Mannréttindabrot í Kína
13.6.2007 | 14:06
Það voru sláandi fréttirnar af málefnum fanga í Kína í fréttum Stöðvar 2 í gær. Þar var greint frá því að fanga í Kína væru látnir búa til varning fyrir stórfyrirtæki á borð við Coka Cola. Þetta hafa þeir vitað lengi sem fylgst hafa með mannréttindamálum í heiminum. En það er eins og ekki megi styggja kínversk stjórnvöld á nokkurn hátt því gróðavonin er mikil nú þegar landamærin eru að opnast. Í fyrradag var einnig sagt í fréttum rúv frá barnaþrælkun barna í Kína fyrir Ólympíuleikanna.
Síðan er það auðvitað þrálátur orðrómur um mikla verslun með líffæri fanga sem hafa verið líflátnir. Þessi orðrómur hefur fyrir löngu verið staðfestur af mörgum og ólíkum samtökum og einstaklingum.
Mér kæmi það vægast sagt á óvart ef einhverjir hjá Coke-risanum hefði ekki vitað um málið, enda orðrómur búinn að vera lengi í gangi um þessi mál. Í mörgum löndum heims er Coke ekki tákn um frelsi vesturlanda, heldur helsi - kúgun - þvingun og eyðileggingu. Þannig veit ég að starfsemi og framferði þeirra á Indlandi hefur sætt mikilli gagnrýni. Ármann Hákon Gunnarsson, æskulýðsfulltrúi í Garðasókn, sagði mér ýmsar ljótar sögur af viðskiptum Indverja við Bandaríska risafyrirtækið, á ferð sinni um Indland.
Við hljótum að velta því fyrir okkur hversu margar óhamingjusamar sálir, hversu mörg börn sem vinna í ánauð, hversu margir "þrælar" vinna við að gera líf okkar á vesturlöndum að stanslausu partýi og gleði. Hversu mörg tár eru á bakvið hlátur okkar?
Það vita í raun allir að stjórnvöld í Kína fótumtroða mannréttindi, en það er eins og óhuggulegur þagnarmúr hafi verið reistur til þess að hlífa stjórnvöldum við gagnrýni. Þjóðarleiðtogar minnast á þessi mál nánast í framhjáhlaupi þegar skrifað er undir stóra viðskiptasamninga.
Hvenær er komið nóg? Hvenær segjum við hingað og ekki lengra? Okkur ætti alls ekki að vera sama, en ætli flestum sé ekki sama? Við ættum auðvitað að meta mannslífið meira en peninga, en ætli við gerum það nokkuð? Við ættum að standa vörð um mannréttindi fólks, hvar í heimi sem er, en ætli okkur sé ekki nokk sama á meðan við höfum það gott?
Því miður er Kína fjarri því að ver eina landið í heiminum þar sem mannréttindi eru fótumtroðin. Í því samhengi vil ég benda á ársskýrslu Amnesty International.
Athugasemdir
Mannréttindabrot í Kína og barnaþrælkun í Austurlöndum eru oftar en einu sinni umfjöllunarefni hér á Íslandi...
Fólk fætt hérna á síðustu öld og þá þeir sem eru fæddir á fyrri helmingi aldarinnar voru vinnuvæddir strax á barnsárum og fluttu heiman uppúr fermingu og voru þá sjálfssíns ráðendur... Unglingarnir urðu sér úti um launaða vinnu og menntun eftir eigin ágæti og enginn setti neitt út á það... Ég er barn míns tíma og hef unnið frá blautu barnsbeini eins og mínir samtíðarmenn, enginn hefur talað um barnaþrælkun á okkur og er það vel... Við lærðum að bjarga okkur á heimsvísu eins og börnin í Austurlöndum gera. Ég byði ekki í íslensk börn í dag sem borin eru staðanna á milli þau þurfa ekki einu sinni að ganga úr bílnum inni leikskólann, við hliðina á þeim austurlensku.
Ég vil taka framm að ég hef oft heimsótt Austurlöndin fjær!
Guðrún Magnea Helgadóttir, 13.6.2007 kl. 18:33
Mér finnst nú varla hægt að bera saman vinnu barna annars vegar og þrælkun barna hins vegar. Ég er alinn uppí sveit og þar var unnið, jafnvel myrkrana á milli þegar á þurfti að halda í heyskap og sauðburði og auðvitað var ekkert verið að kvarta. En ég er hræddur um að maður hefði ekki verið sérstaklega ánægður ef maður hefði verið lokaður inní verksmiðju klukkutímum saman alla daga vikunnar, og ekki fengið frí nema til að sofa. Nei þau eru ólík skilyrðin sem börn í þrældómi þurfa að lifa við eða börn í vinnu.
Guðmundur Örn Jónsson, 14.6.2007 kl. 00:14
Fréttaþátturinn Kompás flutti fréttir frá Mongolíu mig minnir í mai síðast liðnum. Þar býr fólk við atvinnuleysi og á sér enga lífsvon því lífsbjörgina vantar, þeas. Atvinnuna! Alveg skelfilegur veruleiki en er samt raunveruleiki fólks í hinum ýmsu heimsálfum... Við hérna á Íslandi erum komin út úr öllum raunveruleikatengslum, hvernig lífið er annarsstaðar í heiminum. Aukin velmegun fólksins hérna hefur gert það blint á almennar þarfir fólks svo sem að hafa fæði klæði og húsaskjól og þurfa jafnframt að vinna fyrir lífsbjörginni. Milljónaþjóðir meta mest að eiga þess kost að stunda launaða atvinnu sér til framfærslu sama hver einstaklingur á í hlut ungur eða aldraður.
Guðrún Magnea Helgadóttir, 14.6.2007 kl. 12:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.