það hafi hvort eð er allir prófað að fá sér í haus, eða eina jónu). Með slíkum aðgerðum hyrfi eiturlyfjavandinn!!!
Grun hef ég um að ef menn eyddu viðlíka fjármunum í að bjarga fólki, eða huga að velferð fólks á alla lund, að þá myndi stríðsógnin minnka til muna. En það er líklega ekki von á slíku meðan brjálaðir stríðsherrar halda um stjórnartauminn, hvort sem er austan eða vestan Atlantshafs.
Varnir æfðar með Bandaríkjaher í næsta mánuði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Getur það verið að við séum ekki í hringiðu hryðjuverka VEGNA þess að vesturlönd veita svona miklu fé í varnir?
Umhugsinn (IP-tala skráð) 16.7.2007 kl. 12:53
Þú vilt semsagt meina að til dæmis Sérsveit Ríkislögreglustjóra (sem er að taka þátt í þessum æfingum) hafi það markmið að myrða og limlesta en ekki að hjálpa fólki? Hvern hefðir þú til dæmis sent heim til mannsins í hnífsdal sem var að skjóta á konuna sína úr haglabyssu?
Vissulega væri lang skemmtilegast ef að það væru ekki til nein vopn og allir lifðu í sátt og samlyndi en lífið er ekki svo gott og þess vegna þarf að eyða peningum í varnir til að koma í veg fyrir eitthvað verulega slæmt gerist.
Og já, ég held að það myndi minnka eiturlyfjavandann ansi mikið ef að eiturlyf yrðu gerð lögleg. Staðreyndin er sú að um 50% af glæpastarfsemi í heiminum í dag er fjármagnaður af sölu á kannabis efnum einungis. Þegar áfengi var ólöglegt í bandaríkjunum þá var það ólögleg sala á áfengi sem að borgaði undir glæpastarfsemina (al capone og fleiri). Með því að lögleiða þessi efni þá kemuru í veg fyrir að glæpamenn séu að græða á þessum efnum og það tel ég gríðarlega mikilvægt. Á hverju ári er kveikt í milljörðum á milljarða ofan í stríði gegn eiturlyfjum, stríði sem ber engann árangur og stríði sem er fyrirfram tapað. Og á hverju ári eyðileggur lögreglan líf tugþúsunda manns útum allan heim sem eru teknir með lítilræði af kannabis á sér og sitja með það á bakinu alla ævi. Ég skil ekki alveg hver er gróði samfélagsins á því, að læsa fólk inni og koma í veg fyrir að það geti átt sitt líf og haft sína drauma eins og aðrir. Og á hverju ári deyja tug þúsundir manns í undirheimi í tenglsum við eiturlyf, heimi sem væri ekki til ef eiturlyf væru lögleg. Ég nenni ekki að fara nákvæmlega út í saumana á þessu, ég gæti talað um þetta í allan dag, en ég bendi á þetta myndband í staðinn: http://youtube.com/watch?v=Se_TJzB9-z0
Ég er ekki að segja að kannabis sé hollt og frábært. En það sem ég er að segja er að þetta fyrirkomulag sem við búum við núna er ekki að virka og er bara að gera illt verra í heiminum í dag. Og einnig finnst mér persónulega frekar fáranlegt að efni eins og áfengi sé löglegt og hægt að kaupa það út í búð á meðan kannabis er ólöglegt.
með bestu kveðju
Finnur Kári Pind Jörgensson, 16.7.2007 kl. 13:32
Gott mál, gerum eiturlyf lögleg og þá hverfur vandinn. Gerum allt sem nú er ólöglegt löglegt og þá hverfur vandinn!!!
Hverslags málflutningur er þetta eiginlega?
Ég get reyndar verið sammála þér um að áfengi er ekkert síðra eitur en eiturlyfin, og ef áfengi væri að koma á markaðinn nú í dag væri það örugglega bannað.
Hvernig færð þú, Finnur, það út að það að berjast gegn hryðjuverkum á Íslandi sé það sama og að reka sérsveit innan lögreglunnar? Var maðurinn í Hnífsdal hryðjuverkamaður? Vissulega var það hörmulegur atburður sem átti sér stað í Hnífsdal, en það var ekki hryðjuverk.
Þú segir að þurfi að eyða peningum í varnir til þess að ekkert slæmt gerist, og það kann vel að vera. En blöskrar þér alls ekkert hversu gýfurlegum fjármunum er eytt í vopn og stríðsbrölt, þar sem einmitt meirihluti þeirra sem falla eru saklausir borgarar?
Ég trúi því ekki að menn séu sáttir við að stríðsherrar stjórni gangi mála í heiminum og eyði öllum þessum fjármunum í vopn (og verjur) á meðan stór hluti jarðarbúa býr við hungurmörk og margir undir þeim.
Guðmundur Örn Jónsson, 16.7.2007 kl. 15:21
Það er ekki rétt að menn séu alltaf til með kistur fulla af peningum þegar kemur að því að kosta morðtól og allra síst hér á Íslandi.
