20 ára fermingarafmæli á næsta leyti.
5.6.2007 | 13:25
Þann 14 júní eru 20 ár síðan ég fermdist. 20 ár!! Við vorum þrjú sem fermdumst í Illugastaðakirkju þetta árið, ég, Hilmar, sem nú er bóndi í Leyningi inní Eyjafirði og Eydís, sem er, að því ég best veit kjólameistari eða klæðskeri í Danmörku. Þessi þriggja manna fermingarhópur var bara mjög stór hópur miðað við það sem áður hafði gerst. Árið áður var engin, þar áður var einn, enginn árið þar á undan....
Við vorum reyndar fleiri sem sóttum fermingartímana hjá prestinum, því prestakallið var eitt en sóknirnar margar. Til að byrja með var fræðslan í höndum sr. Hönnu Maríu og síðan sr. Bolla í Laufási. Ég var sá eini í bekknum sem var staðráðin í að fermast ekki við upphaf fræðslunnar, og er síðan sá eini sem starfa í kirkjunni í dag. Svona eru nú örlögin ótrúleg.
Annars er það merkilegt hvað maður ofmetur sjálfan sig á þessum árum. Ég keypti mér t.d. forláta leðurjakka fyrir ferminguna. Ég ákvað að hafa hann heldur stóran á mig því ég taldi mig vera að kaupa til framtíðar, og fannst ekki óeðlilegt að ég myndi nú stækka töluvert eftir fermingu, enda var ég höfðinu hærri en allir í kringum mig. Það er skemmst frá því að segja að þessi leðurjakki hefur aldrei passað almennilega á mig, því ég hef ekkert stækkað síðan ég fermdist. Hins vegar tóku allir félagar mínir vaxtakippi eftir fermingu og er ég núna minnstur úr gamla vinahópnum.
Þennan dag fyrir 20 árum var m.a. sjómannadagurinn, Adda Steina flutti sunnudagshuvekju í Sjónvarpinu, hægt var að kaupa flug og bíl til Salzburg á 12.835 fyrir pabba, mömmu og börnin, hægt var að kaupa "glæsilegt 300 fm. einbílishús" í Klyfjaseli í Rvík á 8,2 milljónir, í Bíóhöllinni var hægt að sjá Lögregluskólann 4, stjórnarmyndunarviðræður voru að hefjast og á baksíðu Moggans var sagt frá því að Kolbeinsey væri að hverfa.
Athugasemdir
Merkilegt, ég var heldur alls ekki viss um hvort að ég gæti fermst þarna um árið.
Sigríður Gunnarsdóttir, 6.6.2007 kl. 10:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.