"Vér mótmælum allir"
20.6.2007 | 17:14
Líklega er þetta stærsti vandi Bandaríkjamanna í áróðursstríðinu við hryðjuverkin. Fólk í þeim löndum sem þeir hafa ráðist inní í nafni frelsis og lýðræðis fær einfaldlega nóg. Það fær nóg þegar saklaust fólk er drepið, það fær nóg þegar "mistök" hernámsliðsins kostar fjölskyldumeðlimina lífið.
Þessar aðgerðir Bandaríkjamanna eru ekki þeirra einkamál, eins og þeir hafa oft látið í veðri vaka, því öll vesturlönd eru sett undir sama hatt, og ef til vill ekki að ósekju! Við metum jú mannslíf vesturlandabúa mun meira en fólks annarsstaðar úr heiminum. Mér dettur einmitt í hug lítil frétt af því þegar sagt var frá því að sjö börn hefðu látið lífið í sprengjuárás Bandaríkjamann í Afganistan. Sama dag var mikil frétt um umferðarslys í Þýskalandi, að mig minnir, og þar var nú þónokkuð meira gert úr hlutunum. Ég er ekki að halda því fram að lítið eigi að gera úr umferðaslysum, en mér þykir þó ástæða til þess að gera nokkuð úr því þegar sjö börn eru sprengd í loft upp.
Ég hef áður sagt það og segi það enn, að mannréttindi fólks má aldrei fótum troða, sama hver í hlut á og sama hvort sá sem brýtur þau er voldugur eða ekki. Hér er ég ekki tala um eitthvert kjaftæði einsog það hvort það séu mannréttindi að fá að reykja inná skemmtistöðum eða ekki, heldur grundvallarmannréttindi sem varða hreinlega líf og dauða. Langar í lokin að benda á ákall Amnesty um hjálp til handa pari frá Íran, sem á samkvæmt upplýsingum að grýta til dauða á morgun. Hægt að lesa nánar um það á amnesty.is. Hvet ykkur endilega til þess að sinna þessu ákalli.
94 samtök mótmæla ofbeldi í Afganistan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.