Bæði hafa Landhelgisgæslan og Lögreglan þurft að notast við forngripi við störf sín árum saman. Vopn sem eru á söfnum erlendis og oft mjög erfitt og dýrt að útvega skotfæri í.
Þeir sem starfa við það að verja líf og limi borgara þessa lands eiga allt gott skilið og það er skylda okkar að útvega þeim bestu þjálfun og útbúnað sem völ er á. Enda eru þeir að hætta lífum sínum í því starfi.
Fyrr ættu ráðherrar að taka strætó til vinnu, en Ísland að minnka nokkuð vopnakaup sín.
Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 16.7.2007 kl. 15:34
Ástæðan fyrir því að ég talaði um sérsveitina var af því að þessi grein á mbl.is fjallaði um æfingar þar sem að sérsveitin tekur þátt í. Ég veit ekki hver nákvæma skilgreiningin á hryðjuverki er, en mér finnst allaveganna fínt að skattpeningarnir mínir fari í þjálfun á sérsveitinni. Maður veit aldrei hvaða rugl gæti gerst og þá er fínt að hafa vel þjálfaðan hóp til að takast á við slíkar aðstæður.
Ég sagði ekki að það ætti að gera allt löglegt sem núna er ólöglegt og þá hverfur allur vandi. En engu að síður tel ég að fólk sjálft ætti að fá að bera meiri ábyrgð á eigin lífi en ekki einhver annar að taka allar ákvarðanir fyrir það. Og ein af þessum ákvörðunum sem að fólk á að fá að ráða sjálft er hvað það innbyrðir. Og þar að auki held ég að samfélagið í heild myndi græða, ekki bara peninga, á því að fíkniefni væru lögleg.
Finnur Kári Pind Jörgensson, 16.7.2007 kl. 16:07
Finnur. Þekkir þú afleiðingar fíkniefna, ekki bara fyrir þann sem þau innbyrðir, heldur jafnframt á fjölskyldur viðkomandi. Það kemur samfélaginu við ef foreldrar vanrækja börn sín og taka eiturlyf fram yfir velferð þeirra. Það kemur samfélaginu við ef ég lendi í einstaklingi sem er vitstola af langvarandi "spítt"neyslu. Það kemur samfélaginu við ef ungt fólk (og fullorðið) sviptir sig lífi vegna þeirrar vanlíðunar sem fylgir fíkniefnaneyslu.
Mér þykir það aumt ef við ætlum að taka þann pól í hæðina að gefast upp á einhverju verkefni ef það er erfitt, eða virðist jafnvel óyfirstíganlegt, eins og baráttan við fíkniefnin virðist stundum vera.
Sú speki er góð að frelsi mitt takmarkast við að ég fari að ganga inná frelsi náunga míns. Þessu get ég verið sammála. En þessa speki er ekki hægt að nota í umræðunni um eiturlyfin, því fylgifiskur eiturlyfja er dómgreindarskortur, og þá fara menn að ganga inná rétt samborgara sinna.
Ég skrifa að sjálfsögðu heilshugar undir að íslenska sérsveitin þurfi æfingu, en ég spyr eru það hryðjuverk sem eru inná helsta sviði?
Við verðum að hafa góða sérsveit, engin spurning, en hún er ekki her, á því er allnokkur munur.
Guðmundur Örn Jónsson, 16.7.2007 kl. 19:15
Flest Evrópuríki hafa verið að skera niður framlög sín til varnarmála yfir síðustu ár þótt það sé að hægja á þeirri þróun núna.
Það verður seint sagt að við Íslendingar stöndum í einhverju fjáraustri í þennan málaflokk en hér er ekki annar vopnaður viðbúnaður en fámennt borgaralegt lögreglulið, lítil og vanbúin landhelgisgæsla og svo tæplega fimmtíu manna "sérveit".
Þessi "sérsveit" á að vera sérþjálfuð til að yfirbuga vopnaða glæpamenn í borgaralegu umhverfi, til gíslabjörgunar á sjó og landi (í strætisvögnum, húsum, flugvélum skipum o.s.frv), til töku skipa á hafi, til að fást við sprengjuhættu, til að ryðjast inn á hryðjuverkamenn sem gætu verið að búa til hefðbundna sprengju eða eitthvað ennþá ógeðslegra og bara allt sem hugsanlega getur komið upp.
Þar eiga að vera "sérþjálfaðir" sprengjusérfræðingar, kafarar, sjúkraliðar, skarpskyttur o.s.frv
Auk þess að viðhalda allri þessari "sérþjálfun" sinni sinnir sveitin því einnig að snúa niður órólegar fyllibyttur og sést reglulega í venjulegum lögreglustörfum. Og þetta eru tæplega fimmtíu menn! Ég hef óþægilegan grun um að hún sé pappírstígur.
Ef við ætlum að skera niður einhverstaðar þá eru öryggismálin ekki staðurinn til að byrja á.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 16.7.2007 kl. 22:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